Viðtal við Jessicu Joslin
Fyrir síðasta tölublað Stínu hafði ég samband við japönsku myndlistarkonuna Naoshi, sem svaraði nokkrum spurningum sem ég lagði fyrir hana. Nú kynni ég ykkur fyrir amerísku listakonunni Jessicu Joslin en hún býr í Chicago. Og þegar ég bað hana um viðtal fyrir Stínu brást hún skjótt við, svaraði spurningum mínum og sendi mér myndir til birtingar og skreytir ein þeirra kápu ritsins.
Hvað viltu segja um sjálfa þig?
Ég ólst upp í Boston í næsta nágrenni við Náttúrugripasafn Harvard Háskóla. Þar var alger töfraheimur af beinagrindum og uppstoppuðum dýrum af öllum stærðum og gerðum og fuglum í litríkum búningi. Þarna var gíraffi og þarna var strútur, snjáldurmús og ljón svo ég nefni nú eitthvað. Heimsóknirnar á safnið höfðu sterk áhrif á mig. Og þegar við fórum út á strönd að hlaupa eða ganga safnaði ég allskonar hlutum: fjöðrum, fjörusteinum, beinum og sjávargróðri. Og þegar ég byrjaði í listinni kom margt af þessu að notum, sem ég hafði tínt í fjörunni mörgum árum áður og haldið til haga.
Hvað er helst nýtt í listalífinu í Chicago?
Svei mér þá, ég veit ekki hvað skal segja. Ég er nefnilega svo mikill einfari. Ég var svolítið á ferðinni fyrst en ég er löngu búin að átta mig á því að listamarkaðurinn hér er alltof íhaldssamur fyrir mig. Eins og stendur er ég með sýningu í Lisa Sette Gallery í Arizona. Að því er varðar myndlistarfólk hér í borginni er ég alltaf mjög veik fyrir Henry Darger. Hann var utangarðsmaður, vann sem húsvörður með listinni. Hann lést 1973 en er enn mjög áhrifamikill. Af listasöfnum finnst mér eitt bera af: Corbett vs. Dempsey Gallery. Þeir leggja mikla áherslu á myndlist frá miðbiki 20. aldar. Nýleg listasýning Ginu Litherland var stórkostleg.
Hvað með listastefnu?
Sá sem ekki lifir sig inn í listina er úti að aka; svo einfalt er það.
Hvað örvar þig í listinni; færðu innspírasjónir?
Jú, ég fæ innspírasjónir. Ég fæ neista frá öllu mögulegu. Ég er til dæmis mjög veik fyrir sirkusum og öllu því sem þeim fylgir. Reyndar er helsta sirkussafn landsins ekki langt hér frá: The Circus World Museum. Þangað fer ég oft til að fá innspírasjónir og til að hugsa. Ég nýt þess að horfa á hreyfingu dýra. Ég get horft á dýr tímunum saman. Líkamar dýra og manna eru stórkostlegar vélar. Með því að horfa á hreyfingu dýranna fæ ég hugmyndirnar. Þannig get ég séð fyrir mér og hugsað um sama mótívið á mismunandi hátt. Ég er líka mikill náttúruunnandi og það hefur áhrif á listsköpun mína.
Svo hef ég alltaf verið forvitin, hef alltaf viljað snerta það sem ég skoða. Þetta er kannski angi af því að vilja ná tökum á því sem maður er að fást við. Þetta kemur líka fram hjá mér í listinni. Ég legg mikla áherslu á öll smáatriði í verkum mínum og svo efnið sjálft, hvort sem það er bein eða tré eða málmur. Ég er mikill fagurkeri varðandi gamla húsmuni og gripi. Allt hefur þetta áhrif á listsköpun mína.
Þú fæst við mjög sérstaka listsköpun. Geturðu sagt okkur eitthvað um það?
Ég nota margskonar tækni. Hlutirnir eru tengdir saman án þess að vera lóðaðir vegna þess að hitinn mundi skemma áferðina á þessu viðkvæma efni. Ég nota mikið ýmsar gerðir af smáklemmum og skrúfum og því eru myndverkin hjá mér miklu samsettari en þau virðast vera. Annars vinn ég hvert verk á sinn hátt þótt ég beiti í grundvallaratriðum sömu tækni. Oft byrja ég að vinna út frá ákveðnum hlut til dæmis beini eða málmi, einhverju sem hefur sérstaka áferð eða karakter, sem hægt er að vinna útfrá. Stundum byrja ég með eitthvert ákveðið dýr í huga sem getur svo breyst í allt annað þegar upp er staðið. Það sem átti kannski að verða pokadýr breyttist í hund og einn fugl getur breyst í annan. Þannig er þetta hjá mér á vinnustofunni.
Hvað er framundan?
Það er að koma út listaverkabók eftir mig í vor og þess vegna er ég í sjöunda himni. Umboðsmaður minn er Lisa Sette Gallery en bókin verður seld vítt og breitt um Bandaríkin og erlendis. Svo verð ég með einkasýningu á safninu 3. - 26. apríl 2008. Og svona í lokin geturðu sagt lesendum Stína að þeir geti séð nýjustu verkin mín á netinu: www.jessicajoslin.com
Sigurður Ó. L. Bragason