Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Tvær uppstillingar eftir Kormák Bragason


Unglingur með hvítkál

Unglingur í úlpu með hettu og heldur á hvítkálshöfði milli fingranna, hvít birta á andlitinu, horfir upp í glugga á súðklæddri framhlið og bratt bárujánsrisið þar yfir og lítill gluggi efst uppi, horfir á hvítkálið milli handanna og hlustar, horfir á græna birtu fikra sig upp eftir súðinni og grannir fingur plokka upp blað og blað og ber að vörum sér, heldur um þéttan og gljúpan hnött, hvítkálshnött, og gluggi á miðhæðinni skellist upp og gluggatjöld úr silfurhári, létt eins og gulir og bleikir og röndóttir flugdrekar sogast út í kvöldloftið. “Ásgrímur; komdu með hvítkálið,” segir konurödd og glugginn á miðhæðinni skellist aftur. Fiðla uppundan framsviðinu og sög, missir hnöttótt grænmetið sem fellur oná malbikið með þurrum dynk og hreyfist ekki, gefur því ekki gaum, situr kyrr í kvöldloftinu líkt og mynd af McDonalds ostaborgara á diski sem birtist í auglýsingu í Morgunblaðinu, lítur upp þegar glugginn opnast á ný, hægt og varfærnislega líkt og leynilögreglumaður sé þar fyrir innan í myrkrinu. “Ásgrímur; komdu með hvítkálið,” segir konuröddin í glugganum. Það er verið að leika á fiðlu og inn á milli á sög og svo gól frá hundi að húsabaki og bílhljóð handan við hornið. Glugginn skellist aftur og hljómur fiðlunnar þagnar, aðeins smávegis strokur á sög út í kvöldloftið. Þá beygir hann sig í hnjánum, krækir nöglum í stinnt og hnöttótt grænmetið, réttir úr bakinu, hlustar, sest á trébekk á grind útflúraðs pottjárns, sem þar stendur, heyrir mannamál lengst í burtu, glugginn slæst upp og gluggatjöldin sogast útfyrir, sér konuandlitið í glugganum í bleikri birtu og ljóst hárið, loftkennt, fislétt, fiðla uppundan framsviðinu og hvít birta á andliti unglingsins framundan grænni hettunni. “Ásgrímur; komdu með hvítkálið,” segir konuröddin. Síðan trommur og svo þögn. “Heyrirðu það Ásgrímur,” og hvít birtan á andlitinu, glugginn skellist aftur, brothljóð, missir grænmetið úr höndum sér, heyrir það snerta malbikið, hlustar: fiðla uppundan framsviðinu og sög. “Ásgrímur; komdu með hvítkálið,” segir konuröddin úr glugganum.


Stúlka frá Fílabeinsströnd

Hún hét Beibý Doll og Gauja systir sat í aftursætinu og sagði að sér fyndist það skrýtið nafn af afrískri stúlku að vera. Við töluðum bara ensku nema Gauja, hún talaði íslensku. Og þegar ég var farinn að halda í höndina á Beibý Doll tók ég eftir svipnum á Gauju í speglinum. Og heyrði hana tuða eitthvað um það að ég ætti að hugsa um það sem ég væri að gera svo við lentum ekki útaf veginum, og spurði hvort ég ætti ekki tyggjó, og rétti henni pakka yfir öxlina. “This is Þingvallavatn,” sagði ég við Beibý Doll, og það hafði rignt um morguninn, en nú var komið sólskin. “Hvað er svona merkilegt við að að vera með rófu?” hafði Gauja spurt eftir að við Beibý Doll fórum að vera saman, og sagðist hafa haldið að ég gæti nú gert betur en þetta. Og mútta vildi fá að vita hvort þetta væri ættgengt, þetta með rófuna, eftir að Gauja hafði sagt henni að við værum orðin ástfangin og þetta stefndi í hjónaband, og þegar við vorum orðin ein í stofunni vildi hún fá að vita hvað hún væri löng, og hélt hún ætlaði að fara að hlæja, og þegar mér varð orðs vant spurði hún hvort hún væri meira en fimm sentimetrar, og ég þagði. Þá spurði hún hvort hún væri tíu, og ég sagði að hún væri ekki svo löng. Þá gekk hún fram í eldhús, leit við í gættinni og spurði hvort hún gæti hreyft hana, og ég sagðist ekki svara svo kjánalegri spurningu. Ég hafði verið á ferðalagi í Finnlandi og dvaldi um vikutíma á hóteli í borginni Jyvaskola, eins og ég lærði að segja og skrifa nafn borgarinnar. Hún vann á fekar litlum skemmtistað, sá hana í sviðsljósinu, grannvaxna, háfætta og dálítið renglulega, hárið slétt og svarblátt, niðrá herðar, í bleikum stuttbol og gekk um sviðið á háhælaskóm, elt af sviðsljósinu og brosti dulrænt til söngvarans, sem var þrekvaxinn karlmaður í hvítum jakkafötum, hreyfði sig eins og hún væri að dansa og brosti örlítið fram í hálfrökkvaðan salinn. Það var þá sem ég sá að hún var með rófu. Ég sótti staðinn á hverju kvöldi næstu daga og hugsaði að þetta væri bara gervi. Svo kom hún og settist hjá mér og þá komst ég að því að þetta var ekki gervi, heldur raunveruleg rófa. Hún sagði að allir væru svo forvitnir og þegar ég spurði hvort hún hefði aldrei hugleitt að láta fjarlægja rófuna brosti hún og við fórum að ræða um annað. Hún sagði: “I would like to come to Iceland.” Svo fór hún að tala um Björk og Sigurrós og Magna. Seinasta kvöldið kom hún með mér upp á hótel. Og við sátum úti við gluggann og töluðum saman. Og einn daginn fékk ég hringingu. Þá var hún komin og spurði hvort ég gæti sótt sig út á völl. Við vorum lögð á stað í bæinn og það var aftur farið að rigna. “I love rain,” sagði hún og Gauja systir spurði hvort hún vildi ekki tyggjó.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur