Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Til lesenda


Þær eru margar og misjafnar, ástæðurnar fyrir því að rit­höfundar skrifa. Af reiði, óhamingju, þakklæti, forvitni, viðleitni til skilnings, löngun til að búa eitthvað til úr engu, hefndarhug, athyglisþörf, áráttu, þörf til að gera sig gildandi, þörf fyrir klapp á bakið og sumir segjast vera ,,in it for the money”.
Okkur er hollast að viðurkenna að hver einasta bók, hvert einasta ljóð og smásaga og grein sem birtist á prenti er um leið ákall: Sjáðu mig! Sjáðu orðin! Sjáðu setningarnar! Sjáðu myndirnar sem orðin búa til í huganum!
Höfundar eru ekki göfugar helgislepjur sem skrifa af ósjálf­­ráðri köllun og neyðast síðan til að selja verk sín til að eiga í sig og á. Flestir skrifa af því að þá langar að segja eitt­hvað og stundum af því þeir hafa eitthvað að segja. Það þykir ókurteisi í samkvæmum að halda orðinu of lengi. En ef orðin koma úr fingrunum en ekki munninum eru langlokur nokkuð viðurkenndur samskiptamáti.
Það krefst þess þó að nútímamaðurinn slaki á ofvirkni sinni, óþolinmæði og áunninni leti og láti sig hafa það að einhver annar einoki orðin í smá stund og líka óskiljanlega reiðilestra, óvæntar uppákomur, særða blygðunarkennd, ófyrirleitni og langsótta fegurð.
Stína er eins og tryggasti ráðgjafi konungsins í ævintýrinu, eini ráðgjafinn sem leyfðist að segja hvað sem var af því að hann hafði ekki vit á því að hræsna og geðjast. Hann óttaðist hvorki gálgann né dýflissuna því hann hafði lesið í gamalli skræðu að frelsið í huganum væri það eina sem manninum væri algerlega nauðsynlegt til að geta lifað.
Húrra fyrir okkur fjálgum lesendum Stínu. Húrra! Húrra! Húrra!

Guðrún Eva Mínervudóttir


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur