Til lesenda
Við stöndum andspænis nýju tímabili í sögunni. Maðurinn kollvarpar sjálfum sér. Nú kemur árás skrælingjanna ekki að utan heldur að innan frá okkur sjálfum, menntaða villimanninum sem veit og getur allt og svífst einskis. Vakandi tímarit þarf að gera sér grein fyrir þessu og veita sína mótspyrnu. Á sviði lista eru líka villimenn, menntaðir í lágkúru. Listin má ekki vera bara til heimabrúks. Ef aðeins er stefnt að nytsemd verður hún fúl og ræfilsleg borðtuska. Listinni ber að forðast að vera sjálfsögð eins og fréttir á klukkutíma fresti í útvarpi sem hefur engan tilgang annan en þann að veita vaxandi fjölda menntaðs fjölmiðlafólks störf við sitt lélega hæfi. Fái það að ráða kjaftar það allt í hel í nafni fjöldans. „Að koma til móts við fjöldann“ merkir að athöfnin skiptir meira máli en innihaldið. Ekkert er verra leiðarljós fyrir tímarit. Það verður nútímaleg blanda af morgunkorni í staðinn fyrir gamla hafragrautinn. Þeir sem gefa út menningartímarit ættu að forðast kropparana, það hræðilega fyrirbrigði samtímans, smæðarsnuddarana, mínímalátvöglin. Þau kroppa í sig lesmál í bland við ristað brauð, kaffihland og óminn frá óstöðvandi poppruðum úr útvarpi eins og ættland þeirra væri morgunverðarkrókur á ömurlegu bresku hóteli. Mínímalátvögl eru væmin og vilja að allt sé stutt og krúttlega fyndið. Stína má ekki falla í þannig örverpisgryfju. Hún má ekki verða vinsæl hjá fólki sem finnst allt vera gott, enda hefur það enga skoðun og heldur í hræðslu sinni að viðhorf særi minnihlutahópa og sé merki um kvenhatur. Sá ótti grefur um sig í vestrænum samfélögum. Á honum lifir menntaði villimaðurinn, á meðalhófi og flatneskju sem færa honum völd.
Guðbergur Bergsson