Til lesenda
Hlutverk tímarita er öðru fremur það að reyna að víkka sjóndeildarhring
lesenda sinna, fræða þá og vekja áhuga fólks á öllum
aldri án þess að sparka sífellt í afturendann á því. Þau eiga að
hreyfa við ímyndunaraflinu og gleðja með ýmsu móti, ekki bara
þessu venjulega. Sé það haft í huga má efnið ekki fá strax á sig
snyrtistofuandlit eða bindast ákveðinni stefnu.
Tímarit eiga að ögra flestu öðru en festunni sem tengir undirstöðuatriði
og heldur eiginleikum þjóða saman. Aftur á móti
mega þau berjast gegn miðstýringu. Þetta á við önnur tímarit en
þau sem eru stofnuð í því augnamiði að vera málgagn ákveðinnar
stefnu eða formgerðar í list.
Stína er ekki stefnumálatímarit. En hún er sérstök í því að hafa
hvorki fæðst sem hugmynd né verið færð í tímaritsform á höfuðborgarsvæðinu
heldur í Stykkishólmi. Hún er þess vegna á allan
hátt utansveitar og einskorðar sig ekki við útvalda hópa, menntun
manna eða landsvæði.
Þótt Stína fylgi ekki ákveðnu fordæmi forðast hún ýmislegt.
Hún veit kannski ekki alveg hvað hún vill, enda ung og leitandi,
heldur hvað hún vill ekki og reynir að flýja þau örlög að vera eins og
önnur íslensk tímarit, einhvern veginn alltaf í andaslitrunum.
Stína myndi aldrei sætta sig við það golugeispandi ástand, ekki
einu sinni undir dúnsæng bókmenntafélags. Heldur vildi hún
detta niður dauð en verða eins og tímaritin sem eru þannig að
það tekur því ekki að nefna þau á nafn.
f.h. ritstjórnar,
Guðbergur Bergsson