Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Tilbrigði við sálm eftir Atla Heimi Sveinsson


Í vor er leið bað Hörður Áskelsson, kantor Hallgrímskirkju, mig um að semja sálm við ljóð skáldkonunnar góðu Sigurbjargar Þrastardóttur. Hörður hafði leitt saman nokkur ljóð- og tónskáld til að gera nýja sálma til flutnings í Þjóðkirkjunni.
Sigurbjörg orti nokkuð nýstárlegan sálm sem heillaði mig. Orðfærið var frumlegt og óvanalegt. Ólíkt ljóðmáli séra Valdimars Briem (með fullri virðingu fyrir honum) sem mjög mótar sálmakveðskap Sálmabókarinnar. Hugmyndaheimurinn var annar en guðfræðinga í byrjun 20tu aldar, svo og yrkingaraðferðin.
Ég reyndi að finna tónlistarstíl sem hæfði þessum skáldskap. Tónlist sem væri dálítið öðruvísi en hin eldri sálmalög. Og útkoman var, að mínu mati, einhverskonar sambland af gömlum sálmi, dægurlagi og Hjápræðisherssöng.
Ég reyndi að hafa laglínuna einfalda og auðlærða, í von um að söfnuðurinn gæti og vildi syngja þetta. Þó koma fyrir hljómar og hljómasambönd, sem ekki er að finna í þeim eldri sálmum sem oftast sungnir eru. Þetta eru hljómar sem Wagner notaði af einstakri snilld.
Form sálmsins er líka nokkuð óvanalegt. Hann er í þrem hlutum, eða hendingum. Fyrst er eins konar framsaga eða „couplet“ sem forsöngvari syngur. Þar næst kemur svo brú eða tengihending. Og loks er viðlag eða „refrain“ og þar tekur kórinn eða söfnuður­inn undir. Við þekkjum þessa aðferð úr dægurlögum ýmsum, og einnig gömlum þjóðkvæðum eins og Ólafi liljurós. Fátítt er að á milli sé hending sem leiði yfir í viðlagið og kynni innihald eða tónfrum þess.
Við fengum Brynhildi Guðjónsdóttur, hina frábæru leikkonu, til að frumflytja sálminn. Brynhildur hafði slegið rækilega í gegn í hlutverki frönsku vísnasöngkonunnar Piaf. Og hún söng lagið og túlkaði ljóðið af mikilli snilld.
Það var mér mikil og ánægjuleg reynsla að vinna með þessum ungu frábæru listakonum.
Og nú er að sjá hvort sálmurinn hræri mannlegt hjörtu. Það veit maður aldrei fyrirfram. En ef það tekst er takmarkinu náð.





        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur