Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Ragnhildur Þóra Ágústsdóttir listmálari


Hvurra manna ertu?
Foreldrar mínir eru Rakel Olsen og Ágúst Sigurðsson heitinn.

Hvers vegna myndlist?
Að teikna og mála er eitthvað sem er mér eðlilegt og náttúrlegt. Að halda á blýanti eða pensli er framlenging á hugsunum mínum rétt eins fyrir rithöfund eða ljóðskáld, nema mínar hugsanir kristallast í formum mynda og lita en ekki orða. Kannski vakna ég einn daginn með óstöðvandi löngun til að viðhafa gjörning og þá mun ég gera það en þangað til er ég fyrst og fremst málari.

Hvaðan koma myndirnar?
Úr ólíkum atburðum, fólki, náttúrunni, umhverfinu, sögum, hugmyndum, draumum. Stund­um koma þær og stundum þarf ég að finna þær. Stundum er það auðvelt og stundum alls ekki.

Geturðu lýst því sem þú hefur verið að fást við upp á síðkastið?
Undanfarin ár hef ég verið að vinna með olíu, „rendering” „figurativ” „realism” – ég veit ekki hvað þetta kallast á íslensku. Ekki svo að skilja að þær séu eitthvað raunverulegri en annað. Olíuna þynni ég mikið og vinn þannig í mörgum þunnum lögum. Besta orðið sem ég hef heyrt yfir það hvernig ég mála er að ég er nostrari. Ég er í marga mánuði með hverja mynd og það eru til myndir sem ég hef verið að „nostra” við í yfir tvö ár. Ég seldi eina fyrir skömmu og hefði ég ekki gert það væri ég örugglega enn að vinna í henni. Mér finnst alltaf mjög erfitt að hætta.
Innihald myndanna undanfarið hefur verið náttúran og þá helst Breiðafjörður, eyjarnar og fjallgarðurinn sem er sjáanlegur frá Stykkishólmi en þar ólst ég upp. Inn í þetta landslag set ég hvít dýr og stundum fólk.
Stundum finnst mér eins og landslagið sé einskonar svið eða leikmynd og dýrin eða fólkið hafi hvert sitt hlutverk. Efniviðurinn fyrir síðustu sýningu var leit heilags Húberts en hann var dýrlingur sem var uppi á áttundu öld. Það eru til margar útgáfur af sögu hans en hann er þekktastur fyrir að hafa lagt allt í sölurnar til að finna hinn fullkomna hjört til að drepa. Það þarf ef til vill að fylgja sögunni að þegar hann fór í leitina var hann nýbúinn að missa konu sína eftir barnsburð og þar með trú sína á Guð. Hann ferðaðist víða þar til hann fann loks hina fullkomnu bráð en þegar hann tók upp vopn sitt birtist bjartur kross á milli horna dýrsins og hann varð fyrir vitrun. Upp frá þessu var hann þekktur sem dýrlingur veiðimanna og einnig þeirra sem missa trúna en finna hana aftur.
Úr þessari sögu rataði leitin inn í verkin mín.

Hefurðu hugsað þér að vera áfram á svipuðum nótum eða muntu skipta um takt eftir þessa sýningu?
Efniviðurinn er óþrjótandi, sögunni af Húbert er hvergi nærri lokið og ég þarf að klára hana eða hún sjálfa sig. Þetta er eitthvað sem stendur mér mjög nærri.
Vissulega er maður alltaf að þroskast og þróast og vonandi verða verk manns samferða. Þegar og ef ég finn fyrir þörf til að takast á við aðra miðla eins og innsetningar eða gjörninga mun ég gera það. Þegar ég var í námi vann ég að stórum 2 x 2 m abstrakt málverkum þar sem ég reyndi að fá oliuna til að hegða sér eins og vatnsliti. Ég er ekki jafn frjálsleg í dag hvað tækni varðar.
Mér finnst gott að elta forvitnina þegar það kemur að því að velja miðil eða tækni og núna er ég upptekin af tækni gömlu meistaranna.

Þú lærðir í Rhode Island í Bandaríkjunum er það ekki? Hvernig hugnaðist þér námið? Voru aðrar áherslur í skólanum þínum en í Listaháskólanum hér heima?
Ég þekki ekki svo vel til í Listaháskóla Íslands en í skólanum úti, Roger Williams, var áhersla á myndlistarsögu og sögu byggingarlistar. Einnig var mikil áhersla á stúdíóvinnu og rannsóknarvinnu á ólíkum efnum, listamönnum og stefnum.

Hvað er þér kærast að ástvinum undanskildum?
Eitt ákveðið orð hefur alltaf verið mér mjög kært og það er orðið „heima.” Það er mjög stór og mikilvægur hlutur í lífi okkar allra og mér finnst fallegt hvenig það getur verið tilfinning sem maður finnur á ólíkum stöðum; í fólki, mat, afþreyingu. Í vissum skilningi er mín „leit” að þessu „heima”.

GEM


Óður til Eyja, olía á hör, 40 x 18 cm, 2008.


Leiðin I, olía á hör, 70 x 60 cm, 2008.


Leitin II, olía á hör, 100 x 120 cm, 2008.


Heima II, olía á hör 60 x 40 cm, 2007.


Í Grænni Lautu, olía á hör, 30 x 40 cm, 2008.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur