Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Óortu ljóðin eftir Jóhann Hjálmarsson


Bestu ljóðin eru líklega óortu ljóðin, ljóðin sem búa í undirvitundinni og fá að vera þar óáreitt.
Skáldin verða að kunna þá list að bíða. Fyrr eða síðar brýst ljóðið fram, eitt orð, setning, erindi.
Ég veit að sum skáld geta gengið að ljóðagerð eins og vinnu. En hjá mörgum þeirra er árangurinn misjafn, ekki síst þegar erfiði dagsins felst í endutekningum. Skáldið yrkir enn eitt ljóðið sem það er fyrir löngu búið að yrkja.
Góð skáld geta fallið í þessa gryfju.
Hættan er þá sú að lesandinn gefist upp á skáldinu.
Að endurnýja sig er ekki öllum gefið. Ein aðferðin er sú að láta nokkur ár líða milli bóka. Það er þó ekki alltaf nauðsynlegt. Líf skáldsins getur breyst á augabragði. Og þá ljóðið líka því að ljóð og líf eiga saman.
Ljóðið er eins konar dagbók. Það speglar ævi skáldsins, átök þess við sig sjálft og heiminn. Sé ytra líf þess hversdagslegt og viðburðasnautt er ekki þar með sagt að sama gildi um innra líf. Það sem fram fer þar getur verið ævintýri líkast.
Séu skáldin farin að líta á ljóðagerðina sem iðnað framleiða þau yfirleitt of mikið. Það er kannski eitt og eitt ljóð sem heppnast, hefur eitthvað að segja.
Það er hverju orði sannara að varasamt er að gefa einhverjar forskriftir um ljóðagerð. Svo mörg skáld eru til. Hér heima fjölgar ungum skáldum og nokkur þeirra eru afkastamikil. Þau verða að fara sínar eigin leiðir. Miklu skiptir að þau séu vel að sér í skáldskap, þekki verk innlendra og erlendra höfunda. Þýðingar koma til hjálpar.
Verst þykir mér að rekast á það að til eru skáld sem vita lítið sem ekkert um skáldskap liðinnar aldar, jafnvel íslenskir brautryðjendur hafa farið framhjá þeim.
Tímarit og blöð veita ekki æskilegt aðhald. Það er þó mikils virði fyrir skáldin að komast á prent, sjá sín eigin ljóð á prenti og geta lært af því þegar best lætur. Jafnvel þekkt skáld birta eftir sig holtaþokuvæl eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Sjötti áratugurinn var tími breytinga og endurskoðunar í ljóðagerð. Ung skáld leituðu til eldri skálda til að fá ráð, ekki síst þegar kom að því að senda frá sér ljóðabók. Fleiri en eitt handrit höfðu verið til skoðunar og hlotið gagnrýni, stundum óvægna, áður en farið var til útgefanda eða samið við prentsmiðju.
Mönnum var ráðlagt að flýta sér ekki um of þegar ástæða þótti til að gefa út aftur. Önnur bók var talin mælikvarði á getu skáldsins og þá var unnt að spá um framtíð þess.
Jóni úr Vör var brugðið þegar Malbikuð hjörtu (1961) eftir mig kom út. Hann hafði greinilega vænst þess að ég héldi áfram þeirri stefnu sem ég markaði með fyrstu bókinni, Aungli í tímann (1956) og Undarlegum fiskum (1958).
Ég var greinilega ekki nógu mikið „öreigaskáld“ heldur sótti á framandi mið.
Á sjötta áratugnum voru atómskáldin ung skáld. Ég var eitt þeirra skálda sem birtu frum­raun sína um miðjan tuginn. Meðal hinna voru Hannes Pétursson, Matthías Johannnessen og Þorsteinn frá Hamri. Ljóð ungra skálda komu út. Tímaritaútgáfa var blómleg.
Menn voru logandi hræddir þegar Hannes Pétursson gaf út aðra bók sína: Í sumardölum (1959) rétt áður en sjötta áratugnum lauk. Hvernig skyldi honum takast eftir jafn góða byrjun og Kvæðabók (1955) var? Milli bókanna eru fjögur ár svo Hannes var ekki að flýta sér um of.
Skáld gátu búist við harðari gagnrýni en nú tíðkast. Nú eru fleiri búnir að tileinka sér nútímaljóðlist og sakna ekki ríms og stuðla.
Deilurnar um form voru yfirleitt niðurdrepandi. Ég held að þær hafi jafvel orðið hemill, valdið því að skáld hurfu frá því að birta og töldu rétt að standa í stað, eiga ekki á hættu að fæla frá lesendur.
Steinn Steinarr var hvergi smeykur enda búinn að gera sína byltingu með Tímanum og vatninu. Ný ljóð eftir hann voru í anda hins nýja tíma. Jóhannes úr Kötlum kaus dulnefni, Anonymus, þegar hann hlýddi kalli tímans. Snorri Hjartarson hafði greinilega látið hrífast með. Jón úr Vör var formbreytingunni trúr.
Atómskáld merkti svipað og landráðamaður hjá sumum. Síðan fékk orðið heiðurssess.
Ég settist í ritstjórn Birtings. Þar var ég yngstur. Ungum listamönnum þótti Birtingur of hátíðlegur og þröngur og vildu stofna eigið blað. Forspil kölluðum við blaðið. Mest mæddi þar á tveimur skáldum, undirrituðum og Ara Jósefssyni. Þegar við Ari fórum saman til Spánar í byrjun árs 1959 hætti Forspil að koma út, tölublöðin urðu aðeins tvö.
Eftir á að hyggja var Forspil góð byrjun. En örlögin tóku í taumana. Ari lést ungur. Ég fluttist til Svíþjóðar og hóf að skrifa fyrir Morgunblaðið sem var alveg nógu stór vettvangur fyrir mig.
Við vorum öll vinstrisinnuð en ég var farinn að hneigjast til hægri, einkum í afstöðunni til utanríkismála. Það var því í rauninni ekki rúm fyrir mig, hvorki í Birtingi eða Forspili. Eftir Þjóðviljaviðtal var mér hótað af nokkrum félögum mínum í Forspili. Ég skyldi fá að kenna á því. Árásir voru boðaðar.
Birtingsmenn voru herstöðvarandstæðingar og Natofjandmenn.
Aðrar ástæður en pólitískar urðu þó til þess að ég sagði mig úr ritstjórn Birtings. Það fór fram í vinsemd með óskum frá ritstjórnarmönnum um að ég sæti um kyrrt. Einkum lagði Einar Bragi áherslu á það.
Það er farið að teygjast úr þessu sem upphaflega átti að vera stutt hugleiðing um ljóðagerð.
Tómas Guðmundson vildi raunar ekki nota orðið ljóðagerð því að það minnti hann á kassagerð. Tómas lagði mér lið eins og oft áður þegar ég ákvað að söðla um.
Nú er best að snúa sér að óortu ljóðunum.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur