Þegar Eyjólfur kom á mótorhjólinu eftir Guðberg Bergsson
Það að Eyjólfur skyldi koma eftir veginum á splunkunýju mótorhjóli með Lollu alla leiðina úr Reykjavík og stansa á hæðinni við Klöpp og Teig var meiri atburður en þegar Ólafur Gaukur kom úr hinu hverfinu og brunaði niður hana á haustin á gljáfægðu reiðhjóli til að að horfa á rollurnar í réttinni hjá okkur. Hann var fegursta barn í heimi, dóttursonur Einars kaupmanns, spariklæddur, svarthærður, mátulega stór eða hæfilega lítill, feitlaginn en ekki feitur, brosmildur en ekki hlæjandi. Eyjólfur var engu síðri í útliti en eldri og með eiginkonuna fyrir aftan sig á hnakknum. Ólafur Gaukur var aldrei með neitt á bögglaberaranum, alltaf einn á hjólinu. Hann vildi ekki láta aka sér á bíl afa síns með háu skjólborðunum svo barnabörnin dyttu ekki af pallinum. Það var einstætt að sjá höfuð krakkanna sem gægðust yfir skjólborðin eins og kindurnar sem ekið var til slátrunar á grindabílnum. Allt hið fagra kom utan úr Járngerðarstaðahverfi eins og Agga á Garði, dóttir föðurbróður Laxness. Hún var Shirley Temple Grindavíkur, fegurri en sú ameríska. En hvorki hún né Ólafur Gaukur komust í hálfkvisti við Eyjólf á glæsilega mótorhjólinu. Lolla steig af því í plíseruðu pilsi. Og þegar hún hafði dustað sig vandlega og lagað á sér hárið fór hún inn til mömmu sinnar og ömmu sem reis upp af rúminu og hætti að spinna þótt hún gerði það eiginlega aldrei. Eyjólfur fór ekki inn. Hann ók til móts við karla og krakka sem horfðu hrifnir á mótorhjólið. Þá nam hann staðar og sagði: “Þetta er hæfara farartæki en bíll, en best að eiga hvort tveggja.” Síðan staðfesti hann orð sín og sýndi hvað mótorhjól gæti en bíllinn ekki. Hann ók rakleitt upp þverhníptan hól, klofinn af sprungu, spýtti í og ætlaði að beygja fram hjá en lenti niður í henni. Það skyggði varla á dýrðina, mótorhjólið komst upp með Eyjólf og hann þaut niður hólinn þar sem hann var brattastur. Lætin voru svo mikil að allir urðu að forða sér. Síðan rauk hann upp brekkuna, lagði mótorhjólinu hjá Teigi, brá sér inn til að fá kaffisopa, kom út með Lollu og þau stigu á bak. Þá fóru gamlir menn að reikna út hvenær þau kæmu til Reykjavíkur á sama hraða og sögðu: “Þetta verður styttra fyrir þau en að fara með rútunni og eflaust ódýrara.” Eyjólfur sást í huga allra í rykmekki, berhöfðaður en Lolla var með skuplu til að verja hárið. Nokkru síðar heyrðist að dóttir þeirra, hún Helena litla, væri farin að læra á orgel, svo mikill snillingur að heimsfrægt fólk vildi kosta hana til ókeypis náms í útlöndum. Sönghæfileikar hennar voru engu minni, ef ekki meiri, svo hún átti ekki í öðrum erfiðleikum í lífinu en að taka ákvörðun, velja á milli orgelsins og söngsins. Það var ekki vitað til þess að söngur væri í ættinni, og þó, afi hennar söng en ekki sérlega vel og enginn mundi að amma hennar, hún Margrét gamla í Klöpp, hefði nokkurn tímann tekið lagið. En kannski voru allir hæfileikarnir frá Eyjólfi. Það að Lolla skyldi hafa gifst honum og flutt til Reykjavíkur breytti öllu til batnaðar en gerði um leið lífið erfiðara fyrir Helenu litlu, að þurfa að taka ákvörðun. Það var líka sagt að hún hefði fleiri hæfileika, til dæmis gæti hún verið innanbúðar eða sett upp verslun með nærfatnað fyrir konur. Svo kom Eyjólfur aftur á mótorhjólinu sem hét ekki lengur mótorhjól heldur hjólið. Lolla og hann færðu nýjar fréttir: Helena litla hélt áfram að leika á orgelið og allir vildu allt fyrir hana gera vegna þess að Ísland hefði ekki efni á því að láta hæfileika fólks fara til spillis. Samt var nokkurn vegin víst að hún kæmist ekki að við orgelið í Dómkirkjunni, þar á stól sat maður fast fyrir, ekki á þeim buxunum að víkja fyrir Helenu, svo kannski yrði hún að veðja á raddböndin. Allir biðu í ofvæni. Eyjólfur kom hvað eftir annað með Lollu í fimm pilsum fyrir aftan sig og með fréttir af dótturinni. En allt í einu var Eyjólfur orðinn veikur, Lolla seldi hjólið, og þegar hann dó vissi enginn hvað hefði í raun og veru orðið um það og Helenu litlu. Það var ekki fyrr en löngu síðar að það heyrðist í henni í útvarpinu, hún var orðin söngkona og það var spurt: “Jæja, var þetta ekki hún Helena litla Eyjólfsdóttir?” Jú, þetta var hún. Ingveldur, amma hennar, fór um alla bæi og spurði: “Heyrðuð þið ekki í henni Helenu minni?” Jú, allir höfðu heyrt í henni eða flestir og þeir sem höfðu ekki heyrt í henni í útvarpinu ákváðu að hafa eyrun opin. En hvað með orgelið? “Það verður að bíða,” sagði amman. “Orgel geta beðið, enda ekki eins viðkvæm og raddböndin.” Þetta gaf auga leið og allir biðu þangað til að amman kom næst í heimsókn. En í þetta sinn færði hún engar glæsifréttir, hvorki af Helenu né Lollu, dóttur sinni, heldur óhugnanlegar af sjálfri sér. “Ég er komin með vatn á bak við lungun,” sagði hún döpur. Hvað merkti það? Það vissi enginn en alla grunaði að vatnið inni í okkur geti orðið hættulegt ef það eitrast af því að vera endalaust innan um sjálft sig og innyflin. “Sumt vatn drepur ekki bara lífið í vatninu heldur líka líkamann og verður að ólæknandi sjúkdómi,” var sagt. Það var rétt. Ingveldur fór á milli bæja og sagði frá vatninu en að lokum hafði hún ekki þrek til neins. Vatnið, sem hafði verið hingaðtil þægt og eðlilegt, safnaðist meir og meir á bak við lungun en síast svo inn í þau og eyðilagði getuna til að anda.