Meðan ég lifði datt mér aldrei í hug að prjóna eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Guðrún Eva Mínervudóttir var rithöfundur, lengst af búsett í Reykjavík. Nokkrum jarðarvikum eftir að hún var lögð til hinstu hvílu í þjóðhetjugrafreitnum á Austurvelli, 124ra ára að aldri, fórum við sem eigum sæti í ritsjórn Stínu á fund miðils og ræddum við Guðrúnu um líf hennar og starf. Miðillinn, sem ekki vill láta nafns síns getið, tók vel á móti okkur og bauð upp á kaffi, nýsjálenskar sígarettur og calvados áður en við stigum inn í þyngdarleysið og viðtalið hófst með gleðihlátri sem stóð yfir í tíu mínútur áður en nokkurt okkar kom upp orði. Hamingjutárin svifu allt í kringum okkur, fullkomnar litlar, glitrandi vatnskúlur, og gerðu stundina hreint töfrandi. Fegurðin var ólýsanleg, enda ekki annað við hæfi í návist hins heilaga dauða sem bíður okkar allra með hlýjan og huggunarríkan faðm sinn.
Hver var þín fyrsta bókmenntalega upplifun?
„Það kemur ennþá fyrir að ég les bækur sem láta mér líða eins og ég sé að lesa í fyrsta sinn, eins og ég hafi aldrei fyrr verið snert af leiftrandi texta. Þá fyllist hjartað ungmeyjarlegri angist og neitar að halda áfram að slá nema augun haldi áfram að renna sér eftir blaðsíðunni. Þetta er metafóra að sjálfsögðu. Ég er ekki lengur með eiginleg augu né hjarta og bækurnar sem ég les eru ekki eiginlegar bækur. En það er ómögulegt að útskýra þetta, þið verðið bara að reyna það á eigin „skinni“ þegar ykkar „tími“ kemur. Ég leyfi mér að taka svona til orða þótt flestir séu nú búnir að gera sér grein fyrir því að tíminn er ekki til.
Ég sá líka Superman í bíó árið 1980 að mig minnir (ef það getur talist bókmenntaleg upplifun) og var lengi að jafna mig, þótt heilinn í mér væri of grænn til að fylgja söguþræðinum almennilega. Í þá daga vorum við ekki enn búin að uppgötva að við gætum flogið svo að í mínum fjögurra ára augum var þetta alger fantasía, stór og þungur karlmaður á flugi yfir húsþökunum í nærbuxunum utan yfir gammósíurnar. Óendanlega heillandi, af því að þetta var svo fjarri manni í þá daga. Muniði hvað við vorum krúttleg, mannfólkið? Mjakandi okkur eftir götum og stígum, rúllandi áfram á hávaðasömum tækjum, lötrandi eins og nautgripir, innilokuð í loftlausum dósum þegar við þurftum að bregða okkur til „útlanda“. Ahaha, muniði krakkar?“
Ritstjórnin hefur engu gleymt. Man þessa tíma þótt þeir séu eins og undarlegar draumfarir í minningunni. Einn af þessum seigfljótandi draumum þar sem maður kemst ekkert áfram þótt maður sé á harðahlaupum undan mannætu með hákarlskjaft. Allt svo þungt í vöfum og þurfandi fyrir endalausan undirbúning. Bækurnar líka. Þungar, rykfallnar og fastar í tímarúminu eins og hverjir aðrir hlutir.
Hvernig varð þér við þegar farið var að gefa út bækur á rafrænu formi?
„Það snerti mig alls ekkert illa. Ég þóttist sjá þetta fyrir, eins og svo margir aðrir. Það sem helst kom mér á óvart var að þær skyldu eftir sem áður líta út eins og pappír og vera viðkomu eins og pappír. Eins þótti mér snjallt að hafa þessa daufu viðarlykt af blaðsíðunum. Það leið ekki á löngu þar til við vorum öll búin að gleyma því að gamli, órafræni pappírinn ilmaði aldrei eins og viður! Það gleður mig líka að þótt hver og einn þurfi nú orðið ekki að eiga nema eina bók skuli fólk eftir sem áður halda áfram að kaupa hugverkin. Já, það var töfrum líkast hvað við vorum fljót að venjast því að kaupa óefnislega hluti, eins og til að mynda aðgang að skáldverkum.“
Nú giftistu tvisvar um ævina og eignaðist barn rétt upp úr fimmtugu. Mörgum þykir starf rithöfundarins vera eins konar andleg iðkun þar sem ekki er rúm fyrir hversdagslegar búksorgir á borð við hjónabönd eða barneignir. Óttaðistu aldrei að ástarlíf þitt kæmi niður á afköstunum?
„Nei, sannarlega ekki. Það er alltaf og verður alltaf að vera rúm fyrir ástina. Þetta voru yndislegir menn og ég var óskaplega skotin í þeim báðum. Sá seinni kemur bráðum yfir um til mín. Ég er búin að úða lavenderilmi á sængurfötin. Sonur minn var mér alltaf mikill gleðigjafi. Hann veitti mér endalausan innblástur og gerir enn! Þótt ég sé hér og hann þar tölum við saman næstum á hverjum degi gegnum systur mína sem býr yfir miklum miðilshæfileikum. Ég á líka yndislegt samband við stjúpdóttur mína sem er afar næm manneskja. Hún hóar stundum í mig þegar vel liggur á henni og þá syngjum við saman gömlu ættjarðarlögin og hún er að kenna mér að prjóna. Meðan ég lifði datt mér aldrei í hug að prjóna. Það er alveg nýtt áhugamál hjá mér.“
Nú slóstu fyrst í gegn með skáldsögunni Yosoy. Áttirðu von á því, sérstaklega, eða varstu algerlega óviðbúin eins og hver önnur fegurðardrottning sem brosir gegnum tárin?
Ég átti auðvitað von á því að sú bók ylli miklu uppþoti, en kannski ekki jafn miklu og raun varð á. En það gerðist ekki strax. Yosoy þurfti tíma til að sökkva inn í hina sammannlegu vitund. Skemmtilegast fannst mér þó þegar ég varð fyrst allra íslenskra höfunda til að slá í gegn í Japan nokkrum árum eftir að bókin kom út. Það var alveg óvænt og fyrir hálfgerða tilviljun að ég skyldi yfirhöfuð vera þýdd yfir á þetta fagra tungumál. Þarna átti ég margar stórkostlegar stundir, ekki síst með fjölskyldunni eftir að við festum kaup á húsbátnum sem við höfðum oftast við festar á lygnu fljóti ekki langt frá Tókíó. Vinur okkar, fyrrverandi súmóglímukappi, Musaka að nafni, kenndi mér japönsku og eftir að ég náði sæmilegu valdi á tungumálinu var ég stundum fengin til að halda fyrirlestra víðsvegar um landið. Musaka var ótrúlegur maður, og það sem hann gat étið! Þegar hann kom í mat þurfti að haga innkaupunum eins og fimmtán manns væru á gestalistanum, þótt við hefðum aðeins boðið honum og einhverri af unnustum hans eða fylgdarkonum. Hann var alltaf með einhverja nýja upp á arminn og allar voru þær litlar, mjóar og málglaðar. Það var ógleymanlegt að sjá þær sitja við hliðina á honum og láta dæluna ganga á meðan hann mataðist, kurteislega og af stillingu. Heilu kílóin af mat hurfu ofan í hann án þess að maður tæki sérstaklega eftir því hvað þetta gekk hratt fyrir sig. En nú er ég kannski komin út fyrir efnið.“
Við fullvissum Guðrúnu um að henni sé velkomið að fara eins langt út fyrir efnið og henni sýnist, enda þegar laus úr viðjum efnisins í bókstaflegasta skilningi.
Hvað myndirðu ráðleggja ungu fólki sem er að feta sín fyrstu skref út á hála og grýtta braut skáldskaparins?
„Fyrst og fremst að taka þetta ekki of alvarlega því þótt um sé að ræða heilaga köllun er hún ekkert í ætt við skyldu eða kvöð. Skáldskapurinn er ævintýri á sama hátt og lífið er ævintýri. Helsti munurinn er ef til vill sá að dauðinn markar farsæl endalok lífsins á meðan góður skáldskapur lifir að eilífu. En það má ekki týna ævintýrinu úr skáldskapnum. Við verðum að horfa á allt sem á sér stað umhverfis okkur eins og undrandi börn og bera því vitni eins og barn myndi gera. Framúrskarandi gáfað barn, að sjálfsögðu. Barn sem væri hálfgert viðundur af ofvisku. En samt sem áður eins og saklaust barn, í stuttbuxum og með slöngulokka og stór himinblá augu.“
Ritsjórnin er nú farin að ókyrrast. Orð Guðrúnar snerta undarlega við okkur enda áttum við ekki von á svo vemmilegum málflutningi frá þessari merku konu sem var rómuð fyrir það meðan hún lifði að leyfa sér aldrei að sökkva í sykursætt dý væmninnar. En það er vel hugsanlegt að dauðinn hafi þessi áhrif; að samneyti við engla og löngu látið fólk gefi tilefni til að sleppa fram af sér beislinu með þessum hætti. Sumir halda því fram að fyrstu vikurnar eftir að manneskjur yfirgefa jarðvistina séu þær í hálfgerðu ölvunarástandi. Það er ef til vill verðugt rannsóknarefni fyrir vísindamenn framtíðarinnar.
P.s.
Guðrún var beðin að taka viðtal við sjálfa sig fyrir tímaritið og biðst velvirðingar á að leggja ritstjórninni orð í munn.