Lí eftir Guðberg Bergsson
Einhverra hluta vegna hafði hún á tilfinningunni að sumarið væri að koma á þessar slóðir ekki með sama hætti og annars staðar í heiminum sem hún þekkti lítið en fannst hún hefði þeim mun á réttara að standa með innsæinu.
„Að trúa á innlifunina er afar kínverskt,“ hugsaði hún. „Ég verð kínverskari eftir því sem ég er lengur að heiman.“
Væntanlega sumarið gerði boð á undan sér með þeim hætti að lemja hana í andlitið með byl. Það var sárt en sniðugt hvernig kornin stungu kinnarnar og skoppuðu svo af þeim á jörðina. Helst hefði hún viljað að élið hefði vit á því að fara ekki í augun svo hún sæi betur kornin. Það hefði verið uppbót fyrir sársaukann.
Svo var ekki en eflaust gott fyrir húðina að fá haglél á sig, þó langaði hana ekki að verða rjóð.
„Rjóðar kinnar eru óviðeigandi nema á leiksviði,“ hugsaði hún og vissi að fagrar konur hafa fílabeinshvíta vanga.
Hún var ramm kínversk hvað þessa skoðun varðar, svo hún leitaði skjóls undir húsvegg og laðaði fram í hugann mynd af kulvísri hirðmey sem trítlar yfir hvíta jörð og lýstir sér með bréflukt.
Meðan hún beið eftir að hann stytti upp langaði hana ekkert að verða íslensk, ekki einu sinni að skilja málið almennilega hvað þá að tala það. Samt kunni hún einföld orð en hirti ekki um merkinguna. Athöfn og merking fylgjast stundum ekki alveg að; sama gildir um orð og skilning. Engu að síður bjargast flest einhvern veginn í lífinu. Hún skildi varla skapaðan hlut í þessu samfélagi en komst ágætlega af eftir að hafa náð kreditkortum af þremur karlmönnum sem leigðu hana til samblýlis og þjónustu í skamman tíma. Hún vildi ekki festa sig og þeim fannst meiri fjölbreytni vera í því að skifta um konu reglulega. Og ef hún lenti í vanda gat hún alltaf leitað í Kvennaathvarfið. Þar var henni tekið opnum örmum og aldrei spurð neins vegna nærgætni. Lílega var skylda að taka á móti konum og gefa sér að þær leituðu í athvarfið vegna heimilisofbeldi þótt hvorki sæjust á þeim merki um átök né glóðarauga. Hún vissi aftur á móti að flestar voru bara að bíða eftir stuttum leigutilboðum frá körlum. Athvarfið var að hennar viti sniðug stofnun. Í því var eins og nýgræðingur kæmi til reynslu í klaustur eða hóruhús, hún hafði kynnst hvorutveggja í Kína. Sálarlíf þeirra sem sáu um reksturinn minnti á sambland af því sem hún þekkti hjá nunnum og vændismömmum sem fundu aldrei prinsinn og voru þess vegna aldrei í rónni nema þær væru að hríðast í karlmönnum. Með því eina móti fengu þær uppreisn æru og töldu sig vera að frelsa saklausar stúlkur frá svínunum.
Hún brosti.
Þegar ekki ætlaði að stytta upp ákvað hún að bregða sér á kínverskt veitingahús neðar í götunni. Hún naut þess að fara á veitingahúsið í landi þar sem allir héldu að kínverskir karlar jafnt sem konur hétu Lí. Þess vegna sagði hún alltaf: „Lí.“ og benti á brjóstið sem opnaði henni leið að hjörtum manna. Hún varð á augabragði vesalings kínversk stúlka. Það hafði jafnvel komið fyrir að fólk vildi snýta henni úti á götu sem henni þótti vera of langt gengið í samúðinni.
Í ganginum fann hún ekki dæmigerða matarlykt en mundi eftir sögum sem nunnurnar létu börnin lesa í trúboðsskólanum. Í þeim voru kínverskar stúlkur með litríkar regnhlífar og allt sem þær gerðu átti að vera mátulegt á karla. Þetta vakti forvitni telpnanna. Eftir skólann langaði flestar að starfa í tengslum við karlmenn og innra með henni vaknaði ekki bara löngun til að sleppa að heiman heldur frá Kína og hitta svínin.
Hún opnaði dyrnar. Veitingahúsið var rauðmálað og sums staðar gullbronsað. Úr loftinu héngu luktir, ekki kínverskar heldur ímyndaðar og á veggjunum breiddust út blævængir og pappírsregnhlífar. Drekar liðuðust um allt með opinn skoltinn. Þetta fannst henni sniðugt og hún ákvað að fá sér matarskammt, fjóra rétti sem mátti velja af tíu. Í staðinn fyrir að benda þegjandi á réttina undir glerhlífinni á skammtaborðinu ákvað hún að tala við afgreiðslumanninn á tilbúinni kínversku. Hann skildi og svaraði á ímynduðu máli. Það einkennir Kínverja að skilja eins og skot. Hún vissi það upp á sína tíu fingur, enda nauðsyn að skilja þótt maður skilji ekkert eða næstum ekkert heldur hlýði og líki eftir öðrum. Hún var líka að mörgu leyti þannig en reyndi að stjórna sér sjálf.
Hún leit á kínverska afgreiðslumanninn. Þau brostu eins og þau skildu hvort annað.
Við borðin í salnum sátu stórir innlendir karlmenn sem tóku hraustlega til matar síns og hún sá að þeir voru of miklir rumir fyrir hana og engin leið yrði að komast í krítarkortin þeirra hvernig sem hún legði sig fram við að leika kisu og mjálma og mala við nárann á þeim. Hún gerði sér grein fyrir að hún gæti ekki orðið ástfangin og kæmist aldrei yfir svona mikla karlmenn, varla meira en tærnar, og þyldi ekki vikuleigu með þeim sem hnykkja hökunni niður á bringu og segja í tíma og ótíma:
„Það gefur auga leið... “
Hún kannaðist við orðin, sá setninguna koma út úr þeim en hafði enga hugmynd um merkinguna.
Nú fór hún að borða með prjónunum, ekkert að hugsa um setninguna. Orðin máttu hljóða eins og þau lysti.
Hún hugsaði ekki lengi um mennina sem borðuðu með hnífapörum og höfðu fengið sér tvöfaldan skammt: átta rétti hver. Eflaust var engin merking í orðum þeirra eða svo ómerkileg að ekki tæki því að reyna hvað þá að skilja hana.
Svo hún klóraði sér á hægra hnénu og renndi augunum til kínversku konunnar sem átti líklega staðinn og sýndi það með lafandi neðrivör. Hún var feit og staulaðist ekki á fætur til að afgreiða en drakk úr vatnsglasi kaffi með mjólk sem merkti að hún hefði dvalið lengi í landinu og tileinkað sér hálfpartinn siði þess. Eflaust vildi hún ekki fara lengra í að líkjast öðrum og drakk því úr glasi, ekki bolla. Það er kínversk málamiðlun að koma hálfpartinn til móts við framandi fólk.
Til að styrkja sig í staðfestingunni horfði hún á þá feitu og fór með máltæki þverlyndrar ömmu sinnar:
„Ég legg ekki píkuna að velli til þess að líkjast öðrum.“
Andrúmsloftið í veitingahúsinu átti máltækið skilið og hún þakkaði ömmu sinni fyrir að segja henni að hafa það að leiðarljósi sem hún gerði, ákveðin að iðka aldrei þann sið að sötra kaffi. Hún var ekki á móti kaffi, kaffidrykkja átti rétt á sér, en dvölin í landinu gerði hana fráhverfa því. Á þessu andartaki hefði hún heldur látið drepa sig en drekka úr bolla.
Hún hélt áfram að borða og mundi hvað amman var skítug undir sprungnum nöglum á höndum skældum af vinnu. Til að forðast sýnina leit hún fyrirlitlega á feitu konuna og þreknu mennirnir sem átu seinni skammtinn, fengu sér kaffi og hnykktu höku niður á bringu, eflaust að segja:
„Það gefur auga leið ...“
Hún gat ekki hugsað sér að festast manni þótt hann ætti ótal kreditkort ef hún þyrfti að hlusta sífellt á þetta.
„Ég vildi heldur verða blind og heyrnarlaus; það gefur auga leið.“
Eftir matinn fór hún í átt að Kvennaathvarfinu en langaði ekki inn heldur bara að sjá mynd á vegg af ketti sem kyssti snoppu á hesti. Þetta lýsti fullkominni vináttu, eins og hún á að vera hjá ólíkum dýrategundum og henni vöknaði um augun við að hugsa um hana. En þótt amma hennar hefði trúað máltækinu: „Fátt er fegurra en ástir kattar og hests“ sýndi reynslan annað. Hún hafði aldrei fundið annað í leigu á þessu landi en hún væri kisa sem kramdist undir hófi á hrossi.
Einnig varð hún fyrir öðrum vonbrigðum. Listinn yfir Kvennaathvörf í Evrópu, sem hún keypti á svörtum í Kína, var rándýr og reyndist illa. Hún hafði gert sér bjartar vonir en í raun fengust ekki miklir dagpeningar, svo hún fór í fjölmennt sambýli með útlendingum sem tórðu einhvern veginn. Það gerði ekkert til, þeir höfðu alltaf bara tórað, líka heima hjá sér, og vissu að þeir mundu tóra hvar sem er: nýbúar í útlöndum eða flóttamenn í heimalandinu.
„Sumir eru þannig, tóra og taka þannig út sinn litla skammt af lífinu.“
Á götunni voru fáir á ferli, vindurinn í fangið og allt í einu sá hún koma á móti sér handlegginn sem vantaði á föður hennar eftir að vélin sleit hann af honum þegar hún fæddist. Fyrir þær sakir gat hann aldrei faðmað hana og sýndi enga löngun til þess. Kannski fann hann vanmátt sinn, að geta ekki faðmað nema að hálfu leyti, en hann eignaðist helmingi fleiri börn eftir missinn sem henni fannst undarlegt í æsku en skildi uppbótina núna.
„Faðmlag þarf að vera gert af heilum hug og líkama, til þess þarf tvo limi, en til barneigna nægir einn.“
Einu sinni greip hana eitthvað undarlegt. Faðir hennar sat gleiðfættur á botni á fötu undir tré. Hún gekk til hans og potaði snöggt í punginn á honum. Hann náði varla andanum en sagði:
„Ótuktarstelpa, þér hefnist fyrir þetta í fjarlægu landi, að pota í stoltið á pabba þínum.“
Eftir atburðinn hafði hún merkt tómleika innra með sér og vissi að hún var hingað komin til þess að taka út hefnd og finna handlegg föður síns.
„Ég bið ekki um faðmlag þegar fundur er hefnd ...,“ hugsaði hún.
Nú var aftur komið él. Sömu snjókorn og áður virtust ætla að ljúka því að lemja hana. Í fylgd með þeim voru mýkri en verri og villtu henni sýn. Hún sá ekki út úr augum annað en uppáhaldsvagninn nálgast, Leið 1, sem hún var ekki aðeins skotin í heldur ástfangin og þráði hann þegar hún sat við gluggann í subbulegu íbúðinni og kallaði:
„Komdu upp stigann!“
Auðvitað var þetta fáránlegt en hún gat oft ekki gert upp við sig hvort hún ætti að húka heima eða fara í athvarfið, og þess vegna langaði hana að fá strætisvagn í heimsókn og heyra skruðning færast upp stigann.
Núna vissi hún að hún yrði fyrir honum og fengi svo harðan skell að höfuðið molnaði og heilinn þeyttist burt, en hann héldi samt áfram að hugsa um annað en það sem ber fyrir augu.