Króníka frá Berlín og Lissabon eftir Guðberg Bergsson
Þýsk-íslenskir dagar árið 2006
Í Þýskalandi hafa verið og búa ennþá menn sem sýna íslenskri menningu ekki bara
velvilja heldur áhuga og hann er meira að segja ósvikinn. Fyrrum var hann nær
einvörðungu á Íslendingasögunum og Eddukvæðunum, síðan beindist hann að landslaginu
en nú virðist hann ná til næstum alls. Það eru haldnir Íslenskir dagar í þýskum borgum,
lesið úr verkum samtímahöfunda og eitthvað sýnt af nútímalist og jafnvel kvikmyndir.
Yfirleitt er sæmileg aðsókn, einkum á smærri stöðum, en talað fyrir hálfum sal í
stórborgum. Fámennið þar einkennir ekki bara áhuga eða áhugaleysi hvað Ísland varðar
heldur er sömu sögu að segja um menningu annarra landa. Munurinn er helst sá að menning
stórþjóða er aðallega kynnt í háskólum þar sem tungur þeirra eru kenndar, að öðrum
kosti ná aðeins „stór nöfn“ til augna og eyrna annarra en nemenda. Í Bremerhaven var
haldin íslensk mennigarkynning í september og mér boðið. Ég kom til borgarinnar eftir að
hafa farið á fætur í Reykjavík klukkan fjögur að morgni, flogið til Frankfurt og haldið með
lest í gegnum Þýskaland og endaði þreyttur á Hótel Nordsee klukkan níu að kvöldi. Ég
hélt að tilkynning um dagskrána biði í móttökunni, svo var ekki, aftur á móti var mér vísað
í Marilyn Monroe-Suite, hótelíbúð þar sem á veggjunum voru málverk og ljósmyndir af
leikkonunni ungri og fram að andláti. Af þeim var auðséð að hún hefur haft gaman af
kiðlingum og verið næstum hjólbeinótt í æsku, með feita kálfa og fótleggi. Á einum veggnum
var eftirlíking af þekktu málverki eftir Hoppers og frægar stjörnur látnar supla að
næturlagi við barinn. Elvis afgreiddi. „Þetta byrjar laglega,“ hugsaði ég. Næsta morgun
hringdi enginn af þeim sem skipulögðu hátíðina, svo ég hringdi á skrifstofuna; ekkert svar.
Þegar leið að hádegi fór ég á Borgarsafnið sem er frábært með ljósmyndum af fólki við
fiskvinnslu, konum að þvo saltfisk og greint frá kjörum þeirra sem voru miklu betri árið
1928 en hjá okkur þegar ég vaskaði fisk í Grindavík eftir 1950. Í safninu var sýnd
áhugaverð kvikmynd af fiskveiðum við Ísland. Í henni heyrði ég sunginn gamlan sjómannasöng
sem ég hafði haldi fram að þessu að væri hollenskur en er víst þýskur. Og
karlarnir á sjónum kölluðu: „Hív op,“ eins og sagt var við krakka þegar ég var barn. Einnig
var á safninu bókin Kurs Island, um fiskveiðar hér við land frá 1950 til 1960. Allt var betra
en í Saltfisksetrinu í Grindavík. Ég var eini gesturinn í safninu. Þegar ég fór á hótelið voru
þar engin skilaboð, svo ég hringdi: ekkert svar. Ég dreif mig þá í Listasafn borgarinnar, á
sýningu sem hét Dyr á þúfu eða Island zu Gast. Á henni var enginn nema eftirlitsmaður sem heilsaði virðulega, ánægður yfir að sjá einhvern koma til að skoða þessa vel upp settu
sýningu með verkum eftir Katrínu Sigurðardóttur, Helga Þorgils, Ólöfu Nordal, Helga
Hjaltalín Eyjólfsson og Birgi Snæbjörn Birgisson. Hjá stórþjóðum er algengt að haldnar
séu allskonar sýningar af skyldurækni við menninguna eða einungis til þess að veita lærðu
fólki vinnu við að skipuleggja og skrifa fremur innihaldslitlar greinar í kynningarbæklinga.
Hér var ekki brugðið út af vananum í bæklingi sem hét Kunst im Nordwesten. Svo virðist
sem í Bremerhaven séu haldnar eins og víða í landinu svo margar sýningar á nútímalist að
það líkist óstöðvandi rennsli og viðfangsefni listamanna allsstaðar þau sömu: Eitthvað um
náttúruna. T.d. „snoðklippt gras“ á hól svipað hári á höfði pönkara, ljósmyndir af hausum
á rollum og búpeningi eða notuð blönduð tækni við gerð mynda af konum að verða óléttar
eða þær dunda á þúsund vegu við það að eyða misskilningi karlmanna. Eftir að hafa skoðað
íslensku sýninguna hringdi ég aftur á skrifstofuna; ekkert svar. Svo ég fór á hótelið; engin
tilkynning í gestamóttökunni. Þá snautaði ég inn til mín og horfði á ljósmyndina af
Marilyn hjólbeinóttri og með vembil. Ég beið, las bækling um myndlist og sannfærðist um
að allir sem hana stunda geti orðið frægir. Allt í einu kom að því, síminn hringdi. Niðri í
móttökunni var Johann P. Tammen sem stóð fyrir menningardögunum, ritstjóri tímaritsins
die horen þar sem hefur oft verið birt eitthvað eftir íslenska höfunda. Í haustheftinu eru
13 skáld og die horen gefur út disk, á honum eru meðal annars ljóð eftir Stefán Hörð
Grímsson og Hannes Sigfússon. Menningarsamkoman með mér og þýðanda mínum,
Karli Ludwig Wetzig, var haldin í bókasafninu, þægileg og vel sótt. Á eftir var farið að
þýskum sið út að borða. Þá slógust með í för margir sem höfðu verið á samkomunni en ég
þekkti ekki og kynntist ekki heldur. Ég talaði um fiskveiðar og flökun við íslenska
konsúlinn sem langaði að sýna mér höfnina daginn eftir og láta mig flaka fisk sem ég gat
ekki, lestin fór snemma til Berlínar. Ferðin þangað tók um fjóra tíma og endaði á nýju
járnbrautarstöðinni sem er svo stór að halda mætti að nægði allri Evrópu. Byggingin hefur
vakið úlfúð, enda vekur allt nýtt úlfúð ekki bara á Íslandi heldur í flestum löndum og menn
segja: „Það er engin leið að átta sig á þessu fyrirkomulagi.“ Að lokum átta menn sig, gefast
upp eða sætta sig við orðinn hlut. Athafnamenn ráða málum hvort sem það er öðrum til
góðs eða ills. Um síðir komst ég á hótelið í Pankow, hverfi sem ég þekkti og ætlaði fyrir
ótal árum að skoða þar hús rithöfundarins Hans Fallada, sem skrifaði bókina Hvað nú, litli
maður, en það var lokað og í niðurníðslu. Berlín er jafn indæl og hún hefur verið og verða
mun. Ég skoðaði sýninguna á verkum Rembrandts og fannst vanta Krossfestinguna sem er
í Munchen og Stríðsmanninn í Lissabon. Ekkert sérstakt henti mig þennan dag annað en
það að ég varð vitni að því að ungur maður steig inn í neðanjarðarlestina frá Pankow með
bjórflösku í hendi, illa farinn, eflaust af neyslu eiturlyfja, sveittur, settist á bekk og mókti.
Milli Vinetastrasse og Schönhauer Allee kom inn annar ungur maður með hund í bandi.
Um leið og hundurinn sá þann sem fyrir var í móki rak hann upp einkennilegt vein, reif
sig lausan, hljóp til og byrjaði að sleikja hann hátt og lágt: hendur, fætur og andlitið, allan
svitann og þurrkaði honum í lokin um munninn með tungunni; alltaf með ámátlegum
hljóðum sem minntu á niðurbælda samúð. Eigandinn fékk við ekkert ráðið en hinn maðurinn, sá aumi, vaknaði úr mókinu og leit tómlátum augum á hundinn sem byrjaði að gráta
hástöfum og tók með löppunum utan um hann. Við þetta varð hundurinn svo taugaveiklaður
í ástúð sinni að hann sprændi á gólfið. Þegar eigandinn sá sprænuna flýtti hann
sér út á næstu stöð, enda mega þýskir hundar ferðast með lestum en ekki pissa á gólfið. Við
því er há sekt þótt ekki hangi uppi skilti með: „Hér mega hundar ekki létta á sér.“ Mér varð
hugsað: „Það er undarlegt hvað hundum þykir vænt um menn sem hafa farið í hundana.“
Ég hafði oft tekið eftir hvað þeim líður vel hjá fátækum og betlurum sem liggja í pappakössum
á götum borga. Líklega finna þeir eðlilega samkennd með þeim og virðast gleðjast
og hryggjast yfir að tvífætlingar skuli vera komnir með ferfætlingum í svaðið. Sálargerð
þessa hunds var auðsæilega þannig. Atlot hans voru þvílík tilfinningablanda ástar og
volæðis að engu var líkara en hann hefði loksins hitt af tilviljun heittelskuðu tíkina sína (eða
var þetta samkynhneigður hundur?) eftir langan aðskilnað, en hann fékk ekki að harma og
fagna lengi, eigandinn dró hann með valdi út úr lestinni. Hér lýk ég sögunni svo hún verði
ekki væmin með hundi sem grætur á lestarpalli eins og kona sem horfir á eftir unnusta að
fara í stríð. Í dag fór ég aftur á móti á fund vitsmunanna í bókabúðir og spurði eftir þýskum
smásögum, starfsfólkið kannaðist ekki við þá bókmenntagrein. Til þess að hjálpa því við að
átta sig sagði ég eins og satt var, að ég hefði séð safn þeirra í Þýsku bókabúðinni í París. Við
að heyra þetta rauk það upp til handa og fóta og fór með mig að deildinni með safni ævintýra
frá ýmsum löndum. „Er þá þannig komið fyrir smásögunni,“ hugsaði ég. Að lokum
fann ég í bókabúð Gyðings bækurnar sem ég hafði séð í París og við fundinn varð
afgreiðslustúlkan glöð, samt ekki eins og hundurinn sem hitti manninn sem var farinn í
hundana. Þegar ég borgaði og stúlkan sagði af stakri kurteisi: „Góða helgi,“ svaraði ég í
gamni: „Með hverjum?“ Hún sagði: „Auðvitað mér!“ Og hér lýkur hunda- og stúlkusögum
frá Berlín og annað tekur við. Það fjallar um sýningu á tengslum tveggja borga í listum: Die
Kunst Zweier Städte. Þetta var gríðarlega umfangsmikil sýning sem leiddi í ljós margvísleg
tengsl Japana og Þjóðverja; þau höfðu byrjað löngu fyrir Heimsstyrjöldina síðari. Sýndar
voru í sérstökum bási sérkennilegar japanskar kvikmyndir undir þýskum áhrifum frá fyrstu
árum þessarar listgreinar. Þetta voru meðal annars myndir um einskonar sálræna eiginleika
formanna sem slíkra, bæði í samleik og einleik, og forma mannssálarinnar og samleikur
þeirra og ytri atburða. Annars var þess getið á öðrum stað á sýningunni að listmálarahópurinn
Der Sturm hafi þegar haldið sýningu í Tókíó 1914. Þjóðverjum virðist takast vel að
koma upp sýningum þar sem hlutir og atburðir í list og samfélagi eru athugaðir frá mörgum
hliðum, um leið og liðin tíð er sundurgreind og skilgreind, hið hálfgleymda og það sem
menn vilja gleyma er dregið fram í dagsljósið. Sýningin Berlin Tokyo Tokyo Berlín var
þannig, gerólík þeim miklu og á vissan hátt samsvarandi sýningum sem hafa stundum áður
verið haldnar í París. Á þeim var áherslan einkum lögð á form og liti hlutanna og á andlega
þáttinn í tilverunni. Báðar þessar þjóðir, Frakkar og Þjóðverjar, búa yfir miklu fjármagni,
ríkri þekkingu og sjálfsögðum vilja til þess að grafa djúpt í tilveru sinnar sögu og annarra.
Þetta er eitthvað sem við þekkjum ekki í samfélagi okkar. Áhugann vantar og kannski
getuna líka nema í grobbi og löngun til að gera það sem við gerum aldrei. En við getum huggað okkur við það að Bretar virðast ekki heldur vera gæddir sömu mynd- og málsýn á
tilveruna og Þjóðverjar, ekki einu sinni hvað varðar sögu þeirra sjálfra, hvað þá Evrópu eða
heimsins þótt þeir fjalli gjarna í rituðu máli af leikni um hin ólíkustu atriði í stjórnmálum og
hafi sögulega yfirsýn í bókum. Þeir virðast ekki hafa yfir að ráða nógu stórum söfnum fyrir
svona sýningar og svo er bresk myndlist fremur lítilfjörleg miðað við myndlist þjóða á meginlandinu.
Stærsti atburðurinn í yfirsýnarmálum í myndum og máli var í miklum sölum
Deutsches Historisches Museum, Þýska sögusafninu. Þar var rekin saga Þýskalands frá árinu
100 fyrir Krist og fram til 1994 í afmörkuðum köflum. Frá aldamótunum, sem við höfum
nýlega lagt að baki, var ekki aðeins rekin upplausnin eftir Heimsstyrjöldina fyrri og uppgangur
nazismans heldur þýsku þjóðarheildinni gerð vandleg skil í tveimum þáttum, fyrst frá 1933
til 1945 og síðan frá 1949 til 1994. Allt var þetta gert með hlutlausum hætti og atburðir
sýndir, án beinnar umfjöllunar, úr sögu austur- og vesturhluta landsins. Sýningin var svo
yfirgripsmikil og heillandi að vika fór í að skoða hana með daglegum heimsóknum. Til að
setja upp svona risasýningar þurfa þjóðir að eiga marga frambærilega og samhenta einstaklinga
á öllum sviðum, en menn verða að hafa öðru fremur þörf fyrir minni og eiginleika þess.
Svo virðist sem þýska þjóðarminnið hafi ekki farið í rúst þótt þjóðarlíkaminn hafi verið
limlestur í tveimur styrjöldum. Leikhúslífið í Berlín var aftur á móti ekki sérlega heillandi en
tónlistarlífið rekið af skyldurækni við hefðirnar og tillitssemi við nýjungar sem eru orðnar
vægast sagt fremur vandræðalegar og úr sér gengnar; varla er hægt að ímynda sér neitt ömurlegra
en aflóga framúrstefnu sem rembist við að draga andann og þykjast vera ung og fersk.
Hvernig getur ungt fólk verið endalaust bara að skæla sig í listum? Brechtleikhúsið virtist líka
vera á niðurleið og hafa það eitt að markmiði að laða áhorfendur til sín með því að gera
nístandi þjóðfélagsgagnrýni t.d. í Die Kleinbürger Hochzeit (Smáborgarabrúðkaupið eins og
það er kallað á íslensku og Leikfélag Selfoss sýndi með ágætum fyrir nokkrum árum) að meinlausri
skopsýningu fyrir flissandi unglinga á gelgjuskeiði fremur en sýna leikrit með félagslegu
innihaldi. Það sama er að segja um annað leikhúslíf í Berlín; lélegast var götuleikhúsið sem
virðist helst vera fyrir leikarakrakka. Þannig „krakkar“ eru sérstakt fyrirbrigði í samtímalist eða
reyndar á öllum sviðum lista og menningar, jafnvel í stjórnmálum líka, og útskrifast úr einskonar
háskólagorkúlum sem spretta út um allar jarðir: til eru bókmenntakrakkar úr háskólum,
málarakrakkar úr listaháskólum, fjölmiðlakrakkar úr fjölmiðlaháskólum, alltaf að gera sprell
og semja sprellþætti o.s.frv. Þessi sérstaka framleiðsla á krakkastóði tröllríður öllu í samtímanum
með endalausum krakkalátum; og krakkarnir eru að sjálfsögðu ánægðir með sig og
krakkaskapinn og allir sýna þeim barnslegan skilning svo krakkarnir halda að þeir hafi ekki
bara lært að vera frumlegir krakkar heldur sé frumleikinn meðfæddur í bland við framsækni.
Mörg torg í Berlín voru undirlögð af þannig krökkum við að „tjá sig“ og það var ekki að sjá
neinn tækjaskort við að framleiða áhersluhljóð og vekja „sumarnorðurljós“ á himni, en það
virtist vera í tísku á látlausum ljósahátíðum styrktum af borgarstjórninni.
Lissabon
Að fara til Lissabon er eins og að ganga á fund þriðju fæðingarinnar. Svo hún heppnist
fullkomlega er komið strax við í Editorial Noticias á torginu Rossio og athugað hvað sé að
gerast í bókmenntunum. Á borðinu niðri er nýja bókin, Minningabrot eftir José Saramago
með 10% jólaafslætti. Ég kaupi hana. Efnið er það sem hann kallar brot. Í þeim segir að
nafnið Saramago sé ekki rétt ættarnafn heldur hafi ritarinn sem færði skírn skáldsins í
þjóðskrána verið drukkinn og í staðinn fyrir hið rétta Sousa, hafi hann skrifað viðurnefni
fjölskyldunnar, Saramago sem merkir Gulrófa. Fyrir þær ömurlegu sakir gat hann ekki
hugsað sér ungur maður að giftast stúlku sem hét Deolinda og hann var hrifinn af, vegna
þess að með samruna ættarnafns hans og hennar, sem var Bacalhao, það merkir Þorskur,
hefði skírnarnafn hennar glatað rómantískum lindublæ og hún fengið fremur fráhrindandi
frúarnafn: Deolinda Þorskur og Gulrófa. Brotakenndar minningar Saramagos ná ekki langt
fram eftir aldri en rekja að sjálfsögðu upprunann og segja frá fæðingarþorpinu Azinhaga,
borið fram sem Aþinjaga, eflaust arabískt: as-þinaik og merkir öngvegur þótt hann liggi um
breiða sléttu Alentejos. Ekki langt frá þorpinu skammt fyrir norðan Tagusfljótið rennur út
í það lítil á sem er samt nógu stór til þess að vera á kortinu. Þegar Saramago minnist árinnar
verður lýsingin í ætt við orðin sem Pessoa leggur í munn Alberto Caeiros þegar hann orti
um ána sína: „Tagus er fríðara fljót en áin sem rennur um þorpið heima.“ Hvaða skáld sem
fæddist eftir daga Pessoa getur flúið blæinn frá ljóðagerð hans? Saramago yrkir líka um ána
sína og nálgast sígildan hugblæ portúgalskrar ljóðagerðar en fellir hér ljóðið inn í
minningatextann eins og óbundið mál væri. Úr því að skáld og skáldskapur er sami vefurinn
og ólíklegt að nokkur hér á landi muni lesa minningarnar, ákvað ég að þýða til skýringar
vissa sögu eftir Saramago sem lýsir unglingsárum hans og að einhverju leyti heimsóknum
til afa og ömmu sem urðu eftir í þorpinu þegar foreldrarnir ákváðu að flytja búferlum og
fara með soninn ungan til Lissabon þar sem faðirinn fékk starf sem lögregluþjónn og
drengurinn fór til náms. Efni bókarinnar nær ekki lengra en að lokum barnaskóla. Sveitabýli
sögunnar er eftirmynd hins fátæklega húss þar sem Saramago fæddist. Líkt og
fæðingarstaðurinn eru lýsingarnar í bókinni fábrotnar, fremur andblær frá atburðum en að
þeir séu beinlínis færðir í orð. Það er algengt í portúgölskum skáldskap að nota blæinn í
staðinn fyrir hlutinn, en aðferðina er samt ekki hægt að kalla stefnu í ritlist heldur er þetta
eðlislægt skáldum eða þjóðareinkenni. Þótt Saramago telji sig vera kommúnista og sé
flokksbundinn virðist fylgni við hugmyndir innan hans og kenningar kommúnismans um
það hvernig bókmenntir eigi að vera ekki hafa áhrif á ritlist hans, hvorki sýn hans á
samfélagið né viðhorf til manna sem er dálítið furðulegt. Minningarnar eru engu að síður
ágætar og sýna hinar mörgu hliðar á Lissabon og fátækasta hluta borgarinnar eins og hann
var fram að byltingunni 1974. Þrátt fyrir auma tilveru foreldranna virðist Saramago hafa
alist upp átakalaust í snauðri tilveru fólks af engri ákveðinni þjóðfélagsstétt með litla vitund
um eðli samfélagsins í kringum það. Fjölskyldan hefur verið af einskonar millistétt fátækra.
Þótt kynlegt kunni að þykja er mikill stéttamunur ríkjandi á meðal snauðra, svo vegna stöðu
foreldranna, eða réttara sagt föðurins, hefur sonurinn ekki kynnst versta ömurleika hinna allslausu, til dæmis ekki nema að litlu leyti baráttu kvenna fyrir tilveru sinni með því að
stunda vændi. Í umhverfi hans hefur vændið verið stundað fremur á heimili en í ömurlegum
pensjónötum sem var algengast. Saramago er örlítið fyrir ofan lægsta stig samfélagsins
vegna þess að faðir hans var lögregla á tímum Salazars. Helstu minningar sonarins eru
stöðu sinnar vegna aðallega tengdar prófum eða velgengni í skóla en ekki beinlínis basli.
Góðar einkunnir koma samt að litlu gagni, ekki öðru en því að hann lærði vélfræði í
tækniskóla og þurfti að læra þar eitthvað í frönsku og bókmenntum. Sá lærdómur kemur
honum á óvart þegar hann lítur um öxl, þekktur rithöfundur sem veit að hvorki
bókmenntir né franska eru skyldufög í tækniskólum hins frjálsa samtíma. Þótt honum
finnist þetta vera kynlegt á efri árum er ekki að sjá að honum þyki undarlegt að hjá honum
skuli ekki hafa vaknað vegna námsins áhugi á ritlist strax í æsku; áhuginn er á prófum. Hjá
Saramago, líkt og algengt er hjá höfundum á Spáni og í Suður-Ameríku, sem sækja í æsku
lífssýn fremur í kvikmyndir en bækur, verður skáldskapur hans og þeirra fyrir bragðið
myndrænn, listrænn eiginleiki hans er á vissan hátt myndsýn, yfirborð fremur en dýpt eða
þrívídd. Þetta er auðsætt í skáldskap spænskumælandi þjóða, á þeim reginmun sem er að
finna í honum fyrir og eftir komu kvikmyndarinnar. Í æsku fer Saramago líka oft í bíó og
verður að sögn sérlega hrifinn af dönsku kvikmyndunum með Gög og Gokke og spyr í
bókinni hvers vegna þær og leikararnir séu með öllu gleymdir og ekki getið í
kvikmyndasögunni. Ég hef hvergi annars staðar rekist í ritum eða bókum á hrifningu
suðurlandabúa á þessum dönsku gamanmyndum.
Það kveður við annan tón hjá skáldkonunni Agustina Bessa-Luis í síðustu bók hennar
frá 2006, A Ronda da Noite sem merkir Næturvörðurinn. Agustina er meiri vitsmunavera
en Saramago og hefur alltaf í verkum sínum fjallað á tiginn næstum hástemmdan hátt um
konur með svonefndu valdi á máli og hún gerir það líka í þessari bók. Þar er viðfangsefnið
tengt dularfullri ljósveru á samnefndu málverki, Næturverðinum eftir Rembrandt sem
mikið hefur verið fjallað um og deilt öldum saman. En auðsætt ætti að vera að þarna er
engin önnur en kona Rembrandts, Saskía sem bregður fyrir innan um næturverðina í liði
kafteins Cocq. Hún er að flækjast þarna – hvers vegna? – með dauðan kjúkling, hænu eða
dúfu við beltið og horfir á áhorfandann. Agustina fjallar sífellt með nýjum hætti um sama
atriði, konuna eða konur af æðri stéttum í fjölskrúðugum myndum, án þess að það verði að
kynsystraþráhyggju og stagli eins og oft vill verða hjá kvenrithöfundum. Hún er eflaust og
hefur verið lengi mesti höfundur Portúgals en aldrei verið jafn áberandi og aðrar
skáldkonur eða skáldkarlar sem hafa vakið athygli útgefenda fyrir utan Portúgal á síðustu
áratugum. Agustina er engu að síður höfundur sem gnæfir yfir samlanda sína, hún er
einhvern veginn of stór í sniðum til þess að þeir sem bægslast áfram eða fara með völd í
bókmenntum geti vasast með hana „á markaði“ eins og ritlistin væri lítið annað en dauða
hænan hennar Saskíu en við belti bókmenntafræðinga. Sagan eftir Augustinu er fráleitt
táknrænnar merkingar á þessu sviði heldur viðameiri. Stundum eru samt takmörk fyrir því
hvað áhugi manns á hnignun borgara- og valdastétta getur náð langt við lestur bóka – það
sama gildir um allt tönnl – aftur á móti vekur furðu að Agustina, sem er talin vera til hægri og útskúfuð af vinstrimönnum fyrir bragðið og reynt að þegja hana og verk hennar í hel,
einkum hvað varðar útbreiðslu fyrir utan Portúgal, skrifar miklu fremur í ætt við marxisma
og félagslega sýn hans og stefnu en til að mynda Saramago eða aðrir ekki eins þekktir
samlandar og höfundar. Þegar ég les nýju söguna eftir Agustinu kemst ég að dálitlu: Ef
lesnar eru bækur eftir mikla höfunda, sem maður þekkir af verkum þeirra, er eins og verið
sé alltaf að lesa sömu bók en við það verður maður síendurnærður þótt það þreyti, af því að
lesandinn þroskast um leið. Kannski er þetta lykill og leyndardómur mikillar listar, aftur á
móti er léttvæg list gædd svo óverulegum leyndardómi að hann liggur í augum uppi á fyrstu
blaðsíðum en maður blekkir sig sjálfviljugur með því að telja sér mátulega falska trú: að allt
í bókinni sé hæfilega nýtt og mátulega rýrt.
Auðvitað eru komnir á sjónarsviðið í Portúgal eins og annarsstaðar í löndum Evrópu
glæpasagnahöfundar en hinir portúgölsku eru með sérstöku sniði og til dæmis fjallar einn
þeirra um lögmál guðs í samnefndu verki. Þessir eru engir smákarlar heldur oft lærðir
menn, stundum á sviði vísinda sem er í stíl við portúgölsku hefðina í bókmenntum, einkum
ljóðagerð. Að þessu leyti skera portúgalskir höfundar og ljóðskáld sig úr, enda algengt að
karlar og konur af menntastétt: læknar, lögfræðingar, verkfræðingar, herforingjar, skattstjórar
og stærðfræðingar yrki ljóð eða semji skáldsögur, séu gagnrýnendur, iðki fræði á
sviði bókmennta eða stundi eitthvað af þessu, kannski allt, með sínu aðalstarfi og hverfi
jafnvel frá vísindastörfum á vit lista. Nokkrir af yngstu höfundunum á sviði skáldskapar og
ljóða, en einkum glæpasagnagerðar, eru fæddir í eða ættaðir frá fyrrum nýlendum landsins.
Þannig fylgir allt sömu tísku um heim allan, úthverfin eru enn á ný að nema land og sigra
höfuðborgina, þótt núna sé það með svolítið óvenjulegum og óhefðbundnum hætti: áður
voru þetta menn frá útkjálkum landsins, núna eru sigurvegararnir fólk úr nýlendunum.
Munurinn á enska og portúgalska tilvikinu er sá, að í því portúgalska koma höfundarnir úr
„heimalandinu handan við hafið“, eins og nýlendurnar hétu á einræðistíð Salazars, og stigu
á svið bókmennta löngu áður en aðrir „jaðarmenn í menningunni“ líkt og höfundar hafa
gert úr breskum nýlendum á Bretlandi eða ýmsir innflytjendur í Ameríku. Þeir fjalla venjulega
um smámuni í daglegu lífi eða þvinganir. Annað gildir um hina portúgölsku sem eru
andlegri og stærri. Þegar ég fer yfir ljóðlistina frá 2006, rekst ég á bók sem heitir Livro das
passagens, eiginlega Ferðabók, eftir skáldkonu sem ég þekkti ekki. Þarna er að finna ljóð
um Ísland, ferðalag frá Reykjavík austur á bóginn með ströndinni. Höfundurinn, Maria
Andresen, er líklega komin af helsta skáldi síðustu aldar, Sophie Breyner. (Þess má geta
innan sviga að fyrir mörgum árum þýddi ég barnabók eftir skáldkonuna, Sophie; Sæstúlkan
heitir bókin. Ég reyndi hvað eftir annað að fá hana útgefna sem mistókst jafnan. Á þessum
tíma voru hér í tísku annarkonar barnasögur en hún. Hjá einni útgáfunni var ég spurður
hvort þarna væri flugslys og þegar ég kvað nei við varð viðmælandi minn hundslegur yfir
hvað portúgalskar skáldkonur væru langt á eftir tímanum og kenndu Salazar um þann
ósóma. Börn áttu að hafa áhuga á flugslysum eins og í einhverri bók eftir Enid Blyton sem
var í slefandi tísku. Hjá öðrum var spurt hvort slagsmál væru meðal fiskanna. Ég kvað nein
við en sagði að þarna væri kolkrabbi. Það þótti mátuleg hrollvekja og tekið við þýðingunni en henni skilað af því engu bleki var sprautað í augun á óvinafiski eða fiskur kyrktur með
„köldu blóði“ og sagt að íslensk börn gætu ekki fengið áhuga á ljóðrænni sögu, Sæstúlkan
væri ekki einu sinni femínisti meðal fiskanna sem er allir, eðlis síns vegna, hákarlar og fullir
af karlrembu.) Í framhaldi af þessu er kannski vert að geta þess að portúgalskar skáldkonur,
eins og Lúisa Costa Gomes, hafa komið afar hrifnar til Íslands, fyrst í huganum, svo í
veruleikanum, að lokum í hvorutveggja: í skáldskapnum. Það er líka eftirtektarvert að
erlend skáld sem koma til Íslands yrkja venjulega eitt ljóð um landið, sjaldan fleiri. Ísland
virðist ekki endast nema í stakt ljóð, en stundum er það reyndar á við mörg, eins og þegar
Borges orti. Portúgölsku ljóðin um Ísland eru best, að mínu viti eða smekk, tengd íhygli
um hið óhlutstæða í hinum hlutstæða veruleika fremur en þau séu beinar ytri lýsingar. Ég
ræði ekki frekar um Ísland í portúgölskum bókmenntum en mig langar að reyna að þýða
nefnt ljóð eftir Maríu Andresen:
Þegar farið var frá Reykjavík austur með ströndinni
sáum við að landslagið hafði einskonar hæfileika
til að móta látlausa framrás hins furðulega.
Svo óttinn eða arfur hinna æðstu tilfinninga
og öll náðarsemd Guðs eða munaður þess sem er blítt
geti horfið með farfuglunum suður eða lagst í dvala.
Kuldinn nístir,
og silfurfuglar, svartur sandur, dýr freðans. Hér
er maðurinn harðgerður, nýtinn, mál hans er einfalt
efnið fábrotið og venjurnar haldgóðar.
Í hinni miklu Gulbenkianmenningarstofnun í Lissabon hefur verið stór frábær sýning
sem var kölluð Hæfileikar og verkfræði frá 1846 til 2006, haldin í tilefni þess að starfsemi
stofnunarinnar er hálfrar aldar gömul. Þarna voru þrjár myndir frá Íslandi: ein tengd
eldinum, önnur jörðinni: Þingvellir en ekki í venjulegum ljósmyndalitum eðs tilgerðarlegum
stíl. Báðar myndirnar voru eftir erlenda ljósmyndara. Merkasta ljósmyndin frá
Íslandi lokaði sýningunni og var eftir Hrafnkel Sigurðsson. Hann hafði sett verk sitt upp á
snilldarlegan hátt, eins og ljósmyndin væri altaristafla af þeirri gerð sem er kölluð þrímynd
af því hún er stór miðmynd en til hliðar eru tveir vængi, myndskreyttir að framan og á
bakhlið. Ef vængirnir eru lagðir saman loka þeir töflunni. Þessi aðferð, sem merkir
launhelgi, er byggð á fornu kristnu viðhorfi til þess sem manninum er heilagt. Í staðinn fyrir
Guð eða Jesú sem þoldi píslir er á mynd Hrafnkels frosin örlítið hæðótt jörð í hvítum
hreinleika, en aftan á hvorum væng er mynd af drasli íslensks samfélags: plastpokar frá
Bónus og Fréttablaðið í haug ásamt öðru rusli. Sé töflunni lokað sést einungis misþyrming
mannsins á náttúrunni, óþverri nútímans, en þegar hún er opnuð birtist hvítur hreinleiki jarðarinnar. Það er auðséð að upphafin flétta fornrar og nýrrar hugmyndar hefur heillað þá
sem stóðu að sýningunni, ekki innantómar glansmyndir af náttúru Íslands, hinar venjulegu
sem minna á viðurkennt landslagsperluklám.
Í lokin rakst ég á matreiðslubók með réttum gerðum úr Bacalhau Islandia eða íslenskum
saltfiski. Hún var eftir Paco Asensio en að miklu leyti samin með aðstoð Ingibjargar
Pétursdóttur og Hafþórs Ólafsson. Í staðinn fyrir að þýða uppskrift á „Plokfiskur islandês“
(plokkfiskur er sagður vera einn af mörgum íslenskum þjóðarréttum) ætla ég að þýða og
birta uppskrift af saltfisk- og appelsínusalati fyrir fjóra:
2 kíló af appelsínum.
Tveir púrrulaukar.
Dálítið af svörtum olífum.
150 grömm af saltfiski.
Matarolía.
Örlítill pipar.
Hýðið tekið af appelsínunum. Saltfiskurinn skorinn eða leystur sundur með fingrunum.
Púrrulaukurinn er skolaður og saxaður. Þessu er komið fyrir blönduðu saman í stóra skál.
Dálítilli olífuolíu er hellt yfir og pipar stráð. Salatið er að svo búnu látið bíða á köldum stað
í nokkurn tíma áður en það er borið á borð með eða á undan öðrum réttum.
Úr því ég er kominn í uppskriftaham get ég ekki stillt mig um að koma með aðra
uppskrift:
Saltfiskfrauð fyrir fjóra:
200 gr. af saltfiski;
matskeið af hvítri hveiti í (uppstúf);
2 eggjarauður;
2 eggjahvítur;
dálítið af pipar;
dálítið af smjöri.
Sjóðið saltfiskinn. Hrærið á meðan uppstúfið, þ. e., hellið mjólkinni í hveitina og hrærið
stöðugt í með sleif. Látið uppstúfið kólna. Takið saltfiskinn upp og leyfið honum að kólna.
Þeytið eggjahvítuna. Hrærið rauðurnar mátulega. Blandið saman saltfiskinum, uppstúfinu,
rauðunum og hvítunni í nokkuð stóru íláti. Best er að láta hvítuna fyrst út í fiskinn og
uppstúfið og hræra dálítið í þessu en bæta síðan við rauðunum. Gott er að strá örlitlum
pipar yfir réttinn og láta í bökunarform sem hafa áður verið smurð að innan með smjöri.
Þetta er bakað í 15 mínútur við 180 stiga hita í ofni. Best er að bera réttinn strax á borð,
annars hjaðnar fiskurinn við það að kólna.
Segið svo að ekki sé hugsað vel um andlega og líkamlega velferð ykkar í Stínu!