Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Spuni handa Kötu eftir Thor Vilhjálmsson


Kannski var langur tími til. Ég er að reyna að tala. Sagði konan,
og skuggarnir læddust yfir fingur hennar: Ég veit ekki við hvern.
Kannski verð ég að búa þig til. Væri ég göldrótt. Ég get ekki
galdrað þig aftur, ég get ekki galdrað svo mikið að segja: þú máttir
ekki deyja. Kannski á ég að búa til annan mann. Hvernig ætti hann
að vera? Svo ég þurfi ekki endalaust að tala við sjálfa mig. Þessi
nývakti maður, á hann að vera ljós og bjartur, með nýsprottið rautt
skegg og jarpt hár sem hrynur yfir bláu augun hans; með blá augu sem
eru nýkomin upp úr sjónum, úr hafinu. Nei ég er ekki búin að
gleyma því sem var, ég týni þér aldrei. En ég verð að fleyta mér á
þessari skel; og þar sem svo sýnist að ég verði að sæta þessum dómi
að tala við sjálfa mig og horfa í spegilinn sem gerist æ grimmari
... ég get reynt að veifa hendi til að sópa burt þessu visnandi
andliti, og þá kemur þetta sama andlit og ryðst inn í lófann á mér.
Ég vildi að þú værir, og vitanlega máttir þú ekki fara frá mér, og
láta mig vera svona lengi að deyja. Það er þín sök að ég er næstum
því ódauðleg. Þegar ég dey, segir konan: þá ertu loksins dauður, þá
geturðu aldrei framar gengið aftur. Ég tók þessa blæju, og reyndi
að dansa í nótt, ég bað hann Mozart að hjálpa okkur báðum, þér
framliðnum sem líður áfram, og mér sem reyndi að hreyfa mig áfram í
því sem var draumur okkar beggja, og núna er bara draumur minn.
Ég sat í fjallshlíðinni, og skuggarnir komu yfir mig og slökktu
þig; þá vissi ég að þú yrðir aldrei framar. Það var eins og
hesturinn skildi það, hann kom öslandi upp úr mýrinni þar sem fífan
titraði. Hesturinn hreyfði við hárinu mínu, ég var svo hissa. Ég
horfði í augu hestsins, sólin fór niður í sjóinn, og sjórinn tók
því og logaði um sinn.
Nóttin hún kom mjög seint, ég beið eftir því að það yrði nótt.
Hestinum lá ekkert á, nema það væri að líkna mér. Það er langt síðan
ég vissi að ég myndi aldrei vekja þig, ég vissi að þú ert ekki
sofandi; ég vissi að þú varst dauður.
Ef þú ert draugur, þá er allt efnið í þig ekki það sem ég þrái. Það
ert ekki þú, það er ég; það er þetta ægilega nei, úr mér; ég rétti
út höndina, og skuggarnir komu og klipptu fingurna af mér. Þessa
fingur sem reyndu einu sinni enn að snerta þig, kannski varstu
annar, kannski varstu hæfilegur til þess að ég gæti alla daga verið í
einsemd minni að yrkja þig.
Já þú varst ljómi; þú ljómar æ fyrir blindum augum mínum. Alsjáandi
fálma ég um grundina alla, eftir einni hrapaðri stjörnu; hún
liggur milli tánna minna, hún liggur í grasinu; næst við mánann, í
læknum. Mér er heitt, mér er kalt, ég horfi eftir fingrum mínum sem
fara í lækinn, og leita að tunglinu; til að hefja það upp, kannski
til að setja það þar sem það ætti að eiga heima, þar sem heitir
himinfesting, við hliðina á því sem er hinn bjarti ás.
Svona get ég haldið áfram að tala, segir konan: og ef þú átt að
svara mér þá verð ég að leggja þér orðin til; og það mun ég gera,
þess vegna er lífið umtals vert, ægilegt. Þú munt ekki hvísla að mér
framar, þú munt ekki hreyfa við hárinu mínu með hógværð þinni;
þegar dagar okkar fóru saman þótti þér stundum nóg um hvað ég fór
geyst. Þú sagðir stundum: Svona, svona; það varst þú sem áttir að
tala, ég sá allt sem þú sagðir ekki, ég sá það í augunum þínum.
Einkum þegar þú varst að reyna að halda aftur af mér, þegar ég fór
of geyst.
Það varst þú sem komst í veg fyrir að ég væri leikkona. Áður en þú
komst ætlaði ég að þjóna William Shakespeare, ég ætlaði að láta
Hamlet hrekja mig, og ég ætlaði að farast með Desdemónu og Ófelíu,
og ég hefði jafnvel framið voðaverkin með lady Macbeth, en allra
helzt hefði ég unnið undir gandi Antons Tsékov. Þá var ég farin að
halda ég yrði alltaf að vera annað fólk, og ég mundi aldrei geta
orðið ég sjálf. Svo komst þú, og þá fór ég að reyna að vera ég
sjálf og reyna að vita hver ég væri sjálf, til þess ég gæti orðið
eitthvað handa þér. En þú fórst í þessu miðja kafi, þá fórstu niður
í þessa alsvörtu nótt; og síðan er ég ekki að leita þess sem ég
gæti orðið, síðan er ég bara að leita að þér. Þessi nótt kemur ofan
á allar hinar næturnar; hún hnýtist í hnútinn sem ég ræð ekki við
að leysa. Og héðinn er riðinn svo fast að höfði mér að augun eru
löngu sprungin. Ég sé naumast til vegar, svo ég komist milli hverfa
í þessari veglausu borg án þín.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur