Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Fáránlegt samtal við sjálfa mig: Hland úr himni eftir Kristínu Eiríksdóttur


Ég mælti mér mót við Kristínu Eiríksdóttur á bóndabýli hennar á túndrunni í Alaska. Þegar við hittumst eftir sólarhringsgöngu mína yfir sléttu sem virtist óendanleg sá ég þústina, heimilið. Skáldkonan var klædd í hnausþykka skinnkápu. Hún sat með bláar varir í rólunni á verönd sinni, neri hita í hendur sér og þegar ég spurði hana hversvegna við færum ekki innfyrir sagðist hún hafa verið læst úti í þrjú ár. (Það er kannski mikilvægt að taka fram að sjálfur er ég suðurheimskautsbúi, skáeygur með lítinn sem engan skeggvöxt.)
Þetta hafa verið mér feikilega erfið ár, á sumrin hef ég haldið mig við drangann þarna úti við nesið og skrifað með kolum á þann klósett- og umbúðapappír sem hefur borist hingað á ströndina, en á veturna hef ég komið mér fyrir í helli þarna uppí fjalli ogþá rispað kletta með tilfallandi áhöldum.
Er algerlega ómögulegt að komast inní býlið? Væri ekki hægt að brjóta niður hurðina eða gluggann og koma sér þannig innfyrir?
Þú skilur þetta ekki, það snýst ekki um timbur og gler.
Gætirðu reynt að útskýra þetta nánar?
Ég bjó mér til skauta úr tveimur hrossaleggjum sem ég fann þarna uppá heiðinni og þannig get ég skautað eftir ánni, það er gott í logni. Svo hegg ég mér vök og veiði fiskinn sem syndir þarna undir ísnum, ég borða hann hráanm, ég er hráæta, hráætur hafa mun skýrari skilning en þeir sem sífellt sjóða og malla.
Þú talar um skýrleika en það er hugtak sem fáir tengja við þig?
Þetta liggur allt í spilunum.
(Skáldkonan tekur upp sjúskaðan tarotspilastokk og tekur til að stokka.)
Hvar varstu stödd þegar öll eldfjöll heims gusu samtímis, móðuharðindin skullu á um alla veröld og hrossin misstu hárin, höfðatala heims snarlækkaði og þá sérstaklega vegna hrossaáts?
Ég var að tína örsmáa kuðunga um þetta leyti, en þeir voru mín helsta fæða. Ég var þá í mínu sautjánda hjónabandi. Maðurinn minn var ekki ósvipaður kuðungi, þetta var eins konar árátta. Það er til tvenns konar fólk, kuðungar og kræklingar.
Hver er helsti munurinn á þessum manngerðum?
Kuðungar eru skáld, en kræklingar eru morðingjar, einsog þú kannski veist er ég kræklingur!
Treystirðu þér til að tala um morðið?
Ég var ekki nema tuttugu og fimm ára, þetta var blóðhefnd semn hefði viðgengist á víkingatímanum, ég notaðist við aðferðafræði víkinga og gaf honum eitraðar ostrur. Ég gleymi ekki andlitinu á honum og jukkinu sem gúlpaði úr honum. Ég sé eftir þessu á nóttunni þegar ég ligg hérna á veröndinni ásamt sjálfri mér á öllum aldri. Það getur orðið svo kalt hérna að stundum neyðist ég til að finna mér uxahræ að sofa í.
Afhverju drapstu þennan mann?
Ég var fimmtán ára gömul þegar hann nauðgaði mér, dró mig á hárinu inní bakgarð og svívirti mig. Tíu árum síðar hitti ég hann á bar, hann bað mig um sígarettu, allt logaði innra og einsog meðvitundarlaus táldró ég hann. Viku siðar kom rétta tækifærið og ég útbjó honum eitraða máltíð. Þegar hann var dauður horfið ég lengi á líkið, snerti það og hugsaði um dauðann.
Hvaða áhrif hafði fangelsisvistin á þig?
Lokuð herbergi, sjáðu mig, ég er alein á sléttu. Mig dreymir oftast að ég sitji inni, rimlarnir eru limir karlmanna, endalausar raðir af rimlum, svo kynntist ég söfnuðinum þarna inni.
Söfnuðurinn Tetragoninn, þið trúið því að landfræðilega rétt staðsetning ykkar fjögurra, hafi uppbyggjandi áhrif á jarðskorpuna og jafnvægi sem nauðsynlegt er til að móðuharðindunum ljúki, er þetta rétt skilið?
Skilja og skilja, trú okkar er að andlegt vafstur okkar á nákvæmlega þessum ferkílómetrum sem okkur var úthlutað skili árangri fyrir jörð og mannkyn. Áður en við ferðuðumst á rétta punktinn fórum við í tilraunakennda aðgerð. Heilahvelin voru aðskilin og við skiptum þeim þannig á milli að tvö okkar hafa einungis vinstra, og hin aðeins hægra. Plássið sem við fengum er misjafnt, maðurinn á Þingvöllum hefur aðeins einn fermetra, en ég fékk heila slettu.
Misheyrðist mér, áttu við heila sléttu?
Já, heila sléttu, tóma auðn með engum manni nema mér og þér núna.
Skömmu eftir að þú fékkst viðurkenninguna fyrir framúrskarandi menningarstarf á landsbyggðinni reyndirðu að taka eigið líf, var einhver tenging þar á milli?
Hvernig tekur maður eigið líf? Ég man þetta ekki svo glöggt enda bjó þetta tímabil í vinstra heilahveli, einkenndist af græðgi, viðurkenningarþörf og almennri ófullnægju, þetta er mitt versta tímabil, þegar ég var nýsloppin úr fangelsi og hjó stöðugt eftir einhverju sem engin handfesta var í.
Að lokum, hvað er framundan?
Ástleysi, einsemd, kuldi og auðn svo langt sem augað eygir, í auðninni býr ekkert og er hreinskilin náttúra, svolítið einsog innviði mannsins, en einsog allt sem er hreinskilið lýgur auðnin líka, undir sléttu yfirborðinu kraumar af földu lífi, eða eins og amma mín sagði, alltaf kemur ástin einsog hland úr himni. Gullsturta Guðs.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur