Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Gunnlaugur Scheving og Grindavík eftir Guðberg Bergsson


Gunnlaugur Scheving fæddist 8. júní árið 1904 og lést 9. desember árið 1972.

Stundum hafa listmálarar gert stöðum sem þeir fæddust eða dvöldu á svo rækileg skil með frumlegum hætti í verkum sínum að staðirnir, málararnir og verk þeirra hafa myndað samofna heild. Í tímans rás hafa málverkin orðið þekktari en staðirnir enda auðveldara að flytja þau á sýningar en fjöll, fólk eða hús. Auk þess eiga þau lengra líf fyrir höndum en viðfangsefnið. Sú þörf að nota listræna tækni og kafa með liti og hugsun í eðli staðar uns möguleikar hans voru tæmdir sem uppspretta persónulegrar myndlistar var algeng meðal erlendra málara en fáir íslenskir hafa farið sömu leið. Þeir hafa kannski leitt hugann að notkun lita og forma í tengslum við myndir af landslagi en sjaldan tekist á við það að tvinna saman hugsun sína, tíma, mennina sem mótuðu hann og staðinn þannig að hægt sé að sjá í málverkunum heild með hliðsjón af eðli íbúa og staðar að veðurfarinu ógleymdu.
Undantekning í þessu efni er Gunnlaugur Scheving. Hann og frumleiki í myndlist eru nátengdir Grindavík, þorpi þar sem hann dvaldi lengi eða í stuttan tíma, oftast að sumarlagi, líklega frá 1939 eða 1940, en áður hafði hann komið þangað með danskri konu sinni sem hvarf aftur heim rétt fyrir stríð og varð þar innlyksa. Þrátt fyrir heimsóknina er varlegt að álykta að hann hafi gert sér með henni í skyndi mynd af dæmigerðu þorpi með hliðsjón af hugarþorpi sínu, mynd byggða á kenningum um hvað sé fagurt eða listrænt, svipað og höfundur skáldsögu gerir, og horfið síðan til veruleikans og framkallað hana í verki á staðnum, í þessu tilviki farið aftur til Grindavíkur. Hann virðist ekki heldur hafa valið þorpið til að styðjast við líkt og fyrirsætu, og eftir því sem best verður séð er ekki að finna hjá honum löngun til kennisetninga að baki málverkanna. Hann fylgir ekki fremur en aðrir íslenskir listamenn stefnu og skipuleggur ekki heldur vitsmunalega sína eigin þannig að hann setji fram hugmynd um fagurfræði í rituðu máli. Það er ekki heldur víst að hann hafi haft sérstaka pólítíska skoðun heldur miklu fremur almenna félagslega vitund eða tilfinningu tímans sem mun hafa leiðbeint honum að einhverju leyti. Málverk hans eru samt ekki þjóðfélagsleg, þannig séð að hann fylgi raunsæi að málum en hann dró ekki aðeins upp sérstaka mynd heldur kortlagði þorpið, einkum Járngerðarstaða­hverfið með þeim hætti að hann málað myndir af húsunum, hverju um sig og afstöðu þeirra hvers til annars, án beinlínis yfirsýnar, enda var hann ekki sögumálari. Þegar hann hafði málað myndir af húsunum teiknaði hann gjarna húsbóndann en húsmæður leyfðu honum ekki að teikna sig.
Óhætt er að segja að Gunnlaugur hafi fært inn í listina tíðaranda, saltan andblæ hins skynræna einfaldleika sem ljóðabókin Þorpið eftir Jón úr Vör átti litlu síðar eftir að anda frá sér í orðum. Litirnir í málverkunum fela í sér fábreytni tímans og hann færir ekki í lit og form bara skæld og veðruð hús og slitna menn, heldur einnig úfinn og óþreytandi sjó, hliðstæðu íbúanna. Hann málar þetta með þeim hætti sem hægt væri að kalla hlutlægan en um leið óhlutbundinn, réttan og rangan, rökvísan og órökréttan. Hreyfingin hjá honum er bundin tímabilinu sem verkin voru máluð á og hann gæðir myndveruleikann stritkenndri eilífð eins og hann vilji segja:
„Svona voru þorpin eftir kreppuna í kringum 1930.“
Tíminn er auðsær á andlitunum sem hann teiknaði eða málaði, ekki bara í því sem við sjáum af ytri gerð húsanna eða inni í Gömlu búðinni, heldur líka í vali á litum og formum, aðferðinni sem hann beitti og samræmir smám saman með því að þrengja svæðið sem hann vinnur á og þjarmar þannig að viðfangsefninu. Hann velur og tekur um leið mið af hæfileikum sínum og veður ekki út um allt. Tíminn verður einn og margur, samsettur, hefð og stöðnun en þrunginn óreiðu, íhugun, vantrú og von hvað framtíð varðar. Þetta kemur fram í skipulagi og skipulagsleysi einstakra form og innra sambandi þeirra sem liggur helst í augum uppi í „flækju“ veiðafæra þegar máluð er lína á þilfari báta og verið að greiða úr henni eftir sjóferð: Veiðin flækir á sama hátt og hugsunin en með listrænu handbragði er hægt að greiða úr hvorutveggja. Að þessu leyti notar málarinn ábendingar fremur en beina frásögn, hann gefur í skyn, veitir möguleika til túlkunar og þess að finna hliðstæður. Þetta stafar af umgengni agaðs málara við línuna, teikninguna sem undirstöðu og helsta eiginleika myndverks. Um leið er „flækjan“ merki um frjálsræði í uppröðun fremur en merki þess að málarinn hafi ekki þekkt sígilda myndlist eða til sjómennsku og veiða. Það er harla ólíklegt. Málverkin eru sérstök persónuleg ólga, líf forma hafsins en sjómennirnir innan um línuna eru andstæða; þeir eru hliðstæða málar­ans, æðruleysi og kyrrð í ólgu sjálvar, einskonar höggmyndir á bátum í veltingi á hafinu, tákni endalausrar hreyfing; þeir eru í stökkum sínum minnisvarðar stöðugleikans.
Gunnlaugur Scheving byrjaði ekki í Grindavík að mála myndir af sjómönnum, þorpum og veiðum, hann gerði það áður með hefðbundnum hætti og líkti eftir útlendum málurum. Það má segja um hann eins og flesta listamenn að upphafið að list hans sé óljóst en vegna dvalar í Grindavík þjappi hann reynslunni saman og beini sér að afmörkuðu viðfangsefni og sjálfum sér, þorpi í þorpi, samblandi af hlutunum og andblæ þeirra, þyrpingu flata og lína. Ólíkt öðrum máði hann að mestu út þekkjanlegt landslag. Mann­laus sveit og alkunn fjöll höfðu áður verið viðfangsefni flestra málarar sem leituðu til frægra staða og voru í rauninni fremur hagamálarar en landslagsmálarar þótt þeir máluðu ekki endilega æskuslóðir. Með því að rjúfa hefðina varð Gunnlaugur frumlegasti málarinn sem tengdi í list sinni lifandi fólk, einkum vissa stétt, sjómenn, og batt hana unhverfi sínu við störf í fiski.
Í þessu tilviki er varla um erlendar fyrirmyndir að ræða. Ekki er hægt að rekja í málverkum af Grindavík og lífinu þar áhrif, hvorki í formgerð né beitingu lita, til sérstaks læriföður eða fleiri eða aðferða þeirra. Málverk hans eru auk þess svo mörg, með endur­tekningum og fráhvörfum, að hann hefur auðsæilga ekki dottið ofan á viðfangsefnið heldur unnið með markmið í huga hvort sem slíkur vinnumáti hefur verið honum eitthvað leynt, ljóst eða sambland af hvoru tveggja. Upprunaleikinn hefur þannig tilhneig­­ingu til að einkennast af einsemd og sérstöðu og í því tilviki er málarinn hvergi alger nema í verkum sínum þar sem hann færir með brögðum nálægðina út í fjarlægðina og gerir hana algilda. Í Grindavík var Gunnlaugur Scheving einn á báti og einmana.
Ekki er fullljóst af hvaða ástæðu hann vandi upphaflega komu sína til Grindavíkur en þar dvaldi hann helst hjá Sigvalda Kaldalóns tónskáldi og lækni en einnig á sumrin uppi á Ísólfsskála, á afskekktu býli fyrir austan þorpið, þangað var klukkutíma gangur úr Þorkötlustaðahverfinu. Húsið er undir hjalla í hrauninu á milli Grindavíkur og Krýsu­víkur. Eitt er víst að hann dvaldi þar ekki til þess að mála landslag eða feta um hraun­ið í fótspor Kjarvals heldur af öðrum tilfinningalegum ástæðum. Hann var hlé­drægur og fyrir bragðið málaði hann sjaldan undir berum himni, síst í Járngerðar­staðahverf­inu þar sem Kaldalóns bjó og fleiri íbúar voru, heldur í hinum hverfunum tveimur, fyrir austan og vestan. Að mála úti hefði vakið athygli, svo í staðinn fyrir að nálgast viðfangsefnið utan húss með penslum og eigin nálægð notaði hann þá aðferð að horfa út um glugga og gera á pappír frumdrætti sem hann málað síðar eftir eða studdist við minnið. Oftast útfærði hann frumdrögin og færði inn í málverkin eftir eigin höfðu þótt þau hefðu verið dregin fremur raunsæislega á pappír, yfirleitt brúnan umbúðarpappír sem hann fékk hjá Einari kaupmanni í Garðhúsum og launaði fyrir á sinn hátt með málverkum af Gömlu búðinni. Hjá Kaldalóns málaði hann og svaf í herbergi sem hann hafði til umráða uppi á lofti í húsinu vestanverðu, þaðan sást yfir brekku með kúm kaupmannsins. Á þessum tíma fóru form þeirra að heilla hann með ýmsu móti, sér í lagi belgdu formin sem komu fram í skrokki liggjandi dýra. Hann gerði einnig frumdrög uppi á lofti í Múla, húsi efst í hverfinu, þar sem var sýn til austurs; bæði húsin risu það hátt að hann málaði niður á við, svo flest í málverkum hans er svolítið séð að ofan og víddin eða eðlileg fjarlægð í náttúr­unni hvarf þannig að mestu: Hús, dýr, menn og stundum fjöll, urðu að niðurvísandi formum dregnum við hliðina á öðrum formum færðum í hæfileg þrengsli. Hann mun aldrei hafa beint penslum sínum í norður, aftur á móti lýsa mörg málverk sýn til suðurs og þá hefur hann sjóinn fyrir bakgrunn, úfinn vegna þess að brimið hefur fleiri form en sléttur sjór.
Þótt Gunnlaugur hafi málað talsvert í Grindavík á árunum eftir 1940 mun hann aðeins hafa haldið þar eina sýningu í barnaskólanum í Járngerðarstaðahverfinu og ljósmyndir eru til af henni en málverkin á þeim eru ógreinileg. Á einni er Kaldalóns eini gesturinn og engum mun hafa dottið í hug að kaupa. Fólk á þessum tíma átti hvorki peninga né hafði inngrip í listir og fanst eflaust líka ástæðulust að negla á vegg málverk af sjálfu sér, myndir af eigin húsum og umhverfi sem það gerþekkti. Af slíku hafði það daglega nóg og auk þess ókeypis og eflaust þreytt á því ef það hugsaði um nokkuð í dagsins önn. Engu að síður urðu nokkur málverk og teikningar eftir í þorpinu því fólk var hlýðið við að „sitja fyrir“ á myndum gerðum með svartkrít sem þótti viðeigandi litur en lítið vitað hvernig fyrirmyndunum leist á teikningarnar og aðeins til athugasemd Aðal­geirs í Krosshúsum, sem á að hafa sagt eftir að hafa skoðað mynd af sér: Mér finnst þú ekki gera mig nógu hörkulegan.
Athugasemdin ber með sér að sjómenn hafi ekki búist við fegraðri mynd heldur því að sjá þá innri og ytri hörku sem þeir töldu einkenna sig. Löngun og þörf fyrir að fegra, sem er alkunn krafa til höfunda skáldsagna, náðu ekki til málaralistarinnar nema í Reykjavík þar sem smekkur sunnudagamálara og millistéttar réð lögum. Gunnlaugur var samt, vel á litið, skrásetjari hins ytra veruleika með ýmsu móti og frásagnarmaður með sínum hætti, eins og eftirfarandi dæmi sannar:


Gamla búðin

Brot úr frásögu í ævisögu Tómasar Þorvaldssonar fyrrum útgerðarmanns í Grindavík

Hann (Einar eldri, kaupmaður í Garðhúsum) var meira en meðalmaður á hæð, en miklu meira en í meðallagi á breiddina, feitur og með myndarlega ístru, fremur þunnhærður, búlduleitur í andliti og gekk með lítil, kringlótt gleraugu.
Búð Einars, eins og ég man fyrst eftir henni, þætti ekki stór nú á dögum; varla meira en um þrjátíu fermetrar. En hún breyttist og stækkaði smátt og smátt. Verslunarhúsið var úr timbri, ein hæð með lágu risi. Í fyrstu var gengið beint inn í búðina, en fljótlega var byggð lítil forstofa.
Þegar inn var komið, varð fyrst fyrir U-laga búðarborð, sem oftast var nefnt diskur.
Á hliðarborðinu vinstra megin var fremst póstkassi, því að búðin gegndi líka hlutverki pósthúss; menn kíktu í kassann um leið og þeir versluðu til að gá að, hvort þeir hefðu fengið bréf. Þarna fyrir innan var seinni árin glerkassi með ostum og fleira góðgæti.
Innan á sjálfu búðarborðinu, sem sneri fram, voru skúffur svo stórar sumar hverjar, að þær tóku tvo mjölsekki ... Hægra megin á aðalborðinu stóð svo grind með umbúðarpappír, þremur rúllum af mismunandi stærðum. Og þar við hliðina var peningakassi ...
Á hliðarborðinu hægra megin var fyrst hleri og hurð ... Við hliðina á því var loks púlt með rimlum fyrir framan, þar færði búðarmaðurinn í þykkar bækur andvirði þess, sem viðskiptavinirnir tóku út eða lögðu inn.
... Og margs konar varningur hékk í loftinu, einkum búsáhöld - og blikuðu eins og stjörnur á heiðskíru húmkvöldi.

Gunnlaugur málaði nokkrar myndir af þessari verslun sem hann kallaði Gömlu búðina. Þær eru ekki bara list í sjálfu sér heldur er hægt að sjá á þeim hvernig verslunar­máti tímans breytist og framboð á vörum eykst. Fyrir bragðið væri eflaust hægt að kalla aðferðina félagslegt raunsæi, en annars notaði hann ýmsar leiðir við að fella í mynd hið séða og óséða, en í lok ferils síns það sem aðeins minnið sér eftir að augun hætta að sjá hlutina.
Því er það að ljósmyndir, t.d. af Gömlu búðinni og málverk af henni fara ekki alltaf saman og ýmislegt ólíkt. En alltaf má þekkja á ljósmynd eða málverki Einar kaupmann af kringlóttu gleraugunum og Sigvalda Kaldalóns, ef hann kemur fram á sjónarsviðið. Aftur á móti stendur hið óþekkta á einu af málverkunum framan við búðarborðið, aldur­slaus kona með það sem hægt væri að kalla alhliða andlit, það er án persónu­einkenna. Hún er með skuplu bundna undir kverk og heldur á körfu sem var óþekkt eða þekktist ekki í Grindavík. Karfan er það sem hægt væri að kalla erlenda fyrirmynd og konan verður tákn fyrir nafnlausa kaupandann.


Uppi á Ísólfsskála

Gunnlaugur málaði ekki aðeins í þorpinu heldur færði hann sig nokkrum sinnum upp að Ísólfsskáli. Þá bjuggu þar Agnes Jónsdóttir og Guðmundur Guðmundsson ásamt dætra­dætrum Agnesar, Önnu Guðmundsdóttur og Sigurbjörgu Stefánsdóttur, sem þau ólu upp og voru börn að aldri. Gunnlaugur hafði kynnst dóttur hjónanna, Sigrúnu sem var barnakennari, líklega heima hjá Sigvalda Kaldalóns eða gegnum Valgerði Briem teiknikennara, vinkonu úr Kennaraskólanum. Hann var eins og það heitir á eftir Sigrúnu og hafði gefið henni lítið málverk með útsýni frá þorpinu að heimahögum hennar á Ísólfsskála sem hún hengdi á vegg hjá sér. Um þessar mundir bjó hún í herbergi á annarri hæð með tveimur gluggum á suðvesturhorninu á Múla í Járngerðar­staðahverfinu en þar fyrir ofan í þakherbergi fékk hann „af vissum ástæðum“ að mála út um glugga og gerði það í þeirri von að hann gæti séð henni bregða fyrir á ganginum niðri.
Sigrún gaf honum ekki undir fótinn en hún hefur líklega boðið honum að dvelja heima hjá foreldrum sínum þótt vitað væri að hann mundi ekki létta undir við búverkin sem aðir gestir gerðu venjulega, rökuðu heyið eða annað í þeim dúr. Á Ísólfsskála var gestkvæmt á sumrin en enginn bjó þar á veturna nema hjónin, telpurnar og yngst sonurinn Ísólfur. Ekki var búist við neinu af Gunnlaugi; alkunna var „af fréttum um náungann“ að hann gerði ekkert gagn niður í hverfi nema örlítið fyrir Sigvalda Kaldalóns þegar beljur voru geldar í Járngerðarstaðahverfinu og enga mjólk að fá, þá sótti hann hana í brúsa austur að Hrauni í Þorkötlustaðahverfinu. Hann lallaði það sem var kallað „á milli hverfa“ og fólki fannst furðulegt að sjá hvað göngulagið var jafnt og ákveði og hann skyldi hvorki svipast um né líta til hægri eða vinstri. Eina frávikið frá háttbundnu göngulagi var eftir miklar rigningar að hann vék á einum stað af veginum upp á bakka, norðan við Garðbæ, vegna þess að fyrir honum var drullupollur. Þar sem svaðið tók enda færði hann sig aftur niður á veginn og hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist.
Börn í hverfinu horfðu á eftir þessum framandi manni sem forðaðist pollinn - helsta gleðigjafa þeirra - hélt upp bakka, hvarf og kom aftur í ljós við hæðina ofar á veginum, hvarf þar um stund en birtist á sömu hæð, krækti fyrir pollinn og hélt fyrri leið til baka, nú með brúsann fullan af mjólk, og hvarf sjónum þeirra yfir hæðina í vestri. En einn góðan veðurdag var maðurinn horfinn, kominn að Ísólfsskála Ekki var þá vitað hvers vegna hann hætti sér skyndilega langt austur fyrir Hraun, svona þungfær maður yfir fjallveginn. Kannski fór hann ekki fótgangandi heldur aftan á palli hálfkassabíls að vorlagi með Sgrúnu kennara, Sigvalda Kaldalóns og bróður hans nýkomnum frá Ítalíu, óperu­söngvaranum Eggert Stefánssyni og konu hans, Leilu sem var stórnefjuð og mikið máluð aðalsfrú. Að grindvískri sögn opnaði hún aldrei munninn innan um aðra fyrir það hvað hún var ófríð. Hún virtist alltaf vera mædd eins og Eggert var síþreyttur og þess vegna fór Sigrún stundum með þau á kassabíl eða hálfkassabíl upp á Skála þar sem þau settust í gra­s­sætið í blómagarði Agnesar ef veðrið var gott og drukku sér til upplyftingar kaffi og borðuðu sprautukökur og hálfmána úr blikkdós.
Á Ísólfskála dvaldi Gunnlaugur nokkrum sinnum einkum við það sem var kallað að snúast í kringum sjálfan sig eða mála myndi af Agnesi við að mjólka kýrnar. Hann gerði það með eina penslinum sem hann átti en var svo óheppinn að týna honum. Við það varð hann verklaus, en til þess að geta haldið lífi hét hann á stelpurnar að hann skyldi teikna af þeim mynd ef þær fyndu pensilinn. Bagga fann hann í flórnum undir dellu úr uppáhalds­kúnni hans, og hann stóð við orð sín en árangurinn varð sorglegur bæði fyrir Böggu og málarann sem sýndi þá skyndilega á sér nýja hlið: Hann fór að segja sögur.
Ekkert var tekið fyrir dvölina en kannski fann hann sig knúinn til að borga á einhvern hátt fyrir sig og sagði fólki sögur eða las þær sem hann virtist hafa skrifa og samið. Af þessu höfðu allir góða skemmtun en ef gestir eða gangandi hittu á sögustund settu þeir upp hundshaus og fannst þeir ekki vera í heimsókn til þess að hlusta á mann sem gekk um túnið „með krosslagðar hendur“ eða „kjaftaði upp úr sér“ eins og sögurnar voru kallaðar. Á daginn flæktist hann um hraunið, teknaði mikið og svaf á loftinu. Þaðan var útsýni yfir sjóinn og blómagarð Agnesar með U-laga sæti í miðjunni, hlaðið úr gras­torfum. Síðar notaði hann sætið á myndum sem hann kallaði gjarna Á engjum.
Stundum á sumrin dvöldu heima dætur hjónanna, Sigrún og Valgerður; hún síður. Skapgerð þeirra var ólík, Sigrún dreymin, ljóðræn og óraunsæ en Valgerður vinnusöm, raunsæ og hagsýn. Úti- og inniverk lentu helst á henni. Í þessu voru systurnar líkar Mörtu og Maríu. Sigrún hafði unun af að heyra sögur Gunnlaugs á meðan Valgerður mæddist í mörgu við að elda og þrífa auk útiverka, venjulega með móður sinni. Sigrún segir að Gunnlaugur hafi fyrst komið á Skálann (Ísólfskáli var kallaður það í daglegu tali) með Selmu, dóttur Kaldalóns. Þau sátu með Eggert og Leilu á sykurpokum aftan á palli hálfkassabíls manns sem bruggaði með sérstakri lagalegri heimild ofan í skáldið Einar Benediktsson sem bjó í Herdísarvík og Eggert ætlaði að taka lagið fyrir skáldið. Sigrún mundi ekki hvort hann söng af pallinum framan við glugga Einars sem mátti opna en annars var hann hafður inni í herbergi í einskonar búri. Á leiðinni var komið við á Ísólfsskála til að fá mjólk á flösku og nesti sem var algengur greiði og talin sjálfsögð gestrisni að búa jafnvel ókunnugt fólk út með nesti og nýja kúskinnskó sem Eggert og Leilu leist einstaklega vel á og hún hélt að væru fyrir íslenskan ballet. Einhverra hluta vegna voru þau svo óforsjált að vaða út í hálf veglausar ófærur á hálfkassabíl með hvorki almennilegt á fæturna í grjóti til að ganga á né neitt til að nærast á nema sykur sem átti að fara í bruggið handa skáldinu.
Í þessari ferð er sagt að Gunnlaugur hafi orðið alvarlega hrifinn af Sigrúnu og í síðari dvöl hafi hann verið að eltast við hana eða reynt að slá tvær flugur í einu höggi, mála og hreppa auðlegð ástarinnar. Úr því Sigrún var aðeins heima að sumarlagi dvaldi hann þar líka á þessum árstíma. Hún sagði löngu síðar að stundum hafi komið á leigubíl sínum úr Reykjavík Jón Vilhjálmsson hálfbróðir hennar, sonur fyrri manns Agnesar, ástamt Boggu, konu sinni og börnum, Einari og Eddu. Gunnlaugur tók þá upp á því að segja þeim líka sögur á kvöldin og prófaði eigin skáldskap á telpunum áður en fullorðnir fengu að hlusta. Þær, eins og aðrir, munu hafa haft misjafnt gaman af sögum. Valgerður hafði ekki tíma til neins, Agnes hlustaði með öðru eyranu, Ísólfur hafði aðeins áhuga af sögum um tófur en Guðmundur var fyrir allskonar frásögur og gaf sér góðan tíma enda átti hann duglega konu og dóttur. Sigrún naut líka sagnanna og hló barnslega glöð. Ef „Jón og Bogga“ dvöldu fram eftir kvöldi eða gistu nótt og Gunnlaugur tók upp á því að segja eða lesa sögur, fannst Boggu þetta vera þvættingur. Og þar sem hún var líklega orðljótasta og hreinasta og beinasta kona sem uppi hefur verið á Íslandi og fór ekki í launkofa með skoðanir sínar, þá bölvaði hún sögunum í sand og ösku og bað hann að halda sér saman. Þetta fékk á hann og kannski til að bæta fyrir brot sitt í skáldskap eða ef til vill langaði hann að vinna hug Boggu, sem var ekki aðeins gullfalleg heldur einstaklega virðuleg, gædd tign og þokka aðalskonu þangað til að hún byrjaði að bölva, ákvað hann að mála olíumynd af dóttur hennar sem var líka fagurt barn en varla fríðari en Bagga og Anna, en hann hafði teiknað þær oft, einkum Böggu fyrir að finna pensilinn, og sumar þessara teikninga eru til. Hann hefði eiginlega fremur átt að mála olíumálverk af þeim sem gerðu meira fyrir hann en Edda, hún gerði ekkert og sögð láta aðra gera allt fyrir sig og beitti til þess fegurð sinni, einkum með kyssilegum þykkum vörum og þunglyndislegum svip.
Á meðan Gunnlaugur málaði myndina af Eddu ákvað Valgerður að reyna að láta hann verða að öðru og meira gagni og kenna honum að slá með orfi en þegar til kom gekk það engan veginn og hún gafst upp. Honum miðaði betur við málverkið sem hann fullgerði en örlögin ákváðu um haustið, eftir að kartöflur höfðu verið teknar upp, að Valgerður sá í því notagildi og breiddi strigann yfir rifur á gisnum botni á trékassa svo útsæðis­kartöfl­urnar hripuðu ekki niður um þær. Þannig hvarf það en kom um vorið öllum til furðu undan útsæðinu ónýtt sökum fúa og hvarf þannig úr sögu íslenskrar myndlistar. Blýants­teikningar af Eddu hafa aftur á móti varðveist enda tók Gunnlaugur þær með sér þegar hann hvarf fyrir fullt og allt af Skálanum og notaði seinna hluta af þeim í verk sem hann málaði eftir minni. Þótt Gunnlaugur yrði enginn sláttumaður gafst Valgerður ekki upp á því að hafa not af honum. Einn daginn tók önnur beljan upp á því að yxna sem var óvænt og enginn bjóst við slíku. Þarna voru tvær kýr og hin kom líka baulandi heim, þótt baul hennar væri ástæðulaust. Á Ísólfsskála var enginn boli svo vandræði spruttu af kúnum, Guðmundur að heiman og Valgerður og móðir hennar að þvo stórþvott en hinar, Sigrún og telpurnar, önnum kafnar í bæjar- eða útiverkum. Í æsku höfðu systurnar, Sigrún og Valgerður, beðið með bæn á vör og óþreyju eftir að belja yrði yxna og báðu guð á kvöldin að hann vekti þær við hið sérstaka baul. Á þessum afskekkta stað voru fá tilhlökkunarefni nema ef þannig var ástatt hjá kúnum, þá fengu þær að fara með föður sínum yfir fjöllin niður að Hrauni; þar var tuddi. Nú voru þær í blóma lífsins, orðnar viðkvæmar á þessu sviði og skömmuðust sín háfpartinn fyrir að fara með yxna belju í taumi eins og ástand kýrinnar tengdist þeim persónulega. Í þrönga þorpssamfélaginu hefði það að leiða kú undir tudda þótt til háðungar fyrir ungar stúlkur svo þeim fannst standið jafnvel dónalegt og engin lausn fyrst faðir þeirra var að heiman. Eina ráðið var að fá Gunnlaug til þess að leggja penslana frá sér og leysa vandann. Hann hafði fundið skylduna þegar hann heyrði baulið í báðuð kúnum sem hann hafði málað oft á básnum en hlédrægnin breyttist í skelfingu og hann dreif sig út í hraun til að teikna í von um að þetta gengi yfir eins og verkir. Þegar hann kom frá list sinni var Agnes eyðilögð yfir að hún yrði að hlaupa frá þvottinum fyrst hún heyrði hvað dæturnar voru fínar með sig og teprulegar en varla hægt að treysta Önnu og Böggu einum fyrir viðþolslausri kúnni, svo hún tók svuntuna af sér og sagði:
Ég verð þá víst að fara.
Hún var lítið fyrir að bregða sér af bæ og kom flestum tengslum við umheiminn á aðra nema jarðarförum.
Þetta gerðist um hádegið og svengdin hafði rekið Gunnlaug frá vatnslitunum, en þegar hann heyrði vandræðaganginn og sá að ekkert hafði verið hugsað um mat, þá tók hann af skarið og sagði:
Ég skal fara og vera fljótur að þessu.
Að hugsuðu máli fannst fólkinu óviðeigandi að listmálari teymdi á eftir sér yxna belju, maður sem kappkostaði að láta lítið fara fyrir sér. Hann stóð yfirleitt þétt við veggi og virtist reyna að hverfa eða vera ósýnilegur. En í þessu var engin undankomu­leið þegar Valgerður ákvað að ekki væri meira fyrir listmálara að fara með kúna en ungar stúlkur minnug þess að Eggert Stefánsson óperusöngvari virtist eitt sinn hafa geymt fram á útmán­­uði að snúa aftur til Ítalíu með Leilu og kom með séra Brynjólfi um fengitímann og bað föður hennar um að þeir fengju að fara með út í fjárhús til að sjá hvernig hann leyfði hrútinum að þefa af kindunum. Eggert tók Leilu greifafrú með og þau virtust njóta þess að sjá furðuverk náttúrunnar og þegar þau höfðu séð í fyrsta sinn hvernig hleypt var til og hegðun hrútsins gat Eggert ekki orða bundist við Valgerði þegar hann kom aftur inn í eldhús reynslunni ríkari og sagði: Ég gat dáðst að kurteisinni í hrútnum. Hann sætti sig við það ef rollurnar vildu ekkert með hann hafa. Það er annað en karlmenn á Ítalíu.
Leila virtist bæði skilja og vera sammála svo hún kinkaði kolli.
Með ástand kýrinnar séð í þannig alþjóðlegu listasamhengi fannst Valgerði ekki óviðeigandi heldur sjálfsagt að senda Gunnlaug og hafa aðra telpuna með til að reka á eftir og lemja með priki í halann.
Ferðin varð ekki löng því þegar komið var upp skriðurnar á bjallann mættu þau Guðmundi sem tók við kúnni.
Líklega hefur reynslan haft áhrif á Gunnlaug, því þegar hann var kominn „niðreftir“ stóð hann lengur en venjulega við gluggann á efri hæðinni í læknishúsinu hjá Kaldalóns og teiknaði kýrnar sem lágu jórtrandi í túninu langt fyrir neðan í Krosshúsabrekkunni.
Af málverkum og teikningum Gunnlaugs frá Grindavík eyðilagðist ekki aðeins litla málverkið af Eddu á botni kartöflukassa, fleiri fóru forgörðum á svipaðan hátt, skemmd­ust næstum eða þeim var bjargað á síðustu stundu. Hann málaði með vatnslitum á umbúðarpappír úr búð Einars kaupmanns en brá stundum út af þessu og notaði teiknipappír. Til dæmis teiknaði hann á þannig arkir krakkana Önnu Guðmundsdóttur, Bjarna Bergsson og Sigurbjörgu Stefánsdóttur. Fundarlaunin höfðu verið teikning af henni við að spinna á rokk en henni fannst hárið á sér vera tætinglegt og andlitið svo ellilegt að hún reif hana í laumi. Aftur á móti geymdist teikningin af Bjarna sem heimsótti Gunnlaug í Reykjavík, líklega tuttugu árum eftir að hann hætti að koma á Ísólfsskála, og spurði eftir henni. Gunnlaugur hefur haft myndir sínar í röð og reglu því hann brá sér frá og kom aftur og gaf honum hana og rissi af Önnu sem heldur á Vilhjálmi Bergssyni, bróður hans. Að minnsta kosti ein teikning er til af Önnu í eigu Listasafns Íslands og önnur af Eddu. Vatnslitamynd af Ísólfsskála bjargaði Sigrún frá glötun þegar Valgerður hafði kreist hana saman og fleygt í ruslið af því hún dugði ekki utan um smjörsköku. Það er einkennilegast við þessa mynd að krumpurnar auka fegurð hennar. En örlagaríkasta myndin var olíumálverk sem hann málaði af Sigrúnu. Ástæðan fyrir þessu var sú að Kaldalóns sagði einhvern tímann:
Þú þarft endilega að mála mynd af henni Sigrúnu; annað gengur ekki.
Gunnlaugur varð hugsi en spurði síðan:
Hvers vegna?
Hárið á henni er svo fallegt, svaraði Kaldalóns.
Hann tók hann á orðinu því hrifning hafði blossað upp í honum þegar hann ók með Selmu og Eggert til að syngja og brugga fyrir Einar Ben, en hann fékk víst ekki að teikna mynd af skáldinu í glugganum.
Sigrún kenndi í Þorkötlustaðahverfinu en átti heima í Járngerðarstaðahverfinu og var í góðum kynnum við Kaldalóns. Þetta leiddi til tíðra „Skálaferða“ svo hann bauð henni í staðinn í mat og þannig kynntist hún Gunnlaugi betur og fleira listafólki sem heimsótti eða bjó um lengri eða skemmri tíma í þorpinu, eins og Steinn Steinarr, Þorbergur Þórðar­son, Halldór Laxness, og eiginkonur beggja, Margrét og Inga, og Ásmundur Brekkan sem hljóp um á stuttbuxum. Kaldalóns kallaði oft á annað fólk til sín að hlusta á síðasta sönglagið sem hann hafði samið og bar það undir álit manna. Ekki minnkuðu tengslin við það að Sigrún var eina manneskjan sem hafði keypt mynd af Gunnlaugi þegar hann bjó í Reykjavík, uppi á lofti austanvert í Næpunni, húsi sem var þá kalla Spýran. Mál­verkið var ekki af sjónum, hann fór ekki að mála hann af alvöru fyrr en löngu síðar og biðja sjómenn að sitja fyrir sem þeir gerðu fúslega og kipptu sér ekki upp við að hann gerði þá stórkarlalega. Hann bað líka konur að sitja fyrir en þær voru tregar raunsæis­manneskjur sem virða sannleikann og viðkvæmar fyrir fegurð sinni, hræddar við að verða ljótari á teikningu en í veruleikanum. Ein kona sat þó fyrir, Gunna á Hópi, með því skilyrði að auðsætt yrði á myndinni að henni féll aldrei verk úr hendi, svo hún valdi sem sönnun að fá mynd af sér við að prjóna. Hún var máluð á umbúðarpappír og virðist hafa týnst.
Gunnlaugur hafði meira fyrir Sigrúnu en það að nota umbúðarpappír og lét hana sitja fyrir lon og don. Því hefur verið haldið fram að hann hafi ekki verið að flýta sér heldur tafist í samræmi við það hvað hann var seinn til ásta svo hún sat þolinmóð á meðan hann lét listina og ástina gerja í sér. Þegar hann var rúmlega hálfnaður var hann orðinn svo ástfanginn að hann lagði penslana frá sér, kraup á hnén og bað hennar. Við þetta brá henni. Hún hafði aldrei verið hrifin af honum eða gefið undir fótinn og kvaðst síðar ekki hafa getað hugsað sér að ganga að eiga jafn fátækan mann. Svo hún hafnaði honum á stundinni. Fyrir bragðið lauk hann aldrei við málverkið og ekki vitað hvar það er eða hvort hann eyðilagði það.
Þetta gerðist á Ísólfsskála að sumarlagi. Um morguninn furðaði Agnes sig á að Gunnlaugur væri ekki kominn af loftinu og sagði:
Hann hefur ekki ennþá fengið blandið sitt.
Skömmu síðar gerði fólkið sér grein fyrir að hann var farinn bak og burt án þess að kveðja og hafði tekið allt með sér og kom aldrei aftur.
Eftir þetta skrifuðust þau lengi á, Sigrún og hann, eða rétara sagt hann skrifaði henni en hún sagðist hafa fleygt bréfunum. Í þeim sagði hann henni frá lífi sínu og listinni. Hann var að hennar sögn ritfær en svo fáskiptinn að hann gat varla verið innan um aðra nema í tengslum við list sína. Það að hann skyldi skrifa og segja sögur á Ísólfsskála bendir til þess að honum hafi fundist hann vera öruggur í einangruninni þar eða reynt að nota frásagnarhæfileika fremur en málverk til þess að heilla Sigrúnu. Eitthvað hafa systur hennar vitað um tilfinningar hans því þegar hann lést sagði Guðmunda:
Ef þú hefðir tekið Gunnlaug, værirðu nú ekkja.
Þegar Sigrún giftist Guðsteini Einarssyni hreppstjóra í Grindavík varð Gunnlaugur ánægður. Eitt sinn fóru þau saman til hans að fá málverk sem Guðsteinn mátti velja sjálfur en frystihúsið, sem hann var forstjóri fyrir, ætlaði að kaupa og gefa honum. Gunnlaugur tók þessu vel og þau komu sér saman um að sjómenn ættu að vera á mál­verkinu og til allrar hamingju fannst eitt sem hann átti fullgert á lager og þeim fannst það vera best, málað í stílnum „horft að ofan“, mynd af hluta af þilfari skips. Á því eru þekkjanlegir grindvískir menn: Einar í Ásgarði, Eiríkur á Byggðarenda og Magnús á Hrauni. Í veruleikanum höfðu þeir aldrei róið saman á báti en Gunnlaugur hafði stefnt þeim á þilfar málverksins. Þótt það sé að þessu leyti andstætt veruleikanum sættust Guðsteinn og Sigrún á að láta frystihúsið kaupa verkið, vegna listrænna eiginleika hvað mennina varðar þótt það væri andstæða hugsanlegs veruleika. Að þeirra mati var listrænt gildi æðra ráðningu manna. Guðsteinn gerði út nokkra og hefði aldrei dottið í hug að ráða jafn ólíka menn á sama bát.
Gjafamálverkið mátti kosta ákveðna upphæð sem Gunnlaugi þótti of há svo hann sagðist gefa Guðsteini rammann en hann kvað það vera óþarft, frystihúsið borgaði hann líka. Hann gaf þeim þá súkkulaðipakka sem þau þáðu fúslega.
Fólk sem átti eftir að skoða málverkið fannst skorsteinninn á bátnum of skakkur, það væri galli í samræmi við aðra skorsteina á fyrri málverkum af grindvískum húsum, í þeim efnum hafði Gunnlaugur ekkert batnað. Það var minnugt á skökku skorsteinanna en furðulegast þótti að maður sem mátti velja sjálfur og var auk þess hreppstjóri hefði valið skakkt. Fólk var minnugt á skorsteina en Gunnlaugur á andlit, eða misminnugur. Það er auðvelt að þekkja á ýmsum málverkum Magnús á Hrauni og Einar í Ásgarði en á málverki Guðsteins hefur Eiríkur á Byggðarenda verið farinn að dofna í minninu svo Gunnlaugur hefur leyst misbrestinn með því að láta andlitið vera óljóst; en þetta er samt Eiríkur á málverkinu, að sögn Sigrúnar.
Þannig er dæmi um hvernig málað er eftir minni og andlit geta fest og geymst árum saman í huga málara án þess að þeir hafi séð lengi fyrirmyndirnar. Einnig er sá munur á minni aðkomumálara og heimamanna að Eiríkur var Grindvíkingum minnisstæður meðal annars vegna þess að hann gekk í klofháum vaðstígvélum allan ársins hring og sagði oft fréttir sem höfðu birst fyrir mörgum árum í blaðinu Ísafold og vörður. Að sjálf­sögðu hefur ekki verið hægt að færa þær í lit eða Gunnlaugi ekki fallið frásögurnar í geð með hliðsjón af hans eigin; fundist þær vera of skakkar í tímanum.
Þetta er meðal annars sá munur sem er á orðlist og myndlist.


Málað eftir minni

Það var ekki fyrr en kringum 1960, þegar íslenska bændasamfélagið hafði liðið að mestu undir lok, bændur höfðu misst völdin og goðsagan um þá varð að hjátrú, fólk horfið úr sveitum og af útkjálkum með „rótgróna menningu sína“ til starfa hjá bandaríska hernum á Keflavíkurflugvelli, að Gunnlaugur Scheving fór að verða þekktur og viður­kenndur listmálari. Svonefndar „sjómannamyndir“ hans komust í tísku hjá ráða­mönnum og fylltu á vissan hátt skarð landslagsmálverksins á veggjum opinberra stofnana sem höfðu lengst­um verið í höndum afkomenda bændahöfðingja. Eftir það byrjaði hann að mála að miklu leyti eftir minni og málverkin urðu með ýmsum hætti táknræn, hinar áður lítt þekktu Grindavíkurmyndir breytust þannig í nýja íslenska myndsýn. Í staðinn fyrir viðfangs­efnið sjór og menn unnið á staðnum í innsæislitum komu eftirlíkingar í hreinum og skærum litum og málverkin urðu risastór.
Við það breyttist allt, fjöldaframleiðsla hófst á myndverkum. Fyrirmyndin, Grindavík, hvarf og málarinn varð eftir án hennar en geymdi huglæg áhrif innan vitsmun­anna. Þetta vinnulag „fantasíunnar“ féll í smekk nýríka kaupandans eða aðdá­andans. Þjóð­félagið þóttist vera fullt af ímyndunarafli og í framsókn en var í upplausn og rótlaus maður kýs jafnan þá blöndu sem er kennd við „fantasíu“ eða táknsæi sem verður í versta tilviki hringlandaháttur. Gunnlaugur reyndi að varast hann en fór að mála hvað með öðru: Himinsýnir kenndar við hugarflug, horfið landslag, horfinn sjó. Lista­maðurinn varð fangi aðstæðnanna. Um leið fékk hann rýmra frelsi, hann gat unnið á sinn hátt án þess að þurfa til dæmist að þjást vegna skorts á vinnuplássi, finna áhugaleysi eða það að aðstæður hans væru tengdar velvilja fárra. Þetta er þröskuldur í starfi málara. Nú var engu líkara en stærð hans sjálfs í samfélaginu birtist í stærð málverkanna: Aukin frægð og frami merkir stærri fletir sem urðu að mestu einlitir án blæbrigða. Kaupendurnir höfðu enga hugmynd lengur um fyrri fyrirsætu, hálfgleymda Grindavík, svo málarinn gat gert hvað sem honum þóknaðist, fært sætið í blómagarði Agnesar út um allar trissur, fært Guðmund með dæmigerða hattinn sinn á hvaða stað sem var: Fyrri veruleiki varð að formum og táknum eða bara fylling. En eitt var áberandi í fari Gunnlaugs, hann gat ekki forðast þá meðfæddu og vitrænu hugsun sem fólst í formfléttum: málverkin urðu vitsmunalegri en líka meira undir áhrifum frá öðrum en áður hafði verið, erlendum málurum sem voru í tísku í samtímanum. Annars var Gunnlaugur aldrei málari sem dró til sín eða tileinkaði sér verk­lag í erlendri myndlist, ekki einu sinni þegar hann var á ungum aldri. Hann ýtti ekki undir sköpunar­máttinn t.d. með ferðalögum og því að skoða málaralist í erlendum söfnum, í staðinn var hann hneigður fyrir að skoða myndir af málverkum í bókum, litirnir eftir að hann varð frægur urðu jafnvel dálítið málverkabókalegir, og það er auðvelt að rekja áherslur í verkum hans til vissra bóka. Taflborðið hjá Braque varð að stýrishúsi á fiskibáti sem áhorfandinn tekur gott og gilt, hann þekkir hvorki málverk Braque né stýrishús, hann sér aðeins verk eftir „einn þekktasta málara okkar“, eins og það var kallað.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur