Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Fugl af steini við umferð og fleiri þættir eftir Thor Vilhjálmsson


Fugl af steini við umferð
Eyebrows painted green are a fine sight in young moonlight gracefully painted
Ezra Pound

Hún sat á steini, og horfði á hann einsog hún ætlaði að endurheimta sál hans, og hélt tveim fingrum um stöngulinn á blómi með hvítan bikar og gula miðju, og bar það að nefi sínu að finna hvort það bæri ilm, einsog hún hygðist anda með sér þessu litla blómi inn í hann. Og eftir því sem blómið hvíta sem var svo kyrrt milli fingranna fló nær honum, dökknuðu augu hans.
Svo dimm. Og skuggarnir af augabrúnunum kom ekki á björt og græn augu hennar heldur á augnlokin sjálf undir háum boga augabrúna: Veiztu, segir hún svo: það eru til blóm sem lokast við að koníaksilmur komi í stofuna.
Af mér gott að frétta, hafði rödd hennar sagt: meðan það varir. Eru einhver takmörk sett því?
Já ég veit ekki um mig. Ég er þannig, sagði röddin og honum fannst votta fyrir andvarpi: breytileg.
En aðrar persónur sviðsins, hvað um þær? segir hann skámælt því hann var að hugsa um sig. Hvort hugur hennar væri samur til hans: Hvað með aðrar persónur, segir hann einsog hann væri að lesa upp af blaði: sem eitt sinn voru í miðju leiksins? Er hetja leiksins horfin sýnum? Eða hvað hahaha? Kannski einsog einhverjir fölir skuggar úti við sjóndeildar hring. Langir að teygjast og gliðna svo fölir, og fer senn að sjást í gegnum svipinn. Og verður ský sem leysist upp úti við sjóndeildarhring. Einsog ský.
Nei. Ekki einsog ský.
Ekki ský; kannski þá einsog steinn í landslaginu sem þú tekur eftir óvænt þegar þú ert að hlaupa framhjá og sérð mannsmynd á, og manst þá að það var eitthvað sérstakt. Steinn, sá sem varð úti þegar dagur reis, nátttröll þegar sólin kom upp. Og þú heldur áfram.
Kannski eitthvað ...
... tekur kannski eftir honum af því það situr fugl á steininum.
Þessu játar hún, og tekur til þakka að hann er að hjálpa henni að særa sig. Hjálpa henni að losna undan valdinu, rjúfa álögin, skerða mátt sinn frá því hann átti eitt sinn hana.
... tekur eftir, þegar fuglinn flýgur upp, við ferð þína, þegar þú hleypur hjá.
Flýgur upp.
Já flýgur annað. Burt.
Og sérð þá, það er farinn að vaxa mosi á steininn. En sást mannsmynd ennþá á honum, og dokaðir kannski aðeins við, líkt og tvíátta. En ert það þó ekki. Heldur ferð leiðar þinnar. Og hefur gleymt.
Ekki, segir hún. Jú, segir hún svo: já, og já, segir hún.



Skella á bergvegg, einsog fiðrildi

Unga konan kleif fimlega kletta, stiklaði um stóra steina og hljóp yfir sprungur og gjár, upp að hömrunum og stóð við mælskan steinvegginn, og lagði blítt vangann að stálinu, hjá hvítri skellu af skóf, sem var einsog eitt af fiðrildum doktorsins til að rýna í sálarvöfin, og hann stóð agndofa og horfði á þá mynd.
Hann stóð á tó neðar, og hallaði höfðinu að maga hennar, einsog hann væri að hlusta eftir einhverju; en var þó bara að hugsa um hvernig andlit hennar var og hún væri að hlusta úr berginu á sínar eigin hugsanir um sögurnar úr fortíðinni.
Og rétt við vangasvip hennar lifnaði þessi hvíta skella á bergveggnum, ofvaxið fiðrildi að flögra hjá hennar granna beina nefi, án þess að kitla það meðan hún einbeitti sér að því að hlusta á dulsmál innan úr berginu fyrir ofan hylinn þar sem konunum hafði verið drekkt.
Stelkur að stikla með vængina einsog með hendur á bakinu, að teyma drýsil fyrir skrattann; og spóinn var að vella. Lóan með orm lafandi og iðandi báðum megin við gogginn, og samt að tína upp sitthvað með gogginum.
Svanasöngur neðan frá vatninu.
Svartþröstur nýkominn, æ og svo krían með sitt prúða gjugg.
Þegar kvöldroðinn blandast við morgunroðann. Hvílík dýrð, sagði hann lágt.
Hringurinn maður, segir hún og röddin dökk sínu: hvað er hann nema skaut konunnar. Formið. Þú veizt hvernig það er í laginu. Legskálin ha? Og hafði tekið hárið saman í hnút í hnakkanum, augun rökkvuð lukt til hálfs. Og engin gola bærði strá, né víðan rauðgulan kjólinn, sem var faldaður þvert að aftan um miðjan kálfa.
Og síðan hló hún ögurstundina dimmum tón niður í moldina, og út í bláinn.



Blómleggur

Blómleggur sem gengur inn um ennið á fremsta manninum og út um hnakkann, og inn um enni á þeim næsta. En sá fremsti hafði sjálfan blómbikarinn fyrir andlit, hvítan með gulri miðju. Löng röð á göngu um borgina, á kyrru kvöldinu.
Fólk. Og eitt langt blóm.
Röð af fólki. Í halarófu bundið saman af óralöngu blómi, sem sá fremst hélt upp á brjósti sínu einsog brothættum skildi. Og hinir héldu sér í blómlegginn. Hægri hendi, líkt og í handrið. Að fikra sig áfram, einsog ormur. Fólkormur.



Rósablað á Laó Tse

all the music heard so deeply that it is not heard at all, but you are the music
T. S. Elliot: The Four Quartet

Hann fann vanga sinn þyngjast á handarjarkanum sem hristi á móti í holvangann, á jaxlagómana, meðan að hálfu visin rósablöðin titruðu við opinn gluggann af vingjarnlegri golu dagsins úti; en bikarinn var úfinn og dökkur, einsog hjarta svikinnar konu sem vaknar að morgni þreytt. Hún stóð hjá stórum hraunsteini með smelltum bollum í gluggakistunni. Blárauðum og nibbóttum með dökkt skaut í svörtum skugga, útafliggjandi. Eitt blað dimm­rautt að nálgast svart lá ofan á gljáklæddri Bókinni um veginn eftir Laó Tse, og spurði heiminn um eitthvað; en hann var orðinn of hraður á ferð sinni að fossbrúninni.
Hver?
Heimurinn.
Ha heimurinn! Hvaða fossbrún?
Láttu ekki svona. Þú veizt vel. Hvað ég meina.
Talaðu skýrara. Vertu ekki með svona hátíðlegar líkingar. Sem eru svo barnalegar samt.



Hefðirðu bara rétt út höndina

Hefðirðu bara rétt út höndina. Ef þú hefðir bara rétt út höndina eftir mér.
Þú sagðir, þú mátt ekki horfa á mig.
Þá fórstu að snúa öskubakkanum. Þú þurftir ekki nema að segja eitt orð. Eitt einasta orð. Koma við mig. Ég beið eftir því. Hefðirðu bara tekið hönd mína.
Ég kom við hönd þína, segir hann: hún var svo hörð. Svo köld. Ég var hræddur um að þú færir að gráta. Ég vildi ekki hætta á það. Vildirðu ekki hætta á það! Þú segir þetta bara. Ég trúi þér ekki.
Trúirðu mér ekki?
Jú. En þú hlýtur að skilja hvað þetta er, þetta er svo vonlaust.
Þetta slítur mér. Þú vilt engu fórna.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur