Tvö ljóð eftir Einar Steinþórsson
Kvöld í Flatey
Ég dvaldi um kvöld í Flatey
og dimm voru haustsins ský.
Þá döggin lék við grundir.
Ég labbaði niðrá pláss, til að leita eftir því
að lifa upp góðar stundir.
Nú engin sá ég lampans ljós,
sem loguðu eins og fyrr, og ljós var þá í Strítu.
En kyrrðin ein hún kom til mín og hvíslaði undur hlý,
komdu í fallna spýtu.
Já, tíminn breytir öllu, nú loga engin ljós
í Lúllabúð á kvöldin.
Þá inn í kvöldsins húmið, steig æskan heit og rjóð
og algleymið tók völdin.
Já ennþá standa hlöðurnar, þær engu hafa gleymt.
Af ást og tryggðarbandi.
En máninn upp á himninum, hann man nú aldrei neitt
það er merkilegur fjandi.
Vetur
Hvað er vetur, fönn um fjall og dal,
foss í klakabrynju, innst í hamrasal.
Hrím á glugga, ísnálar á eik.
Undurfagurt sjónarspil
og börn að leik.
Hvað er vetur, stormar, stilltur sær,
stjörnubjört er nóttin, máni skær.
Norðurljós á himni hefja sína för.
Huldufólk sem dansar sátt
með bros á vör.
Hvað er vetur, kóf og kafaldshríð,
að kveldi dags þó birta muni um síð.
Úr náttstað flýgur krummi, um miðja morgunstund,
til móts við sína félaga
á góðra vina fund.
Hvað er vetur, fugl í fæðuleit,
frosin jörð og hrossastóð á beit.
Sendlingur við sjávarfjöruborð.
Samspil lífs og náttúru,
mánaskin á storð.