Fjórir þættir eftir Thor Vilhjálmsson
Áin undir trébrú
Trébrúin var mjó og hvíldi á torfstöllum og tröppur upp að báðum megin, og undir dundi áin. Hún var í síðum hvítum kjól, og heyrði fjarlæga tónlist færast nær í faðmi hans. Hann hafði tekið utan um hana, og dregið hana að sér. Hún rétti honum hlæjandi munninn, og hún hafði opinn munninn til að hlæja meira, og hann kyssti varir hennar tvisvar. Og hún sagði: Allt er þegar þrennt er; og vissi ekki hvort hann hefði þegar kysst hana þrisvar, undir söng áin. Og munnur hennar opnaðist; og hún hló ekki meira, og koss þeirra var langur og djúpur. Og tungan svolítið hrjúf og lá þung fyrir, unz lyftist og vafðist um hans, og varð svo bragðljúf og fegin, meðan augu hennar stækkuðu og dökknuðu. Og hún lá þung í faðmi hans meðan sálin vængjaðist og sveif.
Hlátur frá seglunum
Dedicace
Ah milles flammes, au feu, la lumiére
une ombre!
le soleil me suit
Jacqueline me prolonge.
Paul Eluard
Sjá nú andlit hennar. Nei hann sá það reyndar ekki. Nú var bara gríma. Úr plasti og líktist óhugnanlega gifsi. Og svívirða hve raunverulegt það sýndist.
Með svart hárið uppsett og virtist á japanska vísu (minnti á geishu, og steypt í festu með of miklu lakki sem rígbatt það með sveipum sínum og bylgjum en sléttir speglandi fletir milli).
Andlitið hvítt einsog marmari, og skuggi lá yfir aðra tómu augnatóftina, sem væri af fuglabeinum eða músa.
Tómar tóftir, tómar nasir, og munnurinn opinn vinstra megin og sýndist sama svarta myrkur sem hitt. Stóru hárbylgjurnar svörtu með gjárskuggum blám og hálýsi á sléttu flötunum upp á. Opið á geimfarabúningnum sýndi myrkur og tóm. Undir grímunni grunaði hann andlitið enn, kringluleitt. En kannski var ekkert undir grímunni þó.
Kemur þá ekki hlátur frá því handan við sundið, frá hvítu seglunum sem sigla inn í himininn. Hvítur upp úr bláum sjó kemur þessi nærgengi hlátur.
Inni við þögnina sem hrökklast undan þungum augum og glaumi í þröngum götum. Inn í skuggana í húmi kvöldsins sem taka að safnast í göturnar sem í gjásprungur, meðan himinninn er ennþá bjartur blár og skýlaus, en sól stendur lágt.
Rauð kringla sem nú er hægt að horfa í, sem vagar lágt yfir bláum flóa. Á húsin við höfnina og skipin bregður sterkum rósleitum bjarma og hnitar liti þeirra. Hvítt verður þá stundum bleikt, stundum fjólublátt.
Og jafnvel börnin dökkna líka í leikjum sínum. Og senn verða stjörnur á himni, og ljósin taka að teygja langar rákir út á sjóinn, sem skvampar við skipsskrokkana og hafnarbakka, og léttar bárur hnita við staura sem standa upp úr sjónum, og klettana í hafnarmynninu.
Meðan skuggar ferðamannanna kyrrast í ljósi undir lukt og fælast skuggann af landabréfinu, meðan andlit þeirra í húminu verða forn, einsog af langri vöku.
Þá nótt brá svo að fullur máni speglaðist í báðum augum hennar, svo hann varð snöggvast hræddur. Hvers vegna? Var hann hræddur þá? Við hana? Við sjálfan sig? Við tungl þeirra beggja? Heiminn? Heimsendi?
Hvað?
Að þurfa einhvern tíma og geta ekki komizt hjá og geta ekki komizt undan því – að þurfa einhvern tíma að hætta að vera til.
Og ungi maðurinn á traktornum
Hún sat í móanum og tíndi upp í sig berin og hár hennar sem golan hreyfði bar í ána sem rann eftir dalnum og túnið græna fyrir handan sem var slétt upp hólinn einsog ábreiða yfir kalt hart land feðranna; og þar ók ungi maðurinn á dráttarvélinni upp brekkuna og niður brekkuna aftur í stórum sveig; og hún sneri hnakkanum að bænum og skógarlundinum fyrir ofan bæinn og fjallinu þar fyrir handan með sínum íbyggnu hamratröllum, og fossinum hvíta sem bar stundum brúðarlín þegar fraus.
Maðurinn lagðist á bakið og horfði á hana tína berin, og þegar hún ætlaði að láta ber upp í hann færði hann sig undan, og vissi að eitthvað hafði komið fyrir, en vildi ekki þurfa að vita það, og hár hennar sítt nam næstum snerta handarbak hans, og þegar hann rétti höndina upp til að toga hana niður til sín hætti hann við það, og hélt hendinni á lofti, og sveiflaði henni ofurlítið og hægt, og hugsaði, ef hún lyti niður að mér og léti vel að mér núna myndi enginn sjá. En hún horfði bara út í bláinn en las þó hug hans: Ekki hérna. Í sveitinni vita allir allt.
Ströndin, og kjói
Ströndin. Opin fyrir hafinu í þessari varnarlausustu heimsins vík.
Það hefur aldrei verið búið í þessum húsum, segir hún og tók í þrjá fingur hans. Hann horfði út á hafið. Fyrir innan var lón, og graslaust rif á milli, mjótt sendið band með þara og þangi og skeljum og moski.
Í vanræktu túninu voru nokkrar kindur sem gáfu þeim ekki gaum. Ekki lengur.
Kjóinn var að stríða enn. Gargið hans barst frá tanganum sem teygði sig út frá hrauninu sem tók við þar sem túninu sleppti. Tanginn var grænn og lágur. Fremst yfir honum voru þrír fuglar, mávar, og kjóinn að stríða þeim. Golan bar sítt ljóst hár hennar fyrir augun, hann seildist til og greiddi frá öðru auganu í senn, og tafði sig þannig frá því að horfa á hvítan skaflinn verða af öldunni að brotna í víkinni. Og horfði á litina í öðru auga hennar í senn. Þar til að hann hugsaði hann myndi geta séð þá án þess að horfa. Þessir lifandi litir í augum konu sem ann. Mér, segir hann í hljóði og horfði aftur út á sjóinn sem þokan aðsækjandi gerði að litlu innhafi smáheims sem grár bakkinn endaði, og var þeirra veskú: À vous, l’avouez. Hann hélt utan um hana um mitti hennar og lét fingurna ná fram á maga með lófana á hvössu mjaðmarbeini, og hún tók síðu lokkana ljósu fingrum sínum og teygði undir höku líkt og hún ætlaði að fara að flétta þá saman, eða binda undir kverk líkt og band á sjóhatti. Og andlitið varð sporaskja upp á endann í gullnum ramma með tvær hálfar þverlægar sporöskjur augnanna.
Gamli bærinn að baki þeim var hálfur hruninn. Hann hímdi þarna í kvosinni upp af víkinni með ekkert fyrir gluggum og frjálst fuglum og músum inn. Grasið óx á þrennum burstum, rofið á tveim stöðum, og gólfið lagt fínu þykku teppi úr kindaspörðum, þessum fínu brúnu kúlum og svörtum. Skammt frá var bárujárnshús með hengilás á hurðinni, og hlerar fyrir gluggum, og urmull af flugu.
Sjáðu kjóann, segir hann til að þurfa ekki að horfa í þessi fögru augu það sem eftir væri dagsins. En hvað litirnir voru síbreytilegir í þessum augum, tendruðust og viku. Einu sinni voru þau að verða litlaus, hugsaði hann: núna ljóma þessi augu.
Enginn hefur séð mig einsog þú, segir hún og gáði ekki að kjóanum: þú hefur séð mig í mestri angist, segir hún brosandi, næstum hlæjandi.