Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Fjögur ljóð eftir Ingimar Erlend Sigurðsson


Áramót

Gleðilegt gamalt ár,
hvert glit á himni segir;
blikar bogi hár,
en birtan skjótt sig hneigir

og ekkert nýtt það eygir.


Gleðilegt gamalt ár,
hver gneisti bálsins segir;
svíður brennheitt sár,
sem sorg á eld þar fleygir

og nýtt ei askan eygir.


Gleðilegt gamalt ár,
hin gjalla klukka segir;
hnígur horfið tár
í hljóm við að þú deyir

og annað nýtt ei eygir.


Gleðilegt gamalt ár,
hver gröf við ástvin segir;
konungur lífs er klár
og krýndir þyrnivegir

þar endurfundi eygir.



Hvítt og rautt

Hvítust af hvítu er kista
sem hjartað þitt geymir rauða;
minnir á allt hið missta
og miskunnarlausan dauða

von þar og trú ég vista.


Rauðast af öllu rauðu
er rennandi þornað blóðið;
drýpur úr hjarta dauðu
í djúpstætt og ástríkt ljóðið

aldrei það skilar auðu.



Á leiðinni

Að yrkja um þig ljóð
er eins og þér að lifa;
þar lekur lausnarblóð
og líka dropar tifa

úr tárum fellur flóð.


Ég yrki að og frá
en orðlaus ljóshvít ströndin;
og þannig fer um þrá
sem þekur ekki löndin

uns heim mun hjartað ná.


Er ferst mitt ljóðafley
þú faðmar orðabrakið;
og ást ég aldrei dey
sem upp mig getur vakið

ó, lífs míns ljóðaey.



Guð og grátur

Í tári guð er til
sem tindrar
stjörnuglætt

úr drottins dýpsta hyl
hans dýrðar
ljós hef vætt

því guð mig hefur grætt.










        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur