Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Fimm textar eftir Braga Ólafsson


Elsti sonur við móður sína

„Af hverju eignuðust þið mig fyrst af börnunum, þú og pabbi? Ég er orðinn langelstur af okkur systkinunum.“


Gullfoss

Ég stend fyrir framan þessa tignarlegu mynd. Ég er fimm ára. Það er afmæli. Það er afmæli frænda míns. Við stöndum sitthvorum megin við ömmu okkar. Foreldrar okkar beggja eru á Kanaríeyjum. Við erum nýkomnir inn í stofu eftir að hafa setið í eldhúsinu. Við erum á heimili ömmu. Við stöndum fyrir framan þessa tignarlegu mynd af fossinum, og þegar sambýlismaður ömmu stingur innstungunni á enda rafmagnssnúrunnar í vegginn kviknar ljós bakvið fossinn og eitthvað fær vatnið til að falla ofan af fossbrúninni. Svo rís sambýlismaður ömmu upp af hnjánum.


Vandræðastúlkan

Frá því snemma í morgun, þegar enn var nótt, hefur kyngt niður snjó. Ef ég vissi ekki að snjórinn væri hvítur, hefði ég haldið að litur hans væri litur feigðarinnar, þess tímabils í lífi manns sem hefst þegar faðir manns deyr, og endar þegar maður gerir sér grein fyrir að engir tveir einstaklingar fara sömu leiðina. Svo þegar ég lít út um gluggann upp úr hádeginu sé ég að litla stúlkan í húsinu við hliðina, the troublemaker, er lögð af stað út í daginn; hún hefur skilið eftir spor sín í snjónum á gangstéttinni – enn ein vandræðin í uppsiglingu!


Móðir við elsta son

„Elskan mín, við vissum ekki að það yrðir þú sem við myndum eignast fyrst. Við höfðum látið yfirdekkja gamla sófasett móður minnar, það sem hafði verið bakgrunnur síðustu augnablikanna í lífi föður míns, við höfðum einnig gert eldhúsið í íbúðinni þannig úr garði að auðvelt yrði að elda þar mat; við höfðum fengið Svein frænda þinn til að koma fyrir í einu horninu ísskáp til að geyma í mjólkina ofan í ófætt barn okkar, en að það yrðir þú sem við myndum eignast fyrst höfðum við ekki hugmynd um. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en þú lást alblóðugur á brjóstum mínum, og faðir þinn ekki fyrr en hann kom á fæðingarheimilið klukkustund síðar.“


Nýting tímans

Nágranni minn, nokkrum árum eldri maður en ég, er dáinn. Það eru ekki nema fjórir eða fimm dagar síðan ég hitti hann síðast í götunni og átti við hann spjall; við vorum vanir að spjalla þegar við hittumst. Miðað við hversu sjaldan ég hitti skyldmenni mín og kunningja að jafnaði, get ég fullyrt að ég hafi hitt nágranna minn fremur oft, en núna þegar hann er dáinn gerist það svo sannarlega ekki oftar. Til allrar hamingju, verð ég að segja, því mér leiddist að spjalla við þennan mann. En mér finnst líka leiðinlegt að hann sé dáinn, því ég hefði auðveldlega getað forðast að hitta hann jafn oft og raun varð á; ég hefði einfaldlega getað gengið norður eftir götunni á leið heim úr vinnunni, í stað þess að velja suðurleiðina, sem hefði að vísu þýtt að ég hefði þurft að leggja á mig talsverðan krók, eins og gefur að skilja. Þannig hefðum við nágrannarnir ekki mæst á stéttinni jafn oft og við gerðum; það hefði ekki aðeins verið gott fyrir mig, heldur hann líka, því ég vissi – og hafði fyrir því orð annars nágranna sem ég treysti vel – að honum, sem nú er dáinn, dauðleiddist ekki síður að hitta mig. En nú þurfum við hvorugir að hugsa um þetta meir, og ég get nýtt betur þann tíma sem ég á eftir.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur