Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Fáránlegt samtal við sjálfan mig eftir Eirík Örn Norðdahl


Eiríkur Örn Norðdahl er ljóðskáld, rithöfundur og þýðandi frá Ísafirði, Vestfjörðum. Síðastliðin misseri hefur hann einkum vakið athygli fyrir að vorkenna sjálfum sér – honum finnst ekki nógu margir lesa bækur hans, hann fær ekki ritlaun, veðrið er vont og myrkrið er þungt. Þetta gerir hann þó í raun gangi honum allt í haginn.
Eiríkur hefur gefið út þrjár ljóðabækur og tvær skáldsögur. Þá hefur hann fengist við þýðingar og skrifað um bókmenntir.
Eftir að hafa þvælst um í fimm ár og búið í nokkrum löndum innan Vestur-Evrópu fluttist Eiríkur aftur á heimaslóðirnar, til Ísafjarðar, þar sem hann kom sér fyrir á efstu hæð í kastala nokkrum. Þaðan horfir Eiríkur út um gluggana, vestur yfir þorpið, austur út á Snæfjallaströnd, hjúfrar sig að himninum og býr sig undir flutning til Finnlands. Eins og gjarnt er um fólk sem býr eitt árum saman og á lítið samneyti við umheiminn á Eiríkur orðið lítið vantalað við sjálfan sig, hafandi muldrað nær viðstöðulaust í eigin eyru í ríflega þrjú ár. Þegar hann var svo beðinn um að taka viðtal við sjálfan sig fyrir tímaritið Stínu brá hann á það ráð að leita spurninga annars staðar. Hann hafði samband við vini og kunningja, og bað þá að koma með tillögur að spurningum. Útkomuna má sjá hér að neðan.

– Til hvers eru ljóð
„Góð spurning?“ segir Eiríkur og gælir við angóruköttinn í fangi sér, líkt og hann búi yfir einhverri yfirskilvitlegri vitneskju um ljóðlistina, sem öðru fólki er hulin. Svo byrjar svar mitt. Á því að gæla við angórukött, sem ég hef aldrei átt. Satt best að segja, og mér er þvert um geð að viðurkenna það, kann ég ekki sérlega vel við gæludýr. Mér var aldrei neitað um gæludýr sem barn, eins og svo mörgum, heldur varð þvert á móti vart þverfótað fyrir alls kyns kattarkvikindum, hundsspottum, gargandi smáfuglum, hömstrum, músum, og öðrum slíkum mishúsumhæfum dýrum á mínu bernskuheimili.
„Ljóðlistin er verkfæri til þess að eyðileggja allt sem er vont í veröldinni,“ segir hann. „Ljóðlistin er verkfæri til þess að næra allt sem er gott í veröldinni,“ bætir hann við.
„Hún gerir göt í „merkingarvefnað samfélagsins“ (ég veit ekkert hvaðan þetta hugtak kemur, en ég hrífst af því), svoleiðis að við fáum séð í gegnum hann. Ljóðlistin er líklega eini sannleikurinn sem ég þekki, og hún er botnlausar lygar. Hún er það fallegasta og það klúrasta í senn. Hún er afhjúpun á einhverju sem við fáum ekki beinlínis höndlað eða séð, en er samt yndislegt, og líklega bráðnauðsynlegt, að fá glitt í.“
Angórukötturinn fælist við útskýringarnar, klórar skáldið og stingur af úr fangi þess.

– Hvar varstu þegar þú hreifst fyrst af ljóði?
„Ég man ekki til þess að hafa hrifist af ljóði sem barn.“ Eiríkur er staðinn á fætur. Hann krýpur við stóran eikarskenk, teygir sig eftir kettinum sem er fastur undir skápnum. „Ekki hrifist. Ýmsu var troðið í mig í barnaskóla, af velviljuðum kennurum með ónýta námsskrá. Ég man eftir því að aftast í ljóðasafninu sem við lásum voru nokkur tilraunaljóð – Ísak Harðarsson og Gyrðir Elíasson. Mér fannst þetta sniðugt.
Þegar ég var tólf ára fékk ég æði fyrir þungarokkshljómsveitinni Iron Maiden. Á plakati sem fylgdi Live After Death plötunni var legsteinn. Á legsteininn voru letruð orð úr ljóði eftir H.P. Lovecraft: „That is not dead / Which can eternal lie / Yet with strange aeons / even death may die.“ Ég krotaði þessi orð í margar stílabækur í gaggó. Í menntaskóla þýddi ég nokkra texta eftir söngvara Iron Maiden, og flutti sem ljóð á skólaskemmtun.
Á annarri skólaskemmtun sá ég gjörning þar sem félagi minn lék kúnstir við upplestur Antons Helga Jónssonar á ljóðinu Rauðanótt másarans, af spólunni Lystisnekkjan Gloría, sem Grammið gaf út forðum daga. Ég var bergnuminn – á sjónvarpsskjá sem aðrir félagar mínir höfðu dregið inn var verið að sýna klámmynd.
Ég heyrði hljómsveitina Rage Against the Machine flytja ljóðið Hadda Be Playin’ on the Jukebox eftir Allen Ginsberg. Á næstu vikum las ég Ginsberg spjaldanna á milli, og allt sem ég fann um og eftir beat-kynslóðina.
Drykkjuvísur Lí-Pós þóttu mér yndislegar þegar ég las þær fyrst. Ég held það hafi verið í Helsinki, á bókasafninu í Ita-Keskus, árið 2001.
Fyrir tæpum fjórum árum settist ég niður yfir kaffibolla með ljóðskáldunum Hauki Ingvarssyni, Davíð Stefánssyni og Andra Snæ Magnasyni. Ég var afskaplega þreyttur á öllu sem ég las, þráði að koma höndum yfir eitthvað nýtt, og spurði: „Hversu mörg núlifandi, erlend skáld vitið þið um sem eru að gera áhugaverða hluti?“ Nokkur nöfn komu upp úr kafinu, meðal annars Christian Bök. Ég leitaði Christian uppi á internetinu, féll í stafi yfir því sem ég fann og ákvað að ég vildi fá hann til landsins. Upp úr því varð til alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils, og í gegnum Christian og aðra þátttakendur hef ég uppgötvað heila heima af ljóðlist.
Allt er þetta fyrst. Allt er alltaf fyrst.“
Við skulum gleyma þessum ketti. Það er enginn köttur. Ég endurtek: Það er enginn köttur. Hvers vegna minnist ég ekki á Burroughs?

– Af hverju er íslensk ljóðlist svona léleg?
„Íslensk ljóðlist er léleg þegar hún er íhaldssöm. Ef það væri ekki svona bjánalegt orð myndi ég segja smáborgaraleg. En það er bjánalegt orð, svo ég læt það vera. Íslenskum ljóðabókum hættir til að svipa hverri til annarrar. Þá skortir þær metnað til að skera sig úr, til að leita eilífðarinnar, skjóta göt í „merkingarvefnað samfélagsins“. Þær eru of hliðhollar sjálfum sér. Þær hylja, kóa með samfélaginu, kóa með sjálfum sér. Ljóð eru vond þegar þau reyna að líkjast sjálfum sér, þegar þau leita hins almenna í tungumálinu og hugsuninni frekar en hins óvenjulega.
Þetta er ekki íslenskur krankleiki heldur alþjóðlegur.“
Mér finnst ég hafa sagt þetta svo oft. Halaspurning: Er þér illa við alla skapaða hluti?
Gerirðu ekki annað en að finna að veröldinni?
Ég læt sem ég heyri þetta ekki.
„Næsta spurning!“

– Af hverju er íslensk ljóðlist svona góð?
„Íslensk ljóðlist er góð þegar hún mætir þeirri áskorun sem fólgin er í tungumálinu, samfélaginu og allri mannlegri hugsun, með hæfilegri blöndu af virðingu og vanvirðingu. Þegar hún kann bæði að lesa og skrifa sjálfa sig, eins og launmorðingi sem ræðst beint að fórnarlambi sínu, óséður og séður í senn.“
Eins og launmorðingi? Sagði Sigurður Pálsson þetta ekki við þig, fyrir utan gamla fangelsið við Lækjargötu? Eða var hann að tala um efasemdarmenn – að ljóðið ætti von á launmorði? Er þetta yfir höfuð góð líking? Ertu að tala með rassgatinu á þér? Ertu að tala með rassgatinu á Sigurði Pálssyni?
Er ekki íslensk ljóðlist bara góð þegar hún er góð? Krefst það frekari skýringa? Góð þegar eitthvað í henni rímar (nei ég á ekki við orðin) við veröldina?

– Hver er vanmetnasta íslenska ljóðabókin (þínar eigin ekki meðtaldar)?
„Fjöldi góðra ljóðabóka sem falla í gleymskunnar dá er gríðarlegur. Einhvers staðar komst ég að því að Ljúgðu Gosi, ljúgðu eftir Steinar Braga hefði selst í undir 50 eintökum. Það er skelfileg tilhugsun. Spurningin um hver sé vanmetnasta ljóðabók Íslands felur í sér afstöðu – þ.e. bókin er lítið metin miðað við hversu góð mér þykir hún. Þannig get ég sagt að bók sem varla finnst, eins og Eini strákurinn í heiminum sem kunni að telja, eftir Hauk Má Helgason, sé gríðarlega vanmetin, þó hún sé kannski hvergi nálægt því besta íslenska ljóðabók sem ég hef lesið. Hún er samt mjög góð, en ég tengist henni líka persónulega. Bækur Antons Helga Jónssonar eru lítið skoðaðar, alltof lítið (þær má lesa á www.anton.is). Almennt virðast ljóðabækur fljótt gleymast, og þá er nokkurn veginn sama um hvaða skáld er rætt, m.a.s. Gyrðir og Sjón mega þola það.“
Voðalega hef ég það á tilfinningunni að þú takir sjálfan þig alvarlega. „Gleymskunnar dá“ – ertu hálfviti? Taktu þetta til baka!

– Hver er afstaða þín til femínisma?
„Réttnefndur femínismi er lykilþáttur í allri afbyggingu valds.
Rangnefndur femínismi getur verið skelfileg móðgun við réttnefndan femínisma.“
Ég spurði þann sem spurði þessarar spurningar sömu spurningar á móti. Þetta er svarið hans. Ég hef gert það að mínu. Ég veit ekki hvort það er endilega gott. Einn yfirlesara hnýtti við þetta: Hvað er réttnefndur/rangnefndur femínismi? Ég kann ekki að svara þessari spurningu, en þeir eru ekki margir sem ég myndi treysta til að svara henni fyrir mig heldur. Hvað varð um köttinn? Mig vantar props til að leiða athyglina að einhverju öðru...

– Lítur þú svo á að 1) þú 2) Nýhil 3) þín kynslóð 4) skáldskapur hafi hlutverki að gegna og hverju þá?
„Ég tek andköf og svitna,“ segir hann, pollrólegur. „Já, svarið er í öllum tilvikum já. Hvert hlutverkið er er síðan endalaus tilraun, einhvers lags sýsifosk geðbilun. Þetta er síbreytilegt, hlutverkin eru mörg, fleiri en hægt er að telja. Ég er ekki alltaf viss um að hlutverkin séu nauðsynleg, ég er ekki einu sinni alltaf viss um að þau séu æskileg. Mig grunar að þetta sé gott á sama máta og mig grunar að ákveðinn matur geri mér gott, en annar ekki, en ég hef engar forsendur til þess að fullyrða eitt eða neitt um það. Í gær setti ég tappa af ólífuolíu í baðið mitt, það var gott. Ég veit ekki hvers vegna. Það er eitthvað í þessa áttina sem ég meina. Og það á við öll fjögur atriðin jafnt.“
Ólífuolíu í baðið? Hver heldurðu að þú sért, Sophia Loren? Sigurbjörg Þrastardóttir? Er þetta kannski eitthvað „sammannlegt“?
„1) Já. Orðin uppbrot og afbygging koma upp í hugann. Jafnvel eyðilegging. Rækt rósa. 2) Já. Nýhil er svo margt. Nýhil er forlag, félagsskapur – fagurfræði og andfagurfræði. Það sem sameinar hópinn er ekki að hópurinn sé eitthvað, heldur að hann er ekki eitthvað annað. Nýhil þjónar tilgangi sem vettvangur þessa sem er ekki eitthvað annað.
3) Já. Á sama máta og nýtt blóð þjónar alltaf tilgangi. Vonandi heldur hún hugsuninni gangandi, beygir hana, brýtur, notar, misnotar og skrúbbar gólfin með henni. Skrúbbar höfuðkúpur að innan með henni.
4) Já. Sjá svar við: „Til hvers eru ljóð?““

– Eru Vonlensku-textar Sigur Rósar ljóðlist?
„Að sama marki og textar við tónlist eru ljóðlist. Vonlensku-textarnir eru hljóðljóð, líkt og Úrsónata Kurts Schwitters, hljóðljóð bpNichol og Hugo Ball. Tæplega hundrað ára gamalt listform. Auðvitað má kalla þetta eitthvað annað – það er hægt að rífast endalaust um hvort myndljóðlist er myndlist eða ljóðlist, og á sama máta væri hægt að þrátta út í eitt um það hvort söngtextar eru ljóð eða músík. Nafnið skiptir einhverju máli í nálguninni, en það er ekki lykilatriði.“

– Geturðu hugsað þér líf án þess að skrifa?
„Nei, á sama hátt og ég get ekki hugsað mér að hafa ekki hendur. Það getur vel verið maður lendi í einhverju sem veldur því að maður getur ekki skrifað, en það er ekki beinlínis veruleiki sem ég get hugsað mér,“ segir Eiríkur rétt í þá mund sem angórukötturinn skríður undan skápnum og stekkur í fang hans. Mikið vildi ég að ég væri þessi kisa, sem Eiríkur gælir svo við af nautn og næmi ljóðskáldsins.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur