Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Ég vaknaði og svaraði seint eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur


París, 21. febrúar, 2008

Melankólían er dreift draumástand, hún nær aldrei dýpt eða þéttleika. Sorgin er á hinn bóginn þétt í sér og ómögulegt annað en hjúfra sig að henni, í sársaukafullu innhvarfi. Það er hægt að vera sorgmæddur hvar sem er, en þó er sem lokuð rými fóðri sorgina en opin rými stuðli að melankólíu. Sorgin á sér nánast alltaf einhvern þykkan upphafspunkt en melankólían virðist ástæðulaus. Ég veit yfirleitt af hverju ég er sorgmæddur en ég hef ekki hugmynd um af hverju ég er svona melankólískur. (Emil Cioran, Sur les cimes du désespoir, París, L’Herne, 1990, s. 47–48).

Emil Cioran gerði greinarmun á sorg og melankólíu á andvaka göngu sinni um smáþorp í Transylvaníu 1933, en þá var hann ungur að skrifa doktorsritgerð í heimspeki. Í inn­gangi að franskri útgáfu bókarinnar, sem kom út mörgum árum síðar, afsakar hann ekki ungæðisháttinn í textunum, en vill þó að fram komi hversu reynslulaus hann var og örvæntingarfullur út af hyldýpum hugsunarinnar, og að hann hefði drepið sig hefði hann ekki náð að skrifa þessa bók. Ég get ekki dæmt um reynsluleysið, en mér finnst þekkingarfræðilegur greinarmunur hans vera skrýtinn, því ég hef aldrei fundið þennan þykka orsakapunkt sorgarinnar í hugsuninni. Kannski hefur orðið einhver skekkja á skilningi mínum í gegnum þýðingarnar, kannski er franska orðið tristesse öðruvísi en íslenska orðið sorg, sem gæti, vegna vöntunar á almennilegri íslenskun á orðinu melankólía, hafa tekið að sér að túlka tvenns konar ástand. Maður veit líklega hvers vegna maður er sorgmæddur á íslensku, ef mæddur er inni í myndinni. Ef hins vegar hvílír í eða er í manni sorg, og er ekki endilega mæddur, tekur varla eftir því lengur, þá er maður líklega orðinn alþjóðlega melankólískur. Gaman væri að vita hvernig þessi greinarmunur útleggst á rúmensku, bókin er upphaflega skrifuð á því tungumáli. Ef ég þýði síðustu setningu tilvísunar í Cioran á annan veg, get ég tekið undir greinarmun hans, ekki að það sé keppikefli, en ágætt að hafa tvenns konar sorgarástand í huga á íslensku: Ég veit yfirleitt hvers vegna ég er sorgmæddur en það er mér hulið af hverju þessi sorg er í mér. Það var sýningaropnun og ég stóð fyrir utan salinn í sól, heiðarlega glöð í listinni, eða fannst ég altént vera hress. Hann gekk að mér, lagði hlýja bjarnarhönd á höfuðið á mér og spurði: Af hverju ertu svona sorgmæddur, litli björn? Ég svaraði ekki öðru en að ég væri ekki sorgmædd. Ætlaði alltaf að svara betur seinna, eða þakka honum fyrir að hafa spurt og snert við sorginni í mér, minnt mig á hana. En þegar seinna kemur, er orðið augljóst að það var ekki spurt til að fá fram ákveðið svar heldur eitthvað annað. Að sumra spurninga þarf að spyrja aftur og aftur til að minna á hversu ómögulegt er að svara þeim. Þess vegna langaði mig einn góðan veðurdag til að spyrja hann: Stóri björn, af hverju er svona mikil sorg í þér? Við áttum bæði að troða upp á skemmtun í leikhúsi stuttu síðar og ég gluggaði í Wittgenstein og Lísu í Undralandi, reyndi að koma í orð að það sem snertir sorgina og brennir hana upp með sífelldri endurtekningu, svíður gat á hana, verður svið í leikhúsum. En sama hvað ég reyndi, það var eins og ótímabært að svara spurningunni sem var yfirskrift skemmtunarinnar: Hvert er hlutverk tungumálsins? Of seint eða of snemmt og enginn leikur í mínum orðum, enda spurningin sannast að segja alveg hrikaleg! Mér fannst óhugsandi að vera spekingsleg á þessu sviði og langaði að hringja og stinga upp á því að við fengjum frest, og ef ekki, þá bara skrópa, hópskróp, og gera eitthvað annað um helgina, í alveg óopinberu leikhúsi. En ég gat ekki símað og heldur ekki undirbúið mig, lá í kvíðamóki innan í hunangskrús og beið dauða míns. Svo, daginn áður en uppákoman átti að vera, var hringt frá leikhúsinu og sagt að þetta félli allt niður. Það grunaði mig, sagði ég kát, þessi uppákoma var bara ekki hægt! Ja, það er nú það, sagði skipuleggjandi leikhússins og útskýrði að ástæðan væri hvorki dreifð né draumkennd heldur sú þykka staðreynd að Birgir Andrésson væri dáinn og gæti því með engu móti sett á svið auglýstan gjörning ásamt Karli Guðmundssyni, þremur ryksugum og Megasi. Af hverju ertu svona sorgmædd? Af því að þú varst að deyja. Er það einhver ástæða, er kannski bara í lagi að deyja? Já, en hefði ekki verið gaman að leika lengur? Ég þekkti hann svo lítið, bara í mjög dreifðu ástandi, en mig dreymdi hann rétt eftir dauðann. Hann kom inn á bar og sagði að það væri fínt að vera dáinn og góðar verur ynnu í sorginni eins og iðið kústagerðarfólk. Það voru allir drukknir í kringum okkur og mér stóð stuggur af stemningunni, en hún snerti hann ekki, hann var þar ekki lengur, hann opnaði faðminn, og sagði brosandi: Vertu kát! Mig langaði í fangið á dauðum manni og ályktaði því að ég væri feig, þegar ég vaknaði. Svo talaði ég mig til og þýddi sýnina sem áskorun um að lifa en ekki deyja. Og áminningu um að sorgin getur drepið mann hægfara, það er svo auðvelt að verða samdauna henni – en að vera kátur, það er mest ögrandi svörun við lífinu sem hægt er að veita. Um daginn dreymdi mig til dæmis að ætti að brenna mig lifandi. Það var ekki sorglegt í fyrstu, þegar það var bara tæknilegt atriði og ég spurði konuna sem sá um að renna kistunum í gegnum eldinn, hversu langan tíma það tæki að deyja, hvort maður væri ennþá lifandi þegar húðin bráðnaði. Hún sagði já, þá ertu lifandi. Ég átti að mæta á hádegi daginn eftir og ákvað að nota tímann þangað til í sýsl við óútgefin handrit. En þegar ég gekk inn í óreiðu skjalanna minna, þráði ég að brunanum yrði frestað, svo ég mætti koma einhverju skikki á. Og þá fattaði ég að ég gæti alveg skrópað, ég þyrfti ekkert að deyja strax. Nunnan sem sá um ofninn hringdi og sagði að sig hefði grunað að ég kæmi ekki á réttum tíma og hefði því ekki kveikt upp um morguninn, hins vegar hefði verið svo mikill sunnanvindur að það hefði sjálfkrafa kveikst upp og handritið, sem ég skildi eftir, og vottorðið frá lækninum um að ég gengi ekki heil til skógar hefði fuðrað upp. Ég sá ekki eftir vottorðinu, gegnsýrðu vísindalegum fordómum, en smá eftir handritinu, af því hversu óbærilegt er að ímynda sér bækur að brenna. Um var að ræða Opus magnum læknisins, sem hann hafði beðið mig um að gefa út fyrir sig, um leið og hann þrýsti einkavæddum opinberum stimpli á tryggingu um að ég væri í hópi þeirra sem yrði séð um að brenna ókeypis: Ómótstæðilegt tilboð. En það er líka gott að vakna og vera lifandi. Þótt maður vakni kannski aðeins of seint og með óorðanlega sorg í sér og þótt einhver handrit hafi farið í súginn. Tungumálið vaknar með manni, biður mann um að koma út að leika. Maður reynir að fá því frestað, með þvoglukenndum úrtölum, en hendir sér svo út á sviðið, á vitlausan stað, því þetta er hringsvið og þar sem maður átti að standa er farið fram hjá. En ljósið kemur á Litla-björn og hann fer með rulluna sína og læst kátur.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur