Byggingarsaga eftir Sjón
Eitt sinn þegar ég var ungur og lifði í nóttinni átti ég óvænt stefnumót við jafnöldru mína í höggmyndagarði Einars Jónssonar. Þetta var rauðhærð stúlka á gulum jakka, rauðu pilsi, fjólubláum sokkabuxum og lágum strigskóm. Hún var glaðvakandi, jafnvel nývöknuð, og ég heyrði strax að við vorum sammála um hvar fjörlegast væri að staðsetja sig í sólahringnum. Þetta var skömmu eftir miðnætti í júlí og dagsljósið lék í smáskýjum sem svifu yfir fjallinu handan við flóann. Við gáfum okkur göngunni á vald og hún leiddi okkur um Þingholtin, norður og vestur, uns við vorum stödd á hafnarbakkanum við fiskmarkaðinn.
Háfjara var og þegar við litum fram af bakkanum blasti ekki við okkur gjálfrandi logn\sjór heldur sjálfur hafsbotninn með sínum raka og ögrandi jurtagarði. Þar rétt hjá var stigi úr reipi sem síga mátti láta fram af bryggjunni. Við gáðum hversu langt reipstiginn náði og þegar við sáum að hann snerti sandinn þá eltum við hann þangað. Hversu lengi við dvöldum í þeim ævintýraskógi bryggjustólpa og blöðruþangs sem tók á móti okkur, og umvafði ilmandi og dimmur, man ég ekki lengur. En alltaf þegar gangan ber mig að þessum stað við höfnina þá fyllir það mig súrrealískri sælu að vita að það er veruleiki en ekki draumur að einmitt þar, niðri í djúpinu, var ég einu sinni á næturgöngu með ókunnugri stúlku.
Brátt mun tónlistarhúsið hylja þennan blett. Og um það er allt gott að segja, því glerverkið sem rammar inn bygginguna mun spegla það sem ávallt verður hin sviðsmynd óvæntra næturfunda pilts og stúlku í Reykjavík: Himinn, jörð og haf.