Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Bókmenntaspjall


Kormákur Bragason fjallar um innrás íslenskra reyfarahöfunda frá því rétt fyrir síðustu aldamót, um nokkrar nýlegar skáldsögur, ljóð, smásögur og stærsta bókmenntaviðburð ársins 2008

Glæpasögur: fagurbókmenntir eða eitthvað annað

Á öldinni sem leið voru glæpasögur eitt vinsælasta afþreyingarlesefni á Íslandi. Þetta voru nær eingöngu þýddar skáldsögur, en einnig kiljur á ensku (pocket books), einkum breskar og amerískar. Þar gnæfðu þau hæst bresk-ameríska skáldkonan Agatha Christie (1890–1978) og landi hennar sir Arthur Conan Doyle (1859–1930). Agatha kom fyrst fram á ritvöllinn um 1920 og hlaut snemma viðurnefnið Queen of Crime (Drottning glæpasögunnar), og hefur lengst af síðan verið söluhæsti höfundur allra tíma ásamt Shakespeare og Biblíunni. Í flestum bókum skáldkonunnar eru þau mest áberandi sögupersónurnar Poirot og fröken Marpel. Hjá sir Arthur er Sherlock Holmes auðvitað mest áberandi, og það svo mjög að nafn hans yfirskyggði oft sjálfan höfundinn. Í bókum sir Arthurs er sögumaðurinn Watson læknir sem jafnframt er náinn samstarfsmaður Sherlock Holmes, sem trónir ofar öllu með yfirnáttúlegum hæfileikum.
Íslenskir reyfarahöfundar voru lítið áberandi lengi framan af. Það var ekki fyrr en rétt undir lok nýliðinnar aldarinnar að þeir létu í sér heyra, og þá svo um munaði. Í þessum hópi er Arnaldur Indriðason í nokkrum sérflokki. Hann reið á vaðið 1997 með sína fyrstu sakamálasögu og síðan hefur hann diskað út einni sögu á ári eða alls ellefu bókum á jafnmörgum árum. Stella Blómkvist kom einnig fram á sjónarsviðið 1997 með sína fyrstu glæpasögu og síðan fylgdu fimm aðrar bækur í kjölfarið. Þá má nefna þrjá höfunda, sem hafa vakið nokkra athygli með sakamálasögum sínum, þ.e.: Árni Þórarinsson, Yrsa Sigurðardóttir og Ævar Örn Jósepsson. Nokkra fleiri höfunda mætti nefna. Togstreyta um opinbera viðurkenningu á listastíl er þekkt fyrirbæri innan flestra listgreina. Í tónlistinni getum við stiklað á stóru og nefnt: klassíska tónlist, djass og rokk. Í myndlist má nefna naturaliska málaralist, súrrealisma og abstrakt. Í ljóðlistinni getum við nefnt hefðbundin ljóð og órímuð. Þegar kemur að skáldsögunni er það nokkuð ríkjandi viðhorf að sakamálasagan sé í það minnsta skör neðar í virðingastiga fagurbókmennta en skáldsögur almennt, jafnvel að sakamálasagan geti vart talist til fagurbókmennta. Hvernig sem á þetta er litið er ljóst að sakamálasagan (glæpasagan, reyfarinn eða hverju öðru nafni sem við nefnum þessar skáldsögur) hefur ákveðin einkenni sem aðgreinir hana frá öðrum skáldsögum. Þessi einkenni eru ekki glæpurinn, ekki viðfangsefnið sjálft heldur formið. Form glæpasögunnar setur höfundinn í ákveðna spennitreyju þannig að hann hefur takmarkað svigrúm, sem hann notar gjarnan til að draga fram aukaatriði til að auka spennu. Þetta tekst oft en stundum verða þessi hliðarspor yfirborðsleg og missa marks. Glæpasagan er einskonar gestaþraut, sem höfundurinn hannar, mjög sérstakt stílbragð, yfirleitt hefðbundinn frásagnarstíll þar sem höfundurinn dregur lesandann á eftir sér gegnum króka og kima. Glæpasagan er alltaf spennusaga (thriller) og sem slík stendur hún og fellur líkt og kappleikur í handbolta eða körfu sem getur verið spennandi eða bara hundleiðinlegur. Glæpasagan er púsluspil, uppdráttur eða blueprint að mósaíkmynd, sem raðast upp eftir því sem lestrinum miðar áfram, og lýkur sem fullgert myndverk. Á vissan hátt má líkja glæpasögunni við tölvuleik. Í tölvuleiknum ræður stjórnandinn atburðarásinni að vissu marki, í glæpasögunni ræður lesandinn engu. Þar liggur niðurstaða ekki fyrir fyrr en síðasti steinninn fellur og mósaíkmyndin opinberast fullsköpuð.



Arnaldur Indriðason. Harðskafi, sakamálasaga (kápa: Ómar Örn Hauksson **; kápa á kilju: Bjarney Hinriksdóttir ***), Vaka-Helgafell, 2007 (295 bls.), kilja, 2008 (295 bls.)

Þetta er ellefta sakamálasaga höfundar á jafnmörgum árum, ein bók á ári, og það er mikil framleiðsla. Það sem gerir sakamálasögur Arnalds Indriðasonar athyglisverðar er hversu vel honum tekst að skapa aðalpersónur, sem um leið eru kjölfestan í nær öllum bókunum, líkt og Sherlock Holmes og doktor Watson hjá sir Arthur Conan Doyle og Poirot og Marpel hjá Agöthu Christie. Mér sýnist ljóst að Arnaldur hefur lært mikið af þessum afburða höfundum fyrri tíma meðan hestvagnar sáu Lundúnabúum fyrir samgöngum og sími og útvarp voru lengi vel óþekkt fyrirbæri svo ekki sé talað um sjónvarp og tölvur. Lögreglumaðurinn Erlendur er einstaklega geðþekkur persónuleiki og samskipti hans við uppkomin börn sín, Evu Lind og Sindra Snæ, vekja strax forvitni. Sama er að segja um sögupersónurnar, lögreglumennina Sigurð Óla og Elínborgu, Halldóru, fyrrverandi eiginkonu og vinkonuna Valgerði. Náin tengsl Erlends við æskuheimilið, tilfinningar hans gagnvart foreldrum sínum og látnum bróður eru enn eitt dæmi um það hvernig höfundinum tekst að gæða aðal sögupersónuna lífi og gera allt í kring um hana forvitnilegt. Það lætur nærri að þriðjungur Harðskafa fjalli um einkalíf Erlends, sem er mikill reykingamaður en þó ekki í neinni líkingu við Sherlock Holmes. Og Harðskafi er nútímaleg saga þótt hjátrú og dulrænir atburðir séu áberandi. Erlendur ekur um á gömlum Fordbíl sem hann meðhöndlar og gælir við líkt og húsdýr væri, og höfundurinn fiskar upp nútímaleg orð eins og flíspeysur, sem ekki þekktust á tíma stóru meistaranna og hann fiskar sígarettuna upp úr pakkanum en treður ekki gæðatóbaki í pípu sína líkt og Sherlock gerði í den. Atburðarás hinnar eiginlegu glæpasögu er vel ígrunduð, spennan magnast jafnt og þétt en á sama tíma er lesandanum mjög í mun að fylgjast með því sem er að gerast í einkalífi lögreglumannsins. Ég hef lesið nokkrar af fyrri sakamálasögum höfundarins. Það á við þær líkt og um Harðskafa: gestaþrautin er hvarvetna snilldarlega hönnuð. Þar við bætist, og það skiptir ekki svo litlu máli á bókmenntasviði sem á í vök að verjast, að Arnaldur Indriðason er afbragðs rithöfundur.



Yrsa Sigurðardóttir. Aska, sakamálasaga (kápa: Ragnar Helgi Ólafsson **), Veröld, 2007 (380 bls.), kilja, 2008 (437 bls.)

Áður hafa komið út eftir Yrsu glæpasögurnar Þriðja táknið (2005) og Sér grefur gröf (2006). Þetta er nútímasaga sem gerist í Vestmannaeyjum. Lögfræðingurinn Þóra Guðmundsdóttir tekur að sér mál Eyjamannsins Markúsar sem grunaður er um aðild að morði. Þrjú lík og eitt stakt mannshöfuð koma í ljós í kjallara húss, sem hafði orðið undir ösku við gosið í Heimaey 1973, en uppgröftur hússins, sem nú stóð yfir rúmum þrem áratugum síðar, var partur af verkefninu Pompei norðursins, og er sagan þar með tengd raunverulegum atburðum. Þóra er aðlaðandi, fráskilin kona á besta aldri með tvö börn, unga tengdadóttur og barnabarn og er stöðugt með hugann við heimilið jafnframt því sem hún vinnur að rannsókn málsins fyrir skjólstæðing sinn. Aðstoðarmaður Þóru er Bella, nokkuð gróf í útliti og hátterni en annars bráðskemmtileg persóna. Hún fer að vísu æði oft í taugarnar á Þóru en undir niðri getur hún vart án hennar verið. Þóra flýgur frá Reykjavík, þar sem hún býr, til Eyja ásamt Bellu til að rannsaka málið. Líkt og hjá stóru meisturunum sir Arthur og Agöthu Christie er strax ljóst að þarna eru á ferðinni aðalpersónur sögunnar. En þegar allt virðist á réttri leið kemur upp nýtt stórmál. Hjúkrunarfræðingurinn Alda fremur sjálfsmorð að því er virðist og upp frá því beinist athyglin að því að kanna hvort þarna hafi hugsanlega verið framið morð. Þarna hefst á vissan hátt ný sakamálasaga innan hinnar upprunalegu þótt augljós tengsl séu þarna á milli.
Frásagnarstíll höfundar er yfirleitt léttur og leikandi og margt í uppbyggingu sögunnar bendir til þess að höfundurinn hafi kynnt sér allvel aðstæður í Eyjum og aflað sér vitneskju um eldgosið, sem og ýmsa staðhætti sem höfundur byggir á í sjálfu verkinu.
Ofnotkun sérstakra orða og orðatiltækja geta virkað illa. Á því ber nokkuð hjá höfundi. Á fjórum stöðum í bókinni segir: „Þóra ranghvolfdi í sér augunum.” (10, 147 og 238). Og á bls. 366 segir: „Þóra lét augun rúlla.” Á bls. 9 segir: Þóra „...skáskaut augunum.” Og á bls. 284 segir: „Dís ranghvolfdi í sér augunum.” Leifur segir við Þóru: „Mamma er... alveg kýrskýr,” (117). Og höfundurinn notar aftur þetta orðalag á bls. 137. Þar segir að þetta hafi verið „...alveg kýrskýrt.” Á bls. 145 segir Adólf: „Þetta myndi... svínvirka.” Þá segir: „Hann veiddi beyglaða sígarettu upp úr pakkanum.” (72). Og á næstu síðu: Upp úr umslagi „... veiddi hann sex litlar hvítar töflur.” (bls. 73). Og aftur á sömu síðu: „Adólf veiddi lítinn hvítan flekkinn upp úr með vísifingri.” (73). Afturbeygða sögnin að hrylla sig kemur fyrir trekk í trekk: „Markús hryllti sig.” (45); „Konan hryllti sig.” (395) og „Þóra hryllti sig.” (398). Einstakir kaflar, einkum í síðari hluta bókarinnar eru langdregnir, til dæmis sjóferðin með Padda á Króki. Frásögnin á bls. 278–281 þar sem segir frá Tinnu á spítalanum er mjög slök. Með hliðsjón af því að höfundur byggir mikið á sögulegum staðreyndum er fremur hvimleitt þegar farið er rangt með staðreyndir þótt ekki sé um stóra yfirsjón að ræða. Merking auðkennisstafanna HMS er sögð vera „Her Majesty´s Service” (138) sem er rangt. Það á að vera: His/Her Majesty´s Ship (Skip hans/hennar hátignar).
Uppbygging sögunnar er reyndar snilldarleg og mikil spenna lengi framan af. En þegar á líður er engu líkara en höfundurinn missi tökin á verkinu og margt fer úrskeiðis. Þar veldur fyrst og fremst hve sagan er margbrotin og oft langdregin og einnig sá aragrúi einstaklinga sem þar kemur við sögu. Þessar ástæður nægja þó engan veginn til að afsaka fremur slakt niðurlag sögunnar. Það hvarflar að manni að höfundurinn hafi verið kominn í tímaþröng eða hreinlega gefist upp. Niðurlagið er algert klúður og glæpasaga sem lengi framan af virðist ætla að slá í gegn hrynur niður í flausturslega óreiðu. Slakur endir á glæsilegu upplagi. Miðað við aðra íslenska glæpasöguhöfunda er Yrsa samt ótrúlega fersk og hugmyndarík og er til alls vís á þessum vettvangi.



Gyrðir Elíasson. Sandárbókin pastoralsónata, skáldsaga (kápa: Aðalsteinn S. Sigfússon **), Uppheimar, 2007 (118 bls.), kilja, 2008 (118 bls.)

Því verður seint haldið fram að Gyrðir Elíasson sé spennusöguhöfundur. Sandárbókin, síðasta skáldsaga höfundar, er það ekki heldur. Þetta er stutt skáldsaga (nóvella) og fjallar um listmálara sem dvelst í hjólhýsi í hjólhýsabyggð í skóglendi uppi í sveit. Listmálarinn er að rabba við sjálfan sig og minnir textinn víða á sendibréf en þau voru helsti samskiptamiðill landsmanna fram yfir miðja síðustu öld. Sögumaður, það er listmálarinn, rabbar um dvöl sína í hjólhýsinu, lýsir því sem þar er innan dyra, tíundar í smáatriðum hugsanir sínar um allt og ekkert. En þetta sendibréf Gyrðis er að því leyti frábrugðið venjulegu sendibréfi að bréfritarinn er hér að skrifa sjálfum sér, segja fréttir af fólki og stöðum sem ýmist eru til eða ekki. Sem sendibréf frá ímynduðum atburðum kann þetta að virðast áhugalítil lesning og sem skáldskapur má segja að þar gerist í raun ekki neitt. Höfundurinn tileinkar bókina minningu föður síns, listmálaranum Elíasi B. Halldórssyni. Þetta er ekki stormasamt verk. Lesandinn getur hvenær sem er lagt frá sér bókina því hann veit að þar er ekkert óvænt á döfinni, aðeins spurning hvenær sendibréfinu lýkur. Ég gríp niður í sögunni á blaðsíðu 69:

Út um gluggann sést móta fyrir hinum hjólhýsunum. Þau eru aflöng og gráleit, og yfir þeim gnæfa barrtrén: biksvört og oddhvöss víggirðing allt í kring. Grasflötin er döggvot og svargræn. Ég sé að bolti strákanna hefur orðið eftir á henni miðri. Ef þetta er þá ekki njósnatungl, fallið af þessum þungskýjaða og fjandsamlega himni. Ég tek upp vasaljósið og lýsi á myndina af Jesú á veggnum. Batteríin eru orðin léleg, ljósið er varla nema glæta lengur. Hann er mjög rólegur yfir þessu öllu, horfir á mig festulegu augnaráði, kippir sér ekki á neinn hátt upp við öfl myrkursins.
Ég opna hjólhýsið, fer berfættur út að brúninni á dyrapallinum og kasta af mér vatni. Það er svalt í lofti, hæglátt næturkul. Ég stíg inn aftur og læsi tryggilega, sný smekklásnum. Þvínæst fer ég í rúmið og leggst fyrir, og nú hef ég slökkt á vasaljósinu. Allt er hljótt frammi, ekkert más, ekkert fótatak, engin ónotaleg nærvera. Ég er dauðþreyttur, og sofna fljótlega.

Gyrðir Elíasson er afkastamikill rithöfundur og skáld og hefur hlotið mikið hrós hjá flestum þeim sem hafa skrifað um verk hans síðustu tvo áratugina. Ég get vel skilið það viðhorf margra þeirra sem telja að í skáldskap Gyrðis sé að finna boðskap um fegurð hins látlausa, frið kyrrðarinnar eða eitthvað í þá veru. Í umsögn Ástráðs Eysteinssonar um bókina og birtist í Lesbókinni 20. október 2007 segir: „En hann málar líka með þögninni og galdur Gyrðis tengist... samspili tómleika og hins ríkulega lífs sem streymir fram jafnt úr orðum sögunnar sem og því er býr á milli þeirra og bak við þau.” (15). Gyrðir Elíasson er formsnillingur með sál. Hin dulmögnuðu áhrif í skáldskap hans liggja í þeim sérstaka hæfileika að skrifa sögur og ljóð þar sem ekkert gerist – bara er.



Einar Kárason. Endurfundir, smásögur (kápa: Guðjón Ketilsson *), Mál og menning, 2007 (165 bls.)

Þetta eru 26 smásögur og allar byggðar upp á svipaðan hátt að því leyti að sögumaður, sem birtist í gervi ýmissa persóna, segir sögu sína. Þetta eru allt frásagnir þar sem sögumaður er sjálfur í sviðsljósinu. Á kápubaki má lesa umsögn um höfundinn. Þar segir að lokum „... og hér sýnir hann enn hve öflug tök hann hefur á þeirri flóknu list að segja góða sögu.”
Sú kúnst að segja góða sögu er ekki öllum gefin. Það má vel vera að höfundurinn búi yfir þeim hæfileika að mæla af munni fram sögu. Hitt er svo annað mál að þessar sögur sem hér birtast bera það ekki með sér að hér hafi skáld komið að verki eða rithöfundur. Þetta er, með einni undantekningu, orðavaðall þar sem ekki örlar á skáldlegum eða listrænum tilþrifum. Upphafssaga bókarinnar nefnist Samfylgd, örsaga sem stílfræðilega mætti flokkast sem prósaljóð og er hér skrautfjöður í harla ókræsilegum hatti. En skrautfjöðrin stendur fyrir sínu – glæsilegur skratti úr sauðarleggnum.

Samfylgd

Í fyrstu geislum morgunsólar sat ég í gömlum leigubíl og ók
spenntur og djúpt hugsi inn í stórborg eftir næturlangt flug.
Á umferðarljósum biðum við á rauðu og er ég leit til hliðar
sá ég þrjá stálpaða kálfa standa tjóðraða á palli gamals vöru-
bíls á næstu akrein. Þeir voru með þennan rólynda heim-
spekisvip sem nautgripum er tamur en virtust þó líka
spenntir eins og ég yfir að vera á leið inn í heimsborgina
utan af sléttunum á þessum fagra morgni: borgina með
mannhafinu og mörkuðunum, steikarilmi og löngum hníf-
um.



Kristín Marja Baldursdóttir. Óreiða á striga, skáldsaga (kápa: Margrét E. Laxness ***), Mál og menning, 2007 (541 bls.)

Óreiða á striga er framhald af skáldsögunni Karítas án titils, mikið og stórbrotið skáldverk um sögupersónuna og listakonuna Karítas Jónsdóttur, heillandi lesning allt í gegn og er þá mikið sagt þegar um er að ræða rúmlega þúsund blaðsíður. Hér verður fjallað um seinni bókina.
Sagan hefst þar sem Karítas býr á Eyrarbakka. Þótt hún eigi eiginmann, börn og systkini býr hún lengst af ein. Eftir miklar vangaveltur flytur hún loks til Parísar og þar gefst henni kostur að mála. Loks flyst hún aftur til Íslands og fær inni í íbúð við Laugaveg í eigu bróður síns. Þá hefst nýr kafli í lífi hennar. Í millitíðinni dvaldi hún í Bandaríkjunum og í Róm. Á vissan hátt má segja að þetta séu tvær sögur, annarsvegar sagan af Karítas og svo fjölskyldusagan af Karítas og eiginmanni hennar, útgerðarmanninum Sigmari. Þetta er saga af lífshlaupi yfirstéttarfjölskyldu á Íslandi á síðari hluta 20. aldar, ein athyglisverðasta skáldsaga sem skrifuð hefur verið í seinni tíð.
Það leynir sér ekki eftir að lesandinn hefur handfjatlað bókina, strokið hendi um síðurnar og hafið lestur að hér er á ferð ekki aðeins afbragðs rithöfundur heldur einnig listakona með næma tilfinningu fyrir þeim örlagaþráðum sem hún er að spinna.
Lesandinn fær það fljótt á tilfinninguna að Karítas Jónsdóttir sé raunveruleg persóna. Allt snið bókarinnar ber með sér listrænan smekk. Að formi til er skáldsagan þannig uppbyggð að hver einstakur kafli hefst á sjálfstæðum inngangi, einskonar intermessó þar sem höfundurinn sjálfur lýsir einstökum málverkum Karítasar, fjallar um þau líkt og blaðamaður sem er að taka viðtal við listakonu, fjallar um verk hennar og ýmislegt annað sem tengist sjálfri sögunni, einskonar stökkpallur inn í sjálft skáldverkið. Þá hverfur höfundurinn baksviðs og Karítas stígur fram í eigin persónu og mælir af munni fram og þá í hlutverki sögumanns. Samspil þessara tveggja þátta er dæmi um frumlegt og trúverðugt stílbragð sem jafnframt er eitt helsta sérkenni verksins. Að öðru leyti skiptist bókin í fjóra meginhluta en aðalkaflar eru alls 27 og mjög mislangir, allt frá einni síðu í rúmlega þrjátíu hver. Milliþættirnir eru allir mjög stuttir, venjulega 1–3 síður. Bókinni lýkur á milliþætti, nokkuð lengri, einskonar niðurlagsorðum þar sem höfundurinn hefur síðasta orðið. Hér eru dæmi um upphafsorð tveggja milliþátta, sá fyrri, sem jafnframt er sá fyrsti í sögunni, á bls. 13 og sá seinni á bls. 331:

Karítas
Brunnur 1945
Olía á striga

Höfuðlausar konur skjótast upp úr brunninum líkt og hraunkúlur í eldgosi en sjálfur brunnurinn svífur um í tómarúmi líkt og vindurinn ætli að nema hann á brott. Þrátt fyrir mjúk og sveigjanleg formin sem taka á sig lífræna mynd, skapast spenna í myndinni þegar svarti liturinn og sá hvíti takast á. Vindurinn hafði borið listakonuna í vesturátt en þó ekki alla leið til Reykjavíkur eins og hún hafði gert ráð fyrir í upphafi.

Karítas
Andþrengsli 1963
Blönduð tækni

Bleik samanreyrð lífstykki á flugi í svartri nóttinni sýna svo ekki verður um villst að kvenlíkaminn er viðfangsefnið. Lífstykkin eru sjö talsins og taka þau fremstu mesta rýmið en þau sem aftar eru virðast hverfa út í tómið, eins og óskilgreint aðdráttarafl togi þau til sín. Myndin er gerð þegar þessi tegund kvenundirfata var að hverfa af sjónarsviðinu en þó enn notuð af konum sem álitu líkama sinn ekki boðlegan eftir meðgöngur og barnsfæðingar og vildu lagfæra hann með umbúðum.
Karítas er heillandi sögupersóna, stundum hljóð eins og vornóttin, stundum hreyf eins og goshver: „...svo var bankað aftur og ég rauk upp með offorsi, reif upp hurðina. Útifyrir stóð Dengsi með blómvönd. Ég þreif af honum vöndinn, lokaði svo dyrunum á hann.” (160)
„Þú verður að fara út í apótek og kaupa handa mér bindi, sagði ég án tilfinningasemi. Hann sagði: þú ert ekki almennileg, ætlastu til að ég fari út að kaupa svonalagað?... Hann var lengi að búa sig, þurfti að fara í bað, var óratíma að tína á sig spjarirnar, greiddi sér vandlega eins og hann væri að fara í fermingarveislu, hikandi í hverju spori, var kominn hálfur út um dyrnar þegar hann stundi upp: hvernig í andskotanum á maður að segja þetta á frönsku? Hann fékk með sér miða.” (178) Stundum verður Karítas ljóðræn. Gott dæmi um það er upphaf 4. kafla á bls.80:

Loftið er þrungið regni.
Það bylur á þaki mínu, kæfir önnur hljóð.
Dragsúg sem andvarpar.
Vindhviðu sem stynur.
Þruskið á loftinu.
Undir sænginni minni með dyrnar læstar, regnið á þakinu, heyri ég samt hvíslið handan hurðarinnar. Ég þori ekki að loka augunum af ótta við að þær standi við rúm mitt þegar ég opna þau. Framliðnar konur sem fá ekki hvíld, hvað vilja þær mér? Ég heyri þytinn í pilsum þeirra, lágvært skrafið meðan þær sýsla. Sting fingrunum í eyrun, heyri samt suðið.
Svo styttir snögglega upp, það dettur í dúnalogn.
Eitt andartak þögn í húsinu, þögn í höfði mér.



Ingólfur Gíslason, Sekúndu nær dauðanum – vá, tíminn líður! (kápa: Schuyler Maehl*), Nýhil, 2007 (79 bls.)

Þetta er ekki hefðbundin ljóðabók, hvorki að því er varðar útlit eða innihald; formleysið er áberandi og þeir sem hafa áhuga á að finna ljóð sem eru þess virði að berja augum þurfa kannski að leita með ljóskeri innan um allskonar skran sem frekar á heima á öskuhaugum en á síðum fagurbókmennta. En þarna innan um allt draslið má finna ljóð og prósa sem eiga betra skilið en týnast í þeirri ruslakompu sem þessi bók er. En án frekari orðalenginga vil ég benda á eitt athyglisvert ljóð og annað prósaljóð sem bera það með sér að höfundurinn býr yfir skáldlegum hæfileika.


Stjörnuleit

ætlaði að segja eitthvað um stjörnuleit
í augum, um geisla sem verpast
á nethimnur

ást sem rúmfræðilögmál

svo datt mér í hug að ástin væri frekar
sláturhús

það sparar blóð
að myndhverfa

skyndidepurð, óstöðvandi
flæði adrenalíns úr nýrnahettumerg

lýsing nákvæm eins og tölvustýrt sprengjuskeyti,
þungað hárbeittum nálum til að stinga göt á húð

augu þín voru alltaf grunsamlega blá.


Brotnar sekúndur

þú veist að á eftir jólum kemur janúar og þá ferðu aftur að
taka lýsi og borða pillur samkvæmt þúsund ára uppskrift
galdralækna frá fjarlægum álfum og í líkamsræktarstöð og
hleypur án þess að færast úr stað eins og bíll í lausagangi,
leggst svo upp í rúm og sofnar út frá aldagamalli speki um
raðfullnægingar.

Þú ert einni sekúndu nær dauðanum.



Eiríkur Guðmundsson, ritstj., Ritsafn Steinars Sigurjónssonar, 1.–20. bók (Útlitshönnun: Guðmundur Oddur Magnússon. Myndir á tveim öskjum: Erró og Sigurður Guðmundsson *****. Myndir á kápum: Bók 1: Helgi Þorgils Friðjónsson. Bók 2: Rúna Þorkelsdóttir. Bók 3: Kristinn G. Harðarson. Bók 4: Birgir Andrésson. Bók 5: Hetty van Eglen. Bók 6: Ólafur Lárusson. Bók 7: Kristján Guðmundsson. Bók 8: Ríkharður Valtingojer. Bók 9: Tumi Magnússon. Bók 10: Arnar Herbertsson. Bók 11: Finnbogi Pétursson. Bók 12: Haraldur Jónsson. Bók 13: Halldór Ásgeirsson. Bók 14: Pétur Magnússon. Bók 15: Ingólfur Árnason. Bók 16: Hannes Lárusson. Bók 17: Hreinn Friðfinnsson. Bók 18: Ívar Valgarðsson. Bók 19: Eggert Pétursson. Bók 20: Jan Voss *****) Ormstunga, 2008 (2.693 bls.)

Þetta er yfirgripsmikið ritverk og einstaklega aðgengilegt til lestrar, alls tuttugu bækur í kiljubroti, flestar innan við 200 blaðsíður og nokkrar innan við hundrað síður. Hér er um að ræða allar útgefnar bækur Steinars Sigurjónssonar og flestar með breytingum frá hendi höfundar. Þetta eru alls níu skáldsögur: Ástarsaga (1958), Hamingjuskipti (1964), Skipin sigla (1966), Blandað í svartan dauðann (1967), Farðu burt skuggi (1971), Djúpið (1974), Sigling (1978), Sigan Ri (1986) og Kjallarinn (1991). Þá eru það ljóðabækurnar: Fellur að (1966) og Landans er það lag (1976). Síðan koma smásögur og ljóðrænir þættir: Hér erum við (1955), Brotabrot (1968), Þú (1975) og Laust og bundið I og Laust og bundið II. Þá kemur bókin Sáðmenn (1989), sem kalla mætti ljóðrænt leikverk og loks Leiktextar, en þeir eru frá lokum 9. áratugarins. Við þetta bætist svo bókin Minningabrot, sem er eins og nafnið bendir til minningabrot þar sem 28 höfundar skrifa um Steinar. Þessu viðamikla ritsafni fylgir svo ítarleg umfjöllun um verk Steinars, Nóttin samin í svefni og vöku. Þar er fjallað ítarlega um bækur Steinars Sigurjónssonar og vitnað í umsagnir annarra höfunda. Þar má nefna: Ástráð Eysteinsson, Matthías Viðar Sæmundsson, Sigurð A. Magnússon, Njörð P. Njarðvík, Einar Guðmundsson, Þorsteinn Antonsson og Guðberg Bergsson. Ritsafninu fylgja tveir geisladiskar þar sem Karl Guðmundsson leikari les skáldsögurnar Farðu burt skuggi og Blandað í svartan dauðann. Í ritgerð sinni fjallar Eiríkur Guðmundsson um hverja bók fyrir sig, líkt og um ítarlegan ritdóm væri að ræða og svo einnig um skáldið, rithöfundinn og manninn Steinar Sigurjónsson. Þetta er kærkomið framlag til íslenskrar bókmenntasögu og tvímælalaust merkasti bókmenntaviðburður á Íslandi á þessu ári.
Eiríkur Guðmundsson telur að enn eigi margt eftir að koma upp á yfirborðið sem varpa muni nýju ljósi á skáldið, rithöfundinn og manninn Steinar Sigurjónsson. Og aug­ljóst má telja að þar verði ekki allir sammála þegar kemur að því að draga upp mynd af þeirri persónu sem Steinar hafði að geyma. Margt af því sem kemur fram og haft er eftir einstökum heimildarmönnum gefur ekki trúverðuga mynd af Steinari og sú athugasemd Eiríks Guðmundssonar að „... það væri að æra óstöðugan að rekja fylliríissögur af Steinari Sigurjónssyni,” (106) eru misvísandi. Það er vel þekkt í heimi lista að sagðar eru ýkjusögur af listamönnum og skáldum. Þetta á ekki síst við þegar fjallað er um drykkjuskap og óreglu, og þótt glansmyndir af drykkjuskap geti verið litríkar er yfirleitt talað niðrandi um slíkt. Þetta viðurkennir Eiríkur þegar hann segir að „... líklega hafi ýmsir sem fjallað hafa um verk Steinars Sigurjónssonar gert of mikið úr „... lýsingum hans á fylliríum og skolpi heimsins.” (69). Eiríkur segir að sjöundi áratugurinn í lífi Steinars hafi „... einkennst af slarki ... ráfandi um miðbæinn með stór augu, stundum athvarfslaus ... stundum í slagtogi með mönnum sem áttu flösku í poka.” (101). En þá er líka rétt að hafa í huga að sjöundi áratugurinn var jafnframt helsta blómaskeið í rithöfundaferli Steinars. Þetta viðurkennir Eiríkur þegar hann segir að með ritverkum Steinars á sjöunda áratugnum hafi „... verið sleginn nýr tónn í íslenskum fagurbókmenntum, bæði hvað varðar form og innihald.” (23). Steinar datt aldrei niður í óreglu eða eymd vegna aumingjadóms eða sjálfsvorkunnar. Mér virðist sem hann hafi haft fullkomið vald yfir þeim lífsstíl sem hann valdi sér. Hann var rithöfundur af innsta eðli og hann tók á sig hin ýmsu gervi á leiksviði lífsins ef svo má segja. Það gefur ranga mynd af Steinari Sigurjónssyni þegar því er haldið fram að hinar dökku hliðar mannlífsins sem birtast í verkum hans séu endurómur frá innbyrðis sálarkvöl. Það var einmitt í þessa veröld sem hann sótti efnivið sem honum tókst að glæða lífi í verkum sínum. Módernísk tilþrif Steinars voru honum eðlileg – hefðbundinn frásagnarstíll hentaði honum ekki. Hann skrifaði eins og hugur hans bauð – ekki samkvæmt pöntun, ekki fyrir bókaútgefendur eða lesendur. Lýsing Einars Guðmundssonar sem Eiríkur vísar til (102) gefa villandi og ótrúverðuga mynd af skáldinu og rithöfundinum Steinari Sigurjónssyni. Vissulega var háttsemi Steinars oft furðuleg, en það gildir einnig um marga, annars dagfarsprúða einstaklinga. Steinar hannaði sjálfur þau hlutverk sem hann lék og í raun hafði hann fullkomið vald yfir háttsemi sinni. Hann ræddi oft og af yfirvegun um þessi „hlutverk” sín og gerði oft grín að þeim persónum sem hann var að túlka hvort sem það var í raun eða í skáldskap.
Eiríkur Guðmundsson kemst víða vel að orði þar sem hann lýsir Steinari og verkum hans. Hann segir að verk Steinars séu „... bæði hvað form og innihald varðar – andóf gegn ofbeldi skynseminnar sem kæfir sönginn í brjóstum manna.” (141). Og bætir svo við: „Steinar var öðru fremur bókmenntalegur höfundur, og verk hans nær póesíunni en nokkru öðru.” (141). Á öðrum stað segir Eiríkur: „Af andófi gegn upplýstri skynsemi er nóg í verkum Steinars, það andóf grundvallast af fagurfræðilegu viðhorfi.” (154). Og enn víkur Eiríkur að fagurfræðinni: „Fáir áttuðu sig á fagurfræði Steinars, fegurðinni í rökkrinu og ljótleikanum, og því viðhorfi hans að mögulega þyrfti lífið að halda mönnum niðri í skítnum til þess að þeir yrðu fagrir.” (93). Í umsögn sinni um skáldsöguna Djúpið segir Eiríkur: „Styrkur Steinars sem höfundar í verkum á borð við Djúpið og Þú (og síðar í Kjallaranum) felst ekki síst í ljóðrænu frelsi ... líkt og í nútímalegri ljóðlist sem hverfist einvörðungu um sjálfa sig.” (121). Og Eiríkur bætir við: „Djúpið stendur stakt í höfundarverki Steinars og á sér... fáar – ef nokkrar – hliðstæður í íslenskri skáldsagnagerð.” (113). Djúpið er súrrealískt verk og mjög í ætt við ljóðræna þætti og prósa í bókunum Brotabrot, Þú og Hér erum við.
Eiríkur Guðmundsson víkur sérstaklega að persónulegum einkennum Steinars: „Verk Steinars allar götur frá upphafi ferils hans einkennast af örvæntingarfullri tilraun til að komast inn í kviku lífsins.” (17). Og hann bætir við að rithöfundur líkt og Steinar „... finnur lífi sínu tilgang í afneitun eða fórn.” (19).
Fram kemur hjá Eiríki að Steinar hafi haldið því fram „... að honum væri með öllu fyrirmunað að skrifa um sjálfan sig.” (146). Ég held að það sé mikið til í því þótt það sé vissulega rétt hjá Eiríki, eins og hann kemst að orði, að Steinar standi „... furðulega nálægt verkum sínum.” (146). Það er kannski helst í skáldsögunni Siglingu þar sem Steinar tekur á sig gervi söguhetjunnar. Um þá bók segir Eiríkur: „Sigling er fljótandi verk, heillandi í formleysu.” (126).
Eiríkur víkur að skáldsögunni Blandað í svartan dauðann og segir að bókin „... sé í vissum skilningi tímamótaverk... í íslenskri skáldsagnagerð þar sem slorlyktina leggur af síðunum og ástríður baðast í brennivíni, í texta sem á sér fáar hliðstæður í íslenskum bókmenntum.” (60). Um aðra skáldsögu Steinars, Ástarsögu, segir Eiríkur að þar sé „... sjómannslífi lýst á óvægnari hátt en áður hafði tíðkast í íslenskum bókmenntum, með aðferðum sem voru nýstárlegar í íslensku samhengi.” (22). Með „aðferðum” á hann væntan­lega einkum við framburðarstafsetningu textans. Almennt segir Eiríkur um verk Steinars að þau „... einkennist frá fyrstu tíð af sérstæðu orðtaki... er telja má einstakt í íslenskum bókmenntum... máli sem átti rætur sínar að rekja til alþýðu manna í íslenskum sjávarþorpum.” (74). Þá segir Eiríkur: „Steinar Sigurjónsson var ekki raunsæisrithöfundur. Þrátt fyrir ókræsilegar lýsingar er einhver brakandi sólarfegurð í textanum.” (66). Og að lokum segir Eiríkur Guðmundsson: „Kannski eigum við ekki að reyna að skilja Steinar, heldur einfaldlega njóta verka hans og þess ljóma sem þau bregða á lífið ... skynja og gruna, fremur en skilja. (131).

PS.
Ég ætla að ljúka þessari umfjöllun minni um Ritsafn Steinars Sigurjónssonar á per­sónu­legum nótum, bregða upp tveim svipmyndum frá kynnum okkar Steinars en við kynntumst fyrst þegar við áttum heima í Vestmannaeyjum á 6. áratugnum. Þótt Steinar hafi á yfirborðinu þótt hrjúfur, brothættur og rótlaus var hann í raun fastur fyrir og metn­aðarfullur rithöfundur. Árið 1965 birtist í Lesbók Morgunblaðsions Dagbókarbrot eftir Steinar. Það var síðan endurprentað í Lesbókinni 2005 í tilefni af 80 ára afmæli hans. Kannski mætti kalla þetta fylliríissögu en í mínum huga er þetta hugljúf endurminning frá kvöldstund þegar við Steinar og Jónas Svavár fórum saman í heimsókn vorið 1961 til hjónanna Ingibjargar og Einars Tönsberg sem þá bjuggu á Sogamýrarbletti 46 (nálægt þar sem nú er Síðumúli 6 og næsta nágrenni) og ráku þar myndarlegan búskap með hænsnum, svínum og nokkrum gæsum, nutum þar samverunnar, drukkum kaffi með nýbökuðu brauði, sem Ingibjörg var að taka út úr ofninum, sungum og dönsuðum út í vornóttina og kyrjuðum sálmalög við undirleik húsráðandans sem lék undir á lítið fornfálegt kirkjuorgel sem hann hafði þá eignast. Þá um sumarið fluttist ég til Bandaríkjanna og bjó þar með fjölskyldu minni næstu árin.
Í bréfi sem Steinar skrifaði mér í apríl 1964 (en þá bjó hann á Vatnsendabletti 191, sumarbústað við Elliðavatn, sem hann hafði þá keypt) víkur hann nokkrum orðum að trúarlegum hugleiðingum mínum frá fyrra sendibréfi. Þar skrifar Steinar meðal annars með fallegri rithönd sinni á blágrænan pappír:

Þú segist vera búinn að tapa því litla sem eftir var af guðstrúnni, en hvað tekur við? Ertu orðinn sami vonlausi trúleysinginn og allir hinir vonlausu listamenn dagsins? Það léti svo sem ekki nema að líkum: Maður verður nauðugur viljugur að dragast mjög áleiðis niður í drulludíki þessa tíma; því miður eru allar fagrar blekkingar að hverfa fyrir galtómri rökhyggju og raunhæfi. Sósíalisminn er svo drepandi leiðinlegur vegna þess að hann vantar þessa fleygu blekkingu, en Kierkegaard hef ég ekki lesið, ekki enn. Ég býst við að listamaður sé ávallt það sem þjóð eða heimur er. Ég vildi satt að segja ekkert fremur en einhver mikilúðleg blekking fengi hafist vegna þess ördeyðis sem í nösunum er, að blóð streymdi nú einhvern daginn inn í æðarnar og ræki skolpið út.

Í þessu sama bréfi segir Steinar: „Eftir að hafa í eitt ár verið að reyna að selja handrit að skáldsögu minni Hamingjuskiptum og eftir að fimm stærstu bókaforlög landsins hafa hafnað því – hef ég nú selt söguna og verður hún gefin út í sumar eða haust hjá Iðunni.”


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur