Boggý og Habbakúk III. The Healer eftir Thor Vilhjálmsson
Á hvítum hestum hleyptum við upp á bláan himinbogann
og lékum að gylltum knöttum;
við héngum í faxi myrkursins,
þegar það steyptist í gegnum undirdjúpin;
eins og tunglsgeislar sváfum við á bylgjum hafsins.
(Jóhann Sigurjónsson: Sorg)
Ohh þú getur ekki ímyndað þér hvað hann var ógeðslega
flottur, segir Boggý þar sem hún sat starandi augum eftir einhverju
sem hafði verið draumur kannski en það var í augum hennar skugginn
af beittri skálm sem hafði verið reidd að draumnum og slæmt á
þráðinn. Hún tuggði ákaft og tómlátt meðan pilturinn dundaði við að
skipta um rúðu og hann bar á kítti og hún horfði eftir strokum hans
eins og spaðinn væri nögl á kjassandi fingri sem breiddi kíttið
klístugt og ljóst eftir falsinu.
Ó hvað ég er fegin að vera komin hingað, segir hún og greiddi
fingrum blásna lokka sem fjargviðruðust við birtuna hverfula að
utan, og höfðu verið styttir í morgun svo fingrum hætti við að fara
lengra um það sem hafði verið tekið af.
Þetta var erfitt þegar við vorum þrjár saman í einu herbergi frá
mæðranefndinni þó þær væru ágætar og okkur kom vel saman. Við vorum
þrjár allar ungar og hlunnfarnar, plataðar.
Ein sautján ára með barn, önnur enn yngri. Og svo ég með eins og
hálfs árs barn, og var þá tvítug. Það er langt síðan, svo hefur svo
margt gerzt, segir hún, og kveikti sér í sígarettu og hafði í
munnviki sömu megin og tyggigúmmið.
Og horfði á þennan stælta unga mann reisa upp rúðuna af borðfletinum
og færa út á sólbekkinn, og máta í falsið sem beið að taka við, og
skýla gagnsætt fyrir veröldinni úti með öskri og hrópum af
bílaplaninu.
Og meðan hann setur glerið milli hennar og heimsins úti segir hún
honum söguna af heilunarævintýri sínu, og entist út í kaffið og
smjörkökuna úr bakaríinu, og henni þrjár sígarettur í viðbót, og
reykurinn sveif um þau, og fór fyrst í blágráum taumum upp með hári
hennar dökku og lék í sveigum um lokkana blásnu í steyptar krullur,
og gegnum hárlokkana sem ekki voru lengur og slæddust fyrir augu
hennar nærverulaus á sveimi.
Líka eins og reykurinn sem þéttist eftir því sem ofar sótti og svam
um ljósið yfir borðinu þegar var orðið rokkið nóg til að tendra það
og það sat gulleitt í blárri skál sem var hvolft yfir með fjarska
einsog saga sem bláhattar fyrir og ýmist leysist eða þéttist.
Æ, og þetta æ var framarlega í sögunni og lónaði í sambýlinu hinna
þriggja meyja sem of snemma voru mæður að bera saman hagi sína meðan
þær höstuðu á börnin eða skiptu um bleyjur, bíuðu þeim og sinntu
af eðlisvizku og tilsagnarlaust, og sátu og drukku kaffi og reyktu,
og reyktu einsog til að fela sig og umkomuleysi sitt.
Æ, eitthvað var hún angurvær og miður sín.
Það dugði ekki svo hún fór í heilun hjá amerískum manni með svo
undarleg augu einsog hann horfði í gegnum allt án fyrirhafnar og
væri ekki að leita að neinu. Og horfði í augun á manni án þess að
horfa og leysti mann upp; og heilunin tókst svo vel að heil varð
hún, heilli en fyrr. Því nýtt líf óx í kviði hennar í staðinn fyrir manninn
sem jók svona við hana af sjálfum
sér og mest af henni sjálfri af því að hann var horfinn í haga
sína heima í Ameríku. Og þegar barnið var fætt þá vantaði eitthvað
upp á að hún væri lengur heilsteypt.
Og hún lagði af stað; og vissi varla hvar hans var að leita í svo
víðlendum ríkjum sem USA; lagði af stað að leita síns ástmanns og
heilara, og fór víða og spurði hvarvetna þar sem hún kom; og sat í
þessum bússum um nætur og um daga; og svo ófrýnn var hann að hún gat
með nákvæmum lýsingum sem ástin magnaði í smæstum atriðum spurt
hann uppi. Og hafði þá víða borizt og gist borgir og sveitir og
þorp, og tónlistarhátíðir undir berum himni í mannhafi; og kemur nú
einsog fiðrildi með framlengdu lífi flögrandi með síbreyttum litum
eftir umhverfi í hverfi; og þar var ölsátur undir tjaldhimni, og
lítt hefluð borð og baklausir stuttbekkir klambraðir saman, og
talar lauslega um erindi sín við þennan heim, þarna.
Er þá ekki einhver sem fannst hann kannast við barnsföðurinn
af fjálgri lýsingu eftir því sem ljósfurður ýttu undir
töfra hins næststadda í einstökum atriðum að tæmdum ölkollum og
aukinn sorta nætur utan við vébönd veitinga og staðarljós, efld af
þrem logandi kertastubbum og brennandi bréf í öskubakka, og
eldsglóðir í útbrunnu báli.
Já, hann, ef það er sá, gáðu þá í þriðja húsið þarna frá. Og gekk hún
nú þangað vegmóð, og svolítið reikul í spori langt að komin
vegmey, og þar inn.
Maður lá á gólfi í auðri stofu, og horfði hálfbrostnum augum upp í
loft og velti höfðinu með hnakkann á beru gólfi moldugu, hálfdauður
af sulti. Og var hinn mikli heilunarmeistari, draummaður hennar. Og
dularfullu augun sem logað hafði undan, þau voru orðin dauf og alveg
að fjara út, eimdi eftir af glæðum, eða var það bara minning að
visna.
Þarna stendur hún í rústunum. Þótt hún bæri kennsl á manninn kom hún
ekki hræi þessu saman við þann sem fyrr hafði komið til að gera
hana tætta alla heila, koma henni saman með sínum hætti. Hún hafði
leitað að honum annars staðar og séð hann fyrir sér í hallarsölum,
eða í rjóðri með arma og fætur krosslagða og hringeld í runnum
umhverfis þar sem vatn lék utan við svo bærust ekki neistar af
eynni í skóginn svo heimurinn brynni þar allur og þaðan; og sæti þar
á gulli fengsins af fyrirtæki hans sem hann hafði talað líkt og tregt væri
að ræða slíkt að stæði með blóma um Bandaríkin víða svo þrútnuðu sjóðir
hvarvetna í bólstöðum þess um Bandaríkin öll, af fjármunum sem steymdu
inn í áheitagjöfum og þakklætisávísunarseðlum.
Snarkólnuðu við þá sýn kynni sem hún hafði nært og ræktað einhliða,
reyndi ekki til þess að vekja mannrúst þessa.
Hafði sig heim til að vitja barnsins sem hún átti ein á heimsenda og
hins sem hún átti eftir að kynnast því að hún var of ung þegar það
kom ástríðulaust í heiminn. Og nefndi aldrei framar töfrarann
mikla né veldi Heilunar h/f fyrir vestan.
II
Reykhringir rísa einsog þvívíðar gárur vildu setjast í hár hennar,
en söknuðu festu í styttum lokkunum. Teygðust og slitnuðu og sóttu
upp í rastirnar um bláu hjálmeyna yfir ljósfossinum og streymdu
þar og rastirnar ófust unz þær hurfu í kófið uppi undir lofti.
Augnaráð hennar var einsog þessi reykur og hún tók líkt og á leið í
leiðslu litla fjöður af borðbrúninni sem hafði hirt af
gagnstéttinni fyrir framan húsið ásamt gulnandi reyniberjaklasa og
fór með fjöðrina í nýjan hring af reyk og sleit hann og bandaði svo
í reyktrefjarnar og raskaði frekari reykgárum, unz hún bar þessa
gráu og svörtu fjöður að nefi sínu einsog að máta við, og fjöðrin
var jafnlöng því, þessu granna og beina nefi, eða var hún kannski
að hugsa um að tálga á hana odd og fara að skrá annál sinnar
ferðar? Kannski með blóði úr æð. Og fanirnar hreyfðust við
andardrátt hennar sem örvaðist undir ljóskeilunni sem streymdi í
reykinn einsog til að þétta hann í kórónu svo henni gæti fundizt
hún vera strönduð prinsessa á skeri.
Síðan stóð hún upp einsog einhver kallaði án þess að heyrast, og fór
út að glugga hjá nýju rúðunni, opnaði svo ör andi hennar næði kannski
vænglaust út til dimmblánandi skýja sem dreif fyrir.
Og rákust um eggjar fjallanna handan við flóann, og tóku þaðan
stykki stór; en leifðu hæstu eggjum einsog skerjum og flesjum sem
bar við bleikt loft hið næsta eftir sokkna sól.
Og hún hélt fjöðrinni smáu frá flúnum fugli út í goluna sem togaði í
hana á vegum kvöldsins, bærði hana alla, svo sleppti hún
fjöðrinni. Hún hvarf út í bláinn á augabragði, í átt að trjánum þar
sem vindurinn var farinn að tína laufblöðin af greinunum.
Og nú er hjólhýsasamfélagið að baki. Ef kalla má samfélag þessa
samansteðjun fólks sem rekst þangað úr ýmsum áttum með hjól undir
húsum sínum.
Nóttin lætur okkur sigla með skvamphljóð frá hjólbörðunum sem snúast
og snúast á grunnsævi regnsins á svörtu malbikinu, eða fruss sem
dregur úr hrotunum eða vefur þær eilífðarblæ sem er ekki dauðinn
heldur tímaleysi, eitthvert hlé á tíma heimsins eða undanfæri.