Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Nokkur ljóð eftir Björn Stefán Guðmundsson frá Reynikeldu


Sæll dagur

Ég mætti deginum
sem kom gangandi
        út úr nóttinni –
Hann var snemma á fótum
        þetta vor og
hafði lítið sofið eins
                og ég –
Viltu lifa með mér og vera
heilbrigður um stund?
        spurði hann.
Stakk hendi sinni í mína
og leiddi mig með sér
        út í heilbrigt
                frelsi.



Líf

Ég sé til haustsins í
                skýjunum
það kemur nær og nær
eins og kvöldið í sjálfum mér.
Reynirinn blaktir blómgvaður
                í garðinum
eins og sá sem fengið hefur
rauða rós í barminn frá
einhverjum sem fannst hann
        eiga það skilið eða –
bara að þakka fyrir sumarið.
Fuglarnir kroppa skrautið
og undirbúa þrek sitt fyrir
langa ferð með skýjunum
                í haustinu.
Kötturinn bíður í næsta garði
og hlakkar til góðs kvöldverðar –
Ef það gengur allt eftir þá er það
sem einhver átti skilið að
fá í barminn, komið í köttinn.
Það verður einum færra og
léttara fyrir skýið að taka
farþega sína að vonum.
Dauði eins á að létta á þeim
                sem eftir lifa.



Í leik með blænum

Það var logn og leit vel út
með daginn
lóan kom í gær og kynnti sig.
Himinninn var fagur og hlýjan
sunnanblæinn
hálflangaði til að leika sér við mig.

Blessað vorið burtu kallar
beiskju og sorg
blómin klæða í sumarskrúða dal og hól.
Og á mína skuggum skreyttu
skýjaborg
skín hin bjarta heiða morgunsól.

Kæri blær:
Nú er gott að vakna og vera til
ég vildi ég þyrði
og kæmi ef þú segðir
ég sé þess virði.



Við Hvammsfjörð

Blikar fjarðar báran smá
við bjarma sólarlagsins,
fellin gnæfa himin há
horfa mínar gjörðir á,
þegar orðinn eins og strá
í erli vinnudagsins –

Blikar fjarðar báran smá
við bjarma sólarlagsins,
langur dagur líður hjá
ljós og skuggar kallast á
þá þreyta hugans hörfar frá,
við hljómfall andartaksins –

Í kvöldblíðunni er frið að fá
og frelsi til að lifa og þrá
blikar fjarðar báran smá
við bjarma sólarlagsins.



Ímynd þín

Eitt sumar með sólskin í hjarta
og signdi okkur veröldin bjarta
hver stund var sem blíðasta brosið
hvert blóm eins og ímynd þín.

Á sælunnar stund birtust sorgir
það seiddu þig skýjanna borgir
og allt sem við áttum og sögðum
að eilífu marklaust var.

Því sárt er að bíða og sakna
um sumarið minningar vakna
ég finn að þú ert hérna ennþá
en aldrei á leið til mín.

Það glitrar um víkur og voga
þá vonir í birtunni loga
hver stund er sem blíðasta brosið
hvert blóm eins og ímynd þín.



Lionsmaður og litli Jón

Lionsmaður og litli Jón
létust sama daginn.
Það var suðvestan gola
og sorg um allan bæinn.
Þeir höfðu báðir lifað lengi
og lögmálum heimsins hlýtt.
En að deyja svona saman
fannst sumum heldur skítt.
        Hvernig er það með dauðann?
        Hann kynnir sér málefnin lítt.

Lionsmaður og litli Jón
létust sama daginn.
Báðir voru betlarar
það bilaði í þeim maginn.
Klæddir þeir voru í hvítt og hreint
og hvíldu nú þarna saman.
Konurnar þeirra komu og grétu
og klóruðu sig í framan.
        Hvernig er það með dauðann?
        Kuldalegt þykir hans gaman.

Lionsmaður og litli Jón
voru lagðir í sömu kistu.
Ekki voru allir í þorpinu
ánægðir með það í fyrstu.
Annar þeirra var aðlaður maður
og orðum skrýddur hans barmur.
En hinn var álitinn helvítis
hundur eða þá garmur.
        Hvernig er það með dauðann?
        Kófgerður þykir hans jarmur.

Lionsmaður og litli Jón
voru lagðir til grafar niður.
Hýbýli þeirra voru alveg eins
þar var einstök kyrrð og friður.
Presturinn minntist á dáðir og dug
drengskap vináttu og fleira.
Leitt var að þeir látnu skyldu
lítið af hræsninni heyra.
        Hvernig er það með dauðann?
        Hann kann sína gjörð að reyra.

Lionsmaður og litli Jón
létust sama daginn.
Lífið áfram gengur sinn gang
og gagnar flestum í haginn.
Aftur verður til einhver Jón
sem eigrar á kvöldin, bitur.
Og enn á ný verður aðlaður
einhver stór og vitur.
        Hvernig er það með dauðann?
        Hann kímir og við það situr.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur