Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Viðtal við Pál á Húsafelli


Það var snemma sumars sem tveir höfðingjar riðu í hlað á óðalssetri mínu í Hólminum, fremst á Þórsnesi í Þórsnesþingi hinu forna. Þar voru mættir í litklæðum þeir Thor Vilhjálmsson rithöfundur og Páll Guðmundsson myndlistarmaður.
Nei, hvaða bölvað rugl er þetta í mér. Auðvitað komu þeir ekki ríðandi heldur akandi á japönskum Missúbissí hálfkassa, árgerð 2000 og lögðu upp að gangstéttinni framan við mitt látlausa hús við Garðaflöt í Hólminum. Eftir að þeir félagar höfðu dvalið hjá mér í tvo daga í góðu yfirlæti var það fastmælum bundið að ég kæmi við í Húsafelli næst þegar ég væri á ferð og tæki viðtal við Pál til birtingar í næsta tölublaði Stínu. Þangað skrapp ég svo nokkru síðar í för með stöllu minni Gretu Freydísi Kaldalóns. Eftir að hafa notið góðra veitinga hjá Ástríði Þorsteinsdóttur, móður Páls, sem þá var þar í heimsókn settumst við Páll niður og tókum tal saman um listina.


Hvers vegna listamaður?
Þegar ég var ungur strákur svona 12 ára gamall var svo mikið um það að listmálarar kæmu hingað að Húsafelli á sumrin til að mála. Þá fékk ég oft að fara með þeim þegar þeir voru að mála og fékk þá stundum að mála svolítið. Mér eru einkum minnisstæðir þeir Veturliði Gunnarsson og Pétur Friðrik. Svo byrjaði ég sjálfur að mála stórar olíumyndir.

Einhverjir aðrir listamenn sem hafa haft áhrif á þig?
Já, ég vil sérstaklega nefna Valtý Pétursson og af núlifandi listamönnum er Thor Vilhjálmsson óviðjafnanlegur og lifandi listamaður.

En þú ert ekki bara listmálari Páll heldur líka myndhöggvari.
Já, það er rétt og reyndar er ég menntaður sem myndhöggvari, fyrst í Myndlista- og handíðaskólanum og svo við Listaháskólann í Köln. Ég var um tíma teiknikennari við grunnskólann í Borgarnesi. Þar kynntist ég Hallsteini Sveinssyni, bróður Ásmundar. Hallsteinn vakti áhuga minn á höggmyndinni. Og svo er það efnið sem maður hefur í kring um sig; allt þetta grjót í Bæjargilinu.

Þú ert með vinnustofuna hérna á Húsafelli?
Já, við getum orðað það svo. Annars nær vinnuaðstaða mín yfir stórt svæði hérna vestan við gamla húsið, sem ég skal sýna ykkur á eftir. Já, hér geri ég flest mín verk. En svo á ég líka stórar höggmyndir sem ég gerði á Grænlandi, myndverk í Chicago í Illinois og í Sviss; einnig í Þórshöfn í Færeyjum og í Vestmannaeyjum. Ég hef einnig gert nokkra minnisvarða sem standa vítt og breitt um landið: á Ólafsfirði, Akureyri, Ingjaldshóli, í Kaldalóni, Skálholti og Aðalstræti í Reykjavík.

Nú býrðu hérna, hálfgerður einsetukall, varla orðinn fimmtugur, í afdal, lengst upp undir jöklum; ertu sveitamaður?
Ég er allavega ekki bóndi; ég hef ekki tíma fyrir það. Og ég get sagt þér svona í trúnaði að ég hef heldur ekki tíma fyrir kvenmann. Ég gæti ekki komið öllu því í verk sem ég er að gera ef ég væri kvæntur. Svo það má kannski segja að ég sé einsetukall og sveitamaður. Annars er ég náttúruunnandi - náttúrubarn og ég stend með þeim sem vilja vernda náttúru landsins þótt ég sé ekki með nein læti.

Er ekki erfitt að meðhöndla og færa til þessar stóru klappir og hnullunga sem þú ert að vinna með?
Ég er svo heppinn að Þorsteinn bróðir minn er hérna á næsta leiti með stórar og kraftmiklar þungavinnuvélar. Annars væri þetta erfitt.

Hvernig fær umheimurinn vitneskju um listamanninn Pál á Húsafelli hérna úti á hjara veraldar?
Hingað koma margir útlendir listamenn, fjölmiðlafólk og náttúruskoðendur, og fá að skoða það sem ég er að gera.

Og þar með vorum við farin út í góða veðrið til að skoða það sem Páll Guðmundsson er að fást við. Eftir smá spöl yfir grasið, hundasúrurnar og njólann komum við að höggmynd á stalli og þar í kring, á hringlaga fleti, 18 hnullungar, allt mannshöfuð, frekar óásjáleg.
Þetta er Snorri á Húsafelli og þessir þarna í kring eru draugarnir sem fylgdu séra Snorra þegar hann flutti í þeirra óþökk af Hornströndum og hingað að Húsafelli. Þeir voru reyndar 81 draugarnir, sem fylgdu séra Snorra hingað. Ég hef þá bara 18, það kemur betur út þannig, og viðeigandi þar sem klerkurinn kvað þá niður, og má lesa um það í bók Þórunnar Valdimarsdóttur um Snorra á Húsafelli.

Við göngum enn smá spöl og komum að Jarðhúsinu; bragga innbyggðum í hól. Framan við dyrnar í Jarðhúsið hefur listamaðurinn afmarkað og sléttað hringlaga svæði, fjóra metra í þvermál og þar rétt hjá er stór hrúga af tilhoggnu grjóti, gulu, svörtu, rauðu, gráu, silfurlitu og brúnu.
Þetta er mósaíkmynd sem ég er að vinna að af heilagri Sesselju. Ég reikna með að ljúka verkinu fljótlega; væntanlega nú í ágúst.

En verður ekki erfitt að greina myndina, svona stóra á flatri jörðinni?
Páll bendir á turnbyggingu sem stendur þar ekki langt frá.
Það á að vera hægt að sjá myndina vel ofan úr Turninum. Og þú sérð að hringur­inn þar sem myndin kemur er ekki alveg láréttur heldur hallar dálítið í átt að Turninum. En nú skulum við ganga inn í Jarðhúsið.


Það sem fyrst vekur athygli okkar þarna í Jarðhúsinu, þessu braggamyndaða húsi með hátt til lofts, voru fjögur ásláttarhljóðfæri að því er virtist, og þar uppi á veggjum fyrir ofan nótur af tónlist eftir Bach og aðra snillinga og svo í körfu á gólfinu ýmsar stærðir af sílafónkjuðum.
Þetta eru steinhörpur, sem ég hef búið til úr litlum steinhellum. Sú fjórða er reyndar ekki steinharpa heldur nota ég þar stöngla af þurrkuðum rabarbara í staðin fyrir steinhellurnar.
Þetta er hreint makalaust varð mér að orði eftir að Páll hafði leikið fyrir okkur nokkur lög á steinhörpurnar og þá með stönglunum.


Svo þú ert þá líka tónlistarmaður?
Ég veit ekki hvað skal segja um það; tónlistin er mjög ofarlega í mér en ég lít ekki á mig sem tónlistarmann. Steinharpan hefur hins vegar vakið þónokkuð mikla athygli. Áskell Másson var sá fyrsti sem samdi tónverk fyrir steinhörpuna, Steinabrag, sem síðan var flutt við opnunarsýningu í Ásmundarsafni 2002. Þeir komu svo hingað félagarnir í SigurRós ásamt Hilmari Erni, Steindóri Andersen og Árna Harðarsyni og fengu að prófa steinhörpurnar. Þeir sömdu síðan tónverkið Hrafnagaldur Óðins, sem ég flutti með þeim á listahátíð í Laugardalshöll. Svo fór ég með SigurRós til London þar sem við fluttum verkið í Barbican höllinni og síðan einnig í París og Þrándheimi.
Svo mætti ég aftur með steinhörpuna á listahátíð í Laugardalshöll ásamt Eyvör Pálsdóttur, Hilmari Erni og fleirum þar sem við fluttum verkið Írland - Ísland.

Við vorum eitthvað að tala um listalífið á Íslandi þarna áðan meðan við sátum undir borðum?
Já, ég hafði orð á því að mér fynndist gróskan einna mest í tónlistinni. Ég nefndi frænku mína, hana Ástríði Öldu Sigurðardóttur píanóleikara og messósópran söngkonuna Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur. Það má nefna ýmsa snillinga. Ég þarf náttúrlega ekki að nefna SigurRós eða Björk.

Við erum enn inni í Jarðhúsinu. Þarna voru grafískar portrettmyndir af ýmsum þekktum listamönnum lífs og liðnum: Jónasi Hallgrímssyni, Hallgrími Péturssyni, Halldóri Laxness, Thor Vilhjálmssyni, Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Björk. Og þegar ég spurði nánar um þessar myndir tók Páll upp steinhellurnar, sjálfar þrykkmyndirnar sem hann hafði gert til að prenta grafíkina.
Ég nota þrenns konar aðferðir. Í fyrsta lagi helluþrykk, þá bergþrykk og loks svellþrykk, sem ég nefni svo. Það er þónokkur munur á helluþrykki og bergþrykki, en í báðum tilfellum kemur fram í grafíkinni litur úr steininum eða hellunni. Auk þess skerpi ég litinn örlítið þar sem mér finnst eiga við.

En hvað er svellþrykk?
Þá teikna ég myndina á svell og legg síðan örkina ofaná. Þá verður til svellþrykk.


Ég á ekki krónu! hugsa ég upphátt þegar við göngum út úr Jarðhúsinu og höldum að Turninum. Þar er allt fullt af listaverkum: þrykkmyndum, litlum höggmyndum, vatnslita- og olíumyndum. Við göngum upp brattan stigann og ég horfi út um gluggann og segi: Já, héðan verður hægt að sjá heilaga Sesselju! Það er enn sama blíðan. Við göngum inn í nýlegt íbúðarhús Páls, sem stendur rétt norðan við Gamla húsið. Við þökkum Ástríði fyrir veitingarnar og skemmtilega samverustund, og ekki má gleyma því að við Ástríður vorum saman á Laugar­vatni, þar sem móðurbróðir hennar var kennari, öðlingurinn Þórður Kristleifsson. Og fyrst ég er kominn út í ættfæðina sakar ekki að geta þess að föðurafi Páls og alnafni var enginn annar en alþýðuskáldið Páll á Hjálmsstöðum. Þau standa á hlaðinu Páll og Ástríður. Við erum búin að kveðja og ökum á brott.

KB



        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur