Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Síst þeim lífið leiðist sem lýist þar til út af deyr. Viðtal við Megas


Þegar Megas sviptist inn um dyrnar með leyfar stormsins í hárinu birtir til inni á þeirri annars skuggalegu búllu Barnum, sem áður hét Tuttugu og tveir, á horni Laugavegar og Klapparstígs. Blaðamaður getur ekki orða bundist: Þú geislar eins og fólkið á biblíumyndunum. Hvað veldur? Hvers vegna ertu svona venju fremur glaður og fagur?

Það eru nú ekki allir sem sjá það á þann veginn. Fólk sér, held ég, aðeins það sem það vill sjá. Jákvæða fólkið sér ef til vill einhvern upppússaðan mann á gulljakka og fjólubláum buxum. Aðrir sjá eitthvað allt annað. Eins og til að mynda sá endemis jákvæði maður sem lýsti því þannig í blaðaumfjöllun um tónleika mína í Norræna húsinu nú fyrir jólin að ég hefði ekki verið jólalegur heldur rónalegur og sungið um homma og sifjaspell. Ekki veit ég hvað veldur slíkum viðbrögðum. Ég söng jú svolítið um homma en alls ekkert um sifjaspell og ég var í mikið jólalegu skapi. Kannski eru það hreyfingarnar sem villa mönnum sýn. Það er oft skrekkur í mér áður en ég fer á svið en þegar allt er farið af stað hverfur allur skjálfti. Oftast reyni ég að ná kjölfestu með neðri hluta líkamans og teygja mig til stjarnanna með efri hlutanum en að þessu sinni æddi ég hingað og þangað til að tengja við áhorfendur og ná augnsambandi. Salurinn var það lítill að ég gat leyft mér að láta míkrafóninn eiga sig og skapa meiri nánd en oft áður. Í sumra augum þykir það kannski rónaleg óþreyja að vaða svona fram og aftur – það er ekki allra að skilja hvers vegna menn pósa og hreyfa sig eins og þeir gera á sviði.

Hvaðan kemur tónlistin og hvaðan koma orðin?

Orðin koma frá þér, segir Megas og brosir skelmislega.

Hvað meinarðu? spyr blaðamaður hálfsleginn út af laginu.

Ég á ekkert í þessum orðum, þau koma frá öðru fólki. Ég bara tek vel eftir því sem fram fer í kringum mig, hvernig fólk tekur til orða. Ég skráset orðin og raða þeim upp. Eitt sinn langaði mig til að mynda að gera lag sem varaði ungar stúlkur við að missa stjórn eða álpast á háskalegar slóðir. Þá rataði upp í hendurnar á mér sá ágæti frasi „þrifaleg, þröng og þrettán“ en þetta heyrði ég útundan mér á Ráðhústorgi á Akureyri.
Fólk gerir annars oft þau mistök að rugla mér saman við ljóðmælandann í textunum. Ofbeldið og ógeðið verða að fá að hafa sinn gang í listinni eins og annað. Sú lógík verður víst líka að fá að vera með. En oft hef ég hleypt illsku í fólk fyrir misskilning. Mitt hlutverk er að fjalla um hlutina og fletta ofan af þeim, ekki reka áróður fyrir þeim. „Litlir sætir strákar“ er til dæmis ekki sú ósvífni eða óþokkaskapur af minni hálfu sem margir álíta, heldur lag sem fjallar um kvenfyrirlitningu. Skömmu áður en ég samdi lagið átti ég samtal við mann sem gerði fátt annað en alhæfa um allar þessar helvítis kellingar, þær væru allar eins, þessar helvítis kellingar. Ég missti á endanum þolinmæðina og spurði hvers vegna hann fengi sér þá ekki frekar lítinn sætan strák, sem er bara „gay“ lingóið fyrir ungan samkynhneigðan elskhuga. Textinn er mjög gegnsær að þessu leiti en fólk á það til að lesa bara fyrirsagnirnar og byrja síðan að býsnast.

Nú hefurðu verið í nokkrum hljómsveitum og samstarfi við aðra tónlistarmenn. Hvað finnst þér þú græða á því?

Þetta er allt spurning um reiðuna og óreiðuna, það er að segja reiðuna sem sprettur upp úr óreiðunni. Ólíkt tónlistarfólk kemur saman og veit ekki nákvæmlega hvað á að gerast – við skjótum haglaskotum út í bláinn. En svo stillast menn saman og verða eins og einn maður. Þetta sprettur upp úr einhverju sem er manneskjunni æðra og verður að vera, því manneskjan getur ekki allt.
Eitt sinn var ég með tónleika í Hallgrímskirkju. Við vorum þarna nokkrir rokkarar og hljóðfæraleikarar úr simfóníunni að flytja bæði veraldleg lög og sálma og innblásturinn varð svo mikill að ég var vart með rænu, vissi varla af mér. Við fluttum „Hærra minn Guð“ aftur og aftur og úr varð stórkostleg kakófónía þar til hljóðfærin feiduðu smám saman út og ekkert varð eftir nema ég, orgelið og barnakórinn. Ég var að reyna að fanga stemninguna í þeirri þjóðsögu að áhöfn Titanic hafi sungið „Hærra minn Guð“ þar til skipið sökk. Enginn vissi konseptið, en ég heyrði á upptökunum að andagiftin hafði náð fram í salinn.

Þú leitar talsvert inn í hið persónulega.

Ég veit ekki hvort það er átómatískt eða meðvitað. Sennilega er þetta frekar rænulaus viðleitni hjá mér. Að leita uppi hið persónulega í algildinu. Snerta varlega við viðfangsefninu og hlustandanum. Þetta er format sem ég skil og kann. Eins konar ástarþríhyrningur minn, viðfangsefnisins og hlustandans. Þetta er oft gamla góða spurningin um að lofa Drottinn með öllu mögulegu. Passíusálmarnir þurfa til dæmis ekki alltaf að vera fluttir svona hægt heldur má alveg rokka þá upp og færa þá þannig meira í átt að taktinum sem slær í brjóstum okkar.

Síðustu árin hefur verið hlaðið á þig vegtyllum og viðurkenningum. Þú hefur alltaf átt þína trúföstu fylgjendur, en þjóðin í heild virðist skyndilega hafa áttað sig á því að hún getur ekki og gat aldrei hugsað sér að lifa án þín. Hefur þetta einhverja þýðingu fyrir þig?

Auðvitað hefur það þýðingu. Ákveðnir hlutir verða mér auðveldari og þar fram eftir götunum. En ég tek ekki of mikið mark á þessu. Hjörðin eltir opinberu viðurkenninguna og slík aðdáun ristir ekki djúpt. Um leið og maður segir eitthvað sem ekki má segja er áreiðanlegt að fólk snúist strax gegn manni. Íslendingar kunna nefnilega mest að meta þá sem náð hafa gervi-heimsfrægð. En raunveruleg frægð sem fólk aflar sér af eigin rammleik vekur öfund. Þá má maður ekkert gera sem þykir pólitískt ókórrétt án þess að fá það óþvegið. Ástin nær nú ekki lengra en það.

Þykir þér lífið í eðli sínu gott eða er það bara „nasty, brutish and short“?

Lífið er ekki í eðli sínu skítlegt. Lífið er eintómir möguleikar og það er aldrei vissa fyrir meiru. Maður fær ákveðinn tíma sem líður hraðar eftir því sem maður nær betri tökum á því að lifa og þess vegna fljúga bestu stundirnar dáldið hratt framhjá. En þá hefur maður alltaf minninguna um þær. Góðir hlutir eru auðvitað bestir í núi og nálægð, en það er skárra en ekki neitt að hafa þá í þái og fjarlægð. Svo þegar illa árar yljar maður sér við minningarnar. Og þegar tíminn rýkur áfram á maður þó allt sem er liðið.

Er þér eitthvað heilagt?

Mér eru margir hlutir heilagir en það er misjafnt hvaða nálgun ég leyfi mér. Oftast leyfi ég mér ekki að negla neitt fast í þeim efnum annað en góðar manneskjur. Manneskjur sem eru konsekvent góðar þótt þær geri stundum villur. Það að vera heilagur er að vera heill. Heilagleikinn er heilindi – það að halda sig við ákveðin gildi og nota sem kompás. En materíalisminn er gríðarlegur í dag og því er erfitt fyrir fólk að vera heilt. Það eru erfiðir tíma og ég öfunda ekki unglinga í nútímanum. Það er alltaf von á peningum sem jafngilda ákveðnum gæðum sem eru síðan engin gæði þegar allt kemur til alls.

Hvað er framundan?

Sú framtíð sem mér er útmæld og gefin. Menn eru svo tímamældir. Ég held mér sé útmældur frekar langur tími. Pabbi fékk krabba áttræður en krabbinn sá lét sér vel líka vöggugælur vinsamlegra lækna og sofnaði. Svaf síðan í sakleysi sem ómálga barn í rúm tíu ár en vaknaði þá vel skýr og skarpur, skiljandi tilgang sinn og með morgunsöng og vakningarljóðum hafði hann á braut með sér kappan síhrausta, vel níræðan, þangað sem fátt er að frétta. Það var fjórtán daga verk. Úr einhverju verða menn venjulega að deyja þótt tíminn sé formældur og forskenktur – skrítið apparat mannkindin. En það er eitthvað lummulegt við að deyja bara úr elli. Sennilega eru þetta þó fordómar úr kynslóðaminninu. Anyway: Síst þeim lífið leiðist sem lýist þar til út af deyr.

Guðrún Eva Mínervudóttir
Myndir eftir Jón Sæmund Auðarson










        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur