Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Sigfús Daðason: Provence í endursýn eftir Guðberg Bergsson


Hvað er bók? Hún er hlutur. Hvað er ljóðabók? Hlutur með einhverju sem einhver kallar ljóð. Ljóðabók er eins og aðrar bækur. Hún hefur vissa mælanlega lögun. Hún hefur ákveðinn blaðsíðufjölda. Úr því að ljóðabók er hlutur, þá er hún áþreifanleg. Hún liggur líka í augum uppi, að minnsta kosti á ytra borði. Stundum er hún slétt að utan, stundum hrufótt. Ef hún er hrufótt er hún góð fyrir snertiskynið. Bók eins og Provence í endursýn eftir Sigfús Daðason hefur að geyma alla þessa eiginleika, en hvergi er getið í henni að hún sé ljóðabók eða orðin og setningarnar í henni séu ljóð. Á síðustu textasíðu er bókin kölluð kver og sagt að það sé gefið út í 700 eintökum. Hvað litinn varðar er kverið samleikur svarts og hvíts og þess vegna er það grátt, dökkgrátt, eða öllu heldur grænleitt. Við skulum kalla kverið bók, mosagræna bók við brunn. Það er á vissan hátt auðveldara. Bókin er þannig gerð að hún lokast eins og mappa eða lófi sem lykst um hönd. Það er gert í þeim tilgangi að benda lesandanum á lokaða eiginleika formsins sem vísar til lokaðs innihalds. Innihaldið er endursýn, ekki beinlínis minning. Við vitum samt af textanum í númer 11 að skáldið hefur geymt í fjörutíu ár að vekja í orðum það sem var eitt sinn jarðneskt efni. Eflaust er það hæfilegur tími fyrir skáld til þess að ákveða að nú sé mál til komið að sjá eitthvað, liðna tíð, í endursýn án þess að efnið verði mosavaxið. Utan á bókinni er ferhyrningur og í ferhyrningnum eru tveir ferhyrningar, annar dökkur, hinn ljós. Baksvipur manns snertir báða fletina. Maðurinn með baksvipinn er ljóðskáldið. Aftan á bókinni er sami ferhyrningur og framan á henni með sama innihaldi, en baksvipur mannsins þar er stærri. Með þessari aðferð sér lesandinn ekki framan í höfundinn sem skín í gegnum verkið. Andlitið lokast inni í verkinu. Bókin er formræn, hlutföllin fögur fyrir augað og fingurnir skynja fegurð hennar með snertingunni. Það er unaður að hafa hana á milli handanna. Bókin er ekki beinlínis óður til minninganna eða þess að hverfa á fornar slóðir og líta aftur augum það sem augun sáu á öðrum tíma og þau sjá núna í nýju ljósi. Öllu heldur er bókin ótti við eitthvað sem var og það sem er, ótti sprottinn af hæfileika manns til að vera gæddur minni og reyna kannski ekki að flýja undan því eða falsa það með hæfileika orðanna. Skáld sækjast oft eftir því að gera efni yfirborðslega fagurt og tilfinningaríkt. En minningin hjá Sigfúsi Daðasyni verður að veruleika með því að færa hana í orð. Hún er svift huglægninni. Þótt húðin sé sögð vera, í síðasta ljóðinu, fullkomnasta skilningarvitið, þá vísar bókin til þess að svo sé ekki. Endirinn bendir til upphafsins eins og myndin aftan á kápunni bendir til sömu myndar framan á henni. Myndin að aftan er stærri en ekki beinlínis meiri. Eins eru orðin í síðasta ljóðinu (ef þetta eru ljóð) ekki stærri í sér en orðin í því fyrsta. Þar er eitthvað sem er fjarri því að vera húðkennt, í staðinn líður það fram hjá skáldinu, augum þess. Á milli þessara ljóða, upphafs og endaloka, er líf og stórir atburðir. Sumir eru tengdir trú, sumir aðdáun á mönnum og húsum, harmi jurta, grimmd við fugla, sérkennilegum mosa á brunni sem er hvorki meiri né minni þótt tíminn hafi liðið. En einnig er þarna að finna merki um hlutleysi vatns í brunni sem spörvar blessa eins og þeir væru englar. Bókin er ljóðaheild mótsagnakenndra mynda. Eðli minnisins er dregið í efa. Það er ekki kallað annað en maskína og sagt að heyrnarnæmi og ilmskyn afvegaleiði menn. Engu að síður er þessi misvirðing á minninu það sem einkennir ljóðin og gerir þau minnisstæð. Þau afvegaleiða um leið og þau láta leiðina liggja aftur í tímann og inn í veruleika lesandans. Skáldið sér tvísýnu í tímanum og lætur eins og ekkert sé. Um leið og þetta er staðhæft er lesandinn leiddur að einhverju sem skáldið heldur að það muni, húsnúmeri, en þegar kemur að húsinu kannast það ekki við neitt. Það hverfur síðan aftur að því eftir nokkra daga. Og þegar það les nöfnin á dyrabjöllunum sér það að kynslóð hefur tekið við af kynslóð í húsinu, kynslóðirnar hverfa en húsið verður eftir og skáldið kemur til þess, horfir á dyrabjöllurnar, kannast ekki við neitt nafn, man ekkert. Þannig þreifar skáldið fyrir sér við dyr hins liðna, sem er engu að síður ennþá til á sínum stað, og einnig á þeim vegum sem það gekk fyrrum hiklaust, en flýtir sér síðan burt. Þetta flæði til og frá, flóð og fjara, er dæmigert fyrir minnið. Flæðið er tíminn, það er ljóðið og einstaklingurinn. Ekkert er fundið þótt það finnist. Allt varir aðeins um stund. Á þessum sannleika heldur sá sem heldur á þessari ljóðabók og endurles hana, rígheldur sér í hana, festir sig við sígildi hennar, eins og svo margt frá tímum efasemda og nýsköpunar í íslenskri ljóðlist sem er kannski löngu liðin og kannski ekki lengur til, ekki einu sinni í endursýn.

Provence í endursýn eftir Sigfús Daðason kom út árið 1992 og var gefin út af Goðorði.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur