Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Viðtal við Pál Steingrímsson kvikmyndahöfund


Hver er ferill þinn í stuttu máli?
Mér hefur alltaf látið vel að segja frá. Við kennslu í Vestmannaeyjum í nítján ár naut ég þess. Ég hef sjálfsagt verið brokkgengur kennari og ekki tekið stundatöfluna of hátíðlega. Ég fór líka oftar út úr húsi en samkennararnir og notaði hvert tækifæri til að skreppa á fjall eða í fjöru í tengslum við námsgreinarnar. Ég held líka að ég sé næmur á fólk. Einhverjir bestu vinir mínir frá þessum árum eru þeir sem áttu einhverra hluta vegna erfitt með nám eða höfðu sérstök áhugamál sem ekki leystust í skólanum. Þetta fólk endaði oft heima hjá mér á kvöldin.
Hið sjónræna hefur alltaf höfðað til mín. Kurt Zier var akademískur myndlistarkennari. Ég held að hann hafi ekki fundið marga nemendur í Kennaraskóla Íslands til að brjóta sig í mola fyrir, en þar leyndist eitt og eitt efni eins og Ásta Sigurðardóttir bekkjarsystir mín, okkur þótti mikill akkur í slíkum snillingi. Ég á ennþá myndir sem ég gerði á þessum tíma undir áhrifum frá heimskúnstinni sem Zier opnaði okkur. Heima í Eyjum stofnaði ég ásamt Bjarna Jónssyni Myndlistarskóla Vestmannaeyja og fékk snemma kennara úr Reykjavík til að sinna kvölddeildinni. Skólanum hélt ég úti í sautján ár og hafði mikla ánægju af.
Annars er myndmenntin eins og annað í lífi mínu mikið tilviljunum háð. Eitt vorið gerðist ég leiðsögumaður þýsks ljósmyndara sem kom hingað til að ljósmynda fugla. Þegar kom að kveðjustund eftir ævintýralegt úthald við Mývatn og í Vestmannaeyjum var skotsilfur Hermanns Schleinkers þrotið og hann átti ekki fyrir farinu heim. Ég tók bankalán fyrir þeim hluta Leica útbúnaðarins sem Hermann varð að selja og átti um tíma vandaðasta 35mm ljósmyndaútbúnað á Íslandi. Í tvö ár sinnti ég ljósmyndun af alúð, en þá kom Hermann Schleinker aftur og nú með 16mm kvikmyndaútbúnað.
Ekki veit ég hvort hann treysti á að ég keypti af honum græjurnar. Ég varð aftur leiðsögumaður Þjóðverjans og fórum við meðal annars í Súlnasker. Þetta var þá mesta ævintýri sem Hermann hafði lent í. Þegar nálgaðist brottför áttaði kvikmyndamaðurinn sig á því að hann átti ekki fyrir farinu heim og var orðinn nokkuð skuldugur fyrir. Ég keypti af honum Bolex-vélina og þá varð ekki aftur snúið.
Ári síðar var ég kominn í kvikmyndanám í New York University. Það var ekki þrautalaust fyrir mann kominn á fimmtugsaldur með heimilisskyldur. Engin námslán eða önnur peningafyrirgreiðsla en ég átti sem fyrr lánstraust hjá Útvegsbankanum í Eyjum og lét til skarar skríða.
Það má ýmislegt segja um Ameríkana, en á sumum sviðum eru þeir afburðaþjóð. Námi mínu var þannig háttað að ég mátti láta prófessorinn vita þegar ég þóttist tilbúinn í áfangapróf. Í deildinni voru 26 nemendur. Þeir höfðu eins og gengur mis mikinn áhuga á náminu en ég varð fljótt samflota við eldhugana. Þetta var fólk um tvítugt og stefndi í stjörnusæti. Allir tóku mér vel. Það var fyndið að hafa karlinn með. Ég hafði líka reynslu sem þau höfðu ekki, ég hafði bæði tekið, klippt og hljóðsett filmu. Þegar kom að kom hugmyndavinnu og handritsgerð milli nemenda vildu menn fá tillögur frá „kalda landinu“. Náminu lauk ég á helmingi styttri tíma en áætlað var.
Skömmu eftir að ég kom heim hófst eldgos í Heimaey. Hálfu ári síðar voru félagar mínir Ernst Kettler og Ásgeir Long og ég með myndina „Days of Destruction“ á kvikmyndahátíð í Atlanta í Bandaríkjunum og unnum þar til gullverðlauna. Það var góður meðbyr enda hef ég ekki gert annað síðan en sinna kvikmyndagerðinni.
Þegar ég kom heim frá námi uppfullur af hugmyndum var þungur róður að koma þeim í framkvæmd. Enginn kvikmyndasjóður og enginn stuðningur við greinina. Helsta vonin var að gera auglýsingar eða sinna heimildarmyndagerð. Menn höfðu áttað sig á kvikmyndinni sem frásagnarmiðli og stöku aðilar voru tilbúnir til að borga eitthvað fyrir slíka þjónustu. Ég reyndi snemma að gera eigin heimildamyndir. Handrit sem ég hafði skilað til prófs var einmitt heimildamyndarhandrit um Jóhannes Sveinsson Kjarval. Það var þó ekki fyrr en mörgum árum seinna að ég fylgdi því eftir.
Íslensk náttúra og lífríkið hefur lengi höfðað sterkt til mín. Ég man ekki eftir því að hafa verið títt ávítaður þegar ég var barn en þau atvik sem ég minnist stóðu öll í sambandi við seinar heimkomur að kvöldi. Þá hafði ég gleymt mér við að skoða fuglabyggð eða sjávarlón sem moraði af lífi. Því fylgdu oft tilfæringar til að fanga eitthvað af þessum dýrum og skoða þau nánar. Að mynda þennan lífheim og gera um hann sögu hefur svo alltaf fylgt mér.

Hvað hefur þú gert margar náttúrulífsmyndir
Þær sem ég á skráðar eru 20. Helmingur þeirra hefur verið á erlendum kvikmyndahátíðum og fimm hlotið verðlaun og þrjár þeirra gull eða fyrstu verðlaun. Þessar tíu myndir hafa líka allar farið í erlenda dreifingu í Evrópu, Ameríku og Japan. Stöðvarnar hér heima hafa aldrei hafnað myndum sem ég hef boðið.

Þú nefndir áðan Kjarval
Já, ég var ekki nema átján ára þegar ég áttaði mig á því eftir að elta sýningar og söfn í Reykjavík og skoða fátæklegar bækur um íslenska myndlist, að Kjarval bar langhæst í myndlist hér heima. Fyrir mér heldur hann þessum sessi sem málari. Hann á fáa jafningja í teikningunni í listasögunni, hugarflugið óhemjandi og leitin að lausnum fylgdi honum til dauðadags. Í listum er ekkert til sem heitir endanlegt en hver kynslóð á sína jöfra sem standa upp úr og gefa tóninn í listasögunni.
Það var merkileg upplifun fyrir mig að setja mig í spor Kjarvals þar sem hann stóð við trönur sínar og laðaði fram landslagið sem blasti við augum. Í myndum hans fær það nýtt gildi og annað líf sem samtvinnað var tilfinningum listamannsins. Ég gat ekki leikið sama hlut en mér fannst ég skynja hvað honum leið. Eitt tók ég upp eftir Kjarval í landslagsmyndatökum sem einkenna verkin hans. Hann sleppir að mestu himninum. Hann hefur oft annan boðskap en landið.

Fylgist þú enn með myndlist?
Já, ég geri það, örvaður af þeim sem næst mér standa. Ég hlusta líka daglega á tónlist. Jazz á virkum dögum en klassik um helgar.

Hvað ertu að fást við núna?
Eitt af verkefnum okkar er „Fjórar fuglasögur“. Þær eru um spóann, hrafninn, rjúpuna og skarfinn. Tveimur fyrstu er lokið en skarfinn munum við klára á næsta ári. Hann er viðamestur og söguefnið sótt um allan heim, jafnvel til Suðurskautslandsins. Staðreyndin er sú að þar sem menn geta búið þrífast skarfar líka, að því tilskyldu að þar fyrirfinnist opið vatn og fiskur. Í Alaska og á Grænlandi, syðst í S-Ameríku, í 5000 m hæð í Andesfjöllum. Í fenjum og vötnum við miðbaug, í Kína og á Íslandi svo nokkuð sé nefnt. Sagan er um tengsl skarfa við manninn á þessum svæðum.
Við lukum nýverið við mynd um „Tvö eyjasamfélög í N-Atlantshafi og ginklofann“ með Magnúsi Magnússyni KBE. Meginsöguþráðurinn er lífsbarátta tveggja eyþjóða, St. Kildabúa og Vestmannaeyinga og grimmileg blóðtaka sem varð á þessum stöðum vegna sjúkdóms sem felldi kornabörn á eyjum og hjó jafndjúp skörð á hvorum stað. Síðustu íbúar St. Kilda fluttu til meginlandsins 1930.
Magnús hafði áður gert með mér mynd um hálendi Íslands sem nefnd var „World of Solitude“. Myndin hlaut skjótan frama á hátíðum enda sárafáir sem leysa Magnús af þegar kemur að frásögn og tjáningu. Nú vinn ég einnig að mynd sem heitir „Undur vatnsins“.
Flestar mynda minna eiga langan aðdraganda, oft fjögur til fimm ár, en ég er með mörg járn í eldinum í senn og því skila ég árlega einni eða tveimur myndum.

Hvað ertu búinn að gera margar heimildarmyndir?
Ég vil helst ekki segja það, því þá gætu sumir ætlað að ég reyni að fara billega frá hlutunum. Það er ekki rétt, ég skila aldrei mynd sem ég er ekki fyllilega sáttur við og finn að ég gæti gert betur.

Hvað eru þær margar?
Eitthvað milli 50 og 60. Ég sinni myndgerðinni nær alla daga og hef síðan liðsinni tveggja snillinga, Friðþjófs Helgasonar tökumanns og Ólafs Ragnars Halldórssonar klippara. Þannig er ég mjög vel settur.

Hvað um leiknar myndir?
Fyrir rúmun 20 árum gerði ég mynd með Helga heitnum Skúlasyni eftir leikriti Agnars Þórðarsonar, „Kona“. Þetta var gríðarlega spennandi, Helgi náði flugi sem leikstjóri og aðalleikararnir Helga Bachmann og Þorsteinn Gunnarsson fóru á kostum. Töluvert var lagt í sviðsmynd og hún mjög sannfærandi.
Allavega situr þetta svona í minningunni. Myndin var sýnd í Sjónvarpinu og á ríkisstöðvum Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur.

Hefur þú aldrei reynt þetta síðan?
Nei, en ég hef haldið saman Vestmannaeyjasögum sem ég byrjaði að skrá þegar ég kom í framhaldsskóla. Þar eru litríkar lýsingar og efniviður í magnaða mynd.

Verkefnin hafa leitt þig á framandi staði?
Já, ég var reyndar byrjaður að ferðast áður en ég eignaðist kvikmyndavél. Búinn að vera í Kanada, Grænlandi og á Norðurlöndum en kvikmyndavélin hefur teymt mig í allar heimsálfur nema Suðurskautslandið.



Friðþjófur Helgason og Páll Steingrímsson.


Svavar Steingrímsson, Páll og Bragi Magnússon í hlutverkum St. Kildubúa.


Páll heilsar upp á fjarskyldan ættingja.


Magnus Magnusson KBE, Páll og Kvískerjabræður.


Páll í skarfabyggð á Magellansundi.


Sviðsetning Ginklofans í Vestmannaeyjum.


Beltisdýr.


Upphaf Suður-Ameríkuferðar.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur