Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Fáeinar örsögur eftir Ana Maríu Shua


Hafmeyjaregg

Það er háttur hafmeyja að syngja, þær syngja án afláts, meðan þær sofa, meðan þær maka sig. Sumar þeirra gera sér upp fullnægingu með skerandi væli, þá verða hafmennirnir ruglaðir í ríminu. Vitanlega eru þær spendýr, samt sem áður eru þær líka gotraufardýr eins og breiðnefir. Þúsundum saman flykkjast þær sísyngjandi á skerin til að hrygna í víddum tímans sem mannsaugað nemur ekki (rétt eins og það heyrir ekki ákveðin hljóð eða greinir ekki ákveðna liti). Hreiður sín útbúa þær í klettaskorum og breiða yfir með þara, þelingum og mosa. Egg þeirra eru stór og litförótt og frá þeim berst kliðmjúkur niður; þau líkjast einna helst spiladósum. Sum þeirra eru ávöxtur af samræði hafmeyja og hafmanna og úr þeim klekjast verur af sama kyni. Önnur verða til af samfundi hafmeyja og drukknaðra manna sem hafa sáðlát á dauðastundinni. Þessi blönduðu egg reynast oftast ófrjó.


Maður á teppinu

Luis lítur á manninn á gólfinu, honum sýnist hann vera dáinn og segir það.
– Maðurinn er dáinn.
– Nei, segir móðirin, – hann sefur.
– Það sefur enginn í svona stellingu. Það er óþægilegt, segir Luis.
– Hann hefur verið mjög þreyttur. Ég myndi líka vilja sofna svona, nákvæmlega svona.
Luis og móðir hans ættu að lækka róminn því maðurinn er hvorki dáinn né sofandi, hann er teikning í bók og heyrir mæta vel allt sem þau segja.


Þvermóðskufulli drengurinn

Í bók með þjóðsögum fyrir börn er klausa nokkur þar sem Grimms-bræður minnast á vinsæla þjóðsögu sem menn þeirra tíma töldu einkar góða fyrir ungmenni. Þar segir frá því að Drottinn hafi refsað þvermóðskufullum dreng með veikindum sem leiddu hann til dauða. Það dugði ekki til þess að hann bætti ráð sitt. Hönd hans, sem var eins og útsprungið blóm á fölleitum og smáum handleggnum, kom hvað eftir annað upp úr gröfinni. Það var ekki fyrr en móðir hans sló fast með hrísvendi á höndina að handleggurinn dró sig til baka ofan í jörðina og var merki þess að drengurinn hefði nú öðlast frið.
En við, sem leggjum leið okkar um kirkjugarðinn, vitum að handleggurinn kemur upp þegar hann heldur að enginn sjái til. Nú er þetta orðinn sterklegur og loðinn handleggur fullorðins manns, fingurnir hrjúfir og neglurnar óhreinar af moldinni sem hann ryður frá við að leita sér leiðar upp og niður. Stundum sýnir hann dónaleg merki, undarlega nútímaleg, sem textafræðingar telja að beinist að Grimms-bræðrum.


Af holdi gerð

Allt þetta (og þá á ég við bókstaflega allt) má rekja til linnulausrar endurnýjunar á ákveðnum slímugum örverum sem eru ekki lausar við gáfur en fávísir kalla oftast atóm.


Slæmt ráð

Hann fór að ráði töframannsins og skar út í tré nákvæma eftirmynd óvinarins. Síðan lagði hann eld að henni úti á víðavangi í mánaskininu. Óvinurinn dróst að bjarma varðeldsins, sá manninn og drap í einu spjótkasti.


Dómsdagur

Niðursokkinn í uppáhaldsþáttinn sinn tekur hann ekki eftir því að heimurinn umhverfis hann er horfinn, að lúðrarnir hafa hljómað, að knaparnir fjórir hafa hellt úr skálum reiðinnar; hann tekur ekki eftir því að endanlegur dómur hefur þegar fallið yfir honum, góð verk hans og vond hafa verið lögð á vogarskálar, að trygg vogin hallaðist honum í vil, að héðan í frá og að eilífu, niðursokkinn í uppáhaldsþáttinn sinn, verður hann í paradís.


Blái fuglinn

Maður nokkur eltir fugl hamingjunnar mánuðum, já, árum saman, fer yfir níu fjöll og níu fljót, sigrast á draugum og freistingum, þolir sársauka og vansæld. Leitina að fuglinum setur hann ofar öllu öðru: Metnaði, þörf og þrá. Tíminn líður og leggst á herðar hans og fuglinn eldist sömuleiðis, fjaðrir hans fölna og þynnast.
Dag einn þegar kalt er í veðri nær maðurinn að fanga vesalings fuglinn. Öldungurinn er svangur. Fuglinn er horaður, þrátt fyrir það er á honum hold. Maðurinn reytir varlega fjaðrir fuglsins, sem enn eru bláar, setur yfir eldinn og leggur sér til munns. Að svo búnu er hann mettur og hamingjusamur í örstutta stund.


Óyfirstíganleg list Ma Liang

Ma Liang, málarinn goðsögulegi frá Kína, var fær um að mála heiminn af slíkri fullkomnun að hann gat raungert hann með síðustu pensilstrokunni. Keisari nokkur fékk hann til að mála hafið og alla hirðina drukknaða í því.
Til þess að yfirstíga list Ma Liang fundu Vesturlönd upp ljósmyndir og síðar kvikmyndir þar sem dauðir lifa af og endurtaka sömu gerðirnar aftur og aftur, rétt eins og í hverju öðru helvíti.


Örsögurnar eru úr bókunum Botánica del caos (Grasafræði óreiðunnar, 2000) og Temporada de fantasmas (Tími drauganna, 2004).

Þýðandi: Kristín Guðrún Jónsdóttir


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur