Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Fáránlegt samtal við sjálfan mig eftir Val Antonsson


Valur Antonsson er skáld og heimspekingur, rithöfundur og mælskur. Ég var fenginn til að taka viðtal við þennan rótlausa Reykvíking sem lengst af hefur dvalið annarsstaðar en kringum súlur, (hann ólst upp í Svíþjóð, bjó í Frakklandi og á Spáni; núna búsettur í New York). – Hæg þykja mér heimatökin, sagði ég, við eigum svo margt sameiginlegt. Hann fellst ábyggilega á þetta viðtal.

Annað kom á daginn. Valur svaraði hvorki pósti né fyrirspurnum fyrir milligöngu vina, ég hringdi í símann hans um daginn; hringingarnar fjöruðu út. Og ég hringdi í símann hans á kvöldin; við tók dósarödd símsvarans. Ég hringdi og við hinn enda símans var ekkert. Dagar liðu, vikur dóu, mánuðir gréru saman, – allt kom fyrir ekki, maðurinn vildi ekkert með mig hafa.

Nú ef þetta hefði bara verið spurning um eitt skitið viðtal hefði ég veifað hendi og sett stút á munninn, sagt: Ha! hann getur farið til fjandans, og snúið mér að verðugri mótstöðu í lífinu, en fyrir einhvern seyðing í maganum og kippi kringum augun fór mig að gruna að þetta væri persónulegt. Ég hugsaði með sjálfum mér – ákafur eins og í málarekstri – að ég hafi oft samsamað mig þessum manni, honum Val, og þess vegna er lágmarks kurteisi að hann svari spurningum mínum. Við erum nú einu sinni ekki svo ólíkir.

Ég tók þá ákvörðun að hann skyldi fá að svara, kosta hvað það vill. (Hér er þó rétt að gera hlé á máli mínu og minna á hið gríska drama, þar sem stokkið er yfir helstu atburði þar til blálokin nálgast: Margt gerðist, árin liðu og þrátt fyrir ótal útsmogin vélarbrögð tókst mér ekki að ná tangarhaldi á tungu Vals).

Ég var orðinn örvæntingarfullur og leitaði hófanna hjá allskyns kuklfræðingum, einka­spæjur­um, miðlum og sálgreinendum, – enginn gat sagt mér hvers vegna Valur vildi ekki eiga við mig orð. En svo frétti ég af Svani í Þistilfirði, seiðmanni af þriðju gráðu, þoku­gerðarmanni og líkkruflara. Hann gat krufið lík, og úr innyflunum lesið allt um hinn framliðna, því innvolsi búksins geta ekki logið. Ég þyrfti bara að finna lík handa honum fyrst.

Svanur sannfærði mig um ágæti aðferðarinnar – Spádómsvessakrufningu – þótt dæmin sem hann tiltók væru flest um hross og hænur. Ég benti honum á einn vanda þó: Valur væri enn á lífi. Hvað ég ætti við, spurði Svanur mig.

Jú, ef spyrja ætti Val úr spjörunum um listina, heimspekina og ljóðin, þá þyrftum við að drepa hann fyrst, og ef Svani mistækist að fá eitthvað upp úr krufningunni, þá er hætta á að eftirmálarnir – á skáldaferli Vals – yrðu þeir sömu og upphafið: Þó nokkuð tómlæti. Svanur hlyti að sjá að svoleiðis viðtal væri verra en ekki neitt.

En hann kvaðst vera með lausn á því.

Og við létum slag standa. Úr fjörunni sótti ég sand, grófan og gráan, og vafði í bóm­ullar­tusku, gerði kúlu á stærð við hnefa og batt á góða spýtu. Á miðöldum var svona vopn kallað Morgunstjarna þegar nöglum var stungið í gegn. En ég sleppti nöglunum í þetta sinn.

Við Svanur, sem var nánast ósýnilegur í gráu skikkju sinni, biðum Vals fyrir utan Holiday Lounge Inn, sem er ruddaleg knæpa í New York (hér sleppi ég sögunni um stranga ferð okkar Svans frá Þistilfirði til Kennedy flugvallar), – já, Holiday Lounge Inn þar sem W.H. Auden á sínum tíma bað um ódýrt gin í skiptum fyrir dýrt tónik. En sem sagt ... Með hjálp galdraverka Svans tókst okkur að ginna vini Vals á undan honum út af knæpunni, og þegar hann kom út, kom ég aftan að honum leiftursnöggt og barði, – tvö þung högg í hnakkann og hann hné niður í faðm Svans sem farmaði hann samstundis í skottið á bíl. Valur var meðvitundarlaus alla leiðina á spítalann.

Planið var að dreypa svo miklu Anaphdeprini innum æðar mannsins að hjarta Vals og heili mundi lamast, eins og íshella yfir lífkerfi mannsins; þannig að hann mundi deyja í smá stund, í korter eða hálfa stund, nógu lengi til að Svanur gæti skorið hann upp og spurt hann úr spjörunum. Svo skila öllu volsi á sinn stað, og í stað dauða, mundi lyfjadáið skila Val til lífsins aftur.

Og núna á sinkgráum platta lá Valur í deild sem hét 5 b Niðri, álíka þýðingarlaus nafnbót og nafn manna yfirhöfuð, en sem sagt, þarna lá Valur, nánar tiltekið í neðri hæðum kjallara Hospital Mount Sinai, og við Svanur vomuðum yfir nöktum líkama Vals með gráum, hvít­um, silfruðum skurðtólum í hendi. Ég leit á Svan sem mundaði hnífinn og spurði: – Þetta er nú ekki einu sinni hæna, ertu viss um að lifrin sé til vinstri við brisið? Já, jæja? Ókei.

Svanur dró fram tvísögina og hjó á brjóstkassann sem brast undan sargingu fljótt. Næst skar hann vöðvabönd í sundur og klippti á sinar hér og þar. Hann dró rifbeinin í sundur á líkinu. Nú blasti innvolsið við. Undan grárri skikkju sinni tók hann ullarlagðan skinnpung og úr honum dreifði hann hvítu púðri á holdið. Reyk lagði af sárinu; ég kúgaðist og tók fyrir munninn og í svip mótaði fyrir hauskúpu yfir líkinu. Svo hvarf reykurinn og kalt myrkur grúfði yfir. Líkið glóði eins og kertaljós í móðu.
Svanur dró fram nýrun, lagði álagagaffal í annað þeirra og skyrpti á sárið. Hann baðaði út höndunum og hóf upp rödd sína með leikhústilþrifum Viktoríutímabilsins: – Ehemm, ehemmm. Ó, framliðni andi hins auma holds, fyrr en silfurstrengurinn slitnar og þú heldur til uppheima, guðs þíns og feitra engla, þá skipa ég þér að svara mér í krafti þessa teikns. Hann veifaði hvað virtust vera knippi og klær, af fugli kannski? Já, hrafnsklær lét ég mér detta í hug, einskonar hrafnaspark. Og úr vasanum dró hann upp miða sem ég hafði skrifað handa honum og hann hélt áfram: –Ljóðið, andi! Um hvað hvað snýst ljóðið? Svanur skyrpti aftur í sárið og svart munstur litaðist kringum gaffalinn. Hann dró annað augað í pung og las rúnirnar með hinu:

– Ljóðið hreinsar blóðið. Ljóðið afeitrar. Ljóðið sýgur gallið úr svartagallinu. En ljóðið er búið að taka svo miklum skít. Ljóðið gerir blóðið rautt því rós er rós er rós. Er rós ekki rós lengur rós? (Þögn). Svanur túlkaði skilaboð nýrans með raddblæ búktalarans.

Ég leit á Svan. –Ha? Hvað á þetta þýða? Ég vildi vita skoðun Vals á stöðu ljóðsins í dag. Hér talar hann um ljóð og skít, og myndmál upp úr gamalli bók eftir Stein. Heldur hann þá að ljóðið snúist ennþá um myndmál og að íslenska lýrikin sé hreinsandi og góð?

Nýrað: – Ljóðið er botnfallið. Ljóðið eru dreggjarnar, í blóðinu undir húðinni. En mynd er hljóð sem hefur dottið og meitt sig. Skrámur á húðinni. Ljóðið þráir að taka meiddið og kyssa það. En ljóðið liggur dýpra en meiddið. Ljóðið nær aldrei upp á yfirborðið.

Ég: – Þetta er vissulega dularfullt, ef ekki beinlínis krýptiskt. Já, hmmm, hummaði ég í smá stund hugsi og snéri mér svo að Svani. – Já, mér heyrist ekki á öðru en að Valur hafi nokkuð gamaldags sýn á ljóðið, nánast súrrealíska, það er greinilegt að ljóðið á að snúast um þrár, og að þær vilja upp, úr einhverju huldu djúpi, og að allt tengist það líkamanum einhvernveginn. Mér fannst líka eins og það væri einhver depurð yfir þessu. Eða hvað fannst þér, Svanur? Einhver ófullnægð þrá, jafnvel glötuð tækifæri og ómögulegar ástir?

Svanur: – Ha? Jú, alveg klárlega, glötuð tækifæri, hvað sagði hann, ljóðið nær aldrei upp, já einmitt.

Ég: – Já, ég verð að segja þetta veldur mér vonbrigðum. Valur sagðist tilheyra Nýhil, ljóðlistadeild og framvarðasveit, hann hefur gefið út bækur þar sem sóst er eftir annarskonar eilífðum en áður hafa sést í íslenskri ljóðagerð, til að mynda Eðalog, en þar yrkir hann fyrstu atómljóð Íslands, a. m. k. veraldar, ef frá er talin ævisaga Primo Levi. Í þeirri bók, Eðalog, eru ljóðin öreindir, veikleiki þeirra eru merkingin og myndirnar, en ef þau nálgast hið nýja, þá gera þau það af stærðfræðilegri vissu. – En nú tala ég hér við skáldið, reyndar látið, og það er jafn bundið líkamanum og við hin, og skáldið talar eins og upp úr barnsrassi, orð þess eru slepjuleg og væmin sem mjólk. Ég var að vonast til að Valur gæti sagt okkur hvernig ljóðið geti uppgötvað nýja geometríu, annarskonar víddir hljóðs, mósaík mynda sem gætu leyst okkur undan andvarpi líkamans, en þegar allt kemur til alls, þá telur hann líka að ljóðið sé ekkert nema holdgervingur mistaka okkar.

Svanur: – Já, er nú ekki full djúpt í árina tekið að segja að ljóðið sé ekkert nema...

Ég: – Jú, ekkert nema blóð og skítur, sem rennur okkur úr greipum, – efnið óhöndlanlegt, tjáningar og hreinsanir, tilfinningar og losun tilfinninga, stundirnar og eftirsjá þeirra. Hvað gæti hann hafa átt við annað? Hvað getur ljóðið átt við annað? Ég bara spyr. Ljóðið er einskonar þvottahús líkamans, gamaldags eins og Grikkland, margreynt eins og Kaþarsis. Hér hef ég ekkert heyrt nýtt.

Svanur: – En, það kemur kannski málinu við, hvernig var spurt? Við rákum nú einu sinn gaffalinn í nýrað, sótthreinsunarsíu líkamans. Ef við myndum spyrja upp á nýtt, í þetta sinn gegnum hjartað, heilann eða hver veit lungað, þá fengjum við kannski allt annað svar, mun nútímalegra, sterkara og bjartara?

Ég: – Þú meinar að við fengjum annarskonar svar ef við spyrðum hjartað? Er hjartað af öðruvísi efni en nýrun?

Svanur: – Jú, einmitt.

Ég: – Já, ég skil hvert þú ert að fara, efnisleg skilyrði framleiðsluháttanna ákveða útkomu ljóðagerðarinnar, – haha, þetta er nýmarxísmi! Og mætti ég spyrja: Af hverskonar stétt eru þá ljóð magans í samanburði við ljóð hjartans? Hver er stéttarbundin samstaða lungnanna í samanburði við einstaklingshyggju naflans? Og ef við förum nógu neðarlega, hver veit nema við finnum femíniska duld í þessari greiningu! Gott og vel, ég er til, þó nýmarxísmi sé jafn gamaldags, þá er hann skömminni skárri en nýsúrrealísmi. Prófum öll líffæri manns­ins, – framhaldið á þessari ljóðakrufningu mun verða eins og sjónvarpssería um Jack the Ripper. Já, einhversstaðar hlýtur Valur að luma á hinni nýju geómetríu. Nýrun voru hið gamla ljóð, nú skal finna líffæri hins nýja ljóðs!

Svanur dró álagagaffalinn úr nýranu og spurði mig: – Hvert viltu fara? Í hvaða líffæri eigum við að stinga? Hvar skal skera?

Ég neri saman höndum af eftirvæntingu. – Já, hvar í skrokknum býr ljóðið. Hvar eru hin nýju hlutföll ljóðsins. Í heilanum kannski, grá eins og heimspekin, hjáróma eins og ugla? – Nei, svo sannarlega ekki.

Svanur: – Í lungunum eftilvill?

Ég: – Já, þú meinar. Eins og söngur? Eins og lygar leikarans, bronkítis elskandans, hjal hins kurteisa? Nei, þar er of mikill vindgangur! – Vissulega, gerði Valur gott við að lesa ljóð, og ljóðið á heima á sviði fyrir framan tjöldin, en ef eitthvað, þá tilheyra iljarnar ljóðinu frekar en lungun. Iljarnar elska sviðið og eru minnislausar, þegar þær svífa yfir gólfið lifa þær lúxus fuglsins, þegar þær nema staðar við jörðina ávarpa þær ánamaðka um alvöru lífsins. Þannig er ljóðið.

Svanur: – Iljarnar eru ekki líffæri. Ég get ekki skorið þær upp. Eftilvill dugar akúpúnktúr, en það er ekki minn bisness.

Ég: – Já, þetta er snúið. Til að kryfja líkið rétt, það er, spyrja Val hvar líffæri hins nýja ljóðs sé að finna, þá verðum við að vita hvar skal byrja og hvað kemur í réttri röð. En að spyrja um röð atburða, er að spyrja um sögu. Heldurðu Svanur, að við þurfum kannski fyrst að spyrja líkið um skáldsöguna og dramað, til að komast að því hvar sé best að fræðast um ljóðið?

Ég settist á gólfið, krosslagði fætur og lagði höfuðið í lófa eins og sól í sæ. Svoleiðis hugsaði ég lengi þar til ég tók þögn Svans sem samþykki. – Já, það held ég líka: Sagan. En þá flækjast málin, ef skáldsagan á heima í líffæri skrokksins, þá þarf það að vera líffæri sem líkist einhverskonar endaleysu, hvar skiptast á myrkur og ljós, – með fullt af skúmaskotum og óvæntum beygjum, framandi lyktum og kryddlegnum skoðunum, þar sem ekkert er sem sýnist, og það sem virðist vera fast og hart, eins og skapgerð fólks, breytist í mjúkt og laust, á valdi óstöðvandi straums sem tekur mann í svipinn upp, svo niður, svo til hliðar, svo eina ferðina niður aftur eins og í völundarhúsi – í stuttu máli sagt, líffæri þar sem stefnubreytingar og ummyndanir ráða för. En ég get ekki fyrir mitt litla líf látið mér detta í hug hvar svoleiðis líffæri er að finna. Ert þú með einhverja hugmyndir, Svanur?

Hann kvaðst vera með ákveðið líffæri í huga.

Ekki þurfti mikinn undirbúning til að ráðast á það líffæri, undir borðinu lá rauður poki með allskyns skærum og hvolftöngum í og Svanur hófst samstundis handa. Fyrst dró hann þarmana upp eins og kyrkislöngu úr holu sinni; þeir hringuðu sig á köldu borðinu, já, eins og slytti, og svo þegar hann klippti á efsta lagið, spratt það af eins og slátursaumar, og seinast með nákvæmum skurði byrjaði hann rað rekja sig eftir þeim endilöngum. Fyrirsjáanlegur en ólýsanlegur fnykur gaus upp að vitum mér, styrkleikinn kom mér þó að óvörum, ég snérist undan og ég ældi ofan í nálægan vask. Fyrir ofan vaskinn var spegill, hann var undarlegur, því ekkert sást í honum. Ég bleytti klósettpappír og tróð uppí nasirnar, strauk mér um brjóstið, rétt eins og ég væri að signa mig. Þegar ég kom aftur að skurðborðinu var Svanur djúpt sokkinn í verkið, búinn að mylja yfir þarmana allskonar duft og leir. Hann umlaði og raulaði, ákallaði óræð nöfn, og veifaði með hendi ýmis teikn, og rak gaffalinn niður hér og þar. Upp úr mauki innvolsis dró hann stundum upp svört korn, eins og pipar eða skot, og henti af handhófi tilbaka, svo myndaðist munstur. Þetta tók sinn tíma, og viss hrynjandi var kominn í raddhljóm Svans, næstum söngur. Svo snéri hann sér að mér, þreyttur, næstum eineygður, varirnar þunnar og bláar: –Ég held að þetta sé komið. Hann benti á ákveðna svertu sem hafði myndast inní þörmunum, rúnir eins og myrkar frostrósir í laginu, sem lykkjuðust áfram eins og arabískt letur, þó þær að öðru leyti ættu ekkert skylt við Arabíu. –Ég get lesið þetta, sagði hann, þótt þetta sé óskýrt. Ég held við þurfum að lesa okkur í gegnum alla þarmanna, til að komast að því, hvort þetta sé sagan, leitin að líffæri hins nýja ljóðs. Ekki er mikið um lýsingar, mest aburðir og almennar stefnur:

– Hérna fyrst sé ég mann með strýtuhatt á höfði, nei, er þetta spurningamerki? Maðurinn stendur í of stórum skóm, skórnir breytast í skip, skipið breytist í bát, og svo hverfur maðurinn í þoku. Næst eru tveir menn, sem fela sig á bakvið ísmola ofaní kokteilglasi, og þeir nota hanastélið til að berja þann þriðja, sem virðist drukkna. Næst sé ég tvær kyrkislöngur orma sig niðrí holu, önnur þeirra er með fíl í maganum. Svo sé ég bjóra byggja virki í á, trjádrumbarnir reynast vera afskornir limir, hendur og fætur, þegar betur er gáð. Hér sé ég tvær spætur hola risavaxna furu með gogginum. Og hvað sé ég hér! Tvo lækna standa yfir manni sem liggur á skurðborði, hann virðist nær dauða en lífi, við hlið hans er púlsmælitæki, sem sýnir öldur og 24 og það pípir.

Að svo stöddu litum við hvor á annan, Svanur og ég, því í þeim töluðum orðum fór tæki við hlið borðsins að pípa. – Heldurðu að hann sé að deyja, hann Valur? spurði ég.

– Hann er að ranka við sér, ef hann vaknar svona, með allar lífkökur sínar útbyrðis, þá deyr hann. Við verðum að gefa honum meiri deyfilyf.

– En hann hefur verið alltof lengi milli lífs og dauða nú þegar, ef hann fær meira Anaphdeprin er hætta á að hann falli í dá og komist aldrei aftur til vöku. Þetta er alltof dýrkeypt viðtal. Ég væri beinlínis sekur um að svipta hann lífi, og þá er ég ekki bara að tala um að svipta hann prívatlífi!

– Við verðum að taka þá áhættu. Ekki missa af þessu tækifæri. Við verðum að komast að því hvernig sagan endar. Og, ef þú pælir í því, þá endist honum ævin jafnvel lengur svona – í kaldri vök, varla sofandi, varla dauður. Svo ekki sé minnst á það að núna höfum við aðgang að líffæri hans til eilífðarnóns! Við getum fengið hvað sem er upp úr honum. Hann er á okkar valdi, holdið hans verður okkar orð, blóðið hans mun storkna þar sem við setjum punkt. Hvað sem er, segi ég, þú getur spurt hann um hvað sem er, og innanílíf hans svarar.

– Þú segir nokkuð, sagði ég, og til málamynda setti ég hrukku á ennið, meir til að sýna siðferðislegan lit en að gefa í skyn raunverulega angist. Ég gerði mér undireins grein fyrir að Svani stóð á sama, ég leit í kringum mig og velti fyrir mér hvort öllum stæði á sama um siðferðiskröfur mínar. Get ég leyft mér að fórna lífi manns – manns sem um margt minnir á mig — til þess eins að draga upp úr honum sögurnar, kryfja hann til mergjar, í leit að nýju ljóði? Er það réttlætanlegt? Er ekki betra að lifa lífinu en að skipta holdinu, sem pund á vogarskál, fyrir orð í sögu og ljóð? Svanur horfði á mig, reiðubúinn að stinga nálinni í lík Vals, og sem ég sleppti þessum hugrenningum varð mér litið til vasksins við enda salarins, þar sem ég hafði ælt, en núna var ekki lengur spegill fyrir ofan hann, heldur málverk: Andlitsmynd af Shakespeare, af þeirri gerð sem fæst í ódýrri skransölu, og undir myndinni stóð áletruð einhver tilvitnun um samviskuna, eða, að ekki vera með neina, – ég sá það ekki svo skýrt, því æsingurinn var orðinn svo mikill.

– Já! Sprautaðu hann niður, skipaði ég, við höldum honum í dái, ef hann deyr lífgum við hann við með Adrenalíni, ef hann vaknar deyfum við hann til ólífis. Í sofandi vöku drögum við upp úr honum orðin, lifandi dauðan skerum við hann upp. Næst eru það smáþarmarnir, hvað gerist næst!

– Jú, sagði Svanur og rýndi ofaní þarmagumsið eftir að hafa lagt nálina í Val, hérna eru nokkur svört korn og ég fæ ekki betur séð en að það sem gerist næst er að ...

Framhald í næsta þætti


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur