Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Ein er søgan úr Íslandi komin eftir Magnús Sigurðsson


Það er einstök upplifun að eiga kvöld í Kirkjubæ í Færeyjum. Steinkirkjan þar er mikið mannvirki sem á fáa sína líka og á sér merkilega sögu og það er dásamlegt að snæða kvöldverð í hinum fallegu og höfðinglegu húsakynnum staðarins. Færeyskt danskvöld í kjölfarið er svo meiri háttar ævintýri, sem seint gleymist, en þar kyrjar hópur heimamanna hin sígildu kvæði Færeyinga um leið og stiginn er taktfastur hringdans, sem er ekki flóknari en svo að gestir geta umsvifalaust tekið þátt í honum.
Kvæðin eru mörg og mismunandi en yfirleitt all langir bálkar, sem segja frá fræknum hetjum úr sögu Færeyinga, sem Íslendingar þekkja ekki mikið til, enda koma Íslendingar þar lítt við sögu. Eitt kvæðið sker sig þó úr, en það fjallar um rammíslenska hetju, Gretti hinn sterka Ásmundarson. Það er því ekki að ástæðulausu, að þetta er það færeyska kvæðið, sem Íslendingar þekkja best til.
Saga Grettis hefur verið Íslendingum hugstæð alla tíð, enda einstök í sinni röð en þar er sagt frá miklum hetjuskap og grimmum örlögum. Orð Jökuls Bárðarsonar um Gretti: „Sitt er hvárt gæva eða görvileiki,“ hafa ávallt verið fleyg.
Til eru fjögur skinnhandrit af Grettis sögu og munu þau öll vera rituð á 15. öld. Handrit þessi eru samhljóða um innihald og eiga rót sína að rekja til tveggja eldri handrita að minnsta kosti. Þau benda eindregið í þá átt, að Grettis saga sé ein heild frá upphafi til enda og er hér stuðst við formála próf. Guðna Jónssonar að Grettis sögu.
Meginþorri sögunnar er með sannsögulegum blæ og ýmsir kaflar sagðir af mikilli snilld en á hinn bóginn eru fremur veigalitlir kaflar innan um og mikið af þjóðsögum og ævintýraefni.
Sagan af Glámi og ógæfu Grettis verður ekki aðgreind. Þrátt fyrir skapbresti fer frægð Grettis og gengi vaxandi, allt til þess er hann fæst við Glám, en eftir það snýst honum allt til ógæfu og hamingjuleysis, hin grimmu álög hrína á honum. Upp frá því verður saga hans barátta við útlegð, einveru og myrkfælni. Þessi miklu straumhvörf í lífi söguhetjunnar eru túlkuð á áhrifamikinn hátt með sögunni af Glámi, sem var höfundinum hvort tveggja í senn skýring á ógæfu Grettis og afsökun um leið. Sagan af Glámi er hámark og þungamiðja Grettis sögu, því að þar fer saman örlagaþrungnasti atburðurinn í ævi Grettis og þar nær frásagnarlist söguritarans hámarki.
Frásögnin af því, hvernig Þorsteinn drómundur, bróðir Grettis, hefnir hans er líka einstök, en sá atburður gerist austur í Miklagarði og er Grettir talinn vera eini fornmaðurinn, sem vitað er um, að hefnt hafi verið í þeirri fornfrægu borg.

Fjölskrúðugar ritaðar heimildir
Grettis saga styðst við fjölskrúðugar ritaðar heimildir. Hún hefur t. d. þegið mikið frá Landnámu en einnig frá Eyrbyggju og fleiri Íslendingasögum. Lýsingin á afturgöngu Gláms minnir t. d. í mörgu á frásögn Eyrbyggju af afturgöngu Þórólfs bægifóts. Grettis er líka víða getið í sögum.
Höfundur Grettis sögu hefur haft tvenns konar markmið. Annars vegar að safna saman öllum heimildum um Gretti, þeim er kostur var á og bjarga þeim frá glötun. Hins vegar að blása lífsanda í hinn dreifða efnivið, tengja atburðina saman og skapa úr heild, segir próf. Guðni Jónson. Um Gretti hafa snemma myndast miklar frásagnir og hann hefur verið frægur um allt land. Það sést m. a. af því hversu víða hans er getið í sögum. Þegar frá leið atburðunum sjálfum og þeir undir lok liðnir, sem Grettir hafði reynst sárbeittur í sektinni, snerist samúð þjóðarinnar eindregið með honum. Vegna afls síns og hjálpfýsi varð Grettir í vitund manna bjargvættur og verndari gegn hinum illu öflum tilverunnar og kemst þannig inn í heim þjóðtrúar og þjóðsagna.
Grettis saga hefur alltaf verið afar vinsæl á Íslandi. Vinsældir sínar á sagan ekki aðeins að þakka því að hún er ágætlega rituð og fjölbreytt að efni heldur og því að hún er alþýðlegust allra sagna. Í engri Íslendingasögu er eins mikið af þjóðlegum skáldskap og í henni og Grettir sjálfur hefur orðið eins konar þjóðhetja. Við engan mann eru kennd jafnmörg örnefni á Íslandi sem við Gretti og steintök tileinkuð Gretti eru einnig mörg.
Grettir er talinn fæddur 996 og hann lifði til ársins 1031, er hann var veginn í Drangey. Í Grettis sögu er honum lýst þannig: „Grettir Ásmundarson var fríður maður sýnum, breiðleitur og skammleitur, rauðhærður og næsta freknóttur, ekki bráðgerr meðan hann var á barnsaldri.“ Þá segir: „Hann var mjög ódæll í uppvexti sínum, fátalaður og óþýður, bellinn bæði í orðum og tiltektum.“ Síðar verður hann að þjóðsagnahetju, sem er gædd yfirnáttúrlegu afli.
Margar vísur prýða Grettis sögu og sumar þeirra eru góður skáldskapur. En flestar vísurnar eru ortar af öðrum en honum og miklu síðar en sagan gerist. Sögulegt heimildargildi þeirra er því lítið en þær sýna þó hvernig sagan hefur myndast og vaxið, allt frá dögum Grettis og fram yfir lok 13. aldar. Nokkrar vísur eru þó sennilega eftir Gretti sjálfan. Þeirra þekktust er eflaust vísan, sem byrjar á þessari hendingu: Váskeytt er far flásu.
Myrkfælni Grettis er vissulega í mótsögn við hetjuímynd okkar nútímamanna. Íslendingar eru almennt ekki mjög myrkfælnir á okkar dögum þó að flestir viðurkenni að þeim stafi geigur af myrkrinu og kjósi birtuna fram yfir myrkrið. En fyrr á öldum höfðu menn miklu meiri ástæðu til þess að vera hræddir við myrkrið en nú því að trúin á drauga og óvættir, sem tengdust myrkrinu, var miklu almennari, enda lýsing í og við híbýli fólks ólíkt lakari en á okkar dögum. Alls konar náttúrufyrirbæri, sem við kunnum nú skil á, voru áður fyrr gjarnan rakin til yfirnáttúrlegra afla og óvætta, eins og þrumur og eldingar, jarðeldar og jarðskjálftar. Myrkfælni Grettis eftir glímuna við Glám gerir þann síðarnefnda að enn ógurlegri ófreskju en ella, en hvergi er frá því greint, að aðrir andstæðingar Grettis hafi sett varanlegt mark á hetjuna.
Grettis saga er almennt talin rituð um eða laust eftir aldamótin 1300. Um höfund hennar er ókunnugt eins og höfunda annarra Íslendingasagna. En höfundurinn hefur verið enginn aukvisi að vitsmunum eða lærdómi, segir próf. Guðni Jónsson. Flest bendir til að hann hafi verið Húnvetningur og haft kirkjulega menntun eða verið klerkur og að sagan sé rituð í Húnavatnsþingi, en þar virðist söguritarinn vera nákunnugur. Allar frásagnir sögunnar af Gretti, sem gerast hér á landi, eru líka tengdar við Norðurland og Vesturland eða svæðið frá Borgarfirði norður í Þingeyjarsýslu og óbyggðirnar milli Borgarfjarðar og Húnavatnsþings vestan Kjalvegar. Miðfjörðurinn, átthagar Grettis er mjög ríkur af sagnahefð. Loks verður varla efast um, að höfundurinn hafi verið kunnugur í Noregi, en í þeim köflum sögunnar sem gerast þar, er staðháttum rétt lýst.
Af þeim mönnum, sem helst koma til greina sem höfundur sögunnar er Hafliði Steinsson, prestur að Breiðabólsstað í Vesturhópi líklegastur, en hann var fæddur 1253. Hann nam prestleg fræði á Þingeyrum og var síðar um skeið ráðsmaður staðarins, en Þingeyraklaustur var um langa hríð höfuð menntasetur Norðlendinga. Séra Hafliði var ennfremur í nokkur ár hirðprestur Eiríks konungs Magnússonar í Noregi og hefur þannig orðið kunnugur þar í landi. Hafliði andaðist 1319, 66 ára að aldri.

Skrivað í bók so víða
Færeyska kvæðið, sem Jóannes Patursson hefur valið, er hvorki meira né minna en 110 vísur, en algengasta viðkvæðið er þannig:

Nú fellur ríman
Norðan Breiðafjörð
har liggur ein bóndi
deyður í døkkari jörð.
Og nú fellur ríman.

Kvæðið sjálft hefst á skírskotun til Íslands, Grettis og föður hans:

Ein er søgan úr Íslandi komin,
skrivað í bók so víða, ........

Ásmundur búið á Björgum vestur,
átti son so fríðan;
Grettir sterki nevndur var,
sum gitin er so viða

Síðan eru bernskubrek Grettis rakin, fyrst hvernig hann hefnir sín á gæsunum, sem honum er falið að gæta og síðan, hvernig hann húðflettir föður sinn, sem biður hann að klóra sér á bakinu. En þrátt fyrir þetta er kvæðið mjög hliðhollt Gretti, sem er nú knúinn til að fara úr landi og heldur til Noregs.

ikki hevur frægari maður
stigið á skipaborði.

Afrekssaga Grettis í Noregi er svo rakin með litríkum orðum, m. a. hvernig hann eys sjó á við átta menn úr báti, sem er að því kominn að sökkva og bjargar með því sjálfum sér og félögum sínum úr sjávarháska.

so oysti hann tað einsamallur,
at átta oysti ei áður.

Fleiri hetjudáðir eru raktar, en í samræmi við skapgerð Grettis kemur að því, að hann vegur mann og annan og verður að taka afleiðingunum af því.

„Eg geri Grettir útlagdan,
út av Noregs landi“
segir jarlinn.

Grettir heldur aftur til Íslands, þar sem hann dvelst í föðurgarði. Mikið ósamræmi er hins vegar milli færeyska kvæðisins og Grettis sögu, þegar að því kemur að lýsa glímu Grettis við Glám og aðdraganda hennar. Í sögunni er þessum bardaga lýst ítarlega, enda er hann einn magnaðisti hluti sögunnar. Í kvæðinu er Grettir látinn berjast við tröll, þar sem hann hefur að vísu sigur, en atburðinum ekki lýst nánar. En eftir það sækir að honum myrkfælnin, sem varð hlutskipti hans eftir glímuna við Glám.

Grettir tordi eftir tað
ikki myrkur síggja

En nú verða valdaskipti í Noregi og Grettir heldur þangað á ný.

„Nú skal siglast til Noregi
sankt Ólav kong at finna“

En þegar hann og félagar hans koma í Þrándheimsfjörð verða þeir skipreka á eyðiströnd, þar sem þeir eiga á hættu að verða úti, nái þeir ekki að kveikja eld. Grettir býðst til þess að leggjast til sunds og sækja eld.

Grettir læt á fjörðinn halda,
garpur var hann sælur,


Hinum megin fjarðarins nær Grettir í eld í húsi einu en það tekst ekki átakalaust og endar með því, að húsið brennur til ösku með öllum sem þar voru inni.

kolað var alt húsið upp
og brendir leggir lógu.

Grettir fær tækifæri til þess að bera af sér sök um húsbrunann en í staðinn fremur hann ógæfuverk þegar honum er storkað og kóngur vísar honum úr landi með þessum orðum:

„Tú hevur verið eitt bølmenni,
so eingin er tín líki“

Grettir heldur aftur til Íslands, en .....

Meðan hettar í Noregi hendi
ei stóð betur heima

Grettir misti landafrið,
og prísur var settur á hövur.

Grettir hefnir bróður síns, en flakkar síðan um landið, uns Guðmundur ríki vísar honum út í Drangey. Ekki er minnst á það í færeyska kvæðinu, er Grettir synti úr Drangey til lands til þess að sækja eld, sem fyrr og síðar hefur verið talið eitt hans frækilegasta afrek. „En er það fréttist, að Grettir hafði lagst viku sjávar, þótti öllum frábær fræknleikur hans bæði á sjó og landi,“ segir Grettis saga. Í Drangey dvelst Grettir í þrjú ár með Illuga bróður sínum, þar til hann hann hlýtur sár eitt mikið.

Illska kom í sárið,
Grettir á seingini lá,
hetta frættu hans óvinir.

Í færeyska kvæðinu er hvergi minnst á særingar Þuríðar, fóstru Þorbjörns önguls Þórðarsonar, óvinar Grettis, en í sögunni er drepið í sárinu rakið beint til áhrínisorða hennar.
Viðbrögðum og hugrekki Illuga, sem kveðst heldur láta lífið en verða þvingaður til þess að lofa því að hlífa banamönnum Grettis í framtíðinni, er vel lýst í kvæðinu.

„manniliga skal eg hevna hans deyð
um eg má lívið njóta.“

Þorbjörn öngull, banamaður þeirra má flýja land

tú skalt flýggja av Íslandi
og lön færtú ekki heldur.

og fær makleg málagjöld, er Þorsteinn drómundur, hálfbróðir Grettis vegur hann austur í Miklagarði og hefnir þar með bróður síns.

Hansara deyði hevndur var
eysturi í Garðaríki

Kvæðinu lýkur með heimspekilegri ályktun:

Hann ið ikki lýður faðir ráð,
sjáldan verður hann glaður
so gekk tað við Gretti sterka,
hann varð ekki eydnismaður.


Hver er höfundurinn?
En Grettir er íslensk hetja, sem kemur ekki við sögu Færeyinga. Saga hans gerist aðallega á Íslandi og í Noregi og þess er þar hvergi getið, að hann hafi komið til Færeyja. Sú spurning vaknar, hvernig þetta færeyska kvæði hefur þá orðið til, en það segir hina dramatísku sögu Grettis á kjarnmikinn og litríkan hátt og er því mikill og magnaður skáldskapur. Engin önnur persóna úr íslensku fornsögunum hefur orðið Færeyingum viðlíka efniviður í hetjukvæði. Aðeins er minnst lítillega á nokkra aðra íslenska fornkappa í fáeinum öðrum færeyskum kvæðum.
En hvernig varð kvæðið til og hver var höfundurinn? Fyrir svörum verður Vésteinn Ólason prófessor, en hann hefur kynnt sér þjóðkvæði Færeyinga sérstaklega og skrifað um þau fræðrit. „Skáldið sem orti Grettiskvæði var Jens Christian Djurhuus (1773-1853, kallaður Sjóvarbóndin), en hann bjó í Kollafirði í Færeyjum,“ segir Vésteinn. „Auk kvæðis um Gretti orti hann kvæði um Ólaf helga og Ólaf Tryggvason (eftir Heimskringlu), Sigmund Brestisson og Leif Össurarson (eftir Færeyinga sögu), og ævintýralegt kvæði líklega eftir færeyskum sögnum. Hann orti einnig frjálslega endur­sögn á Paradísarmissi Miltons (eða hluta úr kvæðinu) og kallaði Púka Ljómur. Púkinn er náttúrlega Satan og Ljómur vísar til kvæðis Jóns Arasonar sem var þekkt í Færeyjum, en kvæðið um Púkann er ort undir sama bragarhætti. Þessi kveðskapur er hluti af nýju blómaskeiði í færeyskri kvæðagerð þar sem stuðst var við bækur, en Sjóvarbóndinn er frægastur þeirra skálda sem þá létu að sér kveða. Margir ortu gamansöm skopkvæði um nágranna sína sem kölluð voru þættir (tåttur, tåttayrking), amk. eitt slíkt er til eftir Sjóvarbóndann. Auk Grettiskvæðis er til stutt kvæði í Færeyjum um það atvik þegar Hallgerður neitaði Gunnari um bogastrenginn, en það er ólíkt þessu, með tveggja línu hætti.“


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur