Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Cavalleria Rusticana eftir Giovanni Verga


Þegar Túríddú Macca, sonur Núnzíu, kom heim eftir að hafa verið í hernum fór hann á hverjum sunnudegi út á torgið til þess að státa sig þar af einkennisbúningi bersagliere og rauðu húfunni. Þannig líktist hann karlinum sem lagði þar undir sig bekk með spádómsfugl í búri. Stúlkurnar ætluðu að gleypa hann með augunum en sjalið faldi andlitið upp að nefi á leið þeirra til kirkju; strákar sveimuðu í kring eins og flugur. Hann átti líka reykjarpípu skreytta konungi sem virtist sitja lifandi á hesti, og þegar hann kveikti á eldspýtu, með því að strjúka fosfórnum um buxnabrotið, sparkaði hann til löppinni. Þrátt fyrir þetta lét Lóla, dóttir meistara Angelo, hvorki sjá sig við messu né á böllum, enda lofuð manni frá Lícodía sem átti flutningsvagn og fjögur múldýr frá Sortíno á stalli. Þegar Túríddú frétti af þessu langaði skrattakoll að rista hann á belginn og brytja í spað bölvaðan pjakkinn! En hann gerði ekkert heldur lét nægja sér til hugarhægðar að syngja undir glugganum hjá meynni fögru allar níðvísurnar sem hann kunni.
– Hefur strákurinn hennar Núnzíu ekkert að gera annað en það að syngja eins og spörfugl allar nætur? sögðu nágrannarnir.
Loksins rakst hann á Lólu á leið úr helgiför til Maríu meyjar hættunnar, en hún skipti ekki einu sinni lit, enda ósnortin að mestu.
– Heppinn er sá sem hittir þig! sagði hann.
– Góði, ég heyrði að þú hefðir komið í byrjun þessa mánaðar.
– Mér hafa borist meiri og aðrar fréttir, svaraði hann. Er satt að þú ætlir að giftast félaga Alfío sem á vagninn?
– Ef Guð lofar, svaraði Lóla og herti betur undir hökunni báða hnútana á höfuð­klútnum.
– Vilji Guðs fer eftir því hvernig þú snýrð þér í þessu máli. En það var hann sem vildi að ég færi óraleið til að fá þessa líka þokkalegu frétt, ungfrú Lóla!
Veslingurinn varð rámur en reyndi samt að sýna kokhreysti og tölti á eftir stúlkunni svo dúskarnir á húfunni sveifluðust til og frá á baki hans. Vissulega fann hún til með honum, svona döprum í bragði, en áræddi ekki að hugga hann með fögrum orðum.
– Heyrðu góði, sagði hún að lokum, leyfðu mér að fara aftur til vinkvenna minna. Hvað ætli yrði sagt ef fólk sæi mig með þér?
– Það er rétt, svaraði Túríddú, fyrst þú ætlar að giftast Alfío sem á fjögur múldýr á stalli og óþarft að vekja kjaftasögur. Vesalingurinn hún mamma þurfti aftur á móti að selja brúnu múlösnuna okkar og litlu vínekruna við veginn á meðan ég var í hernum. Sú tíð er liðin þegar hún Berta spann; og þú manst ekki einu sinni lengur þegar við ræddum saman við gluggann sem veit að garðinum, eða þú gafst mér vasaklút áður en ég fór. Guð veit hvað ég hef fellt í hann mörg tár þegar ég var svo óralangt í burtu að ég mundi ekki lengur hvað þorpið okkar heitir. Vertu því sæl, allt er horfið í þoku og segjum vináttunni slitið.
Ungfrú Lóla giftist vagneigandanum og settist út á svalir á sunnudögum með hendur á maga svo allir gætu séð hvað bóndinn hafði gefið henni marga og stóra gullhringa.
Túríddú hélt uppteknum hætti, hann rápaði eins og ekkert væri um þrönga húsasundið með pípu í munni og hendur í vösum og góndi á stúlkur; en það nagaði hann innra að eiginmaður Lólu skyldi sitja að öllu gullinu og að hún þættist ekki sjá hann á göngu.
– Mig langar að horfast í augu við þrjótinn! tautaði hann.
Meistari Cola bjó í húsinu beint á móti Alfío, hann var maður sem átti vínekrur, svínauðugur, og sagt að hann lokaði dóttur sína inni. Túríddú linnti ekki látum fyrr en hann komst ráðinn til hans sem kaupamaður og fór að venja komur sínar í húsið og læða ljúfum orðum að stúlkunni.
– Af hverju segirðu ekki eitthvað jafn fallegt við frú Lólu? spurði meyjan.
– Hún er orðin virðulegasta frú, gift krýndum manni með kórónu.
– Ég er ekki mikið fyrir kórónukónga.
– Þú ert þúsund sinnum meira virði en Lóla, og svo þekki ég mann sem lítur hvorki á hana né kórónuprinsinn, þegar þú ert nærri, því Lóla er ekki þess virði að hnýta skóþveng þinn.
– Þegar refurinn í ævintýrinu sá að hann komst ekki í vínberið ...
– Sagði hann: Ósköp ertu fögur, rúsínan mín!
– Túríddú, þú kannt svei mér að koma orðum að hlutunum.
– Ertu hrædd um að ég hámi þig í mig?
– Ég er hvorki hrædd við þig né Guð þinn.
– Jæja, maður hefur sosum heyrt að hún móðir þín hafi verið ættuð frá Lícodía! Í þér er þess vegna ólgandi blóð. Já, annars gæti ég étið þig með augunum!
– Gleyptu mig með þeim, svo ekkert verði eftir, en réttu mér fyrst eldiviðinn þarna.
– Þín vegna mundi ég afhenda þér allt húsið.
Til að fela roðann kastaði hún eldiviðarbúti, sem hún hafði í höndunum, og kraftaverk að hún hæfði hann ekki.
– Það fæst ekki mikill eldiviður úr svona samræðum.
– Væri ég ríkur mundi ég velja mér kvonfang á borð við þig.
– Ég mundi aldrei giftast aurasál eins og Lóla, en ég fæ vissulega minn heimanmund þegar faðir minn velur mér eiginmann.
– Maður veit auðvitað hvað þú ert auðug.
– Vitirðu það, farðu þá strax því pabbi er að koma og ég vil ekki að hann sjái mig úti í garði.
Faðirinn byrjaði að súrna á svipinn en dóttirin lét sem hún sæi ekkert, vegna þess að dúskurinn á bersaglierehúfunni hafði helgað sér stað í hjartanu og dinglaði stöðugt fyrir augum hennar. Þegar faðirinn hafði vísaði Túríddú á dyr opnaði dóttirin fyrir honum gluggann og ræddi við hann allt kvöldið, svo nágrannarnir töluðu varla um annað.
– Ég ræð mér ekki þín vegna, sagði Túríddú, og ég hef hætt að geta sofið og borðað.
– Blaður!
– Mig mundi langa að vera sonur hans Vittorio Emanuele konungs svo ég gæti gifst þér.
– Kjaftæði.
– Það veit mín trú að ég gæti étið þig.
– Málæði.
– Ég legg heiður minn að veði.
– Æ, guð minn góður!
Dag nokkurn kallaði Lóla á Túríddú, eftir að hafa hlustaði á þannig spjall á hverju kvöldi og skipt litum í felum á bak við ilmjurt sem óx í blómapotti.
– Jæja góði, ertu hættur að heilsa gamalli vinkonu?
– O! andvarpaði ungi maðurinn. Sæll er sá sem fær að heilsa þér!
– Ef þig langar að heilsa upp á mann, þá veistu hvar ég bý! svaraði Lóla.
Túríddú fór nú að heilsa svo oft upp á hana að meyjan tók eftir því og skellti glugganum á hann en nágrannarnir brostu eða hristu höfuðið þegar þeir sáu hermanninn. Eiginmaður Lólu var að heiman, hann var í akstri á milli markaða með múldýrin sín.
– Ég verð að skrifta á sunnudaginn kemur, sagði Lóla, vegna þess að í nótt dreymdi mig illa.
– Láttu það alveg eiga sig! bað Túríddú.
– Nei, enda líður að páskum og maðurinn minn vill auðvitað vita af hverju ég hafi ekki gengið til skrifta.
– A! muldraði meyjan, dóttir Cola, sem beið á hnjánum eftir að röðin kæmi að sér til þess að fara í sama skriftastól þar sem Lóla rakti syndir sínar og hún heyrði sagt: „Það veit mín trú, mig langar síst að senda þig í píslargöngu til Rómar.”
Innan tíðar kom Alfío á múldýrunum, hlaðinn fé og færði konu sinni að gjöf fallegan nýjan kjól til að klæðast á hátíðinni.
– Þú hefur ástæðu til að færa konunni gjafir, vegna þess að á meðan þú varst fjarri hefur hún prýtt heimilið! sagði meyjan, nágranni þeirra.
– Alfío var þannig af flutningsmanni að vera að hann skildi áður en skellur í tönnum, og þegar hann heyrði talað þannig um eiginkonuna varð hann fölur eins og hann hefði fengið í sig rýting.
– Fjandinn sjálfur! hrópaði hann, ef ég þekkti þig ekki einungis af góðu hefði ég ekki einu sinni augun af þér grátandi, hvorki þér né þínu fólki!
– Ég er óvön að vatna músum, svaraði meyjan. Mér vöknaði ekki einu sinni um augun þegar ég sá með þeim að Turíddú, sonur hennar Núnzíu, fór að næturlagi í hús til konu þinnar.
– Gott og vel, kærar þakkir! sagði þá Alfío.
Eftir að högninn á heimilinu kom aftur heim lét Túríddú ekki einu sinni sjá sig lengur á göngu að degi til um húsasundið heldur muldi úr sér leiðindin á kránni með félögum sínum. Svo var það daginn fyrir páska að hann hafði fengið sér pylsumat á diskinn. Um leið og Alfío kom inn sá Túríddú greinilega á því hvernig hann leit hann augum, hvað var í uppsiglingu og lagði gaffalinn frá sér á diskinn.
Hefur þú boð að færa, félagi Alfío? spurði hann.
– Enga skipun, félagi Túríddú, heldur smávegis sem ég hefði síst viljað sjá hjá þér, svo mig langar að tala um dálítið sem þú þekkir.
Túríddú hafði þegar boðið honum glasið sitt en Alfío bandaði frá sér. Túríddú reis þá á fætur og sagði:
– Hér hefurðu mig, félagi Alfío.
Í sömu svifum vafði vagneigandinn örmunum um háls honum.
– Ef þú vildir koma í fyrramálið í fíkjulundinn í eigu Canzíría, gætum við rætt málið, félagi.
– Bíddu á morgun í dögun hjá þjóðveginum, við gætum þá orðið samferða.
Að svo mæltu skiptust þeir á kossum til þess að innsigla hólmgönguna. Túríddú beit tönnum í eyrað á vagneigandanum og hét þannig hátíðlega að bregðast honum ekki og fara á stefnumótið.
Félagar Túríddú höfðu hætt við bjúgnaréttinn án þess að mæla orð af vör og fylgdu honum heim að húsdyrunum. Í þeim beið Núnzía, vesalings móðirin, á hverju kvöldi komu sonarins.
– Mamma, sagði Túríddú, manstu að þegar ég fór í herinn hélstu að ég kæmi aldrei aftur? Nú skaltu kyssa mig með sama hætti og þá, vegna þess að á morgun ætla ég langt í burtu.
Fyrir dögun sótti hann fjöðurrýtinginn sem hann faldi undir heyinu þegar hann innritaði sig í herinn og hélt af stað með hann að fíkjulundi Canzíría.
– Ó, guð minn góður! Hvert ertu að æða svona? spurði Lóla hrædd með grátstaf í kverkunum þegar maðurinn hennar var á leiðinni út.
– Ég ætla stutt, svaraði Alfío, en þér væri best að ég kæmi aldrei aftur.
Lóla lá á bæn í náttkjólnum við rúmið og þrýsti að vörunum talnabandi sem Bernardino munkur hafði fært henni frá Landinu helga, og þuldi öll Maríuversin sem hún kunni.
– Félagi Alfío, sagði Túríddú og tók til máls eftir að þeir höfðu gengið eftir þjóðveginum hlið við hlið og hann þagað með húfuna niður í augum, ég veit eins vel og Guð er til að ég hef farið illa að ráði mínu og ætti að láta deyða mig. En áður en ég lagði af stað fór ég til mömmu, sem var komin á fætur til þess að sjá mig fara en þóttist ætla að hirða hænsnakofann, og það var næstum eins og hún fyndi eitthvað á sér í hjartanu, svo þess vegna er jafn satt og Guð er til, að ég skal drepa þig eins og hund svo gamla móðir mín þurfi ekki að gráta.
– Gott og vel, sagði Alfío félagi hans þegar hann brá sér úr vestinu, nú skulu báðir berjast.
Hnífarnir léku í höndum þeirra. Túríddú fékk fyrst í sig stungu sem lenti á handleggnum. Þegar hann borgaði fyrir sig, galt hann Alfío óspart og hitti í nárann.
– Æ, félagi Túríddú, þú ætlar að ganga frá mér!
– Ég sagði það. Eftir að ég sá mömmu í kofanum finnst mér ég hafa hana stöðugt fyrir augunum.
– Hafðu þau opin! hrópaði Alfío, nú færðu það óþvegið.
Fyrst hann var í varnarstöðu, hnipraður með vinstri hönd á sárum skurðinum, lá hann með olnbogann næstum á jörðinni og þreif hnefafylli af mold og kastaði í augu andstæðingsins.
– A! æpti Túríddú blindaður, nú er ég feigur.
Hann reyndi að sleppa með því að skjótast aftur á bak en Alfío stakk hann í kviðinn á ný og veitti honum þriðju stunguna í hálsinn.
– Hér færðu þrjár! Þessi er borgun fyrir að hafa skreytt fyrir mig heimilið. Nú mun mamma þín láta kjúklinginn í friði.
Túríddú skjögraði á milli fíkjutrjánna en féll að lokum eins og slytti. Heitt blóðið spýttist úr hálsinum og hann gat ekki sagt:
– Ó, móðir mín!

Guðbergur Bergsson þýddi


Giovanni Verga fæddist á Sikiley árið 1840, í borginni Cataníu, kominn af frjálslyndu og vel stæðu fólki. Hann skrifaði fyrstu skáldsögu sína fimmtán ára gamall, Amore e patria (Ást og föðurland) og lauk aldrei lögfræðinámi en fór í staðinn til Flórens á fund menntamanna og skálda þar í borg sem nutu lista og ásta, eins og Capuana, sem var einnig frá Sikiley. Ástir Verga urðu að engu í Flórens og aldrei giftist hann. Frá Flórens fór hann til Mílanó og bjó þar í tuttugu ár en fluttist síðan aftur til Cataníu að foreldrum sínum og systur látnum. En áður skrifaði hann margar skáldsögur, sumar í anda hins franska Flauberts sem hann heimsótti í París. Áður en hann fór aftur á heimaslóðir gaf hann út árið 1880 í Mílanó smásagnasafnið Vita dei campi (Líf í sveitum) og úr því er fengin sagan sem hér kemur á prent. Fjórum árum seinna var gert leikrit úr henni, þótt Verga hafi haft fyrirlitningu á ítölsku leikhúslífi á þessum tíma. Leikritsgerðin varð honum síðan til happs, frama og ótrú­legs hagnaðar. Árið 1893 gerði hann samning í gegnum útgefanda sinn við tónskáldið Mascagni um að hann mætti semja óperu byggða á verkinu og fékk þvílíka greiðslu (óperur voru í tísku) að hann þurfti ekki að hafa áhyggjur af fjármálum eftir það heldur raunir af list sinni, sem fór hnigandi. Hún varð að lokum að engu eftir að kvikmynd var gerð eftir verkinu. Verga lést árið 1922. Ég held að I Malavoglia ( Malavogliufjölskyldan) sé þekktasta skáldverk hans nú um stundir, ef frá er talin Cavalleria Rusticana, ekki sagan heldur ópera Mascagni, og þá helst hinn ástríðufulli fjögurra og hálfs mínútna þáttur sem heitir Intermezzo. Líklega vita fáir að óperan er byggð á verki Verga. Hvað sem því líður, gleymsku og vanþekkingu, var Verga afar merkur og heillandi höfundur. Titillinn á sögunni, Cavalleria Rusticana, merkir eigin­lega Sveitaheiður og efnið lýsir föstum, ef svo mætti segja, riddarareglum á vegum dyggða, það að andstæðingarnir kyssast og annar bítur í eyra hins til að sýna trúnað. Í sögunni eru ekki óvinir á ferð heldur menn sem hafa svarið sig vegna sæmdar sinnar í fóstbræðralag dauðans. Í henni má finna ýmislegt annað sem er enn við lýði og í gildi á Sikiley, t.d. innan Mafíunnar, en ég rek ekki heiðurstáknin nánar. Verga notaði oft sikileysku, sem sleppt er í þýðingunni, en í staðinn er reynt að leiða í ljós innra líf þeirrar ritlistar sem höfundurinn tileinkaði sér, þannig að lesandinn haldi ekki að hér sé á ferð það sem er kallað dæmigerðar átthagabókmenntir.

GB


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur