Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Bókmenntaspjall


Kormákur Bragason fjallar um nokkrar bækur sem komu út fyrir síðustu jól og tvo áhrifamikla fjölmiðla á sviði bókmennta, Lesbókina og Kiljuna



Gerður Kristný. Höggstaður, ljóð (kápa: Ingibjörg Magnadóttir og Bjarney Hinriksdóttir*****), Mál og menning, 2007 (50 bls.)

Þetta er einstaklega falleg bók; kápan hreint listaverk og allt útlit bókarinnar með því besta sem gerist og prentuð á eðalpappír; ljóðabók sem gott er að handfjatla, strjúka og finna trjáviðarlyktina af síðunum.
Áður hafa komið út tvær ljóðabækur eftir Gerði Kristnýju: Ísfrétt (1994) og Launkofi (2000). Ljóðabókin Höggstaður hefur að geyma 35 ljóð og hafa sum þeirra birst áður í tímaritum, m. a. í Stínu.
Það verður ekki sagt að Gerður Kristný sé bjartsýnisskáld í ljóðum sínum. Ljóð bókar­innar eru grá, jafnvel grámygluleg, litlaus og þrungin svartsýni. Þetta eru harmljóð og þemu ljóðanna leituð uppi að því er virðist í þeim tilgangi að mála skrattann á vegginn, ef svo má segja. Þó eru á því nokkrar undantekningar þar sem skáldið virðist sjá til sólar og finna hjá sér þörf til að gleðjast yfir tilverunni sem þó virðist oftast dökk og þungskýjuð mjög.
Inngangsljóð bókarinnar, Ættjarðarljóð, hefst þannig:

Kuldinn býr mér
híði úr kvíða
færir svæfil úr
dúnmjúkri drífu
undir höfuð mér
snjóbreiðan
voð að vefja um sig

Ljóðinu lýkur svona: „Ísinn sleppir engum // Landið mitt / útbreidd banasæng / nafn mitt saumað / í hélað ver“
Í ljóðinu Aðför má lesa: „Sorgin er komin / að krafsa upp / hrúðrið á bringu mér“ Ljóðið Norður hefst þannig: „Hægt eins og búrhveli / líðum við gegnum sortann / sem er hvítur / hér á heiðinni“ Í ljóðinu María segir frá því: „þegar kvíðinn flæddi inn um hjartalokur fyllti gáttir og hvolf.“ Svona mætti lengi halda áfram.
En þótt skáldið sé ekki beint upptendrað eða upplífgandi er ekki þar með sagt að ljóðin séu svo slæm. Sum eru meira að segja afbragðs góð. Ljóðið Heimsókn er dæmi um það:

Söknuð drífur á dag minn / birtist á bomsum / bráðin lekur / niður á milli gólffjalanna // Fór náttfari / að finna mig // Ég harka þessa / heimsókn af mér / og helli upp á // Við horfumst í augu / yfir heitum drykk // Þá opnar gesturinn glugga / svo gardínan feykist út / hvítan friðarfána / ber við myrkan morgunhimin

Við vatnið er falleg ljóðmynd:

Hvítir fyrir hærum / skríða hamrarnir / út úr nóttinni // Grátt fyrir járnum / ryður frostið veginn // Skammlíf birta / skreytir himin // Gul fyrir genginni stund

Stundum bólar á bjartsýni, jafnvel smávegis skopskyni. Brúðkaup er gott dæmi þar um:

Gaman væri að / gifta sig að vetri / helst í stórhríð / svo veislugestir tepptust inni / Þeir kæmust ekki heim / fyrr en undir sumar // Píreygar konur og / fúlskeggjaðir karlar / brytust út í birtuna // Marsipankaka / í munnvikunum



Jón Kalman Stefánsson. Himnaríki og helvíti, skáldsaga (kápa: Jón Ásgeir***), Bjartur, 2007 (214 bls.)

Sagan gerist í sjávarþorpi á Vestfjörðum um eða fyrir aldamótin 1900. Hægt er að greina þrjá meginhluta sögunnar. Í fyrsta hlutanum segir frá ferðalagi tveggja manna (Bárðar og stráksins), gangandi frá plássinu, til sjóróðra, þar sem þeir eru ráðnir í skipsrúm. Í framhaldi af því segir frá fyrsta róðri skipshafnarinnar á sexæringi. Í öðrum hluta sögunnar segir frá svaðilför stráksins, gangandi, burt frá sjóbúðunum, til baka í plássið, þangað sem hann kemst nær dauða en lífi eftir mikið harðræði í frosti og snjó. Næsta dag vaknar hann upp í notalegu rúmi í stóru hótelherbergi. Þá tekur við þriðji þáttur sögunnar, lokaþátturinn.
Þetta er mikil spennusaga, skrifuð í hefðbundnum frásagnarstíl þar sem höfundurinn sjálfur er sögumaður. Atburðarásin er skýr allt frá upphafi til söguloka. En inn á milli, þegar sögumaður sér ástæðu til stígur hann til hliðar, útúr sjálfri sögunni, setur atburðarásina í biðstöðu og flytur hugvekjubrot um lífið og tilveruna og dauðann og í þeim ham fer hann á kostum og beitir skáldlegum stílbrögðum og innsæi sem einungis er á færi stórskálda.
Lokaþáttur sögunnar er að því leyti frábrugðinn hinum fyrri að þar koma fram ýmsar persónur, sem að því er virðist hafa engu hlutverki að gegna. Þessar persónur spretta upp hver af annarri með nafni og númeri en hverfa síðan jafn skyndilega og þær koma. Sumar þessar aukapersónur dúkka reyndar upp strax í lok fyrsta hluta en hverfa síðan hljóðlaust.
Stíll sögunnar breytist verulega í lokakaflanum; hröð og þröng atburðarás stöðvast, sögusviðið víkkar og þar með verður minna rúm fyrir heimspekileg og listræn inngrip höf­undar í söguþráðinn. Þegar kemur að niðurlagsorðum bókarinnar er ekki ólíklegt að lesandinn fái það á tilfinninguna að botninn sé suður í Borgarfirði. En þeir sem vita betur og þekkja verk Jóns Kalmans hljóta að reikna með því að persónurnar sem stungu upp kollinum, einkum í lokaþættinum, án sjáanlegs hlutverks eigi aftur eftir að koma fram í dagsljósið. Ef rétt er til getið hafa lesendur ástæðu til að bíða spenntir eftir framhaldinu; eftir næstu bók.



Sigurður Pálsson. Minnisbók, endurminningar (kápa: Studio SEEK***), JPV, 2007 (295 bls.)

19 ára strákur, nýlega orðinn stúdent frá MR, ákveður að fara til framhaldsnáms erlendis. Hann er ekki alveg viss hvert skal fara og ekki heldur hvað skuli stúderað. Loks ákveður hann að fara til Frakklands, telur sig hafa fengið góða undirstöðu í franskri málfræði m.a. hjá Vigdísi Finnbogadóttur, og tekur flugið á Frans. Þetta var árið 1967 og Kalda stríðið lá eins og mara yfir heimsbyggðinni, 6–daga stríðið rétt yfirstaðið, stríðið í Víetnam á fullu, Bítlarnir að leggja undir sig heiminn og stúdentauppreisnir í París og víða annars staðar í Evrópu og Bandaríkjunum.
Hann byrjar í borginni Toulouse, innritast í bókmenntir, hverfur þaðan til Parísar að loknu haustsemestri og innritast í leikhúsfræði, sem þá var tiltölulega ný námsgrein í háskólum.

Bókin skiptist í 49 kafla, hver um sig sjálfstæð smásaga og renna saman í eina heild, fjörutíu ára gamlar svipmyndir sem höfundurinn bregður upp. Þetta er bráðskemmtileg bók aflestrar og kemur þar margt upp á yfirborðið og annað sem lesandinn hefur á tilfinningunni að ekki skuli borið á torg. Því hvað gerir kraftmikill íslenskur námsmaður í París, einn í tilverunni og þar að auki skáld:

Það var svarthærð grannvaxin stúlka við afgreiðslu, hún var með sérkennilega heillandi drög að spastískum hreyfingum rétt þegar hún lagði af stað, þá kom ein örlítið sveiflukennd hreyfing og að því búnu hélt hún sínu striki algjörlega venjulega. En ég þreyttist ekki á því að fylgjast með henni, sérstaklega ef hún var kyrr vegna þess að sveifluhreyfingin kom þegar kyrrstaða var rofin og hún fór af stað að þjóna og snúast. Hún brosti á þennan sama máta, fyrst komu drög að léttspastískri broshreyfingu, öðrum megin, og síðan í kjölfarið eðlilegt bros. Það var, fannst mér, eitthvað ólýsanlega fallegt við þetta hreyfingar- mynstur stúlkunnar, hún bjó yfir ljóðrænum Maldororkrafti. (123).

Það er ótrúlegt hvað höfundinum tekst vel til við að tvinna sama hin ólíku viðfangsefni. París hefur alltaf verið forvitnileg borg og kaffihúsin og skáldin verða ljóslifandi. Þarna koma við sögu fjölmargir einstaklingar, frægir rithöfundar, skáld, heimspekingar, listmálarar, íslenskir námsmenn, vændiskonur og þar fram eftir götunum. Minnisbók Sigurðar Pálssonar er einn samfelldur skemmtilestur.
Árið 1968 markaði djúp spor í þróunarsöguna. Innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu það ár varð til þess að draga úr ytri spennu milli austurs og vesturs og beindi átökunum meira að öðrum grundvallaratriðum: baráttunni gegn stríði og gegn misrétti, baráttunni fyrir verndun náttúrunnar og baráttunni gegn hverskonar fordómum. Um þessi átakamál er víða fjallað. Afstaða sögumanns er forvitnileg og ekki síður þátttaka hans í löglegum og ólöglegum mótmælaaðgerðum.
Hvort Minnisbók Sigurðar Pálssonar sé flokkuð sem endurminningar, skáldsaga eða skáldævisögubrot skiptir ekki máli enda mörkin þar á milli oft harla óljós. Að formi til er margt líkt með Minnisbók Sigurðar Pálssonar og Ofvitanum og Íslensku aðli Þórbergs: Höfundarnir eru báðir aðalpersónur, stíll þeirra er þó gerólíkur og persónulegur en það er einlægnin sem þeir eiga sameiginlega og gerir þessar bækur að snilldarverkum.



Ingibjörg Haraldsdóttir. Veruleiki draumanna, endurminningar (kápa: Auglýsingastofa Skaparans ***), Mál og menning, 2007 (334 bls.)

Bókmenntasögulega séð er Veruleiki draumanna, endurminningabók Ingibjargar Haralds­dóttur, meðal forvitnilegustu bóka sem út hafa komið á síðustu árum. Ingibjörg er í hópi mikilvirkustu rithöfunda þjóðarinnar og hefur lagt gjörva hönd á ýmsar ólíkar greinar fagurbókmennta og lista. Hún er afbragðs ljóðskáld og hefur m. a. þýtt á íslensku sum helstu skáldverk Dostojevskis svo sem Glæp og refsingu, Fávitann og Djöflana, og er þá fátt talið.
En það sem öðru fremur gerir þessa bók forvitnilega er að Ingibjörg var í hópi þeirra ungu íslensku námsmanna sem fóru til náms í Moskvu í byrjun sjöunda áratugarins og dvaldi þar við nám og störf og flutti þaðan til Kúbu árið 1968, þar sem hún dvaldi með annan fótinn, meðal annars sem blaðamaður Þjóðviljans, þar til hún flutti loks heim til Íslands árið 1974.
Bókin skiptist í þrjá meginkafla sem bera yfirskriftina: Reykjavík, Moskva og Havana. Í þeim fyrsta segir frá uppruna höfundar, æskuárum og uppvexti þar til hún lýkur stúdentsprófi frá MR. Í öðrum kafla segir frá dvölinni í Moskvu, hvernig hún kemst þangað m.a. með aðstoð Einars Olgeirssonar formanns Sósíalistaflokksins, samskiptum hennar við íslensaka námsmenn og erlenda, bréfaskiptum milli hennar og fjölskyldunnar heima á Íslandi og kynni hennar af „fyrirheitna landinu“ og afskiptum hennar af stjórnmálum. Hún var um tíma fréttaritari Þjóðviljans og skrifaði einnig fréttir fyrir blöð og tímarit í Moskvu. Þá tók hún virkan þátt í pólitísku starfi meðal námsmanna og var alltaf yfirlýstur kommúnisti og í nánum tengslum við marga helsta leiðtoga Sósíalistaflokksins hér heima, svo sem Magnús Kjartansson og Kristinn E. Andrésson. Þetta var á árum Kalda stríðsins, sem setti mjög sterkan svip á samskipti milli austurs og vesturs.
Á þessum árum var mjög erfitt fyrir íslensk ungmenni að fá leyfi til að stunda nám í Sovétríkjunum og öðrum ríkjum Austur-Evrópu. Sama gilti um vegabréfsáritanir fyrir fólk frá löndum sem tilheyrðu NATO. Frásagnarstíll bókarinnar er einstaklega látlaus og einlægur og laus við allt yfirlæti og sýndarmennsku. Frásögnin frá Moskvuárunum gefur trúverðuga mynd af lífinu í Sovétríkjunum á þessum árum og þeirri veröld sem ung og róttæk íslensk námsstúlka lifði og hrærðist í. Í lokakaflanum segir frá dvöl höfundar á Kúbu þar sem einræðisstjórn Fidels Castro hafði fest rætur með stofnun kommúnísks ríkis árið 1959.
Það er forvitnilegt að skoða þessa bók Ingibjargar Haraldsdóttur og bera hana saman við Skáldatíma Halldórs Laxness, sem kom út 1963. Þar viðurkennir Halldór að hafa látið blekkjast og þurrkar endanlega burt þá glansmynd sem hann hafði dregið upp af fyrirheitna landinu í fyrri bókum sínum, Í austurvegi, (1933) og Gerska ævintýrinu (1938). Í Skáldatíma kemst HKL þannig að orði: „Það er í flestum tilfellum meiri glæpur að vera auðtrúa en vera lygari.“ [HKL. Skáldatími, 1963, bls. 302.]. Halldór Guðmundsson kemst þannig að orði í ævisögu sinni um Kiljan: „(Hann) var ekki bara trúgjarn hugsjónamaður á fjórða og fimmta áratugnum. Hann var blátt áfram einn helsti forsvarsmaður Stalíns og Sovétríkjanna á Íslandi.“ [Halldór Guðmundsson. Halldór Laxness ævisaga. JPV, 2004, bls. 677].
Það var stór viðburður á Íslandi þegar Skáldatími HKL kom út 1963. Bók Ingibjargar Haraldsdóttur Veruleiki draumanna kom fyrir almennings sjónir rúmum fjórum áratugum síðar. Í sögulegu ljósi og að inntaki eru þessar bækur mjög hliðstæðar. Sú fyrrnefnda var á sínum tíma pólitísk eldsprengja. Það var sú síðarnefnda ekki en hefði vakið töluverðan pólitískan óróa hefði hún komið út meðan Sovétríkin voru það bakland sem kommúnistar og róttækir vinstrimenn á Íslandi og annars staðar í heiminum byggðu vonir sínar á.
Ung róttæk stúlka fer til náms í Moskvu árið 1963 (seinna sama ár kom Skáldatími út), flytur þaðan fimm árum síðar til Kúbu, annars kommúnistaríkis, og kemur svo til Íslands 1974. Og þar lýkur sögunni. Ef Veruleiki draumanna hefði komið út árið 1974, árið sem höfundur flutti aftur til Íslands, hefði bókin vakið mikla athygli, ekki síður en Skáldatími. Ástæðan fyrir því hve langur tími líður þar til þessar endurminningar sjá dagsins ljós er mál höfundar. En hvað sem því líður er útgáfa bókarinnar enn í dag bókmenntalegur og sögulegur viðburður.



Sigurbjörg Þrastardóttir. Blysfarir, ljóð (kápa: Bjarney R. Hinriksdóttir *) JPV, 2007 (147 bls.).

Blysfarir er draumljóð, spuni, þar sem tvær persónur: konan (skáldið) og persónan hann hefjast til flugs í súrrealískum, erótískum dansi, þar sem lesandanum er gefinn knappur tími til að draga andann við lesturinn, helst með því að kasta inn stökum línum og paragröfum inná síðu og síðu í anda Bugða Beyglusonar í Skipin sigla frá 1966, nema hvað hér er textanum skellt neðst á síðu en ekki efst eins og hjá Beyglusyni. Þau tvö þeysa gegnum nóttina undir þungum óstöðvandi rytma, stundum taktföstum, stundum með snöggum skiptingum. Og bjarma slær á baksviðið:

ég er í flugbeittum / stígvélum í glymjandi salnum, hann er í / hvítum buxum og / allir horfa öfundsjúkir, horfa hingað / með / hörgulsjúkdómana sína // alltaf logn / þegar hann kemur, dauðalogn þegar hann fer (bls.10) leðurhitinn þegar ég hitti hann / fyrst / var klístraður og það er haugalygi að reykur / leiti upp, hann lá í hvítum og holum innyflunum okkar / og keyrði okkur niður eins og við ættum / að vera ævinlega saman, hér / í þyngslunum // ég horfði, ég hvikaði ekki / hann / horfði líka og sló / póstkorti til og frá andlitinu / og hann brosti // og þegar hann hvarf innaf og lét kalda / vatnið renna / hélt ég að það væri útaf / sumrinu og hvikaði ekki // eins og hann væri sendur hingað / eins og ég ætti eftir að skrifa sálm og / metta fimm þúsundir / eins og allt væri / kjötmikið og alveg rétt // ég beið við borðið hans, ég / sagði: fyrirgefðu... (bls.11) ég kaupi mér / flugmiða // og spyr þig hvernig depressjónin / sé og // lofa að reyna ekki að lækna þig (bls.12) hann / kemur með flugbirtuna í augunum og lýsir því / hvað allt hafi verið bjútífúl og hvernig / hann langi til að fljúga / alltaf (bls.13)

Og allnokkru síðar:

allt hefur sín takmörk / sorgin / líka og ég ætla að þrykkja það á minn stein, / söngla ég sótölvuð með molduga leggina og hann / ýtir mér heim // heim í úfið rúm / þar sem hann mun sjálfur liggja / upptrekktur og horfir á beinasleggjuna sína í / hvössum stígvélum, í streng og með hatt, / veit ekki með svipu / því það er / ekki ég // furðulegt hvað lífið getur verið / kynlegt (bls.118) ég vil að þú / fyllir mig af einhverju / hvítu / annars þorna ég, slim // hann horfir djúpt / dregur upp kveikjarann (bls.119) en / nú er hann ekki kominn / þangað, nú er hann kominn í fíkilshléið / sitt hið fyrra // með flogaveikisfroðu á vörunum (bls.120)

Og svo:

ég veit // að þú munt leysast upp áður en / sagan er úti / eins og hali drekans, eins og drekinn sjálfur / hvernig þú liggur í rúminu / og ég loga / í gömlu hitasóttinni undir gaflinum og ég soga ofan / í mig reykinn af þér brenndum, gráa þoku / því ég er undir og yfir og þú segist vera / að kafna og / það er hárrétt og ég ætla að segja eitthvað afsakandi en þá / ertu hvergi (bls.137) og nei,/ ég skil ekki enn / af hverju við veiddum ekki nema einn fisk / af hverju veiddum við / ekki fimm // við sáum þá lúra við bakkann, þeir stukku / líka og spilltu þögninni og ég / sló líkamshita í leðurjakka veiðimannsins en / þú sagðir plís og hristir höfuðskeljarnar / svo ég hætti // til að styggja ekki regnbogasilungana / til að halda / frið (bls.138) ég skildi heldur aldrei hvernig / silfurslegin nóttin og dasað landslagið / dugðu þér / ekki // hvers vegna / þú þurftir inn í bíl að fá þér skammt // hér er orka fyrir heilt líf, hugsaði ég og / hélt um klístraða veiðistöngina í ördeyðunni en / sagði ekkert / því / ég hef mikla þjálfun í að hemja sorg (bls.139)

Og rétt undir lokin:

og / ég geng út í spegilhafið / löturhægt / uppað mitti um miðja nótt / í grænum vaðstígvélum og bylgjan sem ber mig / uppi er / hvergi blóðug núna // ég held á bálhvítu blysi... (bls. 146)

Stílbragð þessa ljóðspuna Sigurbjargar Þrastardóttur minnir þó nokkuð á Unglinginn í skóginum eftir Halldór Laxness þótt ljóðin séu að öðru leyti gerólík. Unglingurinn er fyrst og fremst lýrískur óður til æskunnar, gróðursins og vorsins. Í ljóði Sigurbjargar eru myndirnar dregnar grófum strokum með sterkum undirtóni allt til loka. En þótt hér sé snilldarlega mælt tel ég að spunann hefði mátt þétta á köflum og fara sparlegar með útskýringar, sem eiga illa heima í svona verki.
Ytra útlit bókarinnar er groddalegt og allur frágangur eftir því, og hönnun kápu (sem ég gef eina stjörnu af fimm mögulegum) minnir frekar á ódýran auglýsingabækling en fagurbókmenntir og er það mikill galli á góðri bók.



Elísabet Jökulsdóttir. Heilræði lásasmiðsins, skáldsaga (kápa: Svavar Pétur Eysteinsson**), JPV, 2007 (219 bls.)

Rithöfundur sem smeygir sér úr skáldskaparkuflinum og sest nakinn við skrifborðið til að semja skáldsögu. Einhvern veginn þannig er myndin sem kemur upp í hugann eftir að hafa lesið Heilræði lásasmiðsins eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Hugurinn hvarflar til baka, til ársins 1951 þegar smásagan Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns birtist í tímaritinu Lífi og list. Höfundurinn var skólasystir okkar Palla Steingríms, Ásta Sigurðardóttir. Sagan þótti berorð, ekki síst fyrir þá sök að höfundurinn var sjálfur stúlkan, sem allt snerist um. Sum skáld þurfa ekki að skrifa nema eina sögu eða eitt ljóð til að slá í gegn. Umrædd smásaga Ástu var í þeim gæðaflokki.
Þær Ásta og Elísabet eiga svo ótal margt sameiginlegt finnst mér, bæði sem rithöfundar og persónur þótt stíll Þeirra sé gerólíkur og sný ég mér þá að þeirri síðarnefndu og síðustu skáldsögu hennar:
Elísabet er blessunarlega laus við sýndarmennsku og hún er ekki þrúguð af innri sektar­kennd þegar hún fjallar um kynlíf karls og konu og lætur „almenningsálit“ „opinberra álitsgjafa“ eins og vind um eyru þjóta þegar þessi kynferðislegu samskiptamál eru við­fangs­efni hennar sem rithöfundar. Samkvæmt hennar mati eru kynferðislegar athafnir fallegar, jafnvel listrænar og heilsusamlegar fyrir sálina. Morð og litríkar frásagnir af glæpamönnum, sem nú eru mjög í tísku, virðast hins vegar ekki vera hátt skrifaðar hjá höfundinum.
Elísabet hittir blökkumanninn Algea í New York, hattara og trommuleikara. Hann kemur til Íslands og dvelur hjá henni í þrjá mánuði. Meginuppistaða sögunnar er félagslegt og kynferðislegt samlíf þeirra. Frásögnin einkennist af gleði, sársauka, togstreitu og sorg. Og svo gerist eitthvað sem fær lesandann til að skella uppúr. En þessi saga hefur aðra hlið: eintal höfundar við sálina. Söguþráðurinn er alfarið bundinn samskiptum höfundar og Algea. Eintalið flettast þar inní og nær hámarki í síðari hluta sögunnar.
Smekkur þeirra sem skrifa um bækur (við getum kallað það listrænt gildismat) er mismunandi. Þetta er jafnan nauðsynlegt að hafa í huga: Eintal höfundar í þessari sögu er mjög athyglisvert og skortir þar ekkert á um líflegan stíl, forvitnilegar frásagnir eða skarplegar ályktanir. Það er hins vegar mitt mat að hinn bráðsnjalli söguþráður sé víða yfirskyggður af draumheimum höfundar eða kannski öllu frekar uppgjöri hennar sjálfrar, skýring á tilurð sögunnar, einskonar tilefnislaus afsökunarbeiðni eða eigum við að segja einskonar psycho-therapeutical viðfangsefni.



Kristín Svava Tómasdóttir. Blótgælur, ljóð (kápa: Ásta S. Guðbjartsdóttir****), Bjartur, 2007 (37 bls.)

Þetta er falleg bók, skemmtileg í umbroti og kápan smekkleg.
Það er frökk og lífleg stelpa sem mælir fram ljóðin, alls 22 í Blótgælum, byrjar með látum og er í banastuði, dettur fljótt niður í ládeyðu en rís svo aftur upp undir lokin. Þarna eru allmörg miðlungi góð ljóð og þaðanaf verri, en þau sem standa uppúr eru hreint afbragð og duga til að skipa þessu unga skáldi strax í virðulegt sæti meðal íslenskra góðskálda.
Og hún er ekkert að skafa utanaf hlutunum, hefur upp raust sína á ljóðinu Morgunn, upphafsljóði bókarinnar:

með nauðgunarseyðing í klofinu
rauðeygð og einhvers staðar
miðja vegu milli ölvunar og þynnku
skríður dögunin fram úr
lætur fallast á hnén
og ælir litríku hálfmeltu innvolsi sínu
yfir okkur varnarlaus

Skáldið slær um sig, gerir grín að landanum, ryðst inn á bari og skemmtistaði í miklu stuði, drekkur og djammar, hórast og móraliserar. Hún tekur gáfnaljósið útundir vegg því „gáfur eru svo sexí.“ Og skáldið er hvarvetna í sviðsljósinu: í djamminu, í mótmælagöngunni, flugráninu, ástinni og byltingunni. „látum aðra elskendur veina og deyja meðan ég stend hér með skiltið og öskra mig hása af hamingju,“ segir í ljóðinu Skítt með það, förum heim til mín (bls.8).
Ljóðið Klof vega menn er fyndið og skemmtilegt, hálfrímað ljóð þar sem skáldið leikur sér með orð. Annað erindið af þrem er svona: „En klof vega salt / og klof vega menn. / Þær vógu þeirra ætlanir / og vega þær enn. / Þær smurðu sínar kuntur / og komust ört til manns, / þær glottuleitar stigu vaselínudans.“ Ljóðið Stelpur er magnaður skáldskapur og nýstárlegur að formi, prósi með hrynjandi. Niðurlag ljóðsins er svona: „Drekkið stelpur, hórist og / fárist og farið á bömmer, hysjið upp um ykkur slúðrið, hrækið / framan í hneykslisraddir eldhúsglugganna, hristið ykkur stelpur / í herðunum og látið ekki eins og þið séuð móðgaðar.“ Ljóðið Mallorca er kaldhæðinn óður til ættjarðarinnar: „Skál fyrir Íslandi!“
Ljóðið Eia er skrumstæling á Unglingnum í skóginum; ekki merkilegt ljóð. Ljóðin: Póstur, Formalín, Játning liðhlaupans, Náungar mínir og Mamma guð eru öll í lægri kantinum, sundurlaus, flöt eða yfirborðsleg.
Í þrem síðustu ljóðum bókarinnar (Byrjar aftur, Næturverðir og Ljósin meðfram flugbrautinni) er skáldið í miklum ham og stúlka ljóðsins í miðju djamminu.Undir lokin er farið að draga nokkuð af henni, og mælir við sjálfa sig í þriðju persónu: „Þegar þú ert búin að ... sótbölva öllum sem eru að spara fyrir íbúð, öllum sem hafa / hugmynd, sótbölva öllum sem elda gúllas eins og ekkert sé / mannvænlegra / kveljast af sjálfsdáðum í höndum manns sem þú þekkir ekki / daginn eftir / hrifsa píkubjórinn úr höndunum á ókunnugu fólki á barnum til að / læsa tönnunum í stútinn eins og þú tuggðir snuðið forðum / ... er þá ekki kominn tími til þess, stelpurófa / að slaka á spenntum taugunum í örfáar sekúndur...“



Sjón. Söngur steinasafnarans, ljóð (kápa: Ásta S. Guðbjartsdóttir og Olga Bergmann ****), Bjartur, 2007 (45 bls.)

Sjón er snillingur hins knappa forms, skáld augnabliksins og slær neista af steini með sprota sínum. Langhundar eru ekki hans ær og kýr.
Í þessari elleftu ljóðabók skáldsins, ef mér telst rétt til, eru 22 ljóð og ljóðstef og skiptast í fjóra kafla. Skáldið beitir ýmsum stílbrögðum. Þarna eru myndhverfingar, prósar, runuljóð, augnabliks stemningar og víða súrrealísk tilþrif svo sem höfundi eru töm. Loks eru þarna nokkur ljóðstef, tvær ljóðlínur hvert og nefnir höfundur náttúruljóð.
Þetta er einstaklega notarleg lesning og þótt ljóðskáld hafi gjarnan tilhneigingu til að líkjast hvert öðru er óhætt að segja að Sjón er engum öðrum líkur.


23. apríl 2006:

það er nótt
á mörkum mela og haga

í stuttjakka úr fáfnisgrasi
kólnar hérinn
á eldhúsbekknum

handan við morgunhornið
bíður afmæli
þeirrar stóru framliðnu

og þar er einnig
fermingardagur
hinnar sprelllifandi Júníu

hún er ósvikin eins og hérinn
þeir eru enn ylvolgir


Náttúruljóð (ii) er svona:

nýsaumaður silkihanski
bláberjablátt stjörnublik

Og náttúruljóð (vi) er þannig:

úr svo ljósu efni
að fer ónefnd um borgina


Ljóðið heimilislíf er svipmynd með súrrealísku stílbragði:

eftir uppvaskið gengur maðurinn / fram á hreindýr / sem liggur undir sófaborðinu / og jórtrar // það verður hans vart / og fælist // tekur á rás út úr stofunni / fram ganginn / þar sem það stekkur / yfir sandala / og stakan kvenskó // hann eltir það inn í svefnherbergið // dýrið skríður / undir / hjónarúmið // hann fer á fjóra fætur / sér hvar það / sameinast hjörðinni // það baular / fallega // og maðurinn / hverfur



Lesbókin
Lesbókin hefur um langt árabil verið áhrifamikill prentmiðill á sviði þjóðlegs fróðleiks, bókmennta og lista. Þótt Lesbókin sé að formi til fylgirit Morgunblaðsins hafa umsjónar­menn Lesbókarinnar alla tíð sett sterkan persónulegan svip á blaðið, verið hinir eiginlegu ritstjórar. Þar bera hæst nöfn Árna Óla og Gísla Sigurðssonar sem voru umsjónarmenn blaðsins í álíka langan tíma eða alls í tæp sjötíu ár. Þetta er ótrúlegt. Sá fyrrnefndi var þar við stjórnvölinn á árunum 1925 til 1960 og sá síðarnefndi frá 1967 til 2001. Í millitíðinni, á árunum 1960 til 67 voru þrír umsjónarmenn: Haraldur Hamar, Sigurður A. Magnússon og Matthías Johannessen. Þegar Gísli hætti tók Þröstur Helgason við Lesbókinni og er þar enn.
Á fyrsta tímabili blaðsins, undir stjórn Árna Óla, var áhersla á þjóðlegan fróðleik mjög áberandi. Fyrir okkur sem vorum að vaxa úr grasi á síðari hluta þessa tímabils var þetta traustur og merkilegur fróðleikur en ekki beint nýstárlegur.
Undir stjórn þremenninganna: Haraldar Hamars, SAM og Matthíasar Johannessen virðist sem Lesbókin hafi gengið í gegnum heilmikla uppstokkun. Hið þjóðlega yfirbragð Árna Óla hverfur þá að mestu og við tekur aukin áhersla á nútímalega menningu, fé­lagslegar hræringar, bókmenntir og listir. Breytingin var áberandi. Gísli Sigurðsson reyndist traustur og listrænn umsjónarmaður og undir hans stjórn jókst verulega áherslan á bókmenntir, og ljóðskáld fengu þar inni með verk sín. Þá fékk myndlistin verðugt rúm í blaðinu og einnig arkitektúr. Gísli skrifaða að staðaldri yfirgripsmikla og alþýðlega pistla sem vöktu athygli. Með innkomu Þrastar Helgasonar varð áberandi andlitslyfting á Lesbókinni. Umbrotið tók miklum stakkaskiptum og er nú til fyrirmyndar. Greinar um bókmenntir, um einstaka höfunda og um listir eru áberandi og kynning á innlendum og erlendum bókum setja svip á blaðið.
Af bókmenntalegum fjölmiðlum er Lesbókin vel sýnileg og áhrifamikil. Umfjöllun Þrastar um bókmenntir eru skarpar og yfirvegaðar og bera það með sér að ritstjórinn tekur hlutverk sitt alvarlega. Að lokum vil ég þó gera eina athugasemd: Kynning á ljóðum og ljóðskáldum er í algeri lægð, og það er slæmt. Þar mætti bæta um betur.



Kiljan
Kiljan er nýr bókmenntaþáttur í Sjónvarpinu. Þar situr við stjórnvölinn hinn íturvaxni og brosmildi sjónvarpsmaður Egill Helgason. Það verður að segjast eins og er að þátturinn er mjög laus í reipunum, sem ekki er óeðlilegt svona til að byrja með, og ekki endilega slæmt. Gestir þáttarins: rithöfundar, skáld og fræðimenn, innlendir sem erlendir hafa sett skemmtilegan svip á þáttinn og Agli hefur oftast tekist að hafa stjórn á umræðunni og laða fram það sem athygli vekur. Í nokkrum tilvikum hefur þetta farið úr böndunum og gestirnir farið offari en þá hefur stjórnandinn dregið sig inn í skelina með sínu prúðmannlega en jafnframt ísmeygilega látbragði.
Dómaraparið (sbr. hliðstæðar rullur í körfubolta) Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson eru meiriháttar númer á þessari bókmenntasýningu. Tilkoma þeirra vekur upp skemmtilegar tilfinningar þar sem þau sitja hlið við hlið, virðuleg og dálítið á varðbergi. Og Egill er kominn með bók milli handanna, lyftir henni hátt á loft, sveiflar henni til, strýkur hana smávegis og segir: Og hvað finnst ykkur um þessa? Kolbrún hefur upp raust sína og segir að þetta sé alveg stórkostleg bók, hafi bara ekki getað lagt hana frá sér, á bara ekki orð að lýsa undrun sinni á þeim sem ekki sjá þetta. Páll Baldvin lítur útundan sér á Kolbrúnu og áhorfendur hugsa: mikið andskoti er maðurinn hrokafullur, eða eitthvað í þá veru. En Kolbrún lætur sér fátt um finnast enda er hún þaulreyndur bókmenntagagnrýnandi. Og þá tekur Páll Baldvin við, mælir spaklega fram álit sitt á bókinni og höfundinum og Kolbrún situr með hönd í skauti, hljóð eins og vornóttin og áhorfendur bíða í ofvæni. Páll Baldvin þagnar, Egill brosir breitt, Kolbrún lítur móðurlega í átt til sessunautar síns sem verður allur léttari í skapi og Egill kímir.
Heimsóknin til Braga Kristjónssonar er bráðskemmtilegur póstur, enda maðurinn heill hafsjór af þekkingu. Kiljan fer nokkuð vel af stað. Kannski mætti auka fjölbreytnina með því að taka inn stutta kynningu úr öðrum listgreinum: leiklist og myndlist. Eftir sem áður er kjölfesta Kiljunnar dómaraparið Kolbrún og Páll Baldvin ásamt stjórnandanum Agli Helgasyni.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur