Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Bersögli


Guðbergur Bergsson og Kormákur Bragason ræða saman um bersögli í íslenskum skáldskap og eigin verkum.

KB: Bersögli má sjálfsagt skilgreina á ýmsa vegu. Samkvæmt mínum kokkabókum nær hún yfir það sem manninum er heilagt: almættið, sköpunarverkið, guðstrúna og kynlífið. Tabúið, „það sem ekki má” hefur alltaf kitlað og til að koma því í umferð er það oft klætt dulargervi spaugs eða það er „talað undir rós.” Þættir úr Bósasögu og Herrauðs eru dæmi um þetta.

GB: Mér er ljóst að stundum hefur verið litið á verk mín ekki aðeins sem bersögli heldur klám. Sum atriði í klámi eru viss tegund af bersögli. Innan kláms í listum og kláms til framleiðslu á afþreyingarefni eru mörg og misjöfn stig, t.d. sálræn, einstaklingsbundin og samfélagsleg. Svo ekki sé minnst á það sem meira er: klám er viðurkenning á því að líkaminn einn með sjálfum sér eða öðrum, hliðstæðum eða andstæðum, er það sem veitir mestan unað. Sálin er samt ekki gerð útlæg sem unaðsgjafi. En enginn nema kannski nunn­an og munkurinn geta haft andlegar samfarir við sálina í trúarlíkamanum. Hreinar klámbókmenntir eru einnig oft kennslubækur, örvun fyrir alla, unga og gamla, konur og karla og ættu að vera kenndar í skólum. Ég hef ekki áhuga á að skrifa þannig bókmenntir en hef tæpt í verkum mínum á ýmsu sem hefur verið í felum en verið notað í hinu fábrotna íslenska samfélagi sem andlegt eða líkamlegt sjálfsfróunarefni. Bókin Leikföng leiðans var t.d. byggð á þeim felum sem seinna var kallað einelti. Einnig er þar að finna dæmi um hvernig gamalt fólk er kvalið af þeim sem yngri eru. Sumar sögur í þessari bók eru um flöktandi stéttarvitund alþýðunnar, samdar eftir marxískri formúlu en voru samt fordæmdar af íslenskum „marxistum” með þeim rökum að þær væru „óviðeigandi”. Í bókinni Hermann og Dídí var hin vangefna Dídí misnotuð eða höfð til fullnægingar, svölunar af karlmönnum. Þegar bókin kom út var talið að slíkt þekktist ekki í hinu siðprúða íslenska samfélagi.

KB: Þetta eru athyglisverðar hugleiðingar. En hvað um það; hitt er ljóst að við höfum báðir verið gagnrýndir fyrir bersögli: ég fyrir skáldsögurnar Auga fyrir tönn(1995) og Gáfnaljósið (2006) og Mennsku (2006) og þú fyrir skáldsögurnar Sú kvalda ást (1993) og Hermann og Dídí (1974) og svo náttúrlega Tómas Jónsson metsölubók (1964).

GB: Ég hef talið að skáldskapur minn sé í ætt við það sem ég kalla siðfræðilega fagurfræði. Hann er afleiðing af viðhorfi mínu og hugmyndum um þá skáldskaparlist sem ég álít að sé fremur í ætt við sannleiksstefnu en raunsæi eða uppreisnarlist. Allt er eðlilegt.

KB: Í þessu felst mikil heimspeki. Það á líka við um mínar skáldsögur.

GB: Að mínu viti eru bækur þínar fremur en mínar það sem hægt væri að kalla menntandi, stíllinn er einfaldari, línur í þeim dregnar fáum dráttum, notaðar eru andstæður og hliðstæður. Eitt leiðir af öðru í rökréttu sálfræðilegu samhengi fremur en félagslegu. Auk þess er þar augljóst skopskyn.

KB: Menntandi, segirðu. Það á kannski við um Mennsku en alls ekki hinar tvær. Auga fyrir tönn fjallar um heimilisofbeldi, einkum kynferðislegt ofbeldi og sifjaspell. Fljótlega eftir að bókin kom út birtust fjórir ritdómar og var augljóst að ritdómararnir (Einar Laxness í Mbl, Sigríður Albertsdóttir í DV, Kolbrún Bergþórsdóttir í Alþýðublaðinu og Friðrika Benónýs í Helgarpóstinum) höfðu farið á taugum. Gáfnaljósið fjallar um ungan pilt sem býr yfir óvenju mikilli kynorku, lítur á kynlíf sem eitthvað fallegt og gott og girnist fullorðnar konur frekar en stúlkur á sama aldri eða yngri. Á vissan hátt endurspeglar sagan ákveðna karlrembu, og verður það meira áberandi í síðari hluta skáldsögunnar (sem enn er óbirt). Skafti Þ. Halldórsson skrifaði ritdóm um bókina í Mbl. og var ég mjög ósáttur við hann og óskaði eftir að fá að gera athugasemd. Fyrstu viðbrögð blaðsins voru þau að það væri sjálfsagt mál, ég skyldi fá að birta athugasemd. En nokkrum dögum eftir að ég sendi hana var mér sagt að ég þyrfti að stytta greinina, sem ég gerði. Það dugði ekki og ég kvartaði aftur. Þá hringdi Styrmir Gunnarsson í mig og sagði að þetta gengi ekki, ég ætti að hugsa um mannorð mitt og sagði m.a.: „Svo talar þú um Kiljan sem argasta klámhund.” Þá var mér öllum lokið. Ég fékk svo athugasemdina birta á „felustað” í blaðinu. Ég þurfti að fara tvisvar yfir blaðið til að finna greinina. Skafti brást smávegis við grein minni og sagði m.a. „Svo er þarna nauðgun.” Það þótti mér broslegt því frásögnin af stráknum Guðlaugi þegar hann kemst uppá vinnukonuna Jönu í baðherberginu getur varla kallast nauðgun, enda til­drögin allt önnur en kynferðisleg eins og fram kemur í sögunni. Samskipti Guðlaugs og kennslukonunnar á skipinu eru vissulega berorð, en þau eru ekki klámfengin heldur endurspegla kenndir piltsins og einlægni. Mennska er á ýmsan hátt berorðust þessara þriggja bóka. Skafti skrifaði smávegis um bókina, sneiddi hjá aðalatriðinu en sagði eitthvað á þá leið að bókin „væri frumleg,” ef ég man rétt. Í Mennsku er farið inn á það svið sem stundum er nefnt „afbrigðileg kynhegðun” og þá einkum þar sem karlmenn, og reyndar konur líka, girnast dýr kynferðislega. Þarna er boginn vissulega spenntur til hins ýtrasta, en undir niðri er þetta kómedía. Þarna er vikið allnáið að hommum og lesbíum og einnig almennu lauslæti og framhjáhaldi.

GB: Það kann að hafa haft áhrif á gagnrýnendur, að þú hefur enga samúð með persónunum og grípur aldrei til ljóðrænna lýsinga, t.d. samruna landslags og hræringa í brjósti eða fuglakvak heyrist, þytur í grasi, niðandi lækur sprettur fram á réttum stundum sem gerir það að verkum að saman fer tilfinningavella hjá persónunum og lesanda. Mér finnst trúlegt að gagnrýnendurnir sem þú nefnir vilji að saman fari lækjarsprænur og ástarsprænur eða íslenskir pabbar séu að því komnir að fara upp á dætur sínar en sjái sig um hönd á síðustu stundu og fái í staðinn úr honum í svellþykkar ullarnærbuxur. Þetta er það sem hægt væri að kalla samræmda göfgi í heila, hálsakoti og nára. Stíllinn og svipað efni eiga rætur að rekja til hræsnisbókmennta sem andi hinnar ensku biskupakirkju leiddi af sér. Breitt er yfir kitlandi blóðskömm í hugarfari klerksins: Þegar kemur að spennutoppinum, söguþvættingnum: elskendur ætla „að njótast” kemur fram á síðustu stundu að þau eru systkini, eiga sama „föður”, oft laungraða biskupinn. Laxness samdi stundum í ætt við þannig trúar- og tilla­brall, en færði það með íslenskum „áherslum” niður í heiðardali, og þótt hann hafi talað af lítilsvirðingu um afturbatapíkur eru í bókum hans meira af afturbataböllum en píkum því sjálfur var hann afturbatabesefi í trúmálum og stjórnmálum.

KB: Ég ætla að víkja nánar að bersöglinni. Í sögulegu ljósi tel ég að Halldór Laxness hafi verið fyrsti íslenski rithöfundurinn sem fer umbúðalaust inn á þetta forboðna svið bersögli. Það hefst með Vefaranum og lýkur með Sjálfstæðu fólki. Þetta er stutt tímabil í rithöfundaferli skáldsins (fjórar stórar skáldsögur) og náði hámarki um og eftir 1940 en á þeim tíma lá hann undir ámæli og var mjög umdeildur, og þá er ég ekki að tala um pólitíkina. Hér eru nokkur dæmi:

(1) Steinþór Steinsson nauðgar Sölku Völku þegar hún er 11 ára, (2) Arnaldur Björns­son hefur samfarir við unglingsstelpuna Gauju, dóttur Beinteins í Króknum, (3) Ólafur Kárason nauðgar fermingarstelpunni Jensínu Gottfreðlínu sem hann hafði kennt í barnaskóla, (4) kennarinn (ónafngreindur) hefur samfarir við Ástu Sóllilju, nemanda sinn, þegar hún er innan við fermingu og barnar hana, (5) Bjartur í Sumarhúsum hefur samfarir við 13 ára fósturdóttur sína Ástu Sóllilju [í upphaflegu handriti var hún dóttir hans], (6) Steinn Elliði segir Diljá frá því að hann hafi vélað stúlku á svívirðilegan hátt, svipt hana meydómnum og farið með hana eins og skækju í þrjá sólarhringa, (7) Örnólfur Elliðason segir við Diljá: „Það er kannski ljótt og syndsamlegt af uppkomnum unglingi að elska litla telpu, en ég hirði ekki um það. Sannleikurinn er sá, að ég hef elskað þig síðan þú sast á hné mér sex ára smámey.” (8) Bambara Salvatore segir um afburðamanninn: „Hann kemur í heiminn til að fyrirfara meydómi telpnanna og sæmd frúnna.” (9) Steinn Elliði segir: „Maðurinn er fjölkvænisdýr,” og svo: „Svölun kynhvatarinnar er æðsta gleði mannsins.”

Á stríðsárunum er bersögli ekki áberandi í íslenskum skáldskap og reyndar ekki heldur næstu árin eftir stríð. Ég man eftir nokkrum erlendum skáldsögum sem voru þýddar á íslensku á þessum tíma og voru gagnrýndar fyrir bersögli. Þar ber hæst skáldsöguna Journeyman (1935) eftir Erskine Caldwell og kom út 1954 undir nafninu Frægur förumaður. Ég veit ekki hver þýddi bókina. Aðrar athyglisverðar bækur eftir Caldwell voru Tobacco Road (1932) og God´s Little Acre (1933). Guðrún Helgadóttir þýddi skáldsöguna Sanctuary eftir William Faulkner. Bókin kom fyrst út 1931 en þýðing Guðrúnar, Griðastaður, kom út 1969. Þá komu út 1956 í íslenskri þýðingu Kristjáns Karlssonar nokkrar af bestu smásögum Faulkners. Stíll Faulkners er mjög sérstakur og hefur hann haft áhrif á marga íslenska rithöfunda að því er virðist. Ég bjó í suðurríkjunum í rúman áratug og hef lesið flestar bækur hans og sumar oftar en einu sinni. Fyrir utan mjög persónulegan stíl hef ég alltaf heillast af því hvernig honum tekst að endurskapa mannlífið í Yoknapatawhe héraði sem minnir mig óneitanlega á einu íslensku hliðstæðuna, mannlífið og einstakar persónur í Grindavík, eins og þú endurskapar í mörgum af þínum bókum.

GB: Skelfing vildi ég að þetta væri hverju orði sannara. En þú gleymir helstu bókinni sem kom út hér á landi á þessum árum með þvílíkri bersögli að einungis mátti gefa hana út á bláum pappír. Það er að segja, hún var gefin út án þess að fara á prent og í bókband. Siðferðislögin leyfðu eflaust slíkt hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Blái liturinn merkti ekki beinlínis það, að efnið væri með honum hreinsað af bersögli og klámi og þannig hæft, með himneskum lit, ofan í fróma lesendur, heldur kom til sögunnar líklega í fyrsta sinn í prentlistinni hér á landi það sem núna er kallað blue print. Svo bókin markar víst tímamót hvað prentlistina varðar. Þetta var engin önnur en Lady Chatterley´s Lover eftir D.H. Lawrence, aldrei kölluð annað en Bláa bókin, mikið lesin í laumi, kannski ekki öll, íslenskir lesendur lesa aldrei allt, „hvern bókstaf” eins og sagt er, heldur var hlaupið í „rétta kaflann” og farið að runka sér eða ríða eftir aðstæðum hvers lesanda.

KB: Já, mikið rétt. Bláa bókin vakti athygli þegar hún birtist í þýðingu Kristmanns Guð­mundssonar 1943. Þetta var mikið stytt útgáfa, en bókin kom upprunalega út í London 1928. Ég má til með að nefna að 1992 kom bókin út í fullri lengd í afbragðs þýðingu Jóns Thoroddsen. Bókin er algert snilldarverk, bæði frumtextinn og þýðing Jóns, alger framúr­stefnubók á sínum tíma, lofsöngur um hreina og ómengaða náttúru, baráttu gegn iðnvæðingu, einkum járniðnaði og kolanámum og peningahyggju, grasserandi femínismi í landi mikillar stéttaskiptingar. En nóg um það. Faulkner er víða berorður en þó hvergi eins og í Sanctuary. Mér dettur í hug bókin Sangen om den röde Rubin eftir Agnar Mykle. Bókin kom út í Noregi 1957 og var fljótlega bönnuð. Mér skilst að Jóhannes úr Kötlum hafi þýtt bókina en veit ekki hvort hún kom nokkurn tímann út.

GB: Jóhannes úr Kötlum var einstaklega frjálslyndur maður á öllum sviðum. Þannig voru flestir höfundar sem höfðu lært í Kennaraskólanum. Það er merkilegt og mikið um­hugsunarefni að fleiri skáld hafa komið úr þeim skóla en menntaskólunum og allir hafa verið byltingarsinnar í skáldskap.

KB: Ragnar í Smára bauð Agnari Mykle til Íslands til að halda tvo fyrirlestra um Rauða rúbíninn og fékk að launum skömm í hattinn. Ég las bókina í danskri þýðingu fyrir mörgum árum og fannst hún fremur ómerkileg og varla þess virði að hljóta lögformlega bannfæringu.

GB: Aðeins víðlesnir höfundar eru ómerkilegir og efnið eftir því, samið fyrir „aug­lýsingaherferðir” útgefenda og konur sem þjást af „lestrarsýki” og sækja í léttmeti á kvöldin fyrir svefninn og láta sér ekki nægja að éta á nóttinni stanslaust úr ísskápnum.

KB: Ég gef þér þá orðið um verk þín.

GB: Í verkum mínum felst hvorki löngun né hneigð í þá átt að breyta eða bæta heiminn, þótt engin vanþörf kunni að vera á slíku, en best væri að leyfa honum að vera sem mest í friði fyrir umróti sem er oftast tengt græðgi undir yfirskini manngæsku. Hvað félagslegar umbætur varðar eru stjórnmál áhrifameiri en bókmenntir vegna þess að þau tengjast umsýslu og semja lög. Mínum bókum er ætlað, ef eitthvað er, að vekja meðvitund, en hlut­verk þeirra er ekki það sem áróðursrit setja sér, að standa að beinum aðgerðum. Skáldsagan er of flókið listform, misvísandi og margvísandi til þess að hún geti vakið einfaldar ástríður eða viðbrögð svo menn grípi til barefla. Efni og listform í skáldskap leita á innri svið og auðga mann til langframa. Áróðursbókmenntir gera það ekki. Þær kunna að leiða til aðgerða eða byltinga en hvort tveggja er í eðli sínu hverfult. Reynslan hefur sannað, að þegar ríghaldið er í byltinguna sem afl til frambúðar leiðir hún til stöðnunar. Eins er ef aðgerð verður langvarandi: hún getur ekki endurnýjað sig og leiðir aðeins til öngþveitis, ekki frelsis. Svipað hendir í skáldskap en verður aldrei jafn afdrifaríkt. Í mesta lagi staðnar stíllinn eða höfundur tönnlast á þrautreyndu efni og treður því ofan í leiðitama lesendur.

KB: Í mínum skáldskap er áberandi það sjónarmið að ást og kynhvöt séu tvær óskildar kenndir: ástin: huglæg, heimspekileg og kannski fagurfræðileg en kynhvötin líkamleg líkt og svengd. Hjá þér virðist þetta tvennt samofið.

GB: Það er rétt, hjá mér er ást og kynlíf venjulega ekki aðskilið vegna þess að íslenskar aðstæður eru sérstakar. Allt, einnig bókmenntirnar, sprettur að miklu leyti upp úr aðstæðunum. Hér á landi eru ekki vændishús, staðir þar sem saman fer útrás hjá karlmanninum og inntekt hjá konunni. Íslendingar eru því ekki, sögulega séð, bundnir efnishyggju í þessu. Kynlíf og ást fara oftast saman „í framkvæmd” og leiða til hjónabands. Ást og kynþörf rennur fremur saman hjá körlum en konum sem sést í því að þegar getan hjá þeim hverfur, getan til þess að „bara ríða”, og sú andlega skylda bóndans að borga fyrir „dráttinn” með drengslegri hlýðni við eiginkonuna, þá hætta þeir hreinlega að elska og deyja í deyfðarham. Um þetta er varla til bersögli í bókmenntum okkar, kannski vegna tillitssemi við gamla karla og kerlingar sem fá sína „útrás” á útsölum.

KB: Hvað viltu segja um bókmenntagagnrýnendur?

GB: Gagnrýnendur hafa verið í mínum augum lítið annað en utanveltubesefar innan bókmenntanna. Með tilkomu minni losnuðu íslenskar bókmenntir úr þeirri spennitreyju skyldunnar að skrifa fyrir einhverja ákveðna: gagnrýnendur, menntamenn, vissa æpandi hópa kvenna, trúbræður í stjórnmálum eða eitthvað svipað á hinni íslensku draugaleið. Með þessu átti höfundurinn að ávinna sér hylli, „leggja undir sig lesendahóp”. Að mínu viti höfðu bækur eftir íslenska höfunda, einkum Laxness, verið spennitreyjubókmenntir færðar í snið sem áróðursmenn og félagar þeirra (og skáldsins) féllust á og töldu efnið og klæðnaðinn vera til ágætis fyrir „þjóðina”. Um stund varð dálítið hlé á þessari „landvinningastefnu” á vegum spennitreyjunnar. En nú virðist þetta sjálfviljuga form hinna ytri hafta vera komið aftur til sögunnar með spennusögunni, þó með því fráviki að eftir flestum sólarmerkjum að dæma er listformið samið og sniðið á ýmsan hátt fyrir starfsfólk sem afgreiðir og hefur áhrif á söluna, t.d. í bókaversluninni Eymundsson. Samt virðist það ekki duga höfundum til framdráttar. Margir gerast stundum „aukaprestar” við kirkjuathafnir eða ljóðafrumkvöðlar á meðal fanga og manna á „afvötnunarstigi”. Þá er það víst fremur ljóðið en lausa málið sem afvatnar, bætir fanga og vinnur svipuð störf og góðgerðakonur áður, en núna stendur aðeins einn kveneldhugi að þessu, Silja Aðalsteinsdóttir; hún er allt í öllu og „það gengur mikið undan henni” eins og sagt var um ömmu mína. Fimm fangar á Lita Hrauni hafa forbetrast til frambúðar, allt karlmenn. Aftur á móti er ekkert hugsað um konur í kvennafangelsinu, engin „kvenleg” ljóðasamkeppni undir stjórn Einars og Silju. Hvar er jafnréttið? Eru kvenfangar ekki verðar ljóðrænunnar í samkeppninni á bak við rimla hugans hjá velunnurum ljóðsins?

KB: Ég ætla að víkja aftur að bersögli í íslenskum skáldskap þar sem frá var horfið. Árið 1964 kemur út skáldsagan Tómas Jónsson metsölubók en með henni hefst nýtt tímabil þar sem íslenskur rithöfundur fer inn á þetta viðkvæma svið feimnismála með álíka sterkum tilþrifum og Laxness hafði gert á 4. áratugnum. Þar finnst mér mest áberandi auk fyrrnefndrar bókar, skáldsögurnar Hermann og Dídí sem kom út 1974 og Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma, frá 1993. Til samanburðar við dæmin sem ég tilfærði í skáldsögum Kiljans ætla ég að nefna þessi úr umræddum þrem skáldsögum:

(1)„Dóttirin æddi flissandi um moldargólfin í bænum, feit og hlédræg vegna kaupamannsins, sem mókti síðdegis á sunnudögum og lét kynfærin lafa út um gat á rúmábreiðunni til að erta kaupakonuna, sem hótaði að skvetta á hann vatni úr tunnunni.” (2) Hann stóð flóttalegur fyrir aftan kýrnar í fjósinu og læsti að sér með klinkunni og króknum. Hún lá á strompinum og horfði niður og sagði við mig: „Ég drep þig.” (3) Getur glæpur verið fagur eða listrænn. Er listrænt að nauðga í þvottahúsum. (4) „Þú hefur sóað sonum mínum undir svuntunni með kuntunni, sagði gamla konan fólskulega. (5) Páll útgerðarmaður: „Ég á aðeins eina ráðleggingu: taktu ekkert trúanlegt nema rallann á þér, ríddu með honum úr þér ónáttúruna úr heilanum.” (6) Svanur er einn af mörgum afætum nútímans og það ætti að skera undan honum, sagði Sveinn. (7) „Ég er kominn á þá skoðun að það að nauðga öðrum og láta nauðga sér sé fullkomnun ástarleiksins.” (8) „Ég gæti hugsað mé að búa ævilangt í sátt og samlyndi við konuna mína ef ég fengi útrás fyrir hvatirnar með annarri konu fyrir sanngjarna borgun.” (9) „Það besta sem maður gerir er að hommast síðdegis á föstudögum á meðan konan fer í fótasnyrtingu.”

GB: Allt er þetta satt og rétt hjá þér og samanburðurinn skarpur: Kynin fara í „fótasnyrtingu” á ólíkan en að sama skapi líkan hátt. Hvað er eðlilegra en að karl snyrti bólginn fót sinn með sínum á meðan konan snyrtir sinn netta með sinni? Skáldskapurinn er byggður á þannig andstæðum og hliðstæðum. Gleymdu ekki þínum eigin sögum.

KB: Þú segir: „Það kann að hafa sín áhrif á gagnrýnendur, að þú hefur enga samúð með persónunum.” Þetta er mjög í samræmi við það sem kemur fram í grein sem ég skrifaði í Mbl. vegna ritdóms SÞH um Gáfnaljósið en þar kemst ég þannig að orði: „Höfundurinn ræður ekki alltaf örlögum þeirra persóna sem hann skapar. Þær fara sína leið og í versta tilfelli geta þær orðið að einhvers konar Frankenstein án þess að höfundurinn geti rönd við reist.” Þessi orð eiga kannski enn frekar við um skáldsöguna Auga fyrir tönn þar sem fjallað er um framhjáhald, heimilisofbeldi og sifjaspell. Karlmaður beitir dóttur sína kynferðislegu ofbeldi og þegar málið upplýsist taka nánustu aðstandendur og vinir fjölskyldunnar til sinna ráða, setja á laggirnar fjölskyldudómstól og sviðsetja réttarhöld þar sem maðurinn er dæmdur til refsingar sem lýkur með því að refsidómnum er framfylgt. Í sögunni er vísað til atburðar frá æskuárum mannsins þar sem hann verður vitni að því þegar faðir hans misþyrmir á hrottalegan hátt og niðurlægir eiginkonu sína, móður mannsins sem þá var á barnsaldri. Þetta er mjög berorð skáldsaga þar sem ekki er gerð minnsta tilraun til að áfellast ofbeldismennina eða halda uppi vörnum fyrir þolendurna. Að því leyti má til sanns vegar færa að höfundurinn taki ekki afstöðu til ofbeldisins, láti ekki í ljós samúð með þolendunum né andúð gegn ofbeldismönnunum. Þetta er einnig áberandi hjá Caldwell í Journyman. Og reyndar einnig skáldsögunni Elmer Gantry (1927) eftir Sinclair Lewis, en sú bók var bönnuð skömmu eftir að hún kom út. Þrem árum síðar fékk Sinclair Lewis Nóbelsverðlaunin, fyrstur bandarískra rithöfunda. Sérkenni nútímans í íslensku samfélagi allt frá því um miðjan síðasta áratug fram á okkar dag finnst mér einkennast mjög af hástemmdri bylgju innrætingar þar sem fórnarlömb af ýmsu tagi eru sett á stall og hafin til skýjanna og lýðurinn dansar í kring með hrópum og köllum: krossfestum misindismennina; látum þá borga, þótt þeir séu dauðir. Við lifum á sögulegu tímabili Fórnarlambaverndar. Íslenskir fjölmiðlar undir forystu Morgunblaðsins, RÚV og Stöðvar 2 standa fyrir þessari innrætingarherferð í nafni þjóðarinnar og fólksins í landinu eins og það heitir og bera fyrir sig og túlka niðurstöður skoðanakannana. Í bókmenntalegu tilliti ríkir hér sjúkt ástand þar sem frjáls hugsun á erfitt uppdráttar, þar sem krafist er undirgefni við boðskap hinna vammlausu. Hinir fordæmdu eiga sér engar málsbætur. Skinhelgin skín hvarvetna í gegn.

GB: Í íslenskum samtímabókmenntum er fremur lítið um ómengaða bersögli nema helst í skáldskap Auðar Haralds og í ljóðum Diddu. Aðrar hálfgildings „játninga- og flennubækur” er ekki hægt að flokka undir bókmenntir heldur söluvarning í bókarformi. Bersögli Auðar og Diddu er reyndar oftast tengt svokölluðu „réttu eðli” eða beinlínis kven­eðlinu og kynfærum konunnar en ekki vikið að smekk, bragði eða æðstu hugsjón íslenskrar karlmennsku, að komast í það sem er kallað „lambakjötið”, barnið. Að nauðga börnum á einhvern hátt, nota þau til þrældóms, vinnu eða svölunar á sviði kynþarfar hefur þótt sjálfsagt í íslensku samfélagi og þess vegna hefur það ekki komið upp á yfirborðið, ekki fyrr en núna þegar almenningur sækir í fréttir og lýsingar á þessu í fjölmiðlum en þykist „fyrir siðasakir” vera afar hneykslað.

KB: Mér finnst þú nokkuð dómharður um Auði Haralds og Diddu. Þetta eru mjög ólíkir höfundar sem hafa tileinkað sér, hvor á sinn hátt, mjög agaðan stíl.

GB: Miklu fremur blessa ég báðar, án þess þó að blessa þær ofan í gröfina uns kemur að upprisu þeirra á efsta degi. Svo „þjóðlegur” og prestlegur er ég ekki. Bersögli í verkum kvenna er með öðrum hætti en hjá körlum. Hjá þeim beinist hún venjulega að hinu kyninu, en hjá konum fremur að þeirra eigin. Konur þola betur klám kvenna en karlmanna, einkum ef það er sjálfhverft og minnir á vissa sjálfsfróunaráráttu í víðum skilningi. Í listum er sú árátta fremur leiðigjörn. Yfirleitt er bersögli og klám kvenna ekki árásargjarnt, ekki eins og hjá karlmönnum, þar sem ráðist er með bersögli og besefakæti á hitt kynið. Skáldkonur kunna t.d. ekki að nauðga með listrænum hætti karlmönnum í sögum sínum eða lýsa innra lífi karlmannsins meðan á nauðgun stendur; skáldkonur virðast ekki geta sett sig í spor hans við athöfnina. Fyrir bragðið verða bersöglisbækur þeirra oft fátæklegar og einhliða. Þær nálgast það að vera með vælutón, kússukvein, og vilja fá einhverja bók „upp á sig” eftir karlmann. En það að bækur ríði hver á annarri er sjaldgæft í bókalífi okkar. Vælutónn er merki um undirgefni. Miklar bókmenntir mega aldrei væla eða láta bilbug á sér finna. Listin er árás og í réttu lagi nauðgun á öllu því sem hefur kalkað í klofinu á hefðunum.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur