Stína tímarit um bókmenntir og listir.


Ást og appelsínur eftir Þórdísi Björnsdóttir


Geisladiskurinn Ást og appelsínur er byggður á samnefndri ljóðabók eftir Þórdísi Björnsdóttur sem út kom árið 2004. Diskurinn inniheldur tónverk eftir pólska fiðluleikarann og tónskáldið Szymon Kuran, við lestur Þórdísar á völdum ljóðum úr bókinni. Szymon Kuran lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fjöldamörg ár, eða þar til hann féll frá í ágúst 2005. Eftir hann liggja mörg metnaðarfull tónverk, en Ást og appelsínur er hans síðasta verk og væntanlegt til útgáfu á næsta ári.
Þórdís svarar hér nokkrum spurningum varðandi kynni hennar af Szymoni og tilurð verksins.

Tónverk við ljóðabók . . .? Hvernig varð hugmyndin til?
“Við Szymon höfðum þekkst í mörg ár þegar ég gaf út ljóðabókina mína haustið 2004. Skömmu eftir jólin kom hann svo til mín með hugmyndina að diskinum, sagðist vilja semja tónverk við ljóðin og bað um leyfi mitt fyrir því. Mér leist auðvitað ofsalega vel á og þótti þetta mjög mikill heiður. Eftir það liðu svo ekki nema nokkrir dagar þar til hann kom til mín aftur, yfir sig spenntur og ánægður, og sagðist vera tilbúinn með verkið. Mér þótti þetta alveg með ólíkindum því ég átti ekki von á að hann yrði búinn með það fyrr en eftir nokkrar vikur í minnsta lagi. Svo bauð hann mér í heimsókn til að leyfa mér að hlusta, og sú stund var algjör upplifun út af fyrir sig, og ég varð ákaflega hrifin.”

Hvernig myndirðu lýsa verkinu? Er þetta ljóðalestur með undirleik ... eða eitthvað annað?
“Nei, þetta er nefnilega ekki ljóðalestur með undirleik líkt og tíðkast, heldur spila tónlist og lestur algjörlega saman í að mynda eina heild. Þetta er því mjög ólíkt því sem áður hefur verið gert. Þegar upptökur hófust vorum við Szymon reyndar bæði svolítið stressuð því þótt tónlistin væri tilbúin vissum við ekki hvernig lesturinn kæmi til með að falla við hana. En svo small þetta algjörlega saman. Á einhvern undraverðan hátt féll lesturinn ekki aðeins við tónlistina, heldur líka smæstu smáatriði í henni – ég sagði til dæmis eitt orð eða setningu, og í sömu andrá heyrðust viðeigandi tónar eða hljóð í verkinu. Það var í raun stórmerkilegt.
Upptökurnar hófust vorið 2005 hjá Vilhjálmi Guðjónssyni sem var algjör stoð og stytta, sýndi okkur óendanlega þolinmæði og hjálpaði okkur að leysa úr hvers kyns vandamálum. Við fórum í stúdíóið nánast vikulega og samstarfið gekk mjög vel fyrir sig. Um sumarið tók samt við erfiður tími hjá Szymoni sem endaði á þann sorglega hátt að hann fyrirfór sér í byrjun ágúst. Upptökum var þá nánast lokið, aðeins átti eftir að lagfæra nokkur smáatriði og hljóðblanda, en Szymon skildi einmitt eftir sig punkta með atriðum sem hann vildi láta laga. Þetta var algjört áfall, og þrátt fyrir að hann hafi verið mjög illa haldinn undir það síðasta, þá átti maður samt alls ekki von á svona hræðilegum endalokum, og ég held að flestir sem þekktu hann vel séu sama sinnis. Þetta gerðist svo hratt.”

Fjöldi ljósmynda fylgja diskinum, alls 28 myndir sem segja ákveðna sögu.
“Szymon fékk í upphafi þá hugmynd að hafa listræna mynd af manneskju þakinni appelsínum inní umslaginu. Þessi hugmynd vatt svo uppá sig og á endanum fengum við vini okkar, listamennina Sigurð Ó. L. Bragason og Kathrinu Scmucher, til að taka myndir í íbúð Szymonar á Laufásveginum. Áður en það varð urðum við okkur úti um átta kassa af appelsínum. Þau voru síðan ein í íbúðinni klukkutímum saman meðan Sigurður tók myndirnar og Kathrin sat fyrir, en í heildina tóku þau um 600 ljósmyndir. Í sameiningu völdu þau bestu myndirnar til að sýna okkur Szymoni, og þar af völdum við síðan 28 myndir í samráði við þau. Myndirnar segja fallega sögu af stúlku sem vaknar snemma morguns, og á síðan góðan dag ein með sjálfri sér í íbúð fullri af appelsínum. Appelsínurnar koma samt mismikið við sögu á myndunum og stundum ekki neitt, (engu er því ofgert þrátt fyrir alla átta kassana!). En mér finnst alveg æðislegt að þessar ljósmyndir skuli vera hluti af verkinu, ekki aðeins vegna þess hversu fallegar þær eru, heldur líka vegna þess að þær eru teknar inná heimili Szymonar rétt áður en hann dó. Það má því sjá ýmsar persónulegar eigur hans í bakgrunni sem eiga stóran þátt í fegurð myndanna.”

Hvenær stendur svo til að gefa verkið út?
“Ég var í útlöndum allt síðastliðið ár og þess vegna á ennþá eftir að fullvinna diskinn. Við vorum samt búin að láta setja upp bæði umslagið og ljósmyndaseríuna í tölvu áður en Szymon dó svo það er allt saman tilbúið. Um leið og búið er að klára diskinn og hljóðblanda er því ekkert eftir nema útgáfan sjálf. Ég vona bara að það verði sem fyrst, kannski snemma á næsta ári.


        Forsíðan


        Stínurnar


        Höfundar


        Nýtt efni


        Stina
        International


        Áskrift


        Ritstjórn


        Fréttir


        Krækjur